Fara í efni

AÐ ÓTTAST SPEGILMYND SÍNA


Einar Kárason rithöfundur skrifar oft lipran texta. Ekki er þar með sagt að alltaf sé mikið vit í honum. Í grein í Morgunblaðinu í dag reynir Einar að svara sjálfum sér þeirri spurningu af hverju Íhaldið óttist bara Samfylkinguna. Einar Kárason kemst að þeirri niðurstöðu að Samfylkingin sé alvöru flokkur sem Sjálfstæðismenn geri sér grein fyrir að keppi við hann um völdin í landinu. VG sé skýr kostur sem Sjálfstæðisflokkurinn viti hvar hann hafi, hann kunni að berjast við hann og líki það ekki illa. Öðru máli gegni um Samylkinguna: " Í seinni tíð hefur meira heyrst að Samfylkinguna skorti stefnu og prófíl – þetta sé miðjumoðs eða jafnvel hægriflokkur, öfugt við róttæka og forkláraða ímynd t.d. Vinstri-grænna.  En samt er það hin "veika" og "óskýra" Samfylking sem íhaldið hamast á og óttast mest. Og í rauninni má segja að það sé afrek forystumanna flokksins, að hafa loksins tekist að búa til afl á þessum væng sem hægrimenn eru hræddir við. Þeir óttast nefnilega ekki VG eða forvera þeirra á vinstri vængnum það eru hreyfingar sem Sjálfstæðismönnum líkar vel að kljást við, og passa inn í þeirra heimsmynd."
Nokkur sannleikskorn kann að vera að finna í þessari greiningu. Samfylkingin vill vera keppinautur Sjálfstæðisflokksins um völdin  en er það síður um stefnumörkun í þjóðfélaginu. Þar er VG keppinauturinn.

Lifandi dæmi um þessa þróun eru bresk stjórnmál síðustu árin, einkum eftir að Tony Blair komst til valda í Verkamannaflokknum. Þá fór flokkurinn að tileinka sér kosti kamelljónsins og aðlaga sig að því sem hann taldi falla í kramið hverju sinni. Þegar hann síðan hafði náð völdunum í sínar hendur flaut hann áfram í góðri sátt við fjármagnsöflin. Við landstjórnina hefur hann gripið til sömu ráðstafana sem "andstæðingur" hans í stjórnmálum, Íhaldsflokkurinn, hefði sjálfur gripið til! Þetta olli vissulega uppnámi og skelfingu í herbúðum Íhaldsins. Þegar Íhaldsflokkurinn leit til Verkamannaflokksins var sem hann sæi spegilmynd af sjálfum sér.

Í tveggja flokka kerfi Bretlands varð nú kostur  félagslega þenkjandi kjósenda erfiður. Þeir vildu ekki fyrir nokkurn mun kjósa Íhaldið og urðu því nauðugir að kjósa "Nýja Verkamannaflokkinn", þótt þeim líkaði illa gjörðir hans.

Niðurstaðan varð því sú að á sama tíma og Íhaldið fór að óttast "Nýja Verkamannaflokkinn" fóru vinstri sinnaðir kjósendur nú að óttast báða þessa flokka. Sem betur fer er þessi staða ekki uppi hjá umhverfissinnum og félagslega þenkjandi fólki hér á landi. Þeir þurfa ekki að velja á milli Íhalds og Samfylkingar. Þeir hafa Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Þeim flokki er treystandi til að koma stefnumálum sínum í mark þegar hann kemst til áhrifa fremur en flokki sem vill verða spegilmynd Íhaldsins.