Fara í efni

Afreksfólk örvar aðra til dáða

Ef ég væri spurður hvort áherslu ætti að leggja á afreksíþróttir eða almanna-þáttöku í íþróttum myndi ég hallast að hinu síðarnefnda. Málið er þó ekki alveg svona einfalt. Árangur afreksfólksins beinir nefnilega sjónum okkar hinna að íþróttunum, vekur áhuga okkar á þeim og  ef rétt er á haldið getur örvað áhuga ungs fólks að stunda íþróttir. Enn er mér minnisstætt hvernig árangur Friðriks Ólafssonar í skákinni á sínum tíma virkaði sem vítamínsprauta á skákáhugann og þegar þeir leiddu saman hesta sína Fischer og Spassky í heimsmeistaraeinvígi í skák í Laugardalshöllinni 1972 varð áhuginn slíkur á skákíþróttinni að hvergi kom maður í hús að ekki væri tafl uppi við og jafnvel að einhvejir væru djúpt sokknir í skák. Þess vegna er ekki nóg með að við séum stolt af afreksfólkinu okkar sem gert hefur garðinn frægan á Olympíuleikunum í Aþenu heldur er líklegt að árangur þess verði ungu fólki gott fordæmi. Allir Íslendingarnir stóðu sig vel en mestur varð árangur Þóreyjar Eddu Elísdóttur, stangarstökkvarans frækna og fimleikameistarans Rúnars Alexanderssonar. Þau eiga mikið lof skilið.