Fara í efni

"Æskilegt að Síminn verði að einhverju leyti í eigu Íslendinga"

Birtist í Fréttablaðinu 01.03.04
Þessi fyrirsögn er sótt í ummæli forstjóra Landssímans, Brynjólfs Bjarnasonar í stórri grein í nýjustu útgáfu Viðskiptablaðsins. Forstjóranum finnst eðlilegt að þjóðin fái að eiga einhvern hlut í þessari stofnun. Þetta sýnir mikinn stórhug, eða hvað? Var það ekki þjóðin öll, í sameinuðu átaki, sem setti þessa þjónustu og þessa stofnun á laggirnar í upphafi síðustu aldar og hefur þróað allar götur síðan, þangað til nú nýlega að hún var hlutafélagsvædd og eins og aðrar slíkar stofnanir fengin málaliðum hlutafélagsformsins í hendur. Slíkir aðilar hafa ekki reynst bera mikla virðingu fyrir uppbyggingarstarfi forvera sinna og oftar en ekki finnst þeim þeir þess umkomnir að snúa nösunum upp í loftið.
Á mælikvarða Íslandssögunnar erum við ekkert mjög langt frá árinu 1996. Það ár var tekin ákvörðun um að hlutafélagavæða Póst og síma. Þá var samgönguráðherra þjóðlegur íhaldsmaður, Halldór Blöndal, núverandi forseti Alþingis. Af öllum mönnum varð það hans hlutskipti að hafa forgöngu um hlutafélagsvæðingu Pósts og síma; stíga fyrstu skrefin með þessa þjóðþrifastofnun inn á markaðstorgið.  

Alfarið í  eigu ríkisins

Halldór Blöndal var ekki einn á ferð. En ég nefni hann sérstaklega til sögunnar því hann gaf mjög afdráttarlausar yfirlýsingar um eignarhaldið á hlutafélaginu. Í viðtali við BSRB- tíðindi sagði þessi þáverandi samgöngumálaráðherra Íslands um hlutafélagsvæðinguna á Pósti og síma : "Í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði alfarið í eigu ríkisins." Ég hef þá sannfæringu að Halldór Blöndal hafi meint þetta, kannski öll ríkisstjórnin. Hún var sennilega, þegar allt kemur til alls, einfaldlega að fylgja alþjóðlegri bylgju markaðsvæðingar, kaupa sér támjóa skó af því ekkert annað var í búðunum, svo við yfirfærum þetta yfir á tungumál tískunnar.
Því miður var engin tilraun gerð til að skilgreina hvernig Íslendingar gætu best lagað sig að breyttum heimi á þessu sviði með hagsmuni þjóðarinnar í huga. Menn flutu áfram eins og síðar gerðist varðandi raforkuna og gáfu sér að fyrst stórþjóðirnar færu svona að, þá hlytum við að gera það líka. Lævísari menn brostu í kampinn. Þeir gáfu lítið fyrir tíðarandann, meira fyrir peningahagsmuni. Þeir vissu sem var, að hafin var einkavæðing Pósts og síma. Þar væri rekin starfsemi sem gæfi vel af sér. Nú væri um að gera að komast yfir þá peninga.
Reyndar þurfti ekki lævísina til. Hægri sinnað fólk á Alþingi fagnaði þessum fyrsta áfanga í því að svipta þjóðina þessari þjóðareign og fela hana í hendur mönnum sem kynnu betur með að fara, eins og þeir svo oft komust að orði. Þetta hljómar nánast eins og grín. Fæstum okkar er þó held ég hlátur í huga frammi fyrir þeirri hrikalegu mótsögn sem fólst í því að hafa eignir af þjóðinni undir ræðuhöldum sem gengu út á það eitt að telja fólki trú um að allt væri þetta gert af sérstakri umhyggju fyrir þjóðarhag.
En víkjum nánar að peningunum, arðinum af Landssímanum. Núverandi forstjóri Landssímans eða Símans hf eins og stofnunin heitir víst nú, Brynjólfur Bjarnason, segir okkur í umræddu viðtali í Viðskiptablaðinu hvað Síminn hafi greitt mikið í arð í ríkissjóð á síðustu mánuðum og hvað bíði Ríkissjóðs á komandi mánuðum. Hann segir um þetta efni: "Við munum skila ríkissjóði  2.110 m .kr. i arðgreiðslur á aðalgfundi félagsins gangi tillögur stjórnar þar að lútandi eftir. Það er hreint ekki lítið og ég er ánægður með útkomuna. Eiginfjárstaða Símans er hærri en gengur og gerist meðal íslenskra fyrirtæja eða 56%."

Þegar vara er boðin til sölu

Í annars mjög upplýsandi úttekt Viðskiptablaðsins er ekki farið ofan í saumana á þjóðhagslegu gildi Landssímans í tímans rás og ekki taldir til allir þeir milljarðatugir sem þaðan hafa komið ríkissjóði til hagsbóta. Viðskiptablaðinu leikur hins vegar forvitni á að heyra hvaða áform eru uppi um sölu fyrirtækisins og viðhorf forstjórans til hennar. Hann er spurður hvort honum þyki æskilegt að íslenskir aðilar kaupi. "Það er að mínu mati mjög æskilegt", svarar hann, "að Síminn verði áfram að einhverju leyti í eigu Íslendinga".  En leiðir það ekki til enn frekari samþjöppunar hér í viðskiptalífi er aftur spurt. "Þarna er spurning sem augljóslega gæti verið já við," svarar Brynjólfur Bjarnason, "það er þó erfitt að stýra því þegar vara er boðin til sölu."
Við erum held ég nokkuð mörg úti í þjóðfélaginu sem kunnum ráð við þessu. Fyrir það fyrsta átti aldrei að gera Póst og síma, þessa ágætu þjónustustofnun að vöru á markaði, eins og núverandi stjórnendur skilgreina hana. Hitt er svo einnig til umhugsunar hvort yfirleitt eigi að stilla "vörunni" út í söluglugga. Er það með öllu illt að þjóðin fái áfram að njóta þess milljarða arðs sem kemur  frá Landssíma Íslands?