Fara í efni

AÐ KOMA AUÐLINDUM ÞJÓÐARINNAR Í SKJÓL


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, alþingiskona, hefur tekið lofsvert frumkvæði með framlagningu þingmáls sem ryður brautina fyrir endurskoðun laga um eignarhald á landi. Hún vill að skorður verði reistar við stórfelldum uppkaupum á landi og vill í því sambandi horfa til sérstöðu vegna umhverfisþátta: „Víðernin eiga að vera í almannaeign," segir hún.
Guðfríður Lilja vill jafnframt horfa til þess að fjársterkir einstaklingar, hverrrar þjóðar sem þeir eru, sölsi ekki undir sig margar jarðeignir og stór landsvæði. 
Hún segir málið ekki snúast um uppruna manna en hins vegar sé þýðingarmikið að halda víðernum í almannaeign og yfirráðum yfir landi og auðlindum innan samfélagsins. Það sé kjarni málsins. Þetta sé í samræmi við viðleitni margra þjóða og ekki síður ástæða til fyrir okkur sem búum við veika auðlindalöggjöf að sýna varkárni.
Í útvarpsviðtali í morgun á Rás 2 sagði Guðfríður Lilja að eitt mikilvægasta verkefni þessarar ríkisstjórnar væri að koma auðlindum þjóðarinnar í skjól. Undir þetta skal heilshugar tekið. Var gott að heyra áherslur Skúla Helgasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í sama þætti, en í sinni málefnabaráttu hefur hann lagt áherslu á umhverfisvernd og sýnt vilja til að standa vörð um auðlindir þjóðarinnar. Hann kom mér því ekki á óvart í mjög jákvæðum málflutningi sínum í morgun.

Ég hvet fólk til að hlusta á þessar umræður á Rás.