Fara í efni

Á TÍMAMÓTUM

Karl biskup og Ögmundur
Karl biskup og Ögmundur

Ávarp á Prestastefnu í Hallgrímskirkju 25.06.12
Nývígðum biskupi Íslands Agnesi M. Sigurðardóttur óska ég til hamingju með embættið og velfarnaðar í vandasömu starfi um leið og ég þakka fráfarandi biskupi, Karli Sigurbjörnssyni, fyrir hans mikilvæga og dýrmæta framlag í þjóðlífi okkar. Persónulega vil ég færa honum þakkir fyrir afar gott samstarf þann tíma sem ég hef gegnt embætti ráðherra kirkjumála.

Íslenskt samfélag  gengst nú undir miklar þrengingar en jafnframt breytingar sem ég tel að eigi eftir að verða til góðs. Að sjálfsögðu er það undir okkur sjálfum komið hvort svo verður. Þannig er það ævinlega. Því þjóðfélagið breytist ekki. Því er breytt. Það eru alltaf gerendur.

Það hriktir í gömlum bjálkum og burðarbitum, hvort sem það eru stjónmálaflokkar, verkalýðshreyfing, eða réttarkerfið. Einnig innan Þjóðkirkjunnar spyrja menn nú nýrra spurninga.

Samfélagið er að opnast, verða lýðræðislegra - ekki í einu vetfangi heldur í mörgum skrefum og hef ég þá trú að við séum að fá forsmekkinn að því sem síðar verður, verða vitni að fyrstu hræringunum í löngu umbrota-ferli umsköpunar.

Nú er það ekki nýtt af nálinni að stofnanir og skipulag taki stakkaskiptum, fjölmiðlun taki breytingum, menntun og atvinnuhættir að sama skapi. En þær hræringar sem ég er þó fyrst og fremst að horfa til eru djúptækari; ég er að horfa til tíðarandans: Hvernig þjóðfélagið hugsar ef þannig má að orði komast.Og þá sérstaklega hvort í hræringum samtímans megi greina hvernig framtíðin kemur til með að sjá samspilið milli einstaklings og samfélags.

Mitt mat er það að 21. öldin eigi eftir að verða tímabil kröfunnar um beint lýðræði og þá jafnframt dvínandi mikilvægis fulltrúalýðræðis. Þá tel ég að á komandi tíð munum við leggja aukna áherslu á almannarétt í stað þröngs einkaeignarréttar. Þetta er krafa af lýðræðislegri rót; sprottin úr baráttu fyrir mannréttindum; um réttinn til vatnsins, réttinn til auðlindanna, til gæða lands og sjávar og síðast en ekki síst, réttinn til að ráða eigin örlögum í lýðræðislegu samfélagi. Svo lengi sem einstaklingur skaðar ekki aðra skuli hann eiga rétt á því að lifa sínu lífi að eigin geðþótta, hver sem trú hans er eða lífsskoðnun.

Á Íslandi ríkir trúfrelsi. Hitt er þó rétt að Þjóðkirkjan hefur ákveðna sérstöðu. Ég er ekki í hópi þeirra sem telja það slæmt að Þjóðkirkjan hafi sérstöðu. Enda er sérstaða Þjóðkirkjunnar staðreynd, nánast óháð okkar vilja. Hún er sögulega ákvörðuð. En svo lengi sem Þjóðkirkja er við lýði hljóta menn að spyrja um forsendur sérstöðu hennar og í hverju hún felist. Í framhaldinu vilja vakna spurningar sem eru ekki trúarlegs eðlis heldur eins veraldlegar og verða má: Um samfélagslegt umrót og varðveislu menningarverðmæta. Ég veit að sumir vilja afnema sérstöðu Þjóðkirkjunnar í einu vetfangi. Aðrir vilja fara sér hægt, þó svo að þeir vilji breytingar. Enn aðrir vilja engar breytingar.

En breytingar verða. Ég held að svo hljóti að vera. Viðfangsefni hins andlega og veraldlega valds er  að beina umræðunni og þar með þróuninni í jákvæðan og uppbyggilegan farveg í góðri sátt.

Hin miklu umbrot í þjóðfélaginu sem við verðum nú vitni að taka ekki alltaf á sig geðfelldar myndir, og ekki er heldur alltaf sanngirni fyrir að fara. Í mannréttindahraðlestinni sem nú brunar inn í framtíðina eru ekki allir farþegarnir á verðskulduðu farrými. Í nafni lýðræðis, frelsis og mannréttinda og  jafnvel í nafni sanngirni, höfum við oft fengið að kynnast fólsku - í verki og í og ekki síður í orði. Þetta þekkjum við af sögunni og þetta þekkjum við úr samtímanum.

Það er rétt sem séra Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur sagði í guðsþjónustu á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, að illa sé komið „þegar aumasta bloggið og ljótasta lygin er jafnsett hæstu gildum og hugsjónum - og fær jafnmikið svigrúm í umræðu dagsins. Þegar hending ræður því eftir hverju er tekið og hvað vekur umhugsun og umræðu. Þess vegna er ennþá ríkari þörfin fyrir dómgreind og skynsemi.".
Undir þessi orð vil ég taka.

Á dögum okkar sem nú lifum hafa sjaldan komið þau skeið sem eins mikil þörf er á því og nú að spyrja um siðferði og gildi. Stjórnmálamaður var spurður hvort hans flokkur hefði þegið háa fjárstyrki á árum áður. Hann kvað svo vera en það hefði ekkert rangt verið gert; lögin hefðu ekki bannað þetta, ekkert hefði verið aðhafst í trássi við lög.
Sagan kennir að mikilvæg gildi fá þrifist án laga og án stofnanalegrar umgjarðar en jafnframt einnig siðleysi í skjóli þess að lagaákvæði skorti. Samviska og siðvit verða ávallt að móta viðhorf og verk, í því er vandi og vegsemd mennskunnar fólginn. Kristur barðist við stofnanaveldi sinnar samtíðar. Hann skilgreindi sig aldrei í ljósi stofnunar, eigna eða veraldlegra gæða. Þau gildi sem hann boðaði, eru hins vegar grundvöllur siðferðis kristinna manna, í fjölbreyttum söfnuðum víða um heim.

En kirkjan er stofnun jafnframt því sem hún er félagsleg hreyfing og sem slík hlýtur hún að spyrja sjálfa sig spurninga sem þessarar: Hvers konar stofnun vil ég vera? Er stór stofnun betri en smá? Er þörf á Þjóðkirkju? Er ef til vill hætt við því að með áherslu á hið stofnanalega, hið veraldlega, þoki boðun fyrir umgjörð?

Í stjórnmálunum hefur þessari spurningu um stórt og smátt verið svarað af mörgum og á mismunandi hátt. En hið viðtekna er að stórir flokkar séu betri en smáir, þeir séu líklegri til að ná völdum og halda þeim og koma stefnumiðum í framkvæmd. Líklegt er að einhver segi að hið sama hljóti að gilda um kirkjur og kirkjudeildir.

Þegar ég var að feta mig af unglingsárunum og yfir á fullorðinsárin var mikil gróska í pólitíkinni. Sérstaklega á vinstri vængnum þar sem hugur minn var bundinn. Flokkarnir voru margir og lengst til vinstri rúmaði stafrófið þá varla alla. Flokkarnir yst til vinstri urðu aldrei stórir og náðu aldrei völdum. En færa má rök fyrir því að  pólitíkin á þessum tíma, gróskan í henni, hugsjónaeldarnir og sannfæringin hafi leitt til mikilvægra breytinga í þjóðfélaginu. Þannig tók jafnrétti kynjanna stórstígri breytingu til batnaðar á þessum árum, skólarnir opnuðust út í samfélagið, til urðu svokallaðar öldungadeildir fyrir fólk sem misst hafði af tækifæri til mennta í uppvextinum. Allt var þetta tilkomið vegna kröftugrar grasrótarumræðu.

Hugsunin um margt smátt og hin þúsund blómstrandi blóm hefur alltaf hrifð mig og almennt er ég talsmaður margbreytileika sem getur myndað fagurt en jafnframt kraftmikið lífsmynstur. Mér hugnast vel sú hugsun að margir akrar blómstri hlið við hlið. Þetta eru vissulega viðhorf sem íslenska Þjóðkirkjan hefur haft í heiðri. Á undanförnum misserum þykir mér Þjóðkirkjan hafa sýnt svo ekki verður um villst að hún þolir gagnrýna umræðu um sjálfa sig í samtíðinni og hún er reiðubúin að horfa opnum augum til framtíðar.

Nýr biskup sagði hér í Hallgrímskirkju í gær að einkenni Þjóðkirkjunnar væri að hún stæði öllum opin. Það er skilningur sem mér þótti koma fram á aðdáunarverðan hátt þegar fráfarandi biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson tók á móti trúarleiðtoganum Dalahi Lama með sameiginlegri athöfn í Hallgrímskirkju. Og sama afstaða og sami skilningur hefur komið fram í starfi innan Samráðsvettvangs trúfélaga en Þjóðkirkjan og þá ekki síst fráfarandi biskup hefur sýnt þessum vettvangi mikla ræktarsemi. Fyrir skömmu var mér boðið að vera viðstaddur móttöku hjá biskupi fyrir fulltrúa allra trúarsöfnuða á Íslandi og var ánægjulegt að finna fyrir umburðarlyndinu og þeim velvilja sem hann sýndi og þar ríkti.
 
Auðvitað aðhyllast margir engin trúarbrögð  - hvorki kristin né nokkur önnur  - telja þau ekki veita svör við gátum lífsins. Margir  leita í smiðju fornra og nýrra heimspekinga, aðrir snúa sér til náttúrunnar og enn aðrir leita fyrst og fremst innra með sér. Sumir jafna samviskunni við guðdóm, röddinni sem býr innra með sérhverjum manni. Sú rödd getur reynst kröfuhörð. Lífsskoðunarfélög á borð við Siðmennt starfa í þessum anda sem mér þykir um margt virðingarverður.
Mér þótti gott að finna hve vel því var tekið af kirkjunnar hálfu þegar ég kynnti nýtt lagafrumvarp um lífsskoðunarfélög. Því miður var það ekki samþykkt í vor en verður vonandi á hausti komanda. Frumvarpið lýtur að því að jafna stöðu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og er í mínum huga brýnt mannréttindamál.

En sem áður segir þá er kirkjan ekki bara boðað orð. Hún er jafnframt stofnun sem veitir fólki atvinnu og veraldlegt skjól. Og kirkjurnar - þar sem kirkjurækið fólk kemur reglulega saman og hinir ókirkjuræknu eru viðstaddir skírnir, fermingar, giftingar og fylgja ástvinum til hinstu hvílu - eru þegar allt kemur til alls, hús sem þarf að hita upp og halda við, orgelið þarf að vera til staðar og í lagi. Efnið og andinn þurfa að fylgjast að. Þetta skildi bændafólkið á Snæfjallaströndinni sem gaf Sigvalda Kaldalóns flygil forðum daga svo hann gæti þjónað tónlistargyðjunni og auðgað þannig menningu sveitunga sinna. Þetta gerði efnalítið fólk að forgangsverkefni!

Á Prestastefnu í Háskóla Íslands  3. maí fyrir rúmu ári hafði ég á orði að sem stofnun hefði kirkjan þurft að sæta miklum niðurskurði eins og aðrar stofnanir í samfélagi okkar. Því miður sæi ekki fram úr þeim þrengingum sem við væri að glíma en án þess að ég vildi  gefa nokkur fyrirheit um framhaldið vildi ég engu að síður bjóða kirkjunni að tilnefna fulltrúa í starfshóp sem skyldi gera grein fyrir stöðu mála, hvernig sú staða  væri til komin og hvaða afleiðingar niðurskurðurinn hefði haft. Þar með væri ég að bregðast við ákalli biskups sem lýst hefði þungum áhyggjum yfir því hvernig komið væri, í formlegu erindi til mín sem ráðherra kirkjumála.
Frá því er skemmst að segja að þessi nefnd var skipuð og skilaði hún álitsgerð sem varð til þess að sú óheillaþróun sem átt hafði sér stað um árabil var stöðvuð og er brýnt á komandi tíð að bæta þá skerðingu sóknargjalda sem var umfram þá skerðingu sem stofnanir almennt höfðu  þurft að sæta.

Um þá hugsun sem þjóðkirkjuhugmyndin byggist á, hef ég oft farið orðum og þá iðulega vísað til mikilvægis kjölfestunnar. Mig langar til að rifja upp tvö tilefni þar sem ég hef gert þetta að umtalsefni. Í ávarpi sem ég flutti í upphafi Kirkjuþings árið 2010 rifjaði ég upp fyrirlestur sem ég hafði hlýtt á um aðskilnað ríkis og kirkju. Fyrirlesari hefði sagt að við hlytum að stefna að fullum aðskilnaði samkvæmt þeirri grundvallarafstöðu að jafnræði skyldi ríkja milli allra trúarbragða. Og hann hélt vangaveltum sínum áfram: Kirkjan ætti að boða kristna trú, sagði hann, hún ætti ekki að hafa með höndum stjórnsýslulegt hlutverk. Það hljóti meira að segja að slæva raunverulegt ætlunarverk trúboðenda. En þar sem ég sat úti í sal spurði ég innra með sjálfum mér: Er þetta með öllu illt, ef niðurstaðan verður sú að gera boðandann/bírókratann meðvitaðan um ábyrgð sína í fjölmenningarlegu umhverfi? Er kirkja sem kappkostar að vera umburðarlynd; kirkja sem skilgreinir það sem hlutverk sitt að veita öllum viðhorfum rými, að virða mannréttindi allra, líka samkynhneigðra - er hún ekki eftirsóknarverðari en ágeng kirkja, slitin úr formlegum tengslum við þjóðfélagið? 

Á fundi sem Innanríkisráðuneytið efndi til í Iðnó 7. mars sl um trúfrelsi kom ég inná svipaða slóð á eftirfarandi hátt: Trú og trúarbrögð geta tekið á sig óæskilegar myndir. Það er verðugt sjónarmið að íhuga hvort þjóðkirkja með breiðan trúarskilning, með prestum menntuðum á dýptina og í anda víðsýni; þjóðkirkja með langa sögu og hefð sem hefur sýnt að hún getur staðið í fararbroddi um menningu og menntir, að ógleymdri samhjálpinni - það er vissulega verðugt sjónarmið -  að íhuga og ræða hvort slík kirkja geti verið trygging fyrir því að trúarþörf manna finni sér síður farveg í öfgakenndum trúflokkum en myndi ella gerast, án hennar - án Þjóðkirkjunnar. Dæmin sanna nefnilega að slæmar og mannfjandsamlegar öfgar fyrirfinnast í flóru trúarlífsins   - og að þær öfgar þrífast best í villtri órækt."

En hvað er verið að fara með þessu? Er verið að biðja kirkjuna um að líta á sig sem eins konar samfélagslegan öryggisventil og þá gagnvart hverju og hverjum? Ógnar þessi nálgun ef til vill eiginlegu hlutverki kirkjunnar eins og hún skilgreinir það sjálf samkvæmt trúnni?

Hinn 3. maí sl. birtist í Fréttablaðinu athyglisverð grein eftir guðfræðingana og prestana séra Sigrúnu Óskarsdóttur og dr. Hjalta Hugason. Þau velta fyrir sér hinu pólitíska ákalli sem víða heyrist um að kirkjan gerist eins konar samfélagslegur öryggisvörður. Og tilefni skrifa þeirra voru sjónarmið í þessa veru sem forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, hafði þá nýlega viðrað gagnvart Ensku biskupakirkjunni.
Greinarhöfundar komust m.a. svo að orði:
„Það sem Cameron raunverulega kallar eftir er að kirkjan finni sig í því hlutverki að vera stofnun eða rammi utan um það sem kalla má borgaralega eða nánast veraldlega trú.." Og greinarhöfundar vara við því að kirkja sem gangi inn í sitt hlutverk á slíkum forsendum verði alltaf framlengdur armur ríkisvaldsins. Og orðrétt: „Ákall Camerons til kirkjunnar kemur okkur við vegna þess að íslenskir stjórnmálamenn skilgreina oft hlutverk kirkjunnar í samfélaginu á sama hátt og hann."
Grein sína enda guðfræðingarnir tveir á ábendingu, sem mér þykir góð og síðan á hvatningu inn í framtíðina.
Ábendingin er áminning um að kirkjan sé í reynd „hluti af langtímaminni samfélags".
Hvatningin var svo aftur sú að kirkjan eigi ekki aðeins að gæta hefðanna heldur þurfi að endurskapa þær við síbreytilegar aðstæður, meðal annars í ljósi fjölhyggjunnar og auðvitað sígilds erindis síns um manngildi og lífsvirðingu. Í slíkri nálgun felist óhjákvæmilega áskorun um árvekni og róttækni.

Mér finnst þetta vera réttmæt sjónarmið, umhugsunarverð fyrir kirkjunnar fólk og stjórnmálamenn að sama skapi.

Í mínum huga vakna fleiri spurningar en ég á svör við þegar trúarbrögð eru annars vegar.
Hvað er að trúa? Gæti verið að trúin væri í eðli sínu mannleg kennd líkt og ótti, reiði, gleði, hrifning? Undan tilfinningum verður ekki komist. Og trúartilfinningin virðist fylgja manninum hvar sem hann er. Skyldi það vera tilviljun?
Í einhverjum skilningi hefur flest fólk leitað til trúar einhvern tímann. Fæst okkar trúa alltaf. Sum okkar þurfa ekkert á trú að halda. Sumir eru hálfvolgir. Þannig kvað Jón Helgason í kvæði sínu Hálfvolgur:

Ef skip mitt í villum um höfin hrekst
og himintunglanna leiðsögn bregzt,
og sjórinn þýtur með þungum niði,
Þín ég leita drottinn.
En þegar hafrænan ljær mér lið
og landið rís yfir hafsins svið,
svo þekkja má hinar þráðu hafnir;
þér ég neita drottinn.

Trú hefur ekki með menntun að gera, ekki heldur vísindin, hún er ekki háð gáfum eða efnum eða tækifærum. Trúin er einsog félagi sem
leggur höndina á öxlina á manni þegar maður er dapur, fordæmir ekki
mistök og er örlát á fyrirgefningu.

Kirkjan sem stofnun er vissulega mannanna verk enda þótt í trúarlegum skilningi kristinna manna  eigi hún sér uppruna í boðskap  Jesú Krists. Kirkjan er umgjörð um lífsþjónustu. Hún er tæki til að taka á móti þeim okkar sem þarfnast aðstoðar í  hörðum  og oft illskiljanlegum heimi.

Ég er hér að fjalla um trúna sem mannlega þörf , ekki sem ytri
opinberaðan sannleika. Og Þjóðkirkjan er vettvangurinn, skipulagið,  - byggingin sem hýsir starfið.

Að því leyti sem kirkjan er mannanna verk, mun hún breytast einsog tímarnir breytast.

Og við lifum nú tímamót í Þjóðkirkjunni og samfélaginu. Mót tvennra tíma. Kirkjan sýnir að hún lagar sig að breytingum og læknar sig af sárum í þeirri trú, von og kærleika, sem er markmið hennar og mælikvarði á hverri tíð.
Ég óska Þjóðkirkjunni, biskupum, prestum og djáknum og öðru starfsliði, að ógleymdu öllu sóknarfólki hennar, farsældar á þeirri björtu braut að vera gifturík íslenskri þjóð og landi.
OJ á prestastefnu 2012
Prestastefna gestir 2012