Fara í efni

Á MÁLÞINGI Í SKÁLHOLTI: ÞJÓÐKIRKJAN Í KVIKU SAMFÉLAGSINS

Skalholt -hugleiðingar - oj
Skalholt -hugleiðingar - oj


Í vikunni sem leið, þriðjudaginn 22. ágúst og miðvikudaginn 23. ágúst var mér boðið til málþings í Skálholti sem bar heitið Kirkjan í kviku samfélagsins: Staða, hlutverk og áhrif Þjóðkirkjunnar á 21. öld.

Auk mín gfluttu erindi á málþinginu, Kristján Valur Igólfsson, vígslubiskup í Skálholti, sem setti þingið og annaðist samantekt í lokin, Dr. Michael Bünker, biskup Evangelísku kirkjunnar í Vinarborg og aðalritari Samtaka mótmælendakirkna í Evrópu, Dr. Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við guðfræði – og trúarbragðafræðideild, Háskóla Íslands, Dr. Karl Sigurbjörnsson, biskup, Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur við Neskirkju í Reykjavík, Trausti Fannar Valsson, dósent í stjórnsýslurétti við lagadeild, Háskóla Íslands, Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og Agens M. Sigurðardóttir, biskup Íslands en hún átti lokaorðin og sleit málþinginu.Erindi mitt, sem birt er hér að neðan, bar heitið:
 

ÞJÓÐKIRKJAN Í KVIKU SAMFÉLAGSINS
Hvaða myndir birtast af kirkjunni í samfélagi hinnar líðandi stundar?

Utanfrá og að einhverju leyti innan frá hef ég fylgst með þjóðkirkjunni í vel yfir hálfa öld. Það eru allmörg ár en varla meira en sekúndubrot á þá mælikvarða sem stuðst hefur verið við á þessum stað. En þetta er sú stund sem ég hef lifað og hugmyndin er einmitt sú að fara að tilmælum ráðstefnuhaldara og draga upp nokkrar myndir af þjóðkirkjunni eins og hún hefur birst mér á þessu tímaskeiði. Draga síðan ályktanir og varpa þeim inn í umræðu þessa seminars. Þetta ætla ég að reyna að gera en einhvers staðar í bakgrunninum verða þau Þorsteinn Erlingsson og skáldkonan Hulda:  

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
og norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land,
er duna jarðarstríð.

Það sem ég vildi sagt hafa er að í mínum huga verður íslenska þjóðkirkjan ekki rifin upp úr jarðvegi íslenskrar menningar og veraldlegrar umræðu um gott og slæmt, fagurt og ljótt. Í því hefur verið fólginn hennar styrkur. Myndirnar verða fimm talsins, og eru mín sýn á Þjóðkirkjuna, í fyrsta lagi frá bernskuárum, í öðru lagi á mótunarskeiði tánings og ungs manns sem uppfullur var af áhuga á stríðandi straumum stjórnmála, heimspeki og þá einnig trúmála, unglings sem var farinn að koma auga á heiminn en ekki endilega í öllum blæbrigðum hans og litadýrð. Í þriðja lagi ímynd þjóðkirkjunnar í huga fréttamanns, sem vildi greina heiminn og skilja, en átti auk þess í samstarfi við kirkjuna heima og heiman; í fjórða lagi verður mynd af kirkjunni kljást við breytta tíma. Fimmta myndin sem ég bregð upp er af kirkjunni eins og hún biritst okkur nú um stundir og þau málefni sem hún glímir við og staðnæmist ég hér við raunveruleg dæmi en að lokum mun ég í fáum orðum setja fram hugleiðingar um hlutverk og ábyrgð kirkjunnar.

Nú vil ég taka það fram að ég hef aldrei verið mjög nátengdur innra starfi kirkjunnar og mínar hugmyndir kunna í einhverjum tilvikum að stangast á við veruleikann. Þess vegna ítreka ég að myndirnar sem ég varpa fram eru mér bundnar og byggja á mínum skilningi eða misskilningi eftir atvikum.
 

1) Í bernsku minni birtist kirkjan mér sem óaðskiljanlegur hluti tilverunnar. Hún var þarna eiginlega eins og Esjan, gat ekkert verið annars staðar en þar sem hún var. Hún hlaut að vera til staðar sögu sinnar vegna og þeirrar félagslegu og menningarlegu hlutdeildar sem hún hafði átt, og átti enn, í  þjóðlífinu. Almennt var Þjóðkirkjan og tilverugrundvöllur hennar ekki véfengdur. Einhverjir vildu enga trú og enga kirkju, aðrir vildu vera í fríkirkju eða kaþólskri kirkju en samkeppnin um sess Þjóðkirkjunnar var engin, aðrir hópar og söfnuðir voru á jaðrinum í samfélagsbyggingunni  og reyndu aldrei að vera þar á fleti sem Þjóðkirkjan var.Stærstu stundir lífs og dauaða tengdust kirkjunni og kirkjunnar þjóanr komu inn í skólana með boðskap sinn og tók fólk þessu almennt sem eðlilegum hlut. Þetta var mynstrið þrátt fyrir allar undantekningrnar. Kirkjan gaf fá tilefni til deilna um tilveru sína og sess í þjóðlífinu því almennt var hún óágeng, lét fólk í friði, ekki bara utan síns húss heldur líka í kirkjunni sjálfri, í athöfnum þar. Í endurminningu minni heyrði til undantekninga að söfnuður væri látinn standa upp til að fara með trúarjátninguna og framan af ævi minni voru altarisgöngur fátíðar, einnig við fermingar. Að lokinni fermningu var í minni sókn boðið upp á altarisgöngu nokkrum dögum eftir ferminguna, en við athöfnina sjálfa gekk fjölskyldan ekki til altaris. Tilgáta mín er sú að öllum félagslegum þrýstingi til beinnar þátttöku hafi meðvitað verið haldið í lágmarki. Í almennum athöfnum vildi kirkjan rúma alla - enda þjóðkirkja.
En hvar var þá kristnin í hinni kristnu Þjóðkirkju? Erum við ef til vill að tala um heimilisköttinn ljúfa, sem engan áreitti, varla einu sinni mýsnar, og malaði svo værðarlega að öllum þótti vænt um hann?
Nei, við erum að tala um kirkju sem vissi að hún mátti aldrei verða viðskila við íslenskan veraldlegan menningarf, sem vissi af Þorsteini Erlingssyni og af líkum móður minnar sem sjaldan kom í kirkju en kenndi börnum sínum allt um mátt bænarinnar og heilræði séra Hallgríms. “Amma var mjög trúuð kona,” skrifaði barnabarn hennar í eftirmælum um hana, “en aldrei man ég eftir því að hún talaði um trúarbrögð.”

Martin Lúther vísaði í ritum sínum ekki til kirkjunnar, heldur til safnaðarins. Helstu mótendur íslenskrar trúarhefðar eftir Siðaskiptin voru þeir Hallgrímur Pétursson sálmaskáld og Jón Vídalín, Skálholtsbiskup, höfundur Vídalínspostillu, sem mun hafa verið mest lesna bók á Íslandi á 18. öld og vel inn í þá 19. Um þessa andans menn skrifaði fyrrum prófastur á Reynivöllum í Kjós, séra Gunnar Kristjánsson, í blaðagrein fyrir nokkrum árum, að þeir hefðu átt það sameiginlegt að hafa farið sparlega með hugtakið kirkja. Tilvísun til kirkjunnar hafi þannig ekki verið að finna í Passíusálmunum og í Vídalínspostillu hafi verið talað um “kristna menn” og “kristindóminn”. Þegar kirkjan hafi komið þar við sögu hafi það verið “Guðs kirkja í mannanna hjörtum.”
Kirkjan var þannig lítt stofnanalega þenkjandi og það sem meira var, kirkja sem leit á sig með þessum hætti, kallaði á velvilja. Tilfinningin var sú að hún væri að safna liði um velviljann – ekki um sjálfa sig – heldur ofar öllu til að innræta góða breytni og efla hið göfuga innra með okkur. Það ætti síðan að vera hverjum og einum í sjálfsvald sett hve langt hann gengi inn í heim trúarinnar.  

2) Þetta var reynsla drengsins unga. Svo komu unglingsárin og síðan menntaskólinn og háskólaárin. Trúrbrögð, hvílík della! Þetta voru ár uppreisnar, endurmats; óvæginnar endurskoðunar á öllum viðhorfum og gildum.  Nú var sagt skilið við kirkjuna – skilnaður við hana að borði og sæng, annað var ekki á dagskrá og ekki kom til greina að gifta sig frammi fyrir presti, hvað þá í kirkju. En að borði og sæng sagði ég. Við rúmsængina mína hékk á veggnum lítið blað sem móðir mín hafði sent mér yfir Atlantsálana þar sem ég var við nám. Á blaðið hafði hún skrifað upp kvæði Jóns Helgasonar um hinn hálfvolga mann þar sem hið lífsreynda skáld varar við hroka og sjálfbirgingshætti og hve mikilvægt það sé að geta leitað ásjár þegar
“ …skip mitt í villum um höfin hrekst,
og himintunglanna leiðsögn bregst,
en sjórinn þýtur með þungum niði ...”
 

3) Á fréttamannsárum mínum, sem hófust vorið 1978 og stóðu fram á haust 1988, kynntist ég kirkjunni á nýjum forsendum og kannski var kirkjan að gera það sjálf líka, að kynnast sjálfri sér eina ferðina enn í breyttum tíðaranda, því á ýmsa lund stóð kirkjan frammi fyrir nýjum veruleika á þessum árum. Hún var orðin gerandi í harðvítugustu stjórnmálaátökum frá lokum heimsstyrjaldrinnar seinni. Friðarhreyfingin í Evrópu, einkum í Þýskalandi, var að verulegu leyti borin uppi af einstaklingum tengdum kirkunni. Hönd í hönd efndu þeir ásamt fulltrúum verkalýðshreyfingar og friðar- og mannréttindahópa, til mótmæla gegn vígbúnaði. Krafan var afvopnun, og þó kannski fyrst og fremst krafa um að Vesturveldin féllu frá áformum um að koma á nýju kjarnorkuvopnakerfi í Vestur-Evrópu.
Austan múrsins sýndu hróðugir ráðamenn í fjölmiðlum sínum milljónirnar fara um götur bæja og borga til að andæfa stjórnvöldum. En það sem ekki var vitað á þeim bæjunum á þeirri stundu var að þar með hafði verið sáð fræjum sem síðar áttu eftir að bera þann ávöxt hjá þeim sjálfum heima fyrir sem þeir síst hefðu kosið. Ég er sannfærður um að það voru fjöldahreyfingar níunda áratugarins og sú vakningaralda sem þá reis en ekki vígbúnaðarkapphlaupið með sínu ógnarjafnvægi, sem á endanum varð þess valdandi að járntjaldið féll.
Þjóðfélagið allt var komið á hreyfingu og hafði nú komið auga á samtakamáttinn til að hrista af sér fjötra og bönd.

Kirkjan sem gerandi í þessum átökum fékk að finna til tevatnsins – ekki þarf mikla yfirlegu yfir fjölmiðlaumræðu þessara ára, ekki síður hér á landi en erlendis, til að skilja það.
Þeir sem höfðu afskrifað kirkjuna sem gagnslausa í þjóðfélagsátökum samtímans hlutu nú að endurskoða afstöðu sína, jafnframt því sem menn beindu nú sjónum að Rómönsku Ameríku þar sem prestar stóðu í róttækri þjóðfélagsbaráttu með biblíuna á lofti. Frá þessu sögðum við daglega í fréttum af grimmilegum og blóðugum átökum í El Salvador og Níkaragúa. Og einnig því að í fátækrahverfum Brasilíu hvettu prestar til pólitískrar vitundarvakningar og vildu betra líf fyrir örsnauða alþýðu.

Sem fréttamaður kynntist ég starfi Alkirkjuráðsins sem hélt þing hér á landi sem ég sagði fréttir af. Þar sveif róttækur byltingarandi yfir vötnum. Í Bandaríkjunum hafði presturinn frá Atlanta, Martin Luther King, - og nafnið var engin tilviljun – tendrað baráttuanda í hjörtum milljónanna með draumsýn sinni um mannréttindi og samkennd allra manna. Og arftaki hans í andanum var Desmond Tutu biskup sem var í fararbroddi baráttunnar gegn Apartheid í Suður-Afríku. Hann stóð fyrir róttækasta uppgjöri við hið illa, sem sögur fara af á vettvangi valdastjórnmála. Þegar kúgararnir höfðu gefist upp
var settur á laggirnar dómstóll sem hét sættir og sannleikur. Þar gátu hinir ofsóttu kært kúgara sína og réttað var í málinu. Þegar sannleikurinn hafði komið í ljós, þá var reynt að sættast við hið liðna og fyrirgefa í hjarta sínu.
Þetta er sú bylting sem boðuð var fyrir tvö þúsund árum, að bjóða hinn vangann.
Þetta er að treysta á kærleikann.   

Í hugum okkar margra sem litið höfðu kirkjuna hornauga höfðu þessar hrærirngar og öll þessi barátta smám saman rofið pólitíska einangrun hennar. Svo var það í mínum huga. Hún var ekki lengur bara pússaðir skór og pressaðar buxur, íhaldssöm stofnun, ógagnrýnin á status quo, hún var, þegar allt kom til alls, ekki værðarlegur heimilisköttur.

Í erindi sem ég flutti árið 1992 á vegum Kjalarnessóknar lýsti ég hughrifum mínum eftir að ég hafði komið auga á þennan þráð sem ég nú ólmur vildi að yrði áfram spunninn  “… minnumst þess að boðskapur kristinnar trúar á sér mjög ríka félagslega og pólitíska skírskotun sem kirkjan verður að hafa kjark til að horfast í augu við. Boðskapur kirkjunnar felur í sér hvorki meira né minna en kröfu um algera uppstokkun á því verðmætamati sem almennt viðgengst í mannlegu samfélagi varðandi auð, völd, stöðu og virðingu. Að mínu mati getur kristin kirkja ekki komist hjá því – og á ekki að reyna að komast hjá því – að taka afstöðu til þeirra mála samfélagsins sem brenna hvað heitast á okkur. Það er þó ekki kirkjunnar hlutverk að finna hinar tæknilegu lausnir. Til þess höfum við stjórnmálaflokka. En kirkjan á að leggja sitt af mörkum til þess að til verði vilji til að leysa mál á réttlátan hátt,” og bætti síðan við að þetta yrði hún að gera “á eigin forsendum”.

Eftirminnilegar eru ferðir mínar með fulltrúum Hjálparstofnunar kirkjunnar til Póllands og Eþíópíu þar sem ég kynntist fórnfúsu fólki í uppbyggingarstarfi og síðast og ekki síst til fjallahéraðanna á landamærum Afganistans og Pakistans. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég hugleiddi þann boðskap sem í því var fólginn að íslenska kirkjan skyldi ráðast í stórátak til að safna fé fyrir þurfandi fólk í landi trúarbragða sem okkur voru framandi.        

4) Ég er komin að fjórðu myndinni sem ég vil staðnæmast við: Kirkjan á breyttum tímum. Margt hefur breyst í umhverfi kirkjunnar en tvennt vegur þyngst og ætla ég að láta nægja að koma þessu tvennu inn fyrir ramma þessarar myndar. 
Í fyrsta lagi þá reis mikil bylgja undir aldarlok með kröfu um aðskilnað ríkis og kirkju. Samkomulag náðist á Alþingi árið 1997 þar sem skákað var eignum kirkju til ríkis á móti skuldbindingum um fjárframlag úr ríkissjóði til reksturs kirkjunnar. Þá fékk kirkjan samkvæmt þessu lögfesta samkomulagi, full ráð yfir sínum innri málefnum.
Alla tíð hef ég efast um varanleika þessa samkomulags sem þarna var gert af góðum hug.
Í fyrsta lagi hefur mér aldrei þótt eignakrafa kirkjunnar hvíla á traustum siðferðilegum grunni og kirkjan varla geta byggt tilveru sína til langrar framtíðar á slíkri kröfu eða samkomulagi á henni reist. Kirkjan – þjóðkirkjn - eðli máls samkvæmt komst yfir eignir stöðu sinnar vegna, sem inngróinn hluti af stofnana- og valdakerfi landsins. Breytist það kerfi hlýtur eignastaðan að taka samsvarandi breytingum en vel að merkja, hér talar ekki einn af helstu talsmönnum einkaeignarréttar!
Svo er á hitt að líta, að kirkjan má ekki afsala sér aðstöðunni – sem kirkjujarðirnar óneitanlega er - og þar með forsendum til að reka starfsemi sína um landið allt.
Ef sjálft kirkjustarfið dregst saman þarf að finna menningarlegt hlutverk þar sem hinni sögulegu arfleifð er sýndur tilhlýðilegur skilningur og hann fléttaður inn í menningar, sagnfræðilegt, heimspekilegt, siðfræðilegt og trúarlegt starf í samtímanum. Og til þessa ætti að nýta hin gömlu prestsetur. Þá er ég að hugsa um þau Þorstein Erlingsson og Steinunni Sigurðardóttur við skriftir – nöfnu hennar Jóhannesdóttur einnig - , séra Gunnþór að rýna í keltneska trúarhugsun og Sigurbjörn biskup að skrifa tíubinda trúarheimspeki sína. Ég veit ekki hvar núverandi vígslubiskup í Skálholti, séra Kristján Valur ætlar að láta bera niður en andans menn, fræðimenn og listamenn á að virkja og veita þeim athvarf til fræðastarfa og til listsköpunar á kirkjustöðum landsins.
Reykholt þykir mér stórkostleg áminning um hvað gera má, hvernig gæða má kirkjusetrin lífi, sem síðan smiti út í samfélagið. Og er ég þá ekki að tala um kirkjujarðir sem áfram verða setnar prestum, vonandi með óskert veiðiréttindi, dúntekju og fjörug stóðhross sín. Ég era ð tala um menningarsetur með víðfeðmu hlutverki.
Áhyggjuefnið til að þetta megi ganga upp er hins vegar hvort Geirarnir Waage, bæði innan kirkjunnar og utan, gerendurnir sem þurfa að vera til staðar og allt veltur á, ekki bara í Reykholti heldur um landið allt, verði nógu margir og kröftugir. Um þessa hugsun þarf að safna liði!     

En varðandi aðskilnað ríkis og kirkju eða öllu heldur samband ríkis og kirkju, þarf miklu meira að koma til en samkomulag um bókhald. Það þarf raunverulega samfélagssátt ef samkomulag á að halda og verða varanlegt.
Sá aðskilnaður sem mætti hins vegar eiga sér stað, er hugsanlega að einhverju marki, aðskilnaður hins veraldlega og andlega innan kirkjunnar svo frelsa megi biskupinn frá því að deila við kirkjumálaráðherrann og fjármálaráðherrann um sóknargjöld – það væri á könnu hinnar veraldlegu deildar. Þetta er hins vegar flókið mál sem utanaðkomandi maður á að segja sem minnst um.

Hitt atriðið sem ég vildi ræða, hvað varðar þjóðkirkjuna í samtímanum er fjölmenningin, sem hafið hefur innreið sína með miklum vængjaþyt.

Þegar stóriðju-uppbyggingin stóð sem hæst austur Fjörðum upp úr aldamótunum, minnist ég að hafa heyrt skondna en um leið umhugsunarverða sögu. Verktaki nokkur hafði ráðið um tug Pólverja til starfa. Vildi hann gera vel við þá í hvívetna. Á meðal annars vildi hann auðvelda þeim að læra íslensku og vildi hann styrkja þá til þess að sækja námskeið í vinnutímanum á fullum launum. Pólverjarnir kunnu vel að meta þennan velvilja en urðu þó hugsi. Komu þeir til vinnuveitanda síns og sögðust hafa hugleitt málið. Væru þeir með tillögu. “Við erum tíu, þú ert einn. Við leggjum til að þú lærir pólsku, það væri auðveldara.”

Höfum við hugleitt það í alvöru, að svo gæti farið innan skamms tíma að íslenska verði minnihlutamál á Íslandi? Og hvað með þjóðkirkjuna? Yrði hún þjóðkirkja í eiginlegri merkingu ef minnihluti landsmanna væri innan vébanda hennar? Mér þótti kirkjan sein til að taka þessa spurningu alvarlega og afstaða sumra presta og stjórnmálamanna til trúboðs í skólum hefur að mínu mati borið þess vott. Hér þarf nefnilega að hugsa langt fram í tímann og af fyrirhyggju. Eitt er ljóst: Viðhorfin frá æskudögum mínum, sem ég lýsti hér fyrr til óumdeildrar þjóðkirkju, eiga alls ekki við í dag.

Mig langar til að vitna í ræðu sem ég flutti í upphafi kirkjuþings í nóvember árið 2010, rétt eftir að ég varð ráðherra kirkjumála. Þar kom ég inn á þetta efni, og voru ávarpsorð mín á meðal annarra þessi:
  Íslenskt þjóðfélag tekur örum breytingum. Þær breytingar endurspeglast á meðal annars í viðhorfum til trúarbragða og stofnana sem þeim tengjast. Talað er um að skilja að ríki og kirkju - að fullu, höggva á öll tengsl. Spurt er hvort trúarbragðafræðsla eigi heima í skólum og þá hvernig og í hvaða mæli. Eiga allir að sitja við sama borð? Kristin trú, Islam, lífsskoðunarfélög, Búddismi?

Hvert viljum við stefna? …


… Kirkjan er hluti af heild. Þegar rætt er um samskipti ríkis og kirkju þarf að spyrja hvernig við viljum haga samskiptum ríkis og trúarhreyfinga almennt í framtíðinni. Ef hugsunin er sú að réttlætinu verði þá fyrst fullnægt að öllum trúarbrögðum og trúflokkum verði tryggð sama aðstaða og stuðningur og kristin kirkja hefur haft þegar best hefur látið, þá gæti þessi nálgun leitt til meiri stofnanalegrar trúvæðingar í samfélaginu en við höfum þekkt til þessa. Hin varfærnari og þess vegna íhaldsamari nálgun byggir á því að draga fremur úr en bæta í. Þar er ég á báti.
Þau viðhorf eru allfyrirferðarmikil, ekki aðeins innan Þjóðkirkjunnar heldur í ýmsum trúarsöfnuðum að of langt sé gengið í því að úthýsa trúarbrögðum út úr daglegu lífi skólans.  Þau viðhorf heyrast viðruð að ganga eigi í gagnstæða átt og að trúarlíf eigi að fá ríkulegri aðgang að stofnunum, skólum og öllu opinberu lífi en nú er. Þessi viðhorf eru síður en svo einskorðuð við einhver ein trúarbrögð. Það ber þjóðkirkjunnar mönnum að hafa í huga. Víða erlendis eru það einmitt annarrar trúar menn en kristinnar trúar sem halda þeim á loft. Verði okkur úthýst úr skólum og stofnanalífi, segir þessi hópur, hljótum við, með hliðsjón af þeim grunnreglum sem halda ber í heiðri um trúfrelsi og virðingu fyrir rétti minnihlutahópa, að fá að stofna sérstaka skóla með áherslu á okkar trúarbrögð með öflugum styrk frá ríkinu og ekki minni en almennir skólar fá …
… Allt er þetta vandmeðfarið og línur ekki alltaf skýrar. En hvar drögum við mörkin á milli trúarlegs efnis annars vegar og efnis sem flokka má undir almenna hefð en með trúarlegu ívafi? Þegar talað er um að leggja niður kirkjuna sem þjóðkirkju þá finnst mér stundum að menn séu að tala um hið ómögulega. Við hvorki viljum né getum lagt niður þjóðkirkjuna í þeim skilningi að hún er saga okkar í þúsund ár. Hún er menning okkar og hefð. Hvað með Heilræðavísur Hallgríms Péturssonar svo dæmi sé tekið? Getur verið að einhverjum sé það virkilega alvara að láta banna að hafa þær fyrir börnum? Hér væri ekki aðeins verið að úthýsa trúarlegu efni heldur gamalagrónum heilræðum og menningararfi.
Hafðu hvorki háð né spott
hugsa um ræðu mína
elska guð og gerðu gott
geym vel æru þína.

Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á fyrirlestur um aðskilnað ríkis og kirkju. Fyrirlesari sagði að við hlytum að stefna að fullum aðskilnaði samkvæmt þeirri grundvallarafstöðu að jafnræði skyldi ríkja milli allra trúarbragða. Og hann hélt vangaveltum sínum áfram: Kirkjan á að boða kristna trú, sagði hann, hún á ekki að hafa með höndum stjórnsýslulegt hlutverk. Það hljóti meira að segja að slæva raunverulegt ætlunarverk trúboðenda. En þar sem ég sat úti í sal spurði ég innra með sjálfum mér: Er þetta með öllu illt, ef niðurstaðan verður sú að gera boðandann/bírókratann meðvitaðan um ábyrgð sína í fjölmenningarlegu umhverfi? Er kirkja sem kappkostar að vera umburðarlynd; kirkja sem skilgreinir það sem hlutverk sitt að veita öllum viðhorfum rými, að virða mannréttindi allra, líka samkynhneigðra - er hún ekki eftirsóknarverðari en ágeng kirkja, slitin úr formlegum tengslum við þjóðfélagið? 
Svar mitt er játandi. Og þetta er skýringin á því hvers vegna ég vil fara varlega í sakirnar í öllum breytingum á þessu sviði, fyrst og fremst til að ná því markmiði sem ég nefndi í upphafi máls míns, að skapa víðsýnt og umburðarlynt samfélag. Það á að mínu mati að vera okkar leiðarljós í hvívetna.
Þetta breytir því ekki að kirkjan á að vera brennandi í andanum, ætíð trú sínum boðskap, óhrædd og óbugandi, siðferðilegur vegvísir sem aldrei bregst sem slíkur, kjölfesta og klettur, ætíð til að reiða sig á í sviptivindum samtímans.”

5) En hvernig verður kirkjan best trú sínum boðskap og er þar komið að fimmta þættinum í máli mínu. Hann snýr að þeim viðfangsefnum sem mér þykja brenna heitast á okkur í samtímanum. Ég ætla að staðnæmast við þrjú: Misréttið, umhverfið og málefni hælisleitenda.

Misrétti og efnaleg mismunun er að múnu mati alvarlegasta meinsemd okkar tíma og má með nokkrum sanni segja að ójöfnuðurinn í heiminum sé mun verri en umhverfisváin. Sú vá getur að vísu gengið að mannkyninu dauðu en verri getur hún ekki orðið en svo að hún geri einmitt það, slökkvi á okkur öllum, ranglátt líf er þar sýnu verra.
En hvað er orsök og hvað er afleiðing þegar ójöfnuður er annars vegar. Maður af mínu pólitíska suaðahúsi vísar í markaðshyggjuna, aðrir myndu líta á hana sem drifkraft framfara. Ég vísaði til Bretlands í framangreindri umræðu á Kjalarnesi árið 1992 þegar ég sagði frá glímu ensku Biskupakirkjunnar við það sem ég vil meina að hafi verið afleiðingar Thatcherismans, græðgi og grimmd þeirrar stefnu. En á svo einfaldan og yfirborðslegan hátt tók kirkjan ekki á málinu – enda engan veginn einfalt mál  -  heldur einkenndist níundi áratugurinn í starfi hennar af rannsóknum og umræðu um misréttið og hvernig taka mætti á því. Kirkjan leit á það sem sitt hlutverk að draga málefnð fram í dagsljósið, kveikja áhugann og sjá fyrir sjónarhorninu; sjónarhorni réttlætis, í stað þess að samfélagið sæti uppi með fordæminguna eina.
Viðfangsefnið var að hafa áhrif á alla, breyta tíðarandanum. Þannig skildi ég það.

Það er nákvænmleg þetta sem mér virðist vera að gerast hvað umhverfismálin áhrærir. Biskupsstofa hefur unnið gott starf í samráði við umhverfisöflin innan Alþjóðakirkjunnar og hafa komið – og eiga enn eftir að koma -  færustu menn til að stuðla að upplýstri og vekjandi umræðu um þetta efni. Að þessu hef ég átt óbeina aðkomu.

Kem ég þar að þriðja þættinum, málefnum hælisleitenda.
Vandi þeirra og vandi okkar sem höfum þurft að taka á málefniniu er margslunginn og erfiður viðfangs.
Við hrífumst af því og eigum að hrífast af því þegar einstaklingar og stofnanir rétta landflótta fólki hjálparhönd og hef ég fylgst með og dáðst af starfi manna á borð við séra Toshiki Toma, sem óþreytandi hefur barist fyrir einstaklingum sem hingað hafa hrakist af völdum stríðs eða ofsókna vegna skoðana eða kynhneigðar. Sjálfur á ég góðan vin í London, það er kaþólskur prestur, sem opnað hefur heimili sitt fyrir einstæðum erlendum mæðrum á vergangi með börn sín. Hefur honum verið að mæta, í allri sinni tveggja metra hæð, þegar “kerfið” hefur viljað vísa þessu vegalausa fólki úr landi.Svipuðum tilfininigum lýsir einnig Margrét Tryggvadóttir, fyrrum þingkona í grein sem birtist á vefritinu Herðubreið í júli í fyrra. Þar segir hún frá því að hún hafi sagt sig úr þjóðkirkjunni á sínum tíma vegna afstöðu kirkjunnar til hjónabanda samkynhneigðra. Hún hafi litið á það sem mannréttindabrot.

Síðan heldur Margrét áfram og segir:
„Síðustu daga hefur þjóðkirkjan hins vegar tekið virka afstöðu sem skiptir máli og í leiðinni sýnt að hún getur sannarlega verið afl til góðs og skipt sköpum í baráttu fyrir mannréttindum þeirra sem minnst mega sín. Þegar prestar Laugarneskirkju ákváðu að láta reyna á kirkjugrið fannst mér það bæði ákaflega sterk og falleg aðgerð og ja … einmitt það sem kirkja ætti að gera. Standa með fólki, óháð stöðu og uppruna. Standa með mennskunni, ekki síst á erfiðustu stundum fólks. Standa með mannkyninu og gegn stofnunum valdsins. Ég veit líka að fyrst þjóðkirkjan, sem meirihluti kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 vildi að nyti sérstakrar stöðu í stjórnarskrá, tekur afstöðu í þessu stóra og vandasama máli, afstöðu með flóttamönnum en ekki útlendingastofnun, innanríkisráðuneytinu (sem hún þó heyrir undir) eða lögreglunni, þá styttist mjög í mannúðina.
Í kjölfarið hafa nokkrir fúlir karlar sagt sig úr þjóðkirkjunni eða hótað að gera það. Til mótvægis ákvað ég því að ganga í þjóðkirkjuna og það gerði ég nú í kvöld.“

Fúlu karlarnir, sem Margrét nefnir svo, voru meðal annars vararíkissaksóknari sem vildi að prestarnir sem í hlut ættu, fengju áminningu í starfi fyrir kirkjugriðin. Lögreglan væri að framfylgja ákvörðunum yfirvalda, byggða á landslögum. Og innan lögreglunnar voru líka menn sem sárnaði að vera stillt sem fasistum fyrir að framfylgja lýðræðislega settum lögum.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands stóð hins vegar staðföst með prestunum, yfir ofbeldi ættu þeir ekki að þegja. “Það er ofbeldi”, sagði biskup við fjölmiðla, “að ryðjast inn í kirkju og draga fólk þaðan út. Það er ekki hægt að þegja yfir því“.
Biskup lagði áherslu á af þessu tilefni að kirkjan hlyti að taka afstöðu með þeim sem standa höllum fæti þótt ekki stæði til að brjóta lögin og ekki ætlaði kirkjan í stríð við yfirvöld. En, þessi sjónarmið gæti reynst erfitt að sætta sagði biskup ennfremur og kallaði eftir samræðu við þær stofnanir sem koma að málefnum flóttamanna.

Fyrr á þessu ári fór ég til Tyrklands, langt inn í austurlutann, í Kúrdahéruðin, og sá þar með eigin augum hvernig tyrkneski stjórnarherinn hafði leikið þessar byggðir og hve grimmileg mannréttindabrot hann hafði framið. Hundruð þúsunda manna voru á vergangi af þessum sökum. Þarna voru flóttamenn morgundagsins í Evrópu og þá hugsanlega á Íslandi einnig. En hvernig eigum við að bregðast við? Harma hlutskipti fórnarlamba ofbeldisins og reyna síðan að gera þeim lífið bærilegt? Eða ætlum við að fordæma tyrknesk stjórnvöld eða kanski NATÓ, sem lægi beinast við, því ákveðið var á fundi þar sem fulltrúar Íslands sátu, að hernaðarbandalagið myndi sjá í gegnum fingur sér hvað varðar ofbeldisverk tyrkneska hersins því aðrir hagsmunir vægju þyngra. Að ósi skal á stemma, segir hið fornkveðna. Á það ekki lengur við? Ætlum við að láta sitja við það eitt að hjálpa fórnarlömbunum þegar skaðinn er skeður? Fullnægir það réttlætiskenndinni að hlúa að fórnarlambinu en láta gerandann í friði? Hver vill hrekjast frá heimkynnum sínum? Og hver vill verða drepinn í drónaárás þar sem árásarmaðurinn er í þúsund milna fjarlægð og fer heim að kyssa börnin í lok afkastamikils vinnudags? Það vill svo til að einnig hann er í bandalagi við okkur.

Þarf kirkjan ef til vill að ræða við fleiri en Útlendingastofnun?

Er kirkjan með eða á móti Schengen og yfirleitt tilraunum til að samræma afgreiðslu hælisumsókna þannig að sömu aðilar séu ekki til umfjöllunar á mörgum stöðum og teppi þannig fyrir öðrum? Viljum við forgangsraða í þágu þeirra sem brjótast til okkar en ekki hinna sem sitja eftir í flóttamannabúðunum, fötluðum, einstæðum mæðrum og hinum veikburða? Er kirkjan á móti innflytjendalöggjöfinni? Er hún á móti því að framfylgja þeirri löggjöf? Alltaf eða stundum? Eru allir hælisleitendur jafnréttháir, líka þeir sem eiga misjafna fortíð – stundum leggja stríðsglæpamenn á flótta? Er sama hvort þú flýrð strið og ofsóknir eða leitar að betra lifi? Er réttmætt yfirleitt að vera með landamæri; að rík lönd loki að sér?

Þetta eru ögrandi spurningar. En það er einmitt það sem kirkjan þarf að gera, leita svara við ögrandi spurningum og vera ögrandi sjálf, líka gagnvart hinu veraldlega valdi. Kirkjan þarf ekki að kunna svör við öllum spurnignum. Hún þarf hins vegar að búa yfir vilja til að ræða þær og leita svara. Við þurfum ekki að verða sammála um öll svör. Togstrreita þarf ekki að vera slæm í heimi sem ekki er svarthvítur. En rétt er það hjá biskupi Íslands að ofbeldi má aldrei liggja í þagnargildi. Og alltaf hlýtur kirkjan á endanum að taka afstöðu með hinum ofsótta, líka þeim sem samfélagið hefur snúið baki við eða vill ekki vita af. En hún þarf líka að leita orsaka - og vera óhrædd að rekja þær orsakir sama hvert þræðirnir liggja.

Martin Luther King hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: “
“Kirkjan verður að muna að hún er ekki stjórnandi ríkisins eða þjónn, heldur miklu fremur samviska þess.”

Þetta segir allt sem segja þarf um það hlutverk sem við ætlum Þjóðkirkjunni að axla.
Það hlutverk er ekki smátt!