Fara í efni

ÆTLA STJÓRNVÖLD ÁFRAM AÐ GANGA ERINDA GJALDHEIMTUMANNA?

Ragnheiður ferðamálarh
Ragnheiður ferðamálarh

Ferðamálaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sagði í fréttum í vikunni að gjaldtaka við Námaskarð og Leirhnjúk hefði komið sér á óvart. Þetta var undarleg yfirlýsing í ljósi þess hvernig "landeigendur" hafa talað. Sami ráðherra hefur einnig sagt að gjaldtaka við Kerið í Grímsnesi hafi gengið prýðilega vel! Ekki var það síður undarleg yfirlýsing í ljósi þess að gjaldtakan er ólögleg.
Aðrir ráðherrar segja að gera þurfi lagalega úttekt á málinu.

Ganga erinda gjaldheimtumanna

Annað hvort eru þeir latir og hafa ekki nennt að lesa lögin eða þeir hafa lesið þau og séð það sem hverju barni má ljóst vera, að gjaldtaka í ábataskyni er ólögleg. Eða að með tómlæti og aðgerðarleysi vilji ráðherrar styrkja stöðu gjaldheimtumanna og þá veikja almannarétt að sama skapi. Margt þykir mér benda til að svo sé.
Í dag má lesa í fjölmiðlum að Umhverfisstofnun telji gjaldtöku við Kerið í Grímsnesi ólöglega en til greina komi að semja við landeigendur til að gera þjófnaðinn löglegan. Til sanns vegar má færa að þá ætti hugtakið þjófnaður ekki lengur við í lagalegum skilningi þess orðs en slík ráðstöfun myndi hins vegar bíta höfuðið af skömminni og færa okkur endanlega heim sanninn um að þessi ríkisstjórn er í alvöru að skapa "landeigendum" hefðarrétt til hagnast persónulega á náttúrugersemum náttúru Íslands.
Hér er m.a. gerð grein fyrir lagaákvæðum sem snerta þetta mál:  https://www.ogmundur.is/is/greinar/a-laugardag-klukkan-half-tvo

Tekur tíu mínúntur að lesa lögin

Þegar ríkisstjórnin kallaði þing saman  sl. miðvikudag til þess að setja lög á vélvirkja notaði ég tækifærið til að vekja athygli á því að sama ríkisstjórn og þættist vera að verja almannahag með lögum á verkfall styddi hóp stigamanna sem hefði fé af ferðamönnum eins og dæmin sanna. Innanríkisráðherra sem jafnframt fer með dómsmál, kvaðst myndu láta skoða lögin þegar hún var innt eftir því hvers vegna lögreglan aðhefðist ekki til að stöðva þjófnaðinn. Að mínu mati þyrfti sú lagaskoðun ekki að taka mikið meira en tíu mínúntur!
(Umræðan er hér: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20140618T165511 )

Lofsvert framtak

Nú hafa Ferðamálasamtök Íslands sent frá sér ályktun sem borin var upp af Rósu Björk Halldórsdóttur framkvæmdastjóra Markaðsstofu Vesturlands um gjaldtöku á ferðamannastöðum, fjárframlög til framkvæmda og reksturs ferðamannastaða. Þetta er lofsvert framtak af hálfu Rósu Bjarkar og Ferðamálasamtaka Íslands.  Hér er ályktunin og fagna ég því sérstaklega að minnst skuli á eignarnám sem mér sýnist vera eini kosturinn í stöðunni (Sjálfur fjallaði ég um eignarnám nýlega í grein í DV, sbr. https://www.ogmundur.is/is/greinar/eignarnam-er-svarid og í Fréttablaðinu, sbr. https://www.ogmundur.is/is/greinar/eignarnam-her-en-ekki-thar) :

Ferðamálasamtök Íslands ( FSÍ ) skora á stjórnvöld, ríkisstjórn og Alþingi að leita leiða til þess að stöðva gjaldtöku á einstaka ferðamannastöðum annað hvort með lagasetningu og/ eða eignarnámi þar sem það á við. Jafnframt er skorað á stjórnvöld að leggja nauðsynlegt fjármagn í frekari uppbyggingu innviða á helstu ferðamannastöðum sem og að auka fjármagn til framkvæmda og reksturs þjóðgarða og friðlýstra svæða.

FSÍ hafa miklar áhyggjur af þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin misseri. Fjölgun ferðamanna hefur farið fram úr öllum spám og tekjur ríkissjóðs af erlendum ferðamönnum því mun meiri en gert var ráð fyrir. Því ættu stjórnvöld að sjá sóma sinn í að leggja til það fjármagn sem þarf til að vernda náttúru landsins sem og til uppbyggingar nauðsynlegra innviða, þar sem það á við, án frekari vangaveltna um sértæka fjármögnun.

Þessi áskorun varðar sérstaklega þá staði sem myndu flokkast sem einstök náttúruvætti eða náttúrugersemar og ættu í raun að vera í eigu þjóðarinnar. Umræddir staðir hafa það sameiginlegt að landeigendur byggja ekki afkomu sína á búsetu svæðanna og ekki er um að ræða hefðbundna landnýtingu í kringum umræddar náttúrugersemar enda gildir almannaréttur um flesta þessa staði sem og annað óræktað land. Í mörgum tilfellum hafa landeigendur staðanna sjálfra eða í grennd þeirra staðið í vegi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu við umræddar náttúruperlur. Þá hafa þessi landeigendafélög ekki kostað þá uppbyggingu sem fyrir er.

Hér verða taldir upp nokkrir staðir og náttúrufyrirbæri sem myndu flokkast undir fyrrgreinda lýsingu.

 Svæði við Dettifoss og Námaskarð í landi Reykjahlíðar ( Landeigendafélag Reykjahlíðar ehf.)

 Svæðið í kring um Geysi í Haukadal ( Landeigendafélag Geysis ehf. )

 Kerið í Grímsnesi ( Kerfélagið ehf. )

 Jökulsárlón á Breiðamerkursandi í landi Fells ( Sameigendafélagið Fell )

Fleiri svæði þarf að skoða með uppbyggingu í huga, eins og við fossinn Glym og Botnsdal í Hvalfirði, þar sem landeigendur hafa verið jákvæðir fyrir uppbyggingu en hafa engar tekjur af ferðamönnum. Því þarf að leita leiða til þess að tryggja uppbyggingu, viðhald innviða og landvörslu slíkra svæða.

Við Jökulsárlón hafa ekki komið fram áform um beina gjaldtöku með sama hætti og á hinum svæðunum sem talin eru upp hér að ofan, heldur hefur Sameigendafélagið Fell tekið gjald fyrir að ,,leyfa´´ ljósmyndurum myndatökur við Jökulsárlón. Tekið skal fram að landeigendur í sameignarfélaginu búa hvorki á svæðinu né stunda þar hefðbundin búskap, enda er landið í kringum Jökulsárlónið að mestu sandar og jökulgarðar og lónstæðið var til skamms tíma hulið jökli.

Virðingafyllst,

f.h. Ferðamálasamtaka Íslands Ásbjörn Björgvinsson