Fara í efni

Á okkar ábyrgð

Í aðdraganda árásarinnar á Írak var efnt til fjöldafunda um heim allan til að mótmæla fyrirhuguðum hernaði. Hér á landi spratt upp öflug hreyfing sem byggði á víðtækri samstöðu, m.a. með aðkomu verkalýðshreyfingarinnar. Kjörorðið, sem ræðumenn tóku sér iðulega í munn var Ekki í okkar nafni. Vildu menn með því móti leggja áherslu á, að árásarstríðið væri ekki í okkar umboði. Þessu ákalli var ekki sinnt og þekkja allir eftirmálann. Ekki var það einu sinni svo gott að íslenska ríkisstjórnin hefðist ekkert að í þessu máli. Hún gerðist beinlínis hvatamaður að ofbeldinu, svokallað staðfast stuðningsríki bandarískrar hernaðarstefnu og árásarinnar á Írak sérstaklega.

Enn eru að koma upp upplýsingar um ofbeldið í bandarískum herfangelsum og nú síðast um að bandarískir herlæknar hafi átt hlutdeild í pyntingunum. Þeir hafi m.a. falsað dánarvottorð fanga sem höfðu verið pyntaðir til dauða. Það hryllilega við þessar aðfarir er hve yfirvegaðar og skipulagðar þær hafa verið. Í fjölmiðlum hefur þetta orðið tilefni til að rifja upp pyntingar í Alsír stríðinu, Víetnam, Afganistan ( sbr. m.a. ágæta grein Helenu Ólafsdóttur í Morgunblaðinu 23. maí sl.) og að sjálfsögðu í hinum alræmdu fangabúðum Bandaríkjamanna í Guantanamo. Bent hefur verið á, að í Ísrael sæti pólitískir fangar úr röðum Palestínumanna hryllilegum pyntingum og birti ég hér að neðan mjög athyglisverða grein úr Morgunblaðinu 16. ágúst sl. eftir palestínska lækninn og baráttumannin Mustafa Barghouti. Hann segir að í mörgum tilfellum sé meðferðin á föngunum í Abu Ghraib fangelsinu í Írak sláandi lík þeim pyntingaraðferðum sem Ísraelar beita. Undanfarið hafi heimsfjölmiðlarnir, segir hann, jafnvel sakað ísraelskar öryggissveitir um að hafa hjálpað til við þjálfun bandarísku "öryggisverktakanna" sem sendir voru til Írak.

Allt er þetta meira og verra en venjulegt fólk hefur ímyndunarafl til að sjá fyrir sér. Ef ekki væru ljósmyndirnar af nöktum blóðidrifnum föngum í Abu Ghraib; leiksoppum brosandi og hlæjandi sadista í bandarískum herbúningum, efast ég um að nokkur legði trúnað á það sem þarna raunverulega hefur gerst. Myndir geta verið áhrifaríkari en orð. Faðir huggar son sinn, heitir myndin sem hlaut World Press Photo verðlaunin í ár. Myndina tók franski ljósmyndarinn Jean-Marc Bouju en hann starfar fyrir Associated Press fréttastofuna.

Myndin er úr fangabúðum í Najaf í Írak og sýnir fanga reyna að hugga fjögurra ára son sinn. Fanginn er látinn hafa hettu yfir höfði sínu en slíkt virðist tíðkast í herfangelsum Bandaríkjamanna, til að draga úr sjálfsöryggi og svipta menn mennskunni. En hve margir skyldu hugleiða þegar þeir horfa á þessa mynd eða svipaðar myndir, að fangarnir eru meðhöndlaðir á þennan hátt á ábyrgð Íslendinga. Hér á síðunni hefur verið oft verið fjallað um vesaldarlega framgöngu þeirra Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra í Íraksmálinu. Þá sjaldan að örlað hefur á tilburðum af þeirra hálfu að ræða mannréttindabrot Bandaríkjastjórnar og leppa þeirra, þá hefur það nánast verið tuldur eitt. Þeir hafa mótmælt í kyrrþey. Það er dapurlegt til þess að hugsa að ákall þjóðarinnar frá því í fyrra, EKKI Í OKKAR NAFNI, skuli hafa verið snúið upp í andhverfu sína. Maðurinn á myndinni hér að ofan drúpir höfði. Hann hefur verið fangelsaður í okkar nafni. Innan gaddavírsins situr hann hjálparvana og á okkar ábyrgð eru brotin á honum mannréttindi.


Morgunblaðið mánudaginn 16. ágúst, 2004

Pyntingar Ísraela verður að afhjúpa

Myndirnar af bandarískum hermönnum að pynta fanga í Abu Ghraib-fangelsinu í Írak hneyksluðu heiminn. Þessar myndir af nöktum og hettuklæddum mönnum komu Palestínumönnum þó ekki á óvart.

Myndirnar af bandarískum hermönnum að pynta fanga í Abu Ghraib-fangelsinu í Írak hneyksluðu heiminn. Þessar myndir af nöktum og hettuklæddum mönnum komu Palestínumönnum þó ekki á óvart. Hjá tugþúsundum Palestínumanna sem dúsað hafa í ísraelskum fangelsum vöktu þessar myndir upp minningar um þeirra eigin þolraunir.

Í mörgum tilfellum er meðferðin á föngunum í Abu Ghraib sláandi lík þeim pyntingaraðferðum sem Ísraelar beita. Undanfarið hafa heimsfjölmiðlarnir jafnvel sakað ísraelskar öryggissveitir um að hafa hjálpað til við þjálfun bandarísku "öryggisverktakanna" sem sendir voru til Írak.

Burtséð frá því hvort eitthvað er hæft í þeim ásökunum, verður heimsbyggðin að horfast í augu við að pyntingar eru hversdagslegur viðburður í Ísrael. Það er ekki nóg að fordæma ódæði þessara bandarísku hermanna, meðan horft er framhjá kerfisbundnum mannréttindabrotum gegn palestínskum föngum.

Rétt eins og Bandaríkin gerir Ísrael tilkall til æðstu siðferðisviðmiða. Þó er ljóst að innan ísraelska hersins og ríkisstjórnarinnar eru aðilar sem telja pyntingar bæði nauðsynlega og ásættanlega aðferð. Það, að hvorugt þessara landa vilji gangast við skilmálum Alþjóða stríðsglæpadómstólsins, getur enn fremur ekki annað en ýtt undir tortryggni heimsbyggðarinnar um að þau vilji gera pyntingar á föngum lögmætar án þess að þurfa nokkurn tímann að svara til saka gagnvart fórnarlömbum þeirra.

Ísraelskur hæstaréttardómur lagði 6. september 1999 bann við nokkrum tilteknum pyntingaaðferðum. Engu að síður hafa þessar aðferðir ekki verið gerðar alfarið útlægar: Úrskurður dómsins gerir þess í stað ráð fyrir heimild fyrir lagasetningu innan þjóðþingsins sem veitir leyniþjónustumönnum vald til að beita þessum pyntingaaðferðum. Dómstóllinn mat aðstæður svo að öryggi Ísraels væri nægilega ógnað til að réttlæta mætti pyntingar af hálfu leyniþjónustunnar.

"Tímasprengju"-afsökunin veitir nú ísraelskum öryggissveitum óútfyllta ávísun á hrottaskap gagnvart föngum í þeirra vörslu - að börnum meðtöldum. Mannréttindasamtök halda því fram að pyntingar hafi færst í aukana og orðið kerfisbundnari síðan í mars 2002. Sáttmáli Ráðstefnunnar gegn pyntingum (Convention Against Torture) er þráfaldlega brotinn eftir því sem herinn læsir klóm sínum fastar um herteknu svæðin.

Ísraelski herinn og lögreglan hafa einnig skilyrðislausan stuðning réttarkerfisins, sem gerir það ókleift að rjúfa hefð ábyrgðarlausrar hegðunar í ísraelskum fangelsum. Almannanefndin gegn pyntingum í Ísrael (Public Committee Against Torture in Israel - PCATI) hefur upplýst að ríkissaksóknari Ísraels hefur veitt hverju einasta pyntingatilfelli samþykki, sem nauðsynlegri öryggisráðstöfun. Hæstiréttur hefur vísað frá öllum 124 áskorunum PCATI um að fangar fái lagalega aðstoð.

Frásagnir þúsunda Palestínumanna bera vitni um alvarlegt skeytingarleysi af hálfu ísraelskra kvalara þeirra. Rétt eins í Írak leyfist hvaða niðurlæging eða misþyrming sem er, fari hún fram undir fölskum merkjum öryggissjónarmiða. Algert hirðuleysi um mannlega reisn og alþjóðalög innan ísraelsks hers og lögreglu vekur undrun jafnt sem viðbjóð.

Þrátt fyrir sönnunargögn um dauða og örkuml fjölda palestínskra fanga, neita Ísraelar því staðfastlega að pyntingar fari fram í fangelsum þeirra. Meira en 7.000 palestínskir fangar sitja um þessar mundir í ísraelskum fangelsum, margir þeirra án ákæru eða réttarhalda. Flestir sæta einhverjum pyntingum áður en þeim er sleppt. Það er óhugnanlegt að horfa til þess að um 650.000 Palestínumenn hafa setið í ísraelsku varðhaldi síðan 1967, flestir þeirra fullorðnir karlmenn. Þetta þýðir að næstum því annar hver fullorðinn palestínskur karlmaður hefur verið fangelsaður.

Pyntingarnar í Abu Ghraib hafa komið við kaunin á Bush-stjórninni. Það sem vantar til þess að afhjúpa og fordæma villimannlega meðferð Ísraela á palestínskum föngum þeirra er myndræn sönnunargögn. Þetta er eini munurinn á þessum tveimur tilfellum, þótt vitnisburðir fyrrum fanga og rannsóknir mannréttindastofnana séu yfirþyrmandi sönnunargögn um sekt Ísraels. Það er ekki nóg að fordæma aðgerðir bandarískra hermannanna í fangelsum Íraks meðan þúsundir Palestínumanna halda áfram að sæta misþyrmingum. Það verður líka að afhjúpa pyntingar Ísraela.

Eftir Mustafa Barghouti

Höfundur er aðalritari Palestínska þjóðarframtaksins (Palestinian National Initiative) og formaður Sambands palestínskra læknishjálparnefnda (Union of Palestinian Medical Relief Committees - UPMRC).