Fara í efni

AF HVERJU AFNEMUR HAGKAUP EKKI ÁLAGNINGU Á VÖRUR?


Sífellt heyrum við og sjáum auglýsingar frá Hagkaupum þar sem mælst er til þess að ríkið afnemi virðisaukaskatt af söluvarningi sem verslunarkeðjan hefur á boðstólum. Hvatningin er að vísu óbein því okkur er sagt að Hakaup felli niður úr vöruverðinu hinn illa virðisaukaskatt  til að sýna okkur viðskiptavinunum fram á hve mikil kjarabót það væri að losna við þessar álögur ríkisins.
Ef ég hefði rúm fjárráð gæti ég vel hugsað mér að skjóta inn nokkrum auglýsingum með hvatningu um að Hagkaup færi aðra leið og felldi niður álagningu á varning sinn eða lækkaði hana að minnsta kosti.
Fróðlegt væri að heyra hverju forsvarsmenn verslunarkeðjunnar myndu svara slíkri málaleitan. Eflaust því að Hagkaup þyrfti á álagningunni að halda til að borga eigendum sínum arð og þá líka til að viðhalda  stjórnkefi verslunarinnar og standa straum af kostnaði við endurnýjun á húsnæði og innra stoðkerfi. En til hvers þarf ríkið á fjármagni að halda? Það liggur í augum uppi: Til að reka Landspítalann, stofnanir við fatlaða, löggæsluna, menntastofnanir og...
Eru þetta síður mikilvæg markmið en þau sem verslunarkeðjan réttlætir sína álagningu með? Ég versla iðulega í Hagkaupum og borga bæði virðisaukaskattinn og álagninguna í vasa eigenda Hagkaupa. Hef til þessa ekki mikið verið að kvarta - hvorki yfir virðisaukanum né álagningunni. En áreitið af auglýsingunum veldur því að ég er farinn að spyrja hvort ég vilji fremur hætta að borga til þjónustustofnana við fatlaða eða ofan í vasa eigenda Hagkaupa. Mín niðurstaða er afdráttarlaus: Ég vel fatlaða og leyfi mér í framhaldinu að biðja búðareigendurna vinsamlega að hætta að áreita okkur viðskiptavini sína.