Fara í efni

Á SÆLUVIKU Á SAUÐÁRKRÓKI

skagafj.1
skagafj.1
Ræða í Sauðárkrókskirkju 30. 04.12.
Mágkona mín var í sveit í Skagafirði upp úr miðri öldinni sem leið og á þaðan góðar minningar. Ein minning hennar er mér svo aftur eftirminnileg; orðin mín minning. Það var þegar hún fór í sveitina á vorin. Í rútunni voru skagfirsk börn og unglingar á leið heim eftir skólavist utan heimahaganna. Þá gerðist það jafnan að þegar komið var þar í Vatnsskarðinu sem Skagafjörðurinn opnast í öllum sínum mikilfengleik, að rútan brast í grát. Þau voru kominn heim. Skagafjarðarbörnin. Og hvílik heimaslóð. Hérðasvötnin, Glóðafeykir, fjörðurinn og eyjarnar, Drangey og Málmey og bráðum mamma og pabbi.

Tilfinningar sem allir þekkja - að koma heim á sínar slóðir, til foreldra og fjölskyldu. Ekki veit ég hvað Hannes Pétursson var gamall þegar hann  kvað sinn ástaróð til Skagafjarðar, en innan við tvítugt mun hann hafa verið þegar hann ávarapði Skagafjörðinn, byggðina í norðri, með sínum bláu dölum:


Bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu
heiður er þinn vorhiminn
hljóðar eru nætur þínar
létt falla öldurnar
að innskerjum
- hvít eru tröf þeirra.

Þöglar eru heiðar þínar
byggð mín í norðrinu.
Huldur býr í fossgljúfri
saumar sólargull
í silfurfestar vatnsdropanna.

Sæl verður gleymskan
undir grasi þínu
byggð mín í norðrinu
því sælt er að gleyma
í fangi þess
maður elskar.

Ó bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu.

Og byggðin í norðrinu á fleira en bláa dali. Andrés Björnsson eldri, bróðir Andrésar Björnssonar yngri, útvarpsstjórans frá Hofi á Höfðaströnd, föðurbróðir hennar Valgerðar konu minnar, kvað um Drangey:

Þar sem norðankaldinn öldum ýtir
inn um fjörð að sléttum mararsandi,
úti Drangey liggur fyrir landi,
lauga hana froðustrókar hvítir.

Gaman er þar oft á blíðum kvöldum
undir bröttum hömrum sitja í skjóli.
Breiða silfurbrú frá Tindastóli
byggir Máni á kvikum mararöldum.

En náttúran á þessum slóðum er ekki alltaf mild og...

Þegar Ægir gyrðist megingjörðum,
grjótið mylur, þyrlar lausum sandi,
þegar Norðri leggur þar að landi
langskipunum hvítu, veðurbörðum,

Þá er tröllsleg útsýn þar við eyna,
andann grípur skelfing þá og hrylling.
Er menn hlusta á hafs og vinda trylling,
hljóða setur flesta eins og steina.

Drangey, fögur ertu eins í hríðum,
og þá sól í logni gyllir fjörðinn!
Tigin, svipstór, eins og ættarjörðin
okkar. Sit þú heil í ægi víðum!

Já, tigin svipstór eins og ættarjörðin okkar...

Það er víða fagurt á okkar landi og í gegnum aldirnar hafa menn keppst við að mæra það sem fagurt er nær og fjær. Oftar nær en fjær. Eðli máls samkvæmt. Og í góðlátlegu gamni hafa menn stundum lagst í meting landshluta í millum. Þegar ég, húnvetningurinn giftist inn í Skagafjörðinn fékk ég stundum að heyra það að Húnavatnssýslan væri nú fyrst og fremst farartálmi á leðininni til fyrirheitna landsins þegar komið var sunnan úr Reykjavík. Ég svaraði vitaskuld fyrir mig og mínar ættarslóðir en ekki gat ég gert það eins vel og afabróðir minn Páll Kolka gerir í Föðurtúnum. Þar setur hann fram skemmtilegan samanburð á Húnavatnssýslunni og sonum hennar og dætrum annars vegar og Skagafirði og Skagfirðingum hins vegar. Þannig var sjónarhorn Páls  að báðir gátu vel við unað samnaburðarfræðinni, húnvetningar og skagfirðingar:
Páll segir:
„Þrátt fyrir þá miklu blóðblöndun, sem orðið hefur milli Húnvetninga og Skagfirðinga á báðar hliðar, þá hefur mönnum alltaf verið ljós sá mikli munur, sem er á skaphöfn manna í þessum tveimur hérðuðum og varla verður útskýrður nema með áhrifum ytra umhverfis og sögulegra erfða. Meginhluti Skagafjarðar er ein samfelld breiða með þéttsettri og víða tvísettri bæjarröð beggja megin Héraðsvatna, auk byggðar í Hegranesi og Vallhólmi. Hérðasvötnin, sem að vísu voru allmikill faratálmi á sumrum, eru hin æskilegasta samgönguleið og skeiðvöllur á vetrum. Þar voru því ytri skilyrði til samfunda og andlegs samneytis miklu betri en í Húnavatnsþingi, sem er skipt í mörg nokkuð jafnstór byggðarlög með strjálbýlli sveit og ógreiðri yfirferðar í miðju, Ásum. Í þéttbýli og margmenni nýtur sín betur en í strjálbýli allur ytri glæsibragur, íburður í klæðaburði, borginmannleg framkoma, létt skap og skáldlegt flug, hvort sem það fer um háloftin eða fast með jörðu. Litklæði og góður vopnabúnaður lagðist af, en fljótur og fjörugur reiðhestur kom í stað þess sem ytra glæsimerki, jafnvel tilsýndar. Skagafjörður setti sitt mót á mennina. Fyrirmyndin þar varð glæsimennið, sem þeysti á fjörugum gæðingi og lét fljúga í hendingum. Utanhéraðsmenn, sem voru fálátari að eðlisfari og ekki eins þjálfaðir í umgengnisháttum, kölluðu slíka framkomu oflátungshátt.
Húnavatnsþing mótaði börn sinn á annan veg. Þar var byggðin dreifðari, landrými meira, jarðirnar stórar og víða gott undir bú. Búreksturinn á stórum og góðum jörðum tók mestan tíma bóndans, ef vel átti að vera. Nábýli freistaði ekki til auðveldra mannamóta nema helzt meðal Vatnsdæla, sem hafa líka jafnan verið hofmannlegastir allra Húnvetninga. Fyrirmyndin hér varð búhöldurinn, sem hafði vit á hagrænum efnum, þurfti ekkert til annarra að sækja né þola neinn ágang af öðum. Einstaklingshyggja og einstaklingsmetnaður þróuðust í þessu héraði flestum öðrum fremur. Húnvetningurinn varð ekki oflátungur, heldur stórbokki."

Þetta er litrík, lifandi og skemmtileg mynd, sem Páll Kolka dregur þarna upp og í góðu samræmi við það sem hann segir á öðrum stað í Föðurtúnum, hve mikilvæg góð dómgreind sé og hæfileikinn til „að geta skoðað sjálfan sig með vissu kímniblönduðu hlutleysi."

Hlutlaus sýn á land og þjóð jafngildir þó ekki afstöðuleysi. Sennilega hefur ekkert skáld verið í eins góðri aðstöðu til að skoða Ísland og íslenskt samfélag úr fjarlægð og Klettafjallaskáldið og Skagfirðingurinn, Stephan G. Stephansson.  Í Ferðaföggum segir hann frá för sinni vestur á Kyrrahafsströnd þar sem margt bar fyrir augu í landslagi og mannlífi. Niðurstaða hans var sú að himnaföðurnum hefði hvergi tekist eins vel upp og á okkar Ísalandi og ekki skyldum við láta margmennið, ríkidæmið eða ytri tákn villa okkur sýn:

Ríkisþjóðir horfa heiminn á
hreppakonungs smæstu augum frá. -
Ég veit land  - þó lægri þyki staður,
leiðin verri og hægðin miður tryggð.
Það á fjöll, sem eru betur byggð.
Drottinn varð þar meiri listamaður.

Ég hef oft átt í samræðum við fulltrúa erlendra stórþjóða heima og heiman um land og þjóð. Oft hefur stærð og fjölda borið á góma. Ég hef stundum sagt í glettni en alvörublandinni  þó, að Íslendingar væru aldrei alveg vissir hvort þeir eru þrjúhundruð þúsund eða þrjú hundruð milljónir talsins. En sennilega skipti það ekki öllu máli hvort væri rétt. Það sem skipti máli í lífi einstaklinga og þjóða, hverjum augum þær litu sjálfa sig - hvort þær byggju yfir sjálfsvirðingu og sjálfstrausti og teldu sig eiga erindi við heiminn. Þetta á við um þjóðirnar og einstkalingana einnig. Þegar allt kæmi til alls værum við öll einhvers staðar frá - af sveitabæ eða úr húsi sem væri í götu, sem væri í þorpi, bæ eða borg.
Þetta skilja allir þegar á það er bent og um það er rætt. Einnig hitt að í smæðinni getur verið fólginn styrkur. Smáþjóð ógnar engum á þann hátt sem stórþjóðir iðulega gera beint eða óbeint með ofríki og yfirgangi sem virðist vera óaðskiljanlegir fylgiskar stórvelda. Fyrr á tíð, á dögum Olofs Palme og félaga, voru Svíar móralskt stórveldi sem bauð öllum byrginn undir óháðum réttlætisfána. Þetta var að sjálfsögðu áður en Svíar gengust Evrópusambandinu á hönd og lögðust undir straujárnið í Brussel þar sem allar misfellur eru jafnaðar í samræmda stefnu í utanríkismálum sem á öðrum sviðum.
Góðu heilli sluppum við með skrekkinn þegar okkur var neitað um aðild að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna haustið 2008. Þangað áttum við ekkert erindi fremur en á vígvelli suður í álfum hvort sem er í Afgansitan, Írak eða Íran. Við eigum hins vegar erindi sem kunnáttufólk og sérfræðingar á sviði jarðvísinda, haffræðinnar eða sem merkisberar í mannréttindamálum. Þar erum við nú að reisa baráttufána. Þessa dagana erum við að hefja skipulega yfirferð yfir alla þá mannréttindasamninga sem við tengjumst á einhvern hátt, staðráðin að láta gott af okkur leiða, bæði hér innanlands og úti í heimi. Við ætlum ekki að reyna að verða best eða fremst í allri veröldinni, heldur gera eins vel og við mögulega getum við að leggja góðum málstað lið. Og ef við vöndum okkur og höfum trú á sjálfum okkur mun okkur takast ætlunrverkið.
Fyrir nokkrum árum - þegar þenslan var í algleymingi, ekki bara hér á landi heldur um allan hinn iðnvædda heim, hitti ég að máli íslenska stúlku sem búsett er í Bandaríkjunum. Ég spurði hvað hún ætlaði að taka sér fyrir hendur í lífinu. Hún hugsaði sig lítið eitt um. Síðan sagði hún mér að ástæða væri til að hafa áhyggjur af því hve margt ungt fólk færi kunnáttulust og ósjalfbjarga út í lífið. Miklu máli skipti fyrir ungmenni að geta lesið og jafnframt þekkt undirstöðuatriði í reikningi. Í Bandaríkjunum útskrifaðist margt ungt fólk úr skóla án þessarar þekkingar. „Það vill svo til," sagði hún síðan svoldið feimin, „að ég á auðvelt með að kenna, og ég held að ég geti orðið að gagni við slík störf." Það tók mig nokkra stund að melta þessa óvenjulegu ræðu, orðinn vanur því að heyra fólk velta fyrir sér framamöguleikum og hve mikið menntun og í framhaldinu störf henni tengd, gæfu í aðra hönd. En þarna var spurt hvernig hægt væri að verða að gagni!
Eitthvað minnti þetta á andann um þarsíðustu aldamót og á 20. öldinni öndverðri þegar Jóhannes úr Kötlum hvatti samferðamenn til dáða:

Hvort sem ég æskuóð
yrki af sannri hvöt,
eða ég yrki vel
ógróinn moldarflöt,
fossar í funheitt blóð
fagnaðarkenndin sterk.
Göfgasta gleði í sál
gefur mér - unnið verk.

Að yrkja ógróinn moldarflöt gefur gleði í sál. Þetta er sú hugsun sem við þurfum að enduvekja. Í stað þess að vilja verða best í heimi, eigum við að kappkosta að gera eins vel og við getum og verða að gagni. Á sínum tíma var ég viðloðandi háskólann í Minneapolis í Minnesota  í Bandaríkjunum um nokkurra vikna skeið. Í bæklingi um skólann kom fram að markmiðið með stofnun hans á sinni tíð og síðan skólastarfinu hafi fyrst og síðast verið að þjóna fólkinu úr nærumhverfinu, þjóna samfélaginu sem best. Nú vill svo til að þessi háskóli er á meðal þeirra allra bestu í heimi - í fremstu röð eins og klisjan segir. En hann varð það vegna þess að hann lagði alúð við þetta grundvallarmarkmið - að vera samfélagi sínu trúr  - ekki fáum útvöldum, heldur samfélaginu öllu.

Þarna er að mínum dómi lykillinn að farsæld. Að vinna samfélagi sínu gagn. Við eigum að spyrja hvers við erum megnug sjálf, án þess að ætla okkur um of, án þess að vilja verða best í heimi. Við eigum að virkja það jákvæða sem við eigum innra með okkur og í mennningararfi okkar, sem hefur vaxið með þjóðinni um aldir og haldist „ókalinn í hreggviðri aldanna" eins og Páll Kolka komst að orði, en Föðurtúnum lýkur hann með þeirri ósk,

Að dragi niðjar dám af móður.
Dafni forn og helgur gróður
.

Íslendingar þurfa á því að halda nú sem aldrei fyrr að losna við alla vanmetakennd; að við stöndum keik og óbuguð. Við þurfum að gæta landsins okkar og ekki láta glepjast af stundarhagsmunum, - stundar gróða. Sigurjón Mýrdal skrifar á heimasíðu mína 11. febrúar síðastliðinn af tilefni sem allir þekkja:
„Það er vitanlega þannig að einkahagsmunir ríma ekki alltaf við hagsmuni þjóðar til lengri tíma. En Grímsstaðamálið fær sífellt alvarlegri ásýnd. Sveitarstjórnarmenn virðast tilbúnir að vera í forystu um að skríða fyrir erlendu auðvaldi. Þeim finnst greinilega að Fjallkonan hafi þörf fyrir lýtaaðgerð. Hún skal fá kínverskt silikon í annað brjóstið hið minnsta. En það kostar, læknirinn með gráa köttinn vill eiga brjóstið, spurnig hvort hann lætur sér nægja að leigja það til langs tíma. Gleymdist að spyrja börn Fjallkonunnar næstu þúsund árin, allar ókomnu kynslóðirnar? Hvernig er það, hvar eru Þingeysku hagyrðingarnir þegar þeirra er mest þörf? (Eða er þeirra þörf nú þegar ódýr kínversk ljóð eru í boði?)".
Þegar landanum hitnar í hamsi eru skáldin ennþá skammt undan. Það er góðs viti. Agætt dæmi um áhrifamátt skáldspekinga er ljóð skagfirðingsins Jónasar Jónassonar sem fæddur var 1879, sennilega að Miðsitju í Akrahreppi þar sem foreldrar hans bjuggu lengst af. Sjálfur bjó hann á fimm jörðum austan Héðraðsvatntna, lengst af á Syðri-Hofdölum. Þegar Stephan G. Stephanson heimsótti Ísland  1917 í boði landa sinna, fagnaði Jónas honum og orti til hans m.a. þetta:

Heill sé þér, víkingur vestrinu frá,
velkominn aftur í Fjörðinn.
Þiggðu nú ljóðin mín listasmá,
lynghríslu undan vetrarsnjá,
er óx upp við óræktarbörðin.

Ég hefi svo mikið að þakka þér,
svo þrotlausan margan greiðann.
Þá myrkrið og vonleysið veittust að mér
og vorþráin grátandi bað fyrir sér,
þá söngstu minn himin heiðan.

Og þegar að íslenska þröngsýnin lá
sem þoka yfir sveitinni minni,
úr sortanum læddist ég, settist þér hjá,
og söngurinn hreimmikli leysti mig frá
að villast með öðrum þar inni.

Þegar Jónasi fannst landar sínir vera þröngsýnir og smáir í hugsun leitaði hann í menninngarsjóðinn. Þar er mikla og þrauthugsaða visku að finna, sem samtíð þeirra Stepphans G. og Jónasar komu ef til vill betur auga á en hraðfleygt fólk á okkar þotuöld gerir. Þetta eigum við að hugleiða. Það besta úr menningu fortíðar á fullt erindi við okkar samtíð og ef við viljum vera landi okkar og þjóð hollráð þá eigum að bera okkur eftir því. Það gefur okkur líka fast land undir fætur; gefur okkur sjálfstraust; gerir okkur að ígildi milljónaþjóðar. Í þessu er enginn óeðlilegur hroki fólginn, því fólk með óbrenglaða dómgreind kann einnig að meta aðra að verðleikum. Sigurður Nordal segir í æviágripi um Stephan G. Stephansson, sem hann skrifaði í Andvökur, úrval ljóða Stephans, sem Sigurður gaf út 1939 og var síðar gefið út af Helgafelli 1959:
„En aðalatriðið fyrir Stephan var að bogna ekki, verða ekki andlega kræklóttur af kjörum sínum, leyfa engum meinsemdum eins og vantrausti á sjálfum sér og ofsjónum yfir annarra gengi að þróast í sínum heiðríka huga og þróttmikla skaplyndi. Þetta var dýrmætasta eign hans, og það var á hans eigin valdi að halda henni óskertri:

því aldrei verður sál mín samt
úr sjálfs míns eigu frá mér dæmd.
   

Þetta skapar mér hugrennigartengsl við litla sögu sem ég segi stundum því mér finnst hún ágæt dæmisaga um mikilvægi hins huglæga í tilverunni
Eins og við þekkjum dafnaði lengi vel og gerir vonandi enn, norður í Þingeyjarsýslu kröftug meninngarvitund, svo kröftug að sumum þótti nóg um þingeyska loftið.
Og hér kemur sagan:
Barnaskóla sótti ég á Melunum í vesturbæ Reykjavíkur. Það var á sjötta áratug síðustu aldar en ég er fæddur árið 1948.  Ég gæti hafa verið í ellefu ára bekk þegar ungur þingeyingur, Guðmundur Bjartmarsson kemur á miðjum vetri í bekkinn. Faðir hans hafði þá um veturinn sest á þing. Það var Bjartmar Guðmundsson frá Sandi í Aðaldal, sonur skáldjöfursins Guðmundar Friðjónssonar. Hinn ungi drengur var feiminn og fremur óframfærinn enda dengt inn í nýtt umhverfi þar sem hann þekkti engan. Í fyrstu fríminuntunum hópuðumst við bekkjarfélagarnir í kringum aðkomudrenginn. Við sýndum honum vinsemd en vorum forvitin. Hvaðan ert þú Guðmundur, var spurt. Ég er frá Sandi, svaraði hann að bragði og nú ekki laust við að drýgindalega væri mælt. Frá Sandi?, var kváð. Hvar í ósköpunum er það? Nú hló Guðmundur, hjartanlega og alveg ofan í maga. Loks stundi hann upp á milli hláturskviðanna, „mikið eruð þið illa að ykkur í landafræði"!
Og þarna stóðum við, á okkar eigin malbiki í Reykjavík, aulalega vankunnandi um sjálfsagða hluti. Við visssum ekki einu sinni hvar Sandur var. Hvílík smán! Valdahlutföllin höfðu breyst. Sveitadrengurinn frá Sandi, nýkominn á malbikið í Reykjavík, hafði nú  sýnt hver var hinn raunverulegi heimsborgari. Við horfðum niður í svart undirlagið. Á leiðinni heim úr skólanum þennan dag, sagði Gunnar vinur minn og hallaði undir flatt: Mikið rosalega er hann klár nýi strákurinn frá Sandi!

Ungur drengur óx af umhverfi sínu og arfleifð sem gaf honum innblástur og sjálfstraust.
Í stað þess að gerast áskrifendur og sérfræðingar í að draga peninga úr sjóðum suður í Brussel  - nokkuð sem sumir landa okkar sjá framtíð í, eigum við að virkja sköpunarkraftinn með sjálfum okkur og nýta okkur þann sjóð menningin er. Í henni er að vísu enga forskrift að finna, en þar er nærandi andagift sem hvetur til dáða. Stephan G. segir á einum stað: „Reglulegur skáldskapur er ekki einskorðun, hann er krafturinn, sem „vekur þúsund þanka", eða ætti að gera það." (Stephan G. Stepansson, útg. Helgafell 1959, bls. 159)

Islandssagan hefur sýnt  - hvernig hið huglæga og smáa getur lifað og dafnað þrátt fyrir andstreyni í grimmum heimi. Ætli nokkur maður hafi orðað þá hugsun eins vel og Halldór Laxnes í ótal tilbrigðum - einsog til dæmis í Kristnihaldi undir Jökli þar sem snjótitlingurinn er ímynd hins smáa í hörðum og óvægnum heimi. Svo mælir Jón Prímus:

„ Í skólakappræðum var stundum lögð fram sú spurning hvort guði sé ekki ómáttugt að skapa svo þúngan stein að hann geti ekki tekið hann upp. Oft finnst mér almættið vera eins og snjótitlingur sem öll veður hafa snúist í gegn. Svona fugl er á þyngd við frímerki. Samt fýkur hann ekki þótt hann standi úti á berangri í fárviðri. Hafið þér nokkurn tíma séð hauskúpu af snótitlingi? Hann beitir þessu veikbygða höfði mót verðinu, með gogginn við jörð, leggur vængina fast upp að síðunum, en stélið vísar upp; og veðrið nær ekki taki á honum heldur klofnar. Jafnvel í versu hrinunum bifast fuglinn ekki. Hann er staddur í logni. Það hreyfist ekki einu sinni á honum fjöður.
Og nú spyr Umbi: „Hvernig vitið þér að fuglinn sé almættið en ekki vindurinn?
Og séra Jón svarar: Af því að frostbylur er sterkasta afl á Íslandi en snjótitlingur vesalastur af öllum hugdettum guðs."(K
ristnihald undir Jökli bls. 113)  „Hvað sem á dynur, snjótitlíngurinn lifir af; stórhríðarnar eru ekki fyr um götur geingnar en hann er orðinn sólskríkja." (ibid bls.230).

Tveir frændur mínir hafa staðið í þeim sporum, sem ég stend í nú í kórdyrum Sauðárkrókskirkju.
Sá eldri er sr. Hálfdán Guðjónsson, sóknarprestur á Sauðárkróki (faðir Helga Hálfdánarsonar, skálds og  þýðanda). Hann var hér prestur, prófastur og vígslubiskup Hólastiftis á árunum  1914-1937.
Sá yngri er sr. Þórir Stephensen, sem var sóknarprestur á Sauðárkróki 1960-1971 en þá fór hann að Dómkirkjunni í Reykjavík.
Á 50 ára afmæli byggðar á Sauðárkróki flutti sr. Hálfdán prédikun og minntist m.a. á húsin þrjú, sem þá voru einna mest áberandi, er komið var inn í bæinn úr suðri, skólann, sjúkrahúsið og kirkjuna. Séra Halfdáni fannst hann sjá í þessum húsum það þrennt, sem hverju bæjarfélagi væri nauðsynlegast til að blómgast og eflast tímanlega og andlega, trúna í kirkjunni, vonina í barnaskólanum og kærleikann í sjúkrahúsinu. Hann bað þess, að störf  þessara stofnana allra mættu blómgast sem best, bæ og héraði til heilla, og þá mundu þeir, sem yrðu hér uppi að næstu hálfri öld liðinni og minntust 100 ára byggðar ekki síður finna ástæðu til að þakka Drottni miskunn hans en þeir gerðu þá.

Á 100 ára afmæli Sauðárkróks gat séra Þórir síðan minnst þess, að kirkjan hafði verið stækkuð og eignast gamla spítalann fyrir safnaðarheimili, barnaskólinn var þá orðinn að tveimur skólum og iðnskóli og tónskóli voru einnig komnir til sögunnar. Sjúkrahúsið var öflug og sívaxandi stofnun. Allt var þetta komið fyrir það, sagði hann, að menn áttu hugsjónir og gerðu þær að veruleika. Á þessum tíma hafi samhjálp Sauðkrækinga verið einstaklega sterk. Ákalli um aðstoð hafi ætíð verið svarað með fórnfýsi og örlæti. Þá minnti séra Þórir á, að eftir því sem bæjarfélagið stækkaði, yrði einstaklingurinn minni hluti af heildinni. Það byði aftur þeirri hættu heim, að einstaklingurinn finndi minna til sín kallað, og að  ábyrgðarkrafan yrði ekki eins sterk. Það mætti ekki gerast og sístæð væri þörfin fyrir trú, von og kærleika í hugarfari okkar, þó bærinn stækkaði og yrði jafnvel að borg. Borgin er þess megnug að gera mikið fyrir íbúa sína, en hún verður það aldrei lengi, ef hætt verður að gera kröfur til einstaklinganna. Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar ekki borgina, vakir vörðurinn til ónýtis. Á þessa leið mæltist frænda mínum, séra Þóri Stephensen, á þessum stað þegar hann minntist eitt hundrað ára afmælis Sauðárkróks.

Hugurinn leitar í ljóð eftir Snorra Hjartarson.
Það heitir  Ung móðir:         

Í yndisleik vorsins
milli blóma og runna
situr ung móðir
með barnið á hnjám sér
andi hennar sól
bros hennar ylhlýir geislar

Rafael í allri sinni dýrð.

Fegurð og góðvild
þetta tvennt og eitt
hvað er umkomulausara
í rangsnúnum heimi
og þó mest af öllu
og mun lifa allt.

Ef til vill hafa menn gert of lítið af því að leita boðskaparins um fegurðina og góðvildina, gleymt því sem skapar hið rétta innihald, það sem er varanlegt og grundvöllur lífshamingju, bæði einstaklings og samfélags. Því eins og snjótitlingurinn í Krsitnihaldinu sem varð sólskríkja eftir að vetrarstormum linnti, þá mun fegurðin og góðvildin lifa allt. Ef við bara viljum.

Mig langar til að ljúka þessum þönkum hér í kirkjunni á Sauðarkróki með ljóði eftir tengdaföður minn, Andrés Björnsson yngri, alnafna bróður síns sem áður var vitnað til en Andrés yngri fæddist árið 1917, skömmu eftir að bróðir hans lést. Ljóðið heitir Að lifa:

Er dagur rís á fætur,
sem dregur allar nætur
á tálar, -
hann geisar fram í veldi
og fer um hugann eldi
og brjálar.

Hann vekur oss af svefni,
þótt viti hann ei hvert stefni
vor hagur, -
og áfram allir þjóta
og upp til handa og fóta.
- Ó dagur!

Í dagsins miklu smiðju
er öflug hönd að iðju,
hún sagar
og hamrar okkur alla,
hvert ósmíð og hvern galla
hún lagar.

En drottinn hefur gert mér
að gera það, sem verst er,
að skrifa
um sviðann, sem það veldur,
að vera dagsins eldur
og lifa.

skag 2
skag 3
skag 4
skag 5