Fara í efni

AFTURKRÆF NÁTTÚRUSPJÖLL

Skúrinn við Kerið
Skúrinn við Kerið

Það er vandaverk að hlú að náttúruperlum svo vel fari. Sums staðar hefur tekist afar vel til og er greinilegt að á þessu sviði hefur þróast mikil fagmennska. Ef saman fara fagleg vinnubrögð, góður smekkur og það markmið eitt að fara mjúkum höndum um náttúruna þá sýnir reynslan að mannvirkjagerð er haldið í lágmarki og þegar best tekst til þá hverfur hún listilega inn í náttúruna. Um þetta eru mörg prýðileg dæmi hér á landi.

Annars staðar hefur tekist síður til. Vil ég þar nefna mannvirki sem komið hefur verið upp við Kerið í Grímsnesi. Við þessa náttúruperlu hefur verið reist girðing og komið fyrir skúr. Frá náttúrunnar hendi er Kerið nánast ósýnilegt frá þjóðveginum þótt það sé alveg við hann og hafði hið óvænta augnablik, þegar eldgígurinn blasir skyndilega  við, ákveðið gildi. Með skúrnum og girðingunni er hið óvænta horfið.  

Hönnuðum að girðingunni og skúrnum við Kerið er vorkunn. Þeirra verkefni er allt annað en að passa upp á náttúruna. Þeirra verkefni er að passa upp á „eigendur" Kersins eða öllu heldur pyngjur þeirra. Þannig er girðingin til þess reist að koma í veg fyrir að fólk gangi að Kerinu án þess að fara framhjá skúrnum þar sem rukkaður er aðgangseyrir.

Það er meira en að segja það að hanna mannvirki við viðkvæmar náttúruperlur. Öllu máli skiptir að markmiðin séu náttúruvernd en ekki hagnaður „eigenda". Svo er náttúrlega hitt að hugleiða, hvað gera skuli þegar náttúruspjöll hafa verið framin eins og gert hefur verið með girðingum og skúragerð við Kerið. Sjálfum finnst mér augljóst að taka eigi þessi mannvirki niður. Sem betur fer eru spjöllin afturkræf.