Fara í efni

AÐ SKYNJA OG SKILJA: HUGLEIÐINGAR Á LEIÐARÞINGI KJALARNESSPRÓFASTSDÆMIS

Hafnarfjarðarkirkja 2
Hafnarfjarðarkirkja 2

Ávarp á  leiðarþingi Kjalarnessprófastsdæmis í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, miðvikudaginn 23. nóvember  2017.

Þegar ég var ungur að árum sótti ég stundum messu í Kristskirkju, á Landakotshæðinni í Reykjavík.

Ekki vegna þess að ég væri kaþólskrar trúar eða mikillar trúar yfirleitt, heldur vegna þess að vinir og leikbræður okkar Jóns Torfa bróður míns, þeir Ólafur H. Torfason og Helgi Torfason áttu kaþólska foreldra sem sóttu kirkju og við strákarnir fengum stundum að fljóta með þegar haldið var til messu á sunnudögum.
Mér fannst þetta ágætur siður, hátíðlegt að sjá litskrúðug klæðin, finna ilminn af reykelsinu, hlusta á sönginn og prestana tala og tóna.

Á þessum tíma fóru þessar helgiathafnir fram á latínu þannig að maður skildi ekki orð af því sem sagt var. Allt var þetta því fyrst og fremst stemning, hughrif og kannski ímyndun líka. Því eflaust var það ímyndunaraflið sem raðaði því sem maður hafði lært úr biblíusögunum inn í messugjörðina. Þetta þurfti ekki að vera mjög nákvæmt. Hátíðleikinn fólst ekki í því að skilja. Miklu fremur í að skynja. Seinna rann það upp fyrir mér að þannig vildi kaþólska kirkjan hafa þetta, að söfnuður hennar væri jafnan til staðar til sameiginlegs helgihalds þegar kallað var en þyrfti að öðru leyti ekki að bera þungar áhyggjur gagnvart guði sínum. Milligangan við almættið væri í traustum höndum kirkjunnar og þá væri það einnig svo að því sem aflaga hefði farið í lífi hvers og eins, mætti koma á framfæri með aðstoð presta og færu þau samskipti - játning og fyrirgefning - fram í skriftastólnum.

Löngu síðar fékk Landakotskirkja málið. Þá fór gamanið að kárna. Sem fullorðinn maður hef ég verið þar við athafnir. Og ekki hef ég alltaf verið búinn að sitja lengi þegar ég var farinn að sakna bernskuminninganna frá þessum sama stað. Þegar ég aðeins þurfti að skynja.

En á uppvaxtarárunum fór ég líka að hlusta eftir röddum byltingarprestanna úr fátækarhverfum Suður-Ameríku. Þeir voru kaþólskir og kallaðir boðberar frelsunar, sem ég get mér til að hafi haft tvíþætta merkingu, annars vegar verið af félagspólitískum toga, að frelsa fólk, eða - og þarna kemur að því byltingarkennda - að hvetja það til að frelsa sig sjálft, með krafti trúarinnar, frá ranglæti heimsins, misrétti og valdbeitingu og svo hins vegar sú trúarlega skírskotun, að frelsa sálu sína fyrir tilstilli kristinnar trúar. Þessa presta skynjaði ég bæði sem baráttumenn og brautryðjendur mannréttinda í harðskeyttum misréttisheimi  og ég þóttist skilja þá vel og lagði mig eftir því að skilja þá enn betur og sem allra best. Ég vildi heyra hvert einasta orð og ekki síður vildi ég fylgjast með gjörðum þeirra. Þær voru mikilvægastar, þeir leituðust nefnilega við að vera sjálfum sér samkvæmir, starfa í sama anda og boðun þeirra, hefja vegferðina í eigin hjarta og með eigin breytni, með öðrum orðum, byrja á sjálfum sé,  „my life is my message", „líf mitt eru skilaboð mín", sagði Mahatma Gandhi, sem ekki var kaþólskur og ekki kristinn, en af þeim skóla sem ég hef ætíð mest horft til.  

Og síðan gerist það alveg nýlega að fram á sjónarsviðið suður í Róm stígur Frans páfi, Argentínumaður, sprottinn upp úr þessum frjóa og frelsandi jarðvegi, og vill ekki sætta sig við orðin tóm. Engar lúxúsíbúðir vilji hann og nú þurfi breytt fjármálakerfi með samfélagsbönkum. Þeir eigi að láta stjórnast af því sem gott er fyrir samfélagið en ekki af gróðavon fjármálamanna, sá gróði eða vöxtur öllu heldur, sem Frans páfi æskir, er að sjá fólk vaxa sem manneskjur. Og nú finnst manni það vera ágætt að páfinn tali ekki latínu heldur á tungumáli sem betur skilst.

Þetta gat þá kaþólskur páfi, þrátt fyrir íhaldssamt stofnanaveldi sem umlykur hann; veldi sem streitist gegn því að gera upp sakir vegna ofbeldisverka sem framin voru á börnum innan valdamúra þess. Það sem Frans páfi er að segja er þó ekki annað og meira en það sem honum var ætlað af segja og er endurómur af róttækasta siðferðisákalli allra tíma: „Far út og sel eigur þínar og gef fátækum" var auðkýfingnum sem vildi öðlast eilífa sálarró ráðlagt, enda skyldu menn minnast þess að auðmanni væri ekki greiðari aðgangur að himnaríki en úlfalda að komast í gegnum nálaraugað. Öllum hefðbundnum viðhorfum til auðs og valda skyldi umturnað og önnur verðmæti; gildi samkenndar og náungakærleika koma í þeirra stað. Þetta var ákall Jesú Krists frá Nasaret, sem á endanum var krossfestur því hann vildi ekki gera sátt við spillta veröld. Og stöldrum við og verðum ekki viðskila við þessa hugsun: „Far út og sel eigur þínar". Ákallið er ekki um að taka eigur allra og deila þeim réttlátlega með miðstýrðu valdi, nokkuð sem ég er ekki fjarri að eigi að gera eða altént afnema einkaeignarréttinn í því formi sem hann er til núna, þannig að ekki verði lögð að jöfnu eign á heimili, hóflegu atvinnufyrirtæki eða bújörð annars vegar og tvö hundruð þúsund milljörðum hins vegar. Nei, kallið gekk lengra, far ÞÚ út og gef eigur þínar ríki maður, þú átt að hefja vegferðina í eigin hjarta, með eigin breytni og svo fylgir reyndar í kjölfarið að við þetta öðlist hann annars konar verðmæti, fjársjóð á himnum.

Dæmisagan um ríka manninn er okkur ekki ókunn í hinum lútherska ranni  kirkjunnr enda hefur lútherska kirkjan aldrei verið mállaus. Það var einmitt hugsun Marteins Lúthers að helgiritin og miðlun þeirra skyldu vera öllum aðgengileg og skiljanleg milliliðalaust. Sú tíð ætti að vera liðin að við sætum og tækjum við trúarlegum boðskap fyrir milligöngu kirkju og prests, nú áttum við einmitt að opna hjarta okkar, hvert og eitt - okkar eigið hjarta, vitund og huga fyrir boðskap Jesú Krists.

Og á boðskap lúthersku krkjunnar höfum við hlustað í fimm hundruð ár, heyrt það sem sagt hefur verið en ekki endilega skilið allt enda ekki alltaf talað tæpitungulaust. Ég er þó ekki frá því að þetta sögulega  afmælisár hafi glætt og dýpkað skilning okkar á ýmsu, að minnsta kosti þeirra sem lagt hafa eyrun við.

Fimm hundruð ára afmælis trúarsiðbótar Lúthers hefur íslenska þjóðkirkjan minnst á myndarlegan hátt, með fjölbreyttri útgáfu um þetta sögulega og sístæða efni, ráðstefnum og málstofum þar sem innlendir og erlendir menn hafa tekið þátt. Þar nefni ég ráðstefnu í Skálholti á vegum vígslubiskupsins þar, séra Kristjáns Vals Ingólfssonar. Ég nefni útvarpsþáttaröð þeirra Ævars Kjartanssonar og dr. Hjalta Hugasonar sem hefur verið fróðleg og varpað ljósi á ýmis álitamál, svo og frábæra sjónvarpsþætti Ævars frá sjálfu sögusviðinu, vettvangi Marteins Lúthers, þar sem hann bjó og starfaði og þar sem hið magnþrungna uppgjör hans við kaþólsku kirkjuna fór fram. Ekki svo að skilja að umfjöllun um Lúther og Siðbótina sé ný af nálinni hér á landi. Eftir íslenska fræðimenn liggja mikil rit um þessi efni, og þarf ekki að hverfa langt aftur í tímann til að verða þess vísari. Doktorsrit Sigujróns Árna Eyjólfssonar hefur hlotið mikið lof en það kom út um aldamótin og fjallaði sérstaklega um guðfræði Marteins Lúthers. Rit dr. Gunnars Kirstjánssonar, Martin Lúther, Svipmyndir úr Siðbótinni, kom út árið 2014. Dr. Gunnar stendur ekki aðeins í fremstu röð íslenskra fræðimanna um efnið hér á landi, heldur er óhætt að stilla honum upp í alþjóðlega framvarðarsveit fræðimanna á þessu sviði.

Þeir sem á annað borð taka upp þráðinn rekja sig fljótlega frá einu riti til annars. Þannig barst fljótlega á mínar fjörur grein sem títtnefndur Ævar Kjartansson skrifaði um Magnús Eiríksson, sem uppi var á 19. öld, Magnús frater sem svo var nefndur af samlöndum sínum í Kaupmannahöfn þar sem hann lengst af var búsettur. Hann hafnaði kenningum Lúthers því að honum þótti hann gera almættið hefnigjarnara en efni stæðu til. Þessi skrif Magnúsar veita innsýn í trúfræðilegar deilur sem voru um margt meiri og harðvítugri en leikmenn á borð við mig hefði nokkurn tímann órað fyrir.

Var guð reiður eða mildur, fórnaði hann syni sínum eða er sagan um glataða soninn dæmi um þá mildi sem við eflaust mörg teljum til eftirbreytni?  Hefur þjóðkirkjan íslenska einhverja tiltekna og samþykkta túlkun á þessum spurningum? Eflaust hefur hún það og eðlilegt er að guðfræðingar, fræðimenn almennt og prestar takist á um slíkan skilning.

En þjóðkirkjan í mínum huga snýst ekki um þetta fyrst og fremst, heldur um þá grundvallarafstöðu til lífsins, þau gildi  sem okkur eru innrætt og við viljum innræta samfélaginu öllu þegar tekist er á um brennandi mál sem á okkur leita.

Hver eru þau gildi?

Vísbendingu um þau gildi má finna í þeim viðfangsefnum sem valin eru til að glíma við hverju sinni og þeirri afstöðu sem tekin er til þeirra.

Þegar Lúther setur fram kenningar sínar á öndverðri 16. öldinni þá er það á tímum sem vestanverð Evrópa lék á reiðiskjálfi í bændauppreisnunum svokölluðu en þá reis bændaalþýðan upp gegn kúgurum sínum úr eigna- og valdastéttum samfélagsins. Þegar upp var staðið lágu á annað hundrað þúsund manns í valnum í þessum blóðugustu og ofbeldisfyllstu þjóðfélagsátökum síðari alda eða fram til frönsku stjórnarbyltingarinnar undir lok 18. aldar. Það var hárrétt hjá stjórnanda fyrrnefndra sjónvarpsþátta að grennslast fyrir um hver afstaða Lúthers hafi verið til þessara þjóðfélagshræringa,  og beina þannig sjónum okkar að brennandi átakamálum samtíðar Lúthers til að varpa ljósi á samspil kenningar og veruleika. Síðan er það einnig verðugt sagnfræðilegt viðfangsefni að rýna í tengslin á milli Siðbótar Lúthers og þessara þjóðfélagshræringa þegar valdastofnunum þjóðfélagsins er raunverulega ógnað. Var þetta dæmi um róttækni og áhrifamátt Siðbótarinnar? Hafði hún að einhverju leyti áhrif í þessu félgslega samhengi? Ef svo er þá er það ef til vill eitthvað sem kirkju nútímans ber að íhuga og draga lærdóm af. Það væri ekki léttvægt viðfangsefni!     

En hverjar eru bændauppreisnir okkar tíma? Hvað er tekist á um í samtímanum? Það skyldu þó aldrei vera trúarbrögðin í heimi sem þó í sífellt ríkari mæli þykist vera fordómalaus í trúarlegu tilliti. Reyndin er önnur. Trúarbrögð eru að verða að nýju átakavettvangur veraldlegra hagsmunaafla og á því þurfa trúarbrögðin að hafa skoðun og axla ábyrgð.

Síðastliðið vor sótti ég ráðstefnu í York í Englandi þar sem fjallað var um mannréttindi. Þar hlýddi ég meðal annars á ungan mann ræða um það hvernig það væri að vera múslími í Bretlandi. Ég kann að vera múslími, sagði hann, einfaldlega vegna þess að það eru trúarbrögðin í mínu umhverfi en ég er líka af pakistönskum uppruna því foreldrar mínir fluttu til Bretlands frá Pakistan. Við erum ekki trúrækin fjölskylda og við Pakistan er ég ekki bundinn neinum tilfinningaböndum. Ég er fyrst og fremst Breti og mjög veraldlega þenkjandi. Þegar ég varð fyrir ónotum á yngri árum og einhverjir vildu segja eitthvað slæmt um mig, þá var það vegna þess að ég væri brúnn á litinn og frá Pakistan. Aldrei var minnst orði á trúarbrögð. Það hefur hins vegar breyst á allra síðustu árum, þá var ég gerður að íslamista og ekki nóg með það, heldur hættulegum manni, öfgaíslamista ef þá ekki líklegum hryðjuverkamanni! Samt er ég sami maðurinn og ég hef alltaf verið, friðsamur Breti!"

Þetta fellur vel inn í mynd sem er að dragast upp víða um lönd og við þekkjum orðið vel. Fjölmennigardeilur og fjölmenningarfordómar stefna hraðbyri inn í trúvæddan átakaheim. Trúarbrögðin eru nefnilega í síauknum mæli nýtt til að draga fólk í dilka og kynda undir fordóma. Vissulega eru það ekki allt saman fordómar því samfara þessari þróun eru hvers kyns öfgar í trúarlífi farnar að lifa góðu lífi.
Kirkjan á ekki að skirrast við að gagnrýna mannfjandsamleg trúarbrögð því þau eru til.  Þetta þekkjum við úr okkar sögu. Varla er hægt að ímynda sér að lengra verði gengið í ofstækisfordómum en að brenna fólk á báli en það var líka gert hér landi eins og við þekkjum og það í nafni trúar.
Og við þurfum ekki að hverfa langt aftur í tímann. Bush yngri Bandaríkjaforseti talaði um nauðsyn krossfarar austur á bóginn í þann mund er hann hóf hernaðinn í Austurlöndum uppúr aldamótunum. Svo furða menn sig á vaxandi fjandskap í þessum heimshluta í garð kristni og kirkju. Sá fjandskapur mun magnast á meðan kirkjan horfir þegjandi og þar með samþykjandi á félagslegar afleiðingar villumennsku auðhyggjunnar.
Breskur forsætisráðherra Íhaldsflokksins hvatti kirkjuna í sínu heimalandi til að vera eins konar þjóðfélagslegur öryggisventill. Einmitt það hefur kirkjan alltof víða orðið, öryggisventill hins veraldlega valds. Skjólið af því valdi er hins vegar skammgóður vermir því þar með er kirkjan ekki lengur trú köllun sinni.   

Ég spurði hvernig gildi þjóðkirkjunnar hafi birst okkur í þeim viðfangsefnum sem hún hefur glímt við og spyr ég þá sérstaklega um fordómaleysi í garð annarra trúarbragða.

Ég vil nefna þrjú jákvæð dæmi um það sem ég tel vel hafa verið gert á liðnum árum hvað þetta varðar.
Í fyrsta lagi vísa ég til reynslu minnar af Hjálparstofnun kirkjunnar á níunda áratug síðustu aldar þegar hún var undir stjórn Guðmundar Einarssonar og naut stuðnings margra mætra kirkjunnar manna. Nefni ég þar sérstaklega séra Gunnlaug Stefánsson en saman fórum við, ég sem fréttamaður Sjónvarpsins, hann sem starfsmaður Hjálaparstofnunarinnar, til landamærahéraða Pakistans og Afganistans þar sem geisaði mannskætt stríð. Við fórum með hjálpargögn á svæðið og ég gerði sjónvarpsþátt um hlutskipti fórnarlamba stríðisins. Það sem ég hugleiddi ekki fyrr en eftir á, var að þarna vorum við á svæði þar sem engan kristinn mann var að finna, aðeins hjálparþurfi fólk. Ég varð þarna vitni að því að Hjálparstofnun kirkjunnar spurði aldrei um trúarbrögð heldur var eingöngu horft til aðkallandi neyðar.

þá vil ég nefna sem jákvætt dæmi úr starfi kirkjunnar þann vettvang sem myndaður hefur verið um samræðu milli trúarsöfnuða á Íslandi. Sá vettvangur er í verki viðleitni til góðra samskiptu mismunandi trúarbragða og er til eftirbreytni.

Þriðja dæmið sem ég vil nefna er starf sem unnið er í ýmsum söfnuðum í þágu hælisleitenda, þar sem þeim er kennd íslenska og hjálpað að fóta sig í nýju samfélagi. Í því starfi - boðskap kirkjunnar í verki - sannast að opinn faðmur hennar lyftir ekki aðeins þiggjendum heldur veitandanum einnig. Með slíkri þjónustu kirkjunnar verður hún sá lifandi félagslegi farvegur, sú hreyfing  sem henni var ætlað að vera.

Kristnin ætlar kirkju sinni ekki auðvelt hlutverk. Henni er ekki ætlað að gerast dómari eða úrskurðarvald heldur lifandi samviska þjóðfélagsins. Það er hennar að taka á vandmeðförnum félagslegum úrlausnarefnum, ekki til að hafa lausnirnar á reiðum höndum, heldur gildin, hina siðferðilegu vegvísa. Og óttalaus á hún að draga fram í dagsljósið orsakir og afleiðingar.

Henni ber að mínu mati, svo dæmi sé tekið, að ræða erfitt hlutskipti flóttamanna og hælisleitenda, en hún á ekki að láta þar við sitja, hún á að spyrja hvers vegna fólk sér sig knúið að flýja heimahaga sína, hvers vegna það sé rekið á brott. Ég hlýddi nýlega á einn helsta forystumann bandarísku verkalýðssamtakanna, Tefere Gebre, skýra afstöðu sína til flóttamannavandans. Hann vildi að vel yrði tekið á móti flóttamönnum en sjálfur hafði hann komið fótgangadi einn síns liðs til Súdan um langan veg frá Eþíópíu, þá aðeins 14 ára gamall. Þaðan komst hann til Bandaríkjanna, aftur einn á báti. Þar braust hann til mennta og síðan til áhrifa í stjórnmálum og verkalýðshreyfingu. Þótt Tefere Gebre talaði máli innflytjenda í Bandaríkjunum sagði hann jafnframt að aldrei mætti gleymast af hverju fólk flýði. Það þarf að uppræta spillingu og ofbeldi sagði hann, stöðva blóðsúthellingar og stríð og gera löndin mannvinsamleg, því engan langar að flýja heimahaga sína! Það má ekki einblína svo á afleiðingar, að orsakirnar gleymist.

En hversu ágeng eigum við að vera í leit okkar að orsökum? Á að taka afstöðu til misskiptingar í heiminum, sóknar hinna ríku í auðlindir hinna snauðu og hvernig hernaðaryfirburðum er iðulega beitt í slíkri ásókn? Á að spyrja um hlutdeild okkar í hervæðingu heimsins? Eigum við að fagna því að vera herlaus þjóð? Eða á að benda á þá mótsögn sem í því er fólgin að stæra sig af herleysi en eiga síðan hlutdeild í hernaðarbandalagi sem sendir ungt fólk í stríð? Hlýtur samviska okkar ekki að setja spurningarmerki við veru okkar í hernaðarbandalaginu NATÓ? Eða þykir ekki við hæfi að ræða slíkt? Öryggisventill fyrir hvað og hvern vill kirkjan vera?

Kirkjan hefur stundum stigið inn á þennan eldfima pólitíska átakavettvang. Það var ekki alltaf farið blíðum höndum um Pétur Sigurgeirsson biskup Íslands í leiðaraskrifum og öðrum skrifum varðstöðumanna valdsins þegar hann á níunda áratugnum gagnrýndi hernaðarstefnu og tók upp hanskann fyrir friðarhreyfinguna í Evrópu; hreyfingu sem bauð NATÓ byrgin og kom í veg fyrir uppsetningu nýs kjarnorkuárásarkerfis í Evrópu. Alræðisöflin austan múra glöddust yfir óförum valdhafanna vestan megin en gleði þeirra varð skammvin því með því að hvetja fólk til vitundarvakningar um ofríki og valdstjórn var flýtt fyrir hruni valdstjórnar, óháð allri landafræði. Afleiðingar óeigingjarnar siðbætandi baráttu eru ekki alltaf fyrirsjánalegar en alltaf eru þær til góðs.  

Það fór vel á því að íslenska þjóðkirkjan skyldi gera loftsalagsmálin og umhverfismálin almennt eitt af höfðuverkefnum sínum á þessu sögulega minningarári og vilja þarmeð  tengja umræðu um trú og siðferði aðgerðum til varnar umhverfinu.

Ég fylgdist nokkuð með undirbúningi þjóðkirkjunnar manna undir skeleggri og óþreytandi forystu séra Gunnþórs Ingasonar að ráðstefnu sem haldin var hér í haust um þessi efni.   

Aðdragandinn er langur en undirbúningurinn skilaði sér og á eftir að skila sér enn betur. Í október var efnt til ráðstefnu í Digraneskirkju að frumkvæði Þjóðkirkjunnar en á vegum Alkikjuráðsins um frið við jörðu. Þar voru tíunduð fjölmörg dæmi um aðkomu trúarsafnaða til verndar náttúrunni gegn yfirgangi fjármagnsins. Annað sem vakti athygli mína sérstaklega voru frásagnir fulltrúa þjóðflokka sem bjuggu í nánu sambýli við náttúruna, þá sérstaklega Sama en einnig íbúa Fídji eyja í Kyrrahafinu. Þetta fólk tengist mjög greinilega náttúrunni sterkari böndum en hinir sem eru fjartengdari náttúruöflunum; öflum sem við Íslendingar erum iðulega minnt á eins og Öræfajökull gerir nú þessa dagana. Í ráðstefnulok var haldið til Þingvalla þar sem þátttakendur fundarins í Digraneskirkju undirrituðu yfirlýsingu - eins konar ákall - um aðgerðir í umhverfismálum. Ályktunin var samþykkt á Lögbergi við hátíðlega athöfn og síðan undirrituð í Þingvallakirkju. Að þeirri athöfn lokinni, sem leikir og lærðir sóttu, kirkjunnar menn og aðrir vinir umhverfisins með Ómar Ragnarsson fremstan í flokki, var haldið til Reykjavíkur að taka þátt í Hringborði Norðursins, sem Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslnds, skipulagði þetta ár sem fyrri ár og flokkast framlag hans undir afreksverk.

Um þetta ráðstefnuhald kirkjunnar mætti hafa mörg orð nú þegar, en það er mín sannfæring að þau orð og þá einnig gjörðir eigi eftir að verða fleiri því að hér hefur verið sáð til framtíðar.

Ef til vill er kirkjan að hefja mikilvæga endurskoðun eða umbreytingu - reformasjón - á sjálfri sér með því að gerast gagnrýnni en hún hefur verið til þessa á það hvernig farið er með umhverfi okkar og lífríkið almennt. Slíkt markvisst stefnumótandi starf sem hún beitti sér fyrir myndi ekki aðeins skila sér í þágu Móður jarðar heldur einnig til okkar allra í siðbætandi uppbyggilegu starfi er yki hagsæld og bætti mannlífið.

Við leitum oft langt yfir skammt og hvað kirkjuna áhrærir finnst mér stundum að hún ætlist til þess af sjálfri sér að gera hið ómögulega, ekki dugi henni minna en heljarstökk, helst alltaf og við allar aðstæður, til að rísa undir væntingum. En ef til vill eru það ekki stóru yfirlýsingarnar sem mestu máli skipta heldur breytni frá degi til dags og hvort í hinni daglegu önn finnist hugrekki til að reynast trú köllun sinni.

Gangi það eftir kann það svo að gerast fyrr en varir að allir muni sjá að kirkjan hafi tekið það heljarstökk fram á veg sem margir vildu helst sjá að yrði.

Í upphafi vísaði ég til æskuáranna þegar mér nægði að skynja.
Svo vildi ég skilja.
Nú vil ég skynja og skilja.
Kirkjunni óska ég þess að allir fái skynjað að þar sé að finna ótakmarkað hugrekki en jafnframt ríkur velvilji, hlýtt hjarta og breiður faðmur.
Ég þykist nefnilega skilja að með hvoru tveggja að vopni - hugrekkið og velviljann - verði þar sem áður var torleiði færir vegir.