Fara í efni

Á SÓLTÚNSTAXTA?


Nú er búið að læða stöfunum ehf. fyrir aftan okkar gömlu góðu Heilsuverndarstöð við Barónsstíg í Reykjavík. Snjallt hjá prívatfyrirtæki að kalla sig Heilsuverndarstöðin í Reykjavík. Traustvekjandi nafn! Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra, var gleiðbrosandi þegar hann, ásamt Maríu Ólafsdóttur, yfirlækni Heilsuverndarstöðvarinnar ehf, skrifaði undir samninga ríkisins. Það var við hæfi því það verður ríkissjóður sem mun standa straum af rekstrarkostnaði hlutafélagsins. Morgublaðið sýndi þessa ánægjustund á mynd undir þeirri fyrirsögn að nú byðust  „sveigjanlegir möguleikar á vistun í hvíldarrýmum". Hljómar vel. Nokkuð sem fjársveltar stofnanir hafa gjarnan viljað gera. Á Heilsuverndarstöðinni ehf verður boðið upp á margvísleg úrræði, á meðal annars fyrir geðveik börn. Í öðru dagblaði, 24 Stundum, segir í dag frá nýju fyrirtæki sérfræðinga í geðheilbrigðismálum barna og unglinga sem einnig verður til húsa hjá Heilsuverndarstöðinni ehf við Barónsstíg. Haft er eftir framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Kristínu Kristmundsdóttur, félagsráðgjafa, að það sé mikill kostur að sérfræðingarnir séu undir sama þaki, enda sé þetta „vísir að klínik". Málið sé ekki endanlega frágengið gagnvart heilbrigðisráðuneytinu. Um „tilraunaverkefni" sé að ræða. Sama á við um hvíldarrýmin fyrir aldraða, það er líka sagt að þar sé um að ræða „tilraunaverkefni til sex mánaða". Svipað og með læknaritarana sem verið er að bjóða út. „Útvistun" á störfum læknaritara á Landspítala er líka „tilraunaverkefni" til sex mánaða.
 
Einkavæðing sett í umbúðir „tilraunaverkefna"

Það er mikið um tilraunaverkefni um þessar mundir hjá Guðlaugi Þór, einkavæðingarráðherra Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisráðuneytinu. Vandinn er sá að tilraunir, þar sem pólitísk hugmyndafræði ræður för, hafa fyrirframgefnar niðurstöður og eru því engar tilraunir. Um þessa aðferðafræði við einkavæðingu eru ófá dæmi erlendis frá. Í gær var athyglisverð frétt í 24 Stundum um heilbrigðiskerfið í Bretlandi undir fyrirsögninni  Keppa um sjúklinga. Fréttin er svona: „Töluverð óánægja ríkir á meðal stjórnenda heilbrigðisstofnana í Bretlandi vegna slakrar frammistöðu einkarekinna stofnana. Árið 2003 ákváðu stjórnvöld í Bretlandi að einkareknum sjúkrastofnunum yrði fjölgað með það að markmiði að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu og auka fjölbreytni. Fyrstu 25 stofnununum, sem settar voru á laggirnar, voru eyrnamerktar ákveðnar fjárhæðir á ári til að þær gætu tryggt rekstur sinn, óháð því hversu mörgum sjúklingum þær sinntu þó svo að þau fengju ákveðin fyrirmæli um hversu væri æskilegt að þær tækju á móti.  Í ljós hefur komið að einungis fjórar af þessum 25  stofnunum sinna eins mörgum sjúklingum og þeim er ætlað og sumar þeirra taka einungis á móti um helmingnum af þeim fjölda. Þrátt fyrir þetta fá þær umsamin fjárframlög frá ríkinu og hefur þetta vakið óánægju í opinbera heilbrigðiskerfinu, en stofnanir þess þurfa að keppa um sjúklinga þar sem þau fá greitt eftir fjölda þeirra."

„Samkeppni" í þágu einkaframtaks

Þetta er umhverfið sem Sjálfstæðisflokkur, með samþykki meðreiðarfólksins í Samfylkingunni, er að stefna okkur inn í; samkeppnisumhverfi í heilbrigðismálum þar sem mismunað er á kostnað almannaþjónustunnar og jafnan dreginn taumur einkaframtaksins!
 Ríkisstjórnin veit sem er, að almenningur hefur um þessa stefnu miklar efasemdir. Þess vegna er alltaf talað um „tilraunaverkefni". Yfirleitt gengur þetta þannig fyrir sig að á tilraunatímanum er boðið lágt, vitandi að síðar má komast að betri díl. Þá verða til Sóltúnstaxtar sem eru hærri vegna þess, einsog Ríkisendurskoðun komst að orði þegar hún kannaði hvers vegna hlutafélagið sem stendur að rekstri öldrunarheimilisns Sóltúns fengi meira í sinn hlut af opinberu skattfé en ríkisstofnanir og sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar í ágóðaskyni: Hin síðarnefndu, sagði Ríkisendurskoðun,  "eiga að jafnaði ekki að sýna hagnað af starfsemi sinni. Að sjálfsögðu á slíkt ekki við um hlutafélög og aðra sambærilega einkaaðila á borð við Öldung hf. Forsvarsmenn félagsins hljóta að gera eðlilegar kröfur um hagnað af starfsemi fyrirtækisins."
Þegar „tilraunum" Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, lýkur og samið verður til frambúðar verður fróðlegt að sjá þá samninga sem þá verða gerðir, og á hvern hátt tekið verður tillit til krafna fjárfesta sem þeir hljóta „að sjálfsögðu" að gera  „um hagnað af starfsemi" fyrirtækja sinna.