Fara í efni

Áhrifamikill leikþáttur um einelti

Óhætt er að segja að á undanförnum misserum hafi orðið vakning í þjóðfélaginu um einelti og alvarlegar afleiðingar þess. Fórnarlömb eineltis í skóla og á vinnustað hafa sýnt aðdáunarvert hugrekki með því að stíga fram og segja frá reynslu sinni. Innan verkalýðshreyfingarinnar er þessi vandi nú talsvert ræddur og er vaxandi áhugi á þeim vettvangi að taka á honum og uppræta hann eftir því sem kostur er. Á þingum BSRB er venja að efna til menningarviðburðar einhvern þingdaganna. Á nýafstöðnu þingi bandalagsins var ákveðið að leita til leikfélagsins Brynjólfs sem nú sýnir leikritið Fjólu á ströndinni eftir kanadíska leikhöfundinn Joan MacLeod. Leikritið byggir á einleik Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur og er skemmst frá því að segja að hún brillerar í hlutverki sínu. Nær væri að segja hlutverkum því hún túlkar ekki aðeins sögupersónuna Fjólu á ýmsum aldursskeiðum heldur einnig aðrar stúlkur sem tengjast frásögn hennar.
Þetta er ekki leikdómur heldur hvatning til allra að sjá þetta verk. Á rúmum klukkutíma fáum við innsýn í veröld þjáningar, sem því miður er sennilega allt í kringum okkur án þess að við gerum okkur það alltaf ljóst. Leiksýningin er gefandi og skemmtileg, eins mótsagnakennt og það kann nú að hljóma í ljósi þess hvert viðfangsefnið er. Það eigum við hins vegar góðu leikriti og ekki síður frábærum leik Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur að þakka.
Leikfélagið Brynjólfur, leikstjórinn Skúli Gautasoon, hljóðhönnuður, Gunnar Sigurbjörnsson og ljósahönnuðir, Sólveig Halldórsdóttir og Anna Pála Kristjánsdóttir eiga öll þakkir skilið.