Fara í efni

AÐ LÁTA MANN NJÓTA SANNMÆLIS


Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir frá því að Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hafi samþykkt styrkveitingar frá Evrópusambandinu. Þetta þykir mikil frétt. Svo mikil að hún hæfi forsíðu.
Einhverjir lesendur kynnu að ætla að tilgangur fréttarinnar sé að upplýsa um afstöðu ráðherrans til Evrópusambandsins og styrkja þaðan komna, eða hvað? Líklegra þykir mér að einhverjir „vinir" Jóns Bjarnasonar hafi komið á framfæri við fjölmiðla þeim upplýsingum að ósamræmis gæti í málflutningi hans annars vegar og gjörðum hans hins vegar.

Af þessu tilefni langar mig til að upplýsa eftirfarandi: Jón Bjarnason tók, sem aðrir, þátt í atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu fjárlaga í gær. Hann studdi fjárlögin eins og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn með því sem þar er að finna. Það breytir því ekki að enginn maður hefur beitt sér af meira afli og meiri innri sannfæringu en einmitt hann gegn styrkveitingum frá ESB. Það á við um málflutning hans í þingflokki VG og í öðrum stofnunum flokksins, á fundum ríkisstjórnar og hvað varðar stofnanir sem undir hans ráðuneyti heyra. Á milli orða og athafna hefur verið fullt samræmi - meira að segja svo mjög að mörgum hefur þótt nóg um!

Í frásögn af atkvæðagreiðslu um fjárlög þótti hins vegar greinilega vera færi að veikja Jón Bjarnason, grafa undan trúverðugleika hans.

Ég skrifa þennan litla pistil til að segja eftirfarandi: Látum menn njóta sannmælis. Líka Jón Bjarnason!