Fara í efni

ÆTLAR RÍKISSTJÓRNIN AÐ VEITA UPPLÝSINGAR UM FJÁRMÁLATENGSL RÁÐHERRA?

Á Alþingi í dag beindi ég þeirri spurningu til Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin væri reiðubúin að láta birta opinberlega yfirlit yfir fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra við fyrirtæki og sjóði á sambærilegan hátt og gert er í Danmörku. Á hinum Norðurlöndunum og í Bretlandi svo dæmi sé tekið þykir sjálfsagt mál að slíkar upplýsingar um ráðherra liggi fyrir og séu öllum aðgengilegar. Hér á síðunni var nýlega birt vefslóðin á heimasíðu danska forsætisráðuneytisins þar sem nálgast má reglurnar og upplýsingar um einstaka ráðherra ( og er hún birt í lok þessa pistils). Halldór Ásgrímsson sagði að reglurnar hefðu verið settar í Danmörku í kjölfar hneykslismála sem upp hefðu komið þar í landi. Var honum bent á við umræðurnar í dag að hér á landi skorti ekki slík tilefni ef út í það væri farið.

Forsætisráðherra sagði sjálfsagt að þetta yrði skoðað í forsætisnefnd þingsins. Hans álit væri hins vegar að setja þyrfti sambærilegar reglur um þingmenn. Ekki hef  ég á móti því nema síður sé. Hins vegar eru ráðherrar  verkstjórar einkavæðingarinnar sem flutt hefur meiri verðmæti og völd til í íslensku samfélagi á undanförnum árum en dæmi eru um í Íslandssögunni. Þess vegna væri eðlilegt að um þá giltu mjög afdráttarlausar reglur.

Hér á landi hefur komið í ljós að ráðherrar beint eða nánustu samherjar þeirra í stjórnmálum, eru viðriðnir fyrirtæki sem tengjast einkavæðingunni. Í því ljósi er fullkomlega eðlilegt að um þeirra hagi sé spurt sérstaklega og upplýsinga og skýringa krafist. Að mínum dómi er það lykilatriði að við innrætum okkur þá afstöðu  að könnun á tengslum stjórnmála og viðskiptahagsmuna sé fullkomlega eðlileg. Í umræðunni í dag benti ég á að þetta væri ekki spurning um hnýsni eða illgirni heldur forsenda þess að koma megi í veg fyrir spillingu í þjóðfélaginu. Þeir stjórnmálamenn sem flæktir eru inn í viðskiptaleg hagsmunatengsl en telja sig ekki hafa neitt að fela í þessum efnum og telja allar gjörðir sínar réttlætanlegar og eðlilegar, ættu sjálfir að ríða á vaðið og leggja öll sín spil á borðið.

Að sjálfsögðu þyrfti að ganga ennþá lengra og opna upp á gátt alla reikninga stjórnmálaflokkanna svo ganga megi úr skugga um hvort einkavinirnir góðu launi velgjörðarmönnum sínum veitta greiða.

Í sjálfu sér ber að fagna þeirri yfirlýsingu Halldórs Ásgrímssonar að fela skuli forsætisnefnd að fara í saumana á þessu máli. Ef þessi umræða, og reyndar sambærilegur þrýstingur í þessa veru árum saman, verður til að hreyfa málinu þá er það gott.

Engu að síður velkist ég ekki í vafa um að halda verður uppi þrýstingi til þess að eitthvað raunverulega gerist í málinu. Við skulum vera minnug þess að Halldór Ásgrímsson sagði ekki alls fyrir löngu að sér væri það að meinalausu að birt yrði fundargerð utanríkismálanefndaar Alþingis sem hafði að geyma ummæli hans sem stjórnarandstöðunni þóttu ganga í berhögg við önnur ummæli hans og gjörðir á þessum tíma. Þessi ummæli voru aldrei birt. Sjálfstæðisflokkurinn gætti þess að lokað var á málið. Hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn í þessu máli? Í ljósi þessa er eðlilegt að spyrja hvaða þýðingu yfirlýsing Halldórs Ásgrímssonar í dag komi til með að hafa? Það á einfaldlega eftir að koma í ljós.

Tenging við framangreindar upplýsingar á vefsíðu danska forsætisráðuneytisins:

http://www.stm.dk/Index/mainstart.asp?o=156&n=1&h=4&s=1