Fara í efni

ÆTLAR ALÞINGI AÐ SKERÐA LÍFEYRISKJÖR OPINBERRA STARFSMANNA?

Lífeyrissjóðir
Lífeyrissjóðir

Lífeyrismál hafa alla tíð verið mál málanna í kjarabaráttu opinberra starfsmanna. Árið 1996 tókst að hrinda síðustu aðförinni að þessum réttindum. Það kostaði mikla baráttu, ekki bara við ríkisvaldið heldur því miður einnig félaga okkar í forystu ASÍ. Óþarft er að taka fram að Samtök atvinnulífsins, þáverandi VSÍ núverandi SA,  vildu þessi réttindi feig enda fráleitt að tryggja strætóstjórum, kennurum og sjúkraliðum sæmilega prósentu af þeim ofurlaunum sem þessar stéttir njóta!

Opinberir starfsmenn hafa alltaf sagst vera hlynntir samræmingu lífeyriskjara - upp á við. Aðförin árið 1996 var niður á við. Nú er önnur aðför gerð. Einnig niður á við.

Fráleitt var að heyra forsætisráðherra segja í útvarpsviðtali að eftir "samræmingu réttinda" geti fólk valsað á milli sjóða án þess að verða fyrir skerðingu! Þetta er vitleysistal, tilraun til að réttlæta í nafni samræmingar stórfellda skerðingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna,   

Hún gengur út á að ríkisábyrð á þessum réttindum verði numin brott, reiknireglum breytt þannig að ávinnsla réttinda verði mest á yngri árum - á meðan konur eru mest frá vinnu vegna ungbarna og langskólafólk á skólabekk - og síðan verði breytt viðmiði við útreikninga starfsloka sem myndi fela í sér umtalsverðar skerðingar.

Þetta virtust samtök opinberra starfsmanna ætla að kokgleypa á þeirri forsendu þeirra Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra Þorsteins Viglundssonar, fyrrvernadi framkvæmdastjóra SA, sem nú er orðinn þingmaðpur hins hófsama miðjuflokks Viðreisnar, að ógleymdum forseta ASÍ, Gylfa Arnbjörnssonar, að þeir muni tryggja opinberum starfsmönnum verulegar launahækkanir til frambúðar sem sárabót fyrir réttindamissinn! Þetta hljómar náttúrlega sem grín en er ekki grín.

Einhverjar vöflur virðast nú á talsmönnum opinberra starfsmanna - eða hvað?

Þurfa fjölmiðlar ekki að upplýsa okkur um afstöðu þeirra svo og þingsins? Er ríkisstjórnin að ganga á svig við áður gert samkomulag eins háreist og það nú var? Ég hef ekki fengið annað skilið á helstu talsmönnum opinberra starfsmanna.

Ég var enn á þingi þegar samkomulagið var kynnt í október sl.. Þau sem að kynningunni stóðu áttu eitt sameiginlegt, nefnilega að ekki yrði skert hár á höfði þeirra! Bara þeirra sem á eftir koma!! Ekki virkaði þetta sérlega tilkomumikið.

En hvað skyldi Alþingi gera? Ég neita því ekki að um mig fer svolítill hrollur þegar ég hugsa til umræðunnar sem fram fór  á milli þingmanna við kynningu frumvarpsins. Hún var ekki traustvekjandi og yrði seint talin hafa verið vel upplýst. Vonandi hefur þetta nú færst til betri vegar. Um það verða fjölmiðlar að fræða okkur.

Ég tel tvímælalaust að stöðva beri málið í þinginu. Margt er þar óljóst en það hins vegar eitt ljóst að um stórfellda kjaraskerðingu yrði að ræða nái þetta frumvarp fram að ganga.
sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/engin-skerding