Fara í efni

ÆTLAR RAUÐI KROSS ÍSLANDS AÐ SEGJA SKILIÐ VIÐ ÞJÓÐINA?

Ákvörðun framkvæmdastjórnar SÁÁ um að gera tillögu til fulltrúaráðs samtakanna að hætta að hafa fé af spilafíklum vekur aðdáun. Þessi ákvörðun er í samræmi við vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar samkvæmt umfangsmikilli skoðanakönnun Gallup síðastliðið vor.

Í kvöld kom síðan fram í viðtali við framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands að sú stofnun ætlaði ekki að fara að vilja þjóðarinnar í þessu efni; tók meira að segja undir það sjónarmið að rekstur þessara spilavéla væri í samræmi við gildi Rauða krossins enda skilaði allt sem til hans rynni sér 100% til baka til þjóðarinnar.

Ekki telur þjóðin svo vera enda er rekstur spilavíta á kostnað þjóðarinnar, ekki ávinningur hennar.

Framkvæmdastjórinn segir í viðtali við Stöð 2 að spilafíklar snúi sér í auknum mæli að netinu. Þetta er löngu vitað. Þegar ég gegndi embætti dómsmálaráðherra fyrir sjö árum voru ræddar leiðir til að hemja netspilun. Það er gerlegt.

Sem ráðherra átti ég ágætar samræður við rekstraraðila spilakassanna. En ég skal þó játa að ekki gerði ég mér þá grein fyrir því hve langt sumir þeirra eru leiddir í fíkn sinni.

Það eru nefnilega tvær tegundir fílka. Þeir sem spila frá sér lífsviðurværi sínu og fjölskyldna sinna og svo hinir sem nýta sér veikleika þeirra. Hvort tveggja er dapurlegt, það síðara á skilið lýsingarorð sem ég læt kyrr liggja að sinni, en spyr aðstandendur Rauða krossins hvort þeir séu sammála framkvæmdastjóra sínum? Ef svo er ekki þá verða þau hin sömu að láta heyra frá sér.
Þögn í þessu hitamáli er sama og samþykki.

https://www.visir.is/g/20202032361d/raudi-krossinn-aetlar-ekki-ad-haetta-rekstri-spilakassa