Fara í efni

AF ÞVÍ AÐ HANN ER KÍNVERJI?

DV
DV

Birtist í DV 10.12.12.
RÚV greindi frá því á föstudag að Huang Núbó hefði sagt í viðtali við breska stórblaðið Birtist í Financial Times að á Íslandi væri hann fórnarlamb kynþáttafordóma. Ástæðan fyrir því að hann hefði verið meðhöndlaður eins og raun bæri vitni væri sú að hann væri kínverskur.  Þá er haft eftir honum að hann hafi aldrei verið beðinn um nein viðbótargögn en hann muni krefja íslensk stjórnvöld skýrra og afdráttarlausra svara.
Þetta eru undarlegar staðhæfingar. Fyrir það fyrsta eru viðbrögð íslenskra stjórnvalda skýr og afdráttarlaus. Beiðni hans um landakaup eða um að öðlast ráðstöfunarrétt yfir Grímstöðum á Fjöllum hefur verið hafnað og veit ég ekki hve skýrt þurfi að segja þetta svo maðurinn skilji.

Beiðni hafnað

Leyfi ég mér að vitna orðrétt í skrif mín á heimasíðu minni hinn 3. desember sl:
„Haft er eftir kínverska auðmanninum Huang Núbó að  hann sé ekki af baki dottinn að komast yfir land á Grímsstöðum á Fjöllum. Þá sé hann reiður íslenskum stjórnvöldum, sem hafi beðið sig um að fjárfesta á Íslandi. Hér er það ég sem kem af fjöllum. Sem innanríkisráðherra fékk ég á sínum tíma umsókn frá fjárfestingarsamsteypu Huangs Núbó um landakaup á Grímsstöðum á Fjöllum. Vel kann að vera að eitthvert íslenskt stjórnvald hafi verið áhugasamt um þessa fjárfestingu en niðurstaðan varð engu að síður sú að umsókn Núbós var hafnað. Þetta var haustið 2011. Núbó reyndi þá fyrir sér með nýrri aðkomu að málinu - nokkuð umdeildri - og var nú skipuð nefnd  ráðherra og embættismanna til að fara yfir málið. Í síðustu viku komst sú nefnd að þeirri niðurstöðu að umsókn kínversku fjárfestingasamsteypunnar skyldi hafnað. Sú niðurstaða var afdráttarlaus og hefur verið kynnt í ríkisstjórn. Það var gert í vikunni sem leið. Það þarf greinilega að tala skýrt í þessu máli enda full efni til. En svo enginn þurfi að velkjast í vafa um niðurstöðu ráðherranefndarinnar,  þá var því ekki slegið á frest að taka afstöðu til beiðni fyrirtækjasamsteypu Huangs Núbós. Beiðninni var hafnað."

Í góðum félagsskap

Nú bregður svo við að allt þetta á að vera runnið undan rifjum kynþáttahatara. Og ekki annað að skilja en ég sé þar með talinn. Þessu mótmæli ég harðlega enda í góðum samhljómi við fólk sem seint verður kennt við kynþáttafordóma. Um 150 landsmenn úr öllum þjóðfélagsstéttum, úr öllu hinu pólitíska litrófi sendu nýlega frá sér áskorun til íslenskra stjórnvalda að gengið yrði til samninga við eigendur Grímsstaða á Fjöllum með það að markmiði að ríkið eignaðist jörðina. Læknir, verktaki og leigubílstjóri, fyrrverandi forseti Íslands Vigdís Finnbogadóttir, Megas, Ólafur Stefánsson handboltakappi, formaður Sambands ungra bænda og margir fleiri sameinuðust í áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar í heilsíðuauglýsingu þar að lútandi.

Skorað á Alþingi og ríkisstjórn

Í yfirlýsingunni segir: „Stjórnvöldum ber að standa vörð um eignarhald og umráð landsmanna yfir óbyggðum Íslands og þar með bújörðum sem teygja sig inn á hálendið eða hafa sérstöðu í huga þjóðarinnar af landfræðilegum, sögulegum og menningarlegum ástæðum. Þessa skoðun staðfestum við með undirskrift okkar. Við skorum á Alþingi og ríkisstjórn að marka skýra stefnu í þessa veru og ákveða hvaða jarðir í eigu ríkisins skuli aldrei selja og að ríkið muni kaupa hliðstæðar jarðir til að tryggja að þær haldist í þjóðareign."
Augljóslega eru hér að baki áhyggjur yfir því að Grímsstaðir á Fjöllum, sem liggja á mörkum byggðar og öræfa, verði bitbein á markaðstorgi. Nær sé að ríkið kaupi Grímsstaði. Þess má geta að ríkið á þegar tæpan fjórðung í Grímsstöðum á Fjöllum og jarðirnar þar suðuraf, Víðidalur og Möðrudalur eru í ríkiseign.

Auður og völd

En aftur að þeirri staðhæfingu Núbós að honum sé hafnað vegna kynþáttafordóma. Það er af og frá. En skiptir máli að hann er frá Kína en ekki einhverju öðru landi? Reyndar skiptir það máli að því  marki að  vegna hins samevrópska regluverks gilda mjög ólíkar reglur um fólk innan EES annars vegar og utan þess hins vegar. Að mínu mati hefur verið gengið alltof skammt í að gæta hagsmuna Íslands innan þess regluverks varðandi eignarhald á landi. En vissulega er það líka svo að menn spyrja um tengsl auðmanna og stjórnvalda í ríki eins og Kína. Þá fara fjárfestingar Kínverja í landi víða um álfur ekki framhjá neinum og auðvitað spyrja menn í því samhengi um stórveldahagsmuni. Allt eru þetta eðilegar og málefnalegar spurningar og hafa ekkert með kynþáttafordóma að gera.

Hefðum við selt Rockefeller?

Hefðum við gert athugasemd við það að bandaríski auðkýfingurinn og repúblikaninn Rockefeller hefði keypt Miðnesheiðina á sínum tíma? Þar var jú bandarísk herstöð og eflaust fín fjárfesting að leigja löndum sínum land. Ég hefði haldið að hljóð hefði heyrst úr horni. Hefði það verið vegna kynþáttafordóma? Það er af og frá.
Hvað sjálfan mig áhrærir og mína afsöðu þá er hún sem áður segir samhljóða áskorun 150 menninganna. Vil ég reyndar ganga lengra og tryggja í lögum og regluverki að tryggt sé að eignarhald og ráðstöfunarréttur á íslensku landi sé jafnan í íslensku samfélagi og gangi ekki út fyrir landsteinana. Að þessu er nú unnið.  En sú vinna hefur ekkert með kynþátt að gera heldur hagsmuni okkar samfélags, þess fólks sem Ísland byggir, sama hvaðan það kemur.