Fara í efni

AFREKSVERK ÖRYRKJABANDALAGSINS

ÖBÍ 50 ára
ÖBÍ 50 ára
Ávarp á hálfrar aldar afmæli ÖBÍ 5. maí  2011
Það er mér heiður að ávarpa Öryrkjabandalag Íslands á hálfrar aldar afmæli bandalagsins.
Öryrkjabandalag Íslands hefur alla tíð skipað heiðurssess í huga mínum. Ekki bara vegna þess að ég er almennt mjög sammála áherslum bandalagsins, baráttumarkmiðum þess og hugsjónum. Og heldur ekki vegna þess að ég hafi í áranna rás bundist traustum félagslegum böndum og í sumum tilvikum vinaböndum við margt helsta forsvarsfólk ÖBÍ. Þetta er þó veruleikinn. Sumum hef ég kynnst á vettvangi verkalýðsbaráttu, öðrum á vettvangi stjórnmálanna og enn öðrum annars staðar.
Öryrkjabandalag Íslands skipar heiðurssess í mínum huga vegna þess að mér finnnst bandalagið vera afrek í sjálfu sér, samansett af gerólíkum félögum og félagasamtökum en sem eiga eitt sameiginlegt. Og það er að berjast fyrir mannréttindum allra þegna samfélagsins. Ég veit hvað það þýðir og hvað það getur kostað í málamiðlunum og hve mikið getur reynt á, svo mismunandi stéttarfélög haldist saman sem ein heild. Mér er hugsað til BSRB. Mér er hugsað til BHMR. Mér er hugsað til ASÍ.

Miklu erfiðara hlýtur það að vera að halda félags-fjölskyldufriðinn þegar aðildarfélögin er byggð á mismunandi grunni. Öryrkjabandalagið er bandalag mjög ólíkra félaga sem hafa það hlutverk að verja félagsmenn sína sem eiga það þó sameiginlegt að þurfa á vörn að halda. Örykjabandalagið er þannig, í vissum skilningi, vörn um veikleika.
En hvernig má það þá vera að í huga okkar er Örykjabandalagið hið gagnstæða: Sterk samtök, öflug brjóstvörn - ímynd styrkleika en ekki veikleika?

Þegar postular peningafrjálshyggjunnar fóru að láta að sér kveða af alvöru á nýjan leik - enda kenndir við ný-frjálshyggju - upp úr 1980 predikuðu þeir einkavæðingu á öllum sviðum. Við munum hann Friedman.
Ein útfærslan til að ná fram markmiðum ný-frjálshyggjunnar var að tala fyrir því að færa öll félagsleg viðvik á vegum hins opinbera til reiknings og til bókar - segja okkur hvað allt kostaði, helst upp á krónu og aura. Þannig var fundið út hvað barnaskólakennsla kostaði á hvern nemanda og sjúkrahúslega og síðan að sjálfsögðu aðhlynning fatlaðs einstaklings.
Nýfrjálshyggjan sagði: Látið fólkið, látið hvern og einn fá þessa peninga og viðkomandi ræður síðan sjálfur hvernig hann eða hún ver þeim. En gætið að einu: Öll þjónusta verður að vera á forsendum markaðar og byggð á slíkum  útreikningum og þannig kostnaðarmati.
Í upphafi tíunda áratugarins var hafist handa um aðhrinda þessari hugmyndafræði í framkvæmd og minnist ég þess þegar settar voru upp sjóðsvélar á heilsugæslustöðum og okkur sagt að þær, ásamt ýmsu öðru sem þá var kynnt til sögunar, væri ganggert hugsað til að auka kostnaðarvitund notenda innan velferðarþjónustunnar. Ekki læknanna sem þjónustuna veita heldur sjúklinganna sem hennar njóta!
Af þessum sama meiði voru „vasafjárlögin", smárit í vasabókarformi sem gefið var út rétt undir aldamótin. Þar gat fatlaðaur maður flett því upp hvað hann kostaði samfélagið, þ.e. skattgreiðendur.

Almennt þótti þetta ekki góð pólitík. Enda höfðum við ýmis reynsludæmi að styðjast við vestan Atlantsálanna og einnig hér á landi þar sem almannatryggingar eða ríkis- eða sveitarsjóðir greiddu lágmarkið hans Miltons Friedmans, langt undir raunverulegum kostnaði, en notandinn þurfti síðan að greiða þar ofan á til að hafa upp í raunverulegan kostnað. Efnahagur var þar með farinn að skipta máli hvað varðar aðgang að velferðarþjónustunni. Sem betur fer hafa Íslendingar alla tíð hafnað slíku.

En á þessu máli er til önnur og miklu skaplegri hlið. Og henni höfum við fengið að kynnast frá talsmönnum notendastýrðrar þjónustu fyrir fatlaða. Notendastýrð þjónusta byggist á því að þeim sem þjónustunnar á að njóta er í sjálfsvald sett hvernig hann beinir henni að eigin skapi og þörfum og eigin vilja en þarf ekki lengur að lúta ákvörðunarvaldi annars fólks, þess vegna ágætisfólks, hins prýðilegasta fólks, velviljaðs og sérhæfðs fólks - en annars fólks.

Mér er sagt að í öllum trúarbrögðum sé að finna regluna gullnu sem við þekkjum úr kristinni trú - „það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra." Ég sat um daginn fund með fulltrúum frá notendastýrði þjónustu og eftir því sem ég hlustaði meira hugsaði ég: Ef ég byggi við alvarlega hreyfihömlun eða fötlun og þyrfti að reiða mig á aðra þá myndi ég vilja láta tala mínu máli á þann hátt sem þarna var gert. „Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður...."
Nálgunin var sú að skýra það fyrir mér að þetta snérist ekki bara um frelsi og sjálfsforræði þeirra einstaklinga sem í hlut eiga heldur að samfélaginu öllu. Mér var gert skiljanlegt án þess að þau orð væru beinlínis notuð að vildi samfélagið skilgreina sig sem mannréttindaþjóðfélag þá yrði það að tryggja öllum þegnum sínum þau réttindi sem við viljum öll hvert og eitt sjálf búa við, „...það skuluð þér og þeim gjöra."
Í þessari heimsókn - á þessum fundi -  fannst mér birtast í hnotskurn réttindabarátta Öryrkjabandalagsins í finmmtíu ár. Bandalagið hefur beitt sér fyrir réttindum félagsmanna sinna, oft á tíðum í miklum mótvindi. En afreksverkið er að snúa samfélaginu öllu til skilnings á sínum eigin skyldum vilji það á annað borð rísa undir sæmdarheitinu mannréttindaþjóðfélag.
Hægt og bítandi er þessi hugsun að fá meiri hljómgrunn.
Þannig hefur Öryrkjabandalag Íslands breytt okkur öllum til betri vegar, hvar í félögum og bandalaögum sem við stöndum.
Öryrkjabandalagið hefur lagt þung lóð á vogarskálarnar til að gera Ísland að mannréttindasamfélagi, og þar með betra þjóðfélagi til að fæðast inn og lifa í.
Fyrir þetta vil ég þakka.
Ég færi Öryrkjabandalagi Íslands baráttukveðjur og óskir um að halda áfram á sömu braut -
og -

að bandalagið haldi haldi áfram að yngjast í andanum með hækkandi aldri.

sjá: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27140