Fara í efni

ÁHRIFAMIKIL ORÐ ÚR HAFNARFJARÐARKIRKJU

Það kemur fyrir að prestar hreyfa við okkur í predikunum sínum. Það gerði séra Gunnþór Þ. Ingson prestur í Hafnarfirði fyrsta sunnudag í febrúar en þá flutti hann áhrifamikla útvarpsmessu. Viðfangsefni séra Gunnþórs voru stefnur og straumar sem nú leika bæði um íslenskt samfélag og alþjóðasamfélagið í heild sinni. Hann hvatti okkur til að sýna árvekni í umhverfismálum, þar þyrftum við að beita okkur á alþjóðavettvangi, sömuleiðis í mannréttindamálum. Ég birti hér fáeina kafla úr predikun séra Gunnþórs. (Öll er predikunin HÉR)

Samhljómur með presti og forseta

Samhljómur var með séra Gunnþóri og Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands sem síðar í febrúarmánuði varpaði fram þeirri hugmynd að efna til ráðstefnu um norðuslóðir og þær breytingar sem nú ættu sér stað og væru fyrirsjánalegar af völdum breytinga á loftslagi. Að þessu leyti tók Ólafur Ragnar við keflinu úr hendi séra Gunnþórs og annarra sem reynt hafa að vekja okkur til vitundar um það sem er að gerast í loftslagsbreytingum sem taldar eru – a.m.k. að hluta til – stafa af mannavöldum. Allir eiga þessir menn miklar þakkir skyldar og ættu stjórnvöld að taka höndum saman með forsetaembættinu að koma á myndarlegri alþjóðaráðstefnu um áhrif lotslagsbreytinganna á norðurslóðum sérstaklega og á jarðarkringlunni allri.
Um þetta efni sagði séra Gunnþór: "Dýrmætt er að þekkja hættumerki og váboða og beita glöggskyggni og sögu- og vísindaþekkingu til að forða og draga úr háska eins og gerlegt er. Ekki er útilokað að fljóðbylgja skelli hér á land eftir eldsumbrot í hafi eða á landi, en aðrar ógnir steðja líka að. Geigvænlegur sjófugladauði úti fyrir ströndum landsins og víðar í norðurhöfum vegna ætisskorts er hættumerki. Það bendir til þess að hlýnun veðurfars sé mjög farin að segja til sin og valda röskun á fæðukeðju og lífkerfi sjávar. Hraðfara bráðnun Grænlandsjökuls er enn ein vísbendingingin um hættu, sem getur ekki aðeins leitt til verulega hækkandi sjávarborðs á næstu árum og áratugum heldur beinlínis til stöðvunar þess hlýja lífsverndarbeltis sem Golfstraumurinn umlykur og ver landið með."
Öfgafullar breytingar í loftslagi tengir séra Gunnþór síðan mannheimi: "Síbreikkandi gjá milli þeirrra, nær og fjær, sem skortir björg og lífsviðurværi, og hinna sem vita naumast aura sinna tal og geta stöðugt bætt við veltugróða sinn, er líka varasöm. Mun fleiri búa við bágindi í veröldinni en þeir einir sem flóðbylgjan hremmdi og setti mark sitt á og líða vegna styrjaldarhamfara og sjúkdómsplágna, fátæktar og félagslegs ranglætis. Það varðar miklu að hafa góða yfirsýn og þekkja vel umhverfi og aðstæður og meta rétt áhrif og strauma sem berast að og gæta vel að stefnu og ferð." Þessa þætti tengir séra Gunnþór síðan kristinni trú: " Það ljós, sem fagnaðarerindi frelsarans bregður á veg og veröld er ekki aðeins gilt fyrir horfna sögu og fortíð heldur ævarandi, því það sækir birtu sína í hann, sem er frumglæði ljóss og lífs..."

Auswits og Palestína

Séra Gunnþór fjallar um afleiðingar innrásarinnar í Írak sem kostað hafi "tugi þúsunda mannslífa, auk ótalinna limlestinga og sálarkvala", og víkur síðan að deilunum fyrir botni Miðjarðarhafs og minnir okkur á þverstæðurnar í sögu gyðinga :"Þess hefur nýverið verið minnst, að sextíu ár eru frá því, að útrýmingarbúðum nasista í Auswits var lokað. Alla heilvita menn hryllir við þeirri mannfyrirlitningu og skelfingu, sem þær vitna um. Það er þverstæðukennt og sorglegt, að í “Landinu helga”, sem nú tengist minningu helfararinnar auk dýrmætra geymda þriggja trúarbragða skuli áþekkt lífsvirðingarleysi hafa verið daglegt brauð um langt skeið. Það sýnir sig í hernámi, aðgreiningarmúrum og hermdarverkum. “Dauðinn í Gaza”, heimildamyndin breska frá Palestínu, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu á miðvikudagskvöldið var, lýsti á sláandi hátt hve mjög yfirgangur, kúgun og lítilsvirðing ala þar af sér hatur og hermdarverk. “Við förum upp til Jerúsalem sem píslarvottar” hrópaði mannfjöldi í einu myndskeiðinu mestmegnis þó unglingar og börn. Þau voru greinilega stillt inn á það að gerast vígvélar og sprengja sig í loft upp og valda um leið kúgurum sínum sem mesta tjóni í mannslífum. Það er þó fremur hægt að segja, að kvikmyndatökumaðurinn breski, sem varð fyrir dauðaskoti úr einum bryndreka hernámsliðsins, hafi verið píslarvottur í kristnum skilningi. Viðleitni hans til að vinna það nauðsynjaverk að upplýsa um hörmungarnar, svo að umheimurinn láti sig þær varða, kostaði hann lífið."

Trú og von færir okkur kjarkinn

Séra Gunnþór minnist fallega séra Árna Björnssonar, fyrsta sóknarprests Hafnarfjarðarkirkju. Hann leggur út af sálmi hans  “Lífsorðið huggar”, sem séra Árni mun hafa ort eftir að hús hans og eigur höfðu brunnið á Sauðárkróki, þar sem hann gegndi þá þjónustu.  Sr. Árni og barnmörg fjölskylda hans stóðu eftir slipp og snauð að undanskyldu því, sem núverandi Hafnarfjarðarpresti þótti mestu skipta, Biblían, "Guðsorðið brann ekki". Séra Gunnþór var að minna okkur á miklivægi þess að láta aldrei hugfallast þótt á móti blási: "Það er sannarlega auðvelt andpænis niðurdrepandi ógnum og illsku að missa móðinn í viðleitni sinni til að glæða háleita lífssýn...Gömul en áhrifamikil kvikmynd Tarkowskis um rússneska íkonamálarann Andrei Rubljov, sem sýnd var hér í Kvikmyndasafni Íslands fyrir skömmu birtir það vel. Hún lýsir því m.a. að listamanninum mikla fallast hendur eftir að verk hans í stórri kirkju hafa verið brennd og eyðilögð og mannfjöldi myrtur sem leitaði þar skjóls undan ófriði. En eftir að hann hefur síðar fylgst með unglingspilti, syni látins klukknasmiðs, leiða flókna smíði og gerð stórrar kirkjuklukku og takast það þrátt fyrir vankunnáttu sína og vanmátt að ná á úrslitstundu fram í henni djúpum björtum hljómi fær Rubljov kjarkinn á ný til listsköpunar sinnar og vinnur sín fegurstu verk."

Samkennd með lífi og lífríki

Í niðurlagsorðum sínum fjallar séra Gunnþór Þ. Ingason um skilning sinn á því hvernig kristin trú og barátta fyrir réttlátum heimi renni saman í eitt. Við eigum að vernda umhverfið, taka undir með Nelson Mandela og sálmaskáldinu Hallgrími Péturssyni sem sagt hafi ágirndina undirrót allra lasta. Gefum séra Gunnþóri orðið: "Það hefur nú ótvírætt verið sýnt fram á það, að trúarþröfin sé okkur mönnum í blóð borinn, lífsmunstrið geri okkur beinlínis þannig úr garði, að við leitum samhengis og æðri viðmiðanna. En miklu veldur hvernig sú þörf mótast og hvert hún beinist hverju sinni. Þæginda- og neysluhyggja samtíðar, glysið og glaumurinn, sem henni fylgir, græðgin og tillitsleysið, eru litt næm á fórnar og kærleikskröfur og ekki heldur á hættur og váboða. Deyjandi fugl og bráðandi jökull sýna hve megnun andrúmslofts af brennsluefnum nútíma lífshátta og framleiðslu spillir mjög lífríki og vegur að hæfni þess til að ala af sér og sjá fyrir lífi. Vakandi trúarsýn og skynjun hefur samkennd með náttúrunni, fuglum, fiski og gróðri og þiggur blessun og næringu hennar sem Guðsgjafir, er vel þarf að fara með. Okkur Íslendingum var það lífsspursmál að berjast fyrir útfærslu landhelginnar á sinni tíð og beita okkur á alþjóðlegum vettvangi til að vernda fiskistofna. Eins þyrftum við nú að vinna þar af alefli að víðtækri lífsvernd og taka saman höndum með þeim, sem leita allra ráða til að forða óbætanlegum umhverfisslysum. Við verðum einnig að geta tamið okkur þá lífsháttu og markað þá framtíðarstefnu sem ristir ekki landið örum svo að við fáum lifað í sátt við það um ókomna tíð og notið fegurðar þess og gæða. Það samræmdist einnig árvekni og ábyrgri lífsstefnu að taka undir með Nelson Mandela, sem verið hefur einstök fyrirmynd að þolgæði og sáttar-og friðarvilja,  þegar hann krefst þess að þrælar fátæktar í þróunarlöndum losni undan ósanngjörnum skuldakröfum og fái raunhæfa aðstoð til að sigrast á niðurlægjandi böli sínu. Jafnframt sem horft er vítt yfir ber að líta sér nær og gæta að skorti þeirra tuttugu þúsunda þjóðarinnar sem hafa ekki nægar tekjur til framfærslu.
Gósentíð banka og stórfyrirtækja, sem skila miljarðahagnaði og teygja sig nú langt út fyrir landsteina til að hasla sér sem víðastan völl, þyrfti líka að nýtast þeim fátæku til bættra kjara og lifs. “Undirrót allra lasta ágirndin kölluð er./ Frómleika frá sér kasta,/ fjárplógsmenn ágjarnir, /sem freklega elska féð”, segir sr. Hallgrímur og bætir við, “auði með okri safna,/ andlegri blessun hafna/ og setja sál í veð” Hinn krossfesti og upprisni frelsari vill á hverri tíð glæða þá lifandi trú í brjósti sem gefur samkennd með lífi og lífríki. Trúin í hans nafni er annað og meira en tilfinningasemi og þægindakennd, sem forðast átök og sársauka og sljóvgar næmi fyrir illskunni, sektinni  og syndinni. Hún sýnir sig samt alls ekki í depurð og þunglyndi heldur í lífskjarki og gefandi gleði sem sér ljósið í myrkinu og veit af þvi að handan krossins er upprisan..."