Fara í efni

AÐ KOMA ARFLEIFÐINNI TIL SKILA

Sennilega myndu Rolling Stones ekki trekkja betur á konsert í Reykjavík núna en Sigurður Nordal gerði á fyrirlestra sína sem stóðu vetrarlangt og hófust í október 1918. Það er að segja hlutfallslega. Um fimm hundruð manns sóttu fyrsta fyrirlesturinn sem haldinn var í rúmbestu húsakynnum Reykjavíkur á þeim tíma, Bárubúð. Reykvíkingar hafa þá verið um sextán þúsund. Nokkuð gott hlutfall á fyrirlestur um heimspeki!

Merkilegt framtak

Sigurður var 32 ára gamall, nýkominn heim frá námi í Berlín, Kaupmannahöfn og Oxford. Hann hafði hlotið styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar en styrki úr sjóðnum hlutu einstaklingar til uppihalds í fjögur ár, þrjú erlendis en fjórða veturinn skyldu þeir vera í Reykjavík og flytja fyrirlestra um afraksturinn. Hannes Árnason (1812-1879) var kennari í heimspekilegum forspjallsvísindum við Prestaskólann í Reykjavík en ári áður en hann lést stofnaði hann styrktarsjóðinn og ákvað að láta eigur sínar renna í hann að sér látnum. Mörg merk heimspekirit íslensk á 20. öldinni voru upphaflega til komin vegna styrkveitingar úr sjóði Hannesar Árnasonar.
Sigurður gerir velgjörðarmanni sínum hátt undir höfði í upphafi fyrirlestraraðar sinnar og má augljóst vera að hann kann vel að meta framtak hans, sem og er stórmerkilegt: Að styrkja menn til að afla fanga í fjársjóðum heimspekinnar þar sem þá er digrasta að finna og deila síðan með löndum sínum.

Einlyndi og marglyndi

Sigurður nefnir fyrirlestraröð sína Einlyndi og marglyndi. Hann leggur ríka áherslu á að fyrirlestrarnir myndi eina heild og að enginn skuli hrapa að ályktunum fyrr en þeir hafi heyrt fyrirlestrana alla. Í grein sem hann ritar í Lögréttu til að kynna fyrirlestraröðina segir hann um meginstef þeirra: "Einlyndi og marglyndi eru fyrst og fremst tvær andstæðar stefnur í sálarlífi hvers manns, þar sem öllum er eðlilegt á víxl að stefna að því að viða nýju efni í sálarlífið og koma á það kerfum og skipulagi, að vera á víxl opnir fyrir margs konar áhrifum og beina athygli og orku að einu marki, að vera á víxl eins og hljóðfæri í hendi lífsins eða ráða sjálfur leiknum. Sumir hallast þó fyrir eðlisfar eða uppeldi svo greinilega á aðra hvora sveifina, að orðin "einlyndur" og "marglyndur"  má nota um skapgerðarlýsingar."
Í fyrirlestrunum sýnir Sigurður hvernig þessar andstæður séu stöðugt að takast á, ekki einvörðungu í huga hvers manns heldur í menningu og heimspeki. Þannig sé trúararfleifð Austurlanda í þeim farvegi að leita jafnvægis en margbreytileikinn og áhersla á fjölbreytni einkenni ýmsa þræði í vestrænni menningu.

Hinar veikrödduðu þrár

Sigurður meitlar hugsun sína frábærlega og kemst oft stórvel að orði - oft gætir hlýrrar gletni: "En svo mikið er víst, að sé of mikill þys af jarðneskum þörfum og áhyggjum í sálinni, er lítil von um, að hinar hreinni, en veikraddaðri andlegu þrár nái þar áheyrn..."
Hér er vikið að enn einni víddinni í tilverunni, hinni andlegu, kjarnanum í æðstu trúarbrögðum og "allri dýrustu speki mannkynsins"; vídd sem Sigurður segir vera svo raunverulega að öðlist menn á henni skilning og tileinki sér hana eins og hún væri veruleiki, megi "áreiðanlega komast nær sannleikanum um síðustu gátur mannsandans en með nokkurri röksemdafærslu."  

Góður spegill

Ég staðnæmist við margt  í fyrirlestrum Sigurðar Nordals.
Í fyrsta lagi ýmsar skarpar ábendingar um meninngarsöguna. Þannig vekur hann athygli á ýmsum umhugsunarverðum þáttum hennar, sem hann síðan speglar í hugmyndum sínum og grunngildum, samanber sýn hans á austræna og vestræna menningarstrauma.
Í öðru lagi eru fyrirlestrarnir hlustanda eða lesanda gagnlegur spegill. Ef við gefum okkur að við búum hvert okkar við hvoru tveggja, einlyndi og marglyndi sem skapgerðareinkenni í einhverjum mæli, er góðra gjalda vert að spyrja sjálfan sig hvort blandan sé rétt: Er maður ef til vill of sjálfhverfur í hugsun sinni, of upptekinn við að koma skikk á þær hugmyndir sem þegar hafa komið sér fyrir í sálartetrinu eða er maður opinn fyrir nýjum straumum, tilbúinn að víkka sjóndeildarhringinn og reynsluheiminn, auðga andann og  gera tilraunir til að breyta sjálfum sér til góðs?
Síðan er það hitt sem Sigurður bendir á, að spurningin snýst ekki um það eitt að "víkka útsýnið" sem hann nefnir svo. Í fyrirlestri sínum segir hann: "Með vaxandi reynslu fannst mér þetta sífellt verða vafasamara. Sálin á sér ekki einungis breidd, heldur líka dýpt; henni er ekki einungis eðlilegt að eignast, heldur líka að gefa sjálfa sig. Eins og of einhæft og fábreytt líf þurrkar lindir sálarlífsins, á sama hátt missir maðurinn sjálfan sig með því að þjóta sífellt úr einu í annað."

Það sem á hugann leitar

Það sem framar öllu öðru sækir á huga minn eftir lestur þessara stórmerkilegu fyrirlestra er tvennt.
Í fyrsta lagi hve mikils er misst þegar umræða og hugsun um æðri sannindi víkur fyrir "þys af jarðneskum þörfum". Það hefur óneitanlega gerst á okkar tíð. Það sem meira er: Hinar "jarðnesku þarfir" hafa beinlínis verið hafnar upp í æðra veldi, "græðgi er góð", sagði Thatcher. Þegar árhundruða tilraunir til að beisla í okkur hann Adam eru settar fyrir róða, Mammon settur á stall og eigingirnin hafin upp til skýjanna er varla við öðru að búast en að boðskapurinn skili sér með einhverjum hætti! Nákvæmlega þetta blasir við okkur í samtímanum. Sú mynd verður skýrari þegar djúpar hugleiðingar andans manna frá fyrri tíð, manna á borð við Sigurð Nordal, rekur á fjörur.
Hitt sem sækir á hugann, er mikilvægi ræktarseminnar gagnvart sögulegri arfleifð okkar.

Hugsýnin verði aldrei án talsmanna á Íslandi!

Sjóð sinn stofnar Hannes Árnason til að koma dýrmætri arfleifð hins besta úr sögu mannsandans á framfæri við samtíðina og þar með framtíðina. "Hannes Árnason hefur hugsað sem svo: ef ungir menn, sem eru hneigðir fyrir að hugsa um gátur lífsins, fá að helga tíma sinn heimspeki og íhugun 3-4 ár án þess að þurfa að bera áhyggjur fyrir afkomu sinni, þá hljóta þeir að komast í samband við ríki andans, því þangað liggja allar leiðir hugsunarinnar, ef nógu langt er farið, og heimspekin er ein af þjóðbrautunum. Svo með þessari sjóðstofnun fannst honum hann hafa gert það, sem stóð í hans valdi, að hugsýnin yrði aldrei án talsmanna á Íslandi."
Þessa ræktarsemi Hannesar við menningararfleifðina kunni Siguður Nordal að meta og brást hann sjálfur ekki ætlunarverkinu.
Þetta á að verða okkur Íslendingum umhugsunarefni í þrengingum þjóðarinnar. Við eigum að leggja ríka rækt við okkar eigin menningu og gera jafnframt út menn sem aldrei fyrr til að fara sem víðast að finna gersemar í hinni "dýrustu speki".