Fara í efni

AF RÁÐHERRAFUNDI EVRÓPURÁÐSINS

Ráðstefna OJ april 2012
Ráðstefna OJ april 2012

Stórfróðlegt var að sitja tveggja daga ráðherrafund Evrópurráðsins (fimmtudag og föstudag) í Brighton á Suður-Englandi. Umræðuefnið var Mannréttindadómstóllinn, sem starfar á vegum Evrópuráðsins, hlutverk hans og framtíð. Staðarvalið ræðst af því að Bretar fara nú með formennsku í Evrópuráðinu. Það var því breski dómsmálaráherrann, Kenneth Clarke, sem flutti opnunarræðu á fundinum og sló þá strax tón sem allir höfðu búist við: Líklega væri Evrópudómstóllinn að taka sér of mikið fyrir hendur!

Gagnrýni Breta órökrétt

Þetta er í samræmi við umkvartanir Breta sem í nokkrum tilvikum hafa þurft að þola að Mannréttindadómstóllinn kveði upp dóma sem eru ekki í samræmi við óskir breskra stjórnvalda. Nýjasta dæmið var reyndar í fréttum á meðan ráðstefnan stóð og snertir mann að nafni Abu Qatada, sem Jórdanía hefur viljað fá framseldan í tengslum við hryðjuverk.
Mannréttindadómstóllinn kvað upp úr um að framsal væri ekki heimilt því líklegt mætti heita að maðurinn yrði beittur harðræði við fyrirhuguð réttarhöld yfir honum í Jórdaníu. Játninga sem þegar liggja fyrir var aflað með pyntingum. Um það virðist enginn deila. Við svo búið settust bresk og jórdönsk stjórnvöld að samningaborði og lofuðu hin síðarnenfdu að beita manninn hvorki ofbeldi fengju þau hann framseldan,  né myndu þau styðjast við gögn sem aflað hefði verið með pyntingum. Evópudómstóllinn íhugar nú viðbrögð sín, en bresku stjórninni er ekki skemmt.
Ekki var minnst sérstaklega á þetta tiltekna mál á ráðherrafundinum í Brighton en það eru mál af þessu tagi sem valda því að Bretar vilja draga úr vægi Mannréttindadómstóls Evrópu.
Þessi afstaða er illskiljanleg  því þegar allt kemur til alls geta Bretar einna síst allra þjóða kvartað yfir því að Mannréttindadómstóllinn komist að niðurstöðu í andstöðu við breska dómstóla eða stjórnvaldsaðgerðir. Tölulegar upplýsingar sem fram komu á seminari, sem haldið var í tengslum við fundinn, voru þessu til staðfestingar.
Hvað um það, breski dómmálaráherrann hamraði á mikilvægi þess að Mannréttindadómstóllinn ætti fyrst og fremst að vera ráðgefandi.

Sjálfstæði dómsstólsins

Annars var ræða breska dómsmálaráherrans um margt fróðleg. Hann vitnaði í Magna Charta, sáttmálann milli þings og konungs frá 1215, sem síðar varð grunnurinn að óskráðri stjórnarskrá Breta. Samkvæmt henni, sagði Kenneth Clarke, mátt ekki svipta nokkurn mann eign sinni nema að undangengnum úrskurði dómstóls - „proper legal procedure". Varð þá þeim sem þetta ritar hugsað til framgöngu Breta í Icesave deilunni þegar þeir vildu þvinga okkur til að láta eignir íslenskra  skattgreiðenda til sín renna!
Forseti Mannréttindadómstólsins, breski lávarðurinn sir Nicloas Bratza, svaraði landa sínum og lagði áherslu á sjálfstæði dómstólsins. Ekki væri nóg að Mannréttindadómstóllinn ætti að vera sjálfstæður, öllum yrði að vera augljóst að svo væri. Þess vegna væri skaðlegt þegar ríkisstjórnin sendu frá sér yfirlýsingar sem túlka mætti sem afskipti af gjörðum dómstólsins.

Gagnrýnin á eigin lagasmíð

Í sviapaðan streng tóku aðalritari Evrópuráðsins Torbjörn Jagland og forseti þings Evópuráðsins Jean-Claude Mignon. Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins var á svipuðum nótum. Af hálfu þessara aðila var rauður þráður: Aðildarríkin yrðu að vera gagnrýnin á eigin gjöðrir og laga lög og framkvæmd að þeim reglum og sáttmálum sem þau hefðu samþykkt. Forseti þingsins sagði að heima fyrir þyrfti sérhvert aðildarríki Evrópuráðsins að gaumgæfa eigin lagasetningu frá þessu sjónarhorni.
Niðurstaða fundarins var málamiðlun sem flestir gátu sætt sig við. Ekki verða tekin nein heljarstökk eins og Bretar vildu á fyrri stigum. Markvisst verður unnið að því að stytta biðlista, ríkjum verður gert kleift að fá aukna aðstoð frá Evrópuráðinu þar sem ætla má að kerfislægur vandi valdi því að margar kærur berist og ríkin lofa því að vanda sig betur við að koma sjónarmiðum dómstólsins á framfæri í samfélaginu.  Fundurinn fól ráðherraráðinu að undirbúa breytingar á ákvæðum sáttmálans með það að markmiði að bæta og hraða málsmeðferð hjá dómstólnum.


Sjá umfjöllun á vefsíðu innanríkisráðuneytisins:  http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28033   
mbl.is: http://mbl.is/frettir/innlent/2012/04/20/island_gott_daemi_segir_ogmundur/