Fara í efni

Á LEIÐ TIL TYRKLANDS


Birtist í Morgunblaðinu 11.02.19
Vax­andi spennu gæt­ir í Tyrklandi vegna svelti­mót­mæla póli­tískra fanga þar í landi en þeir krefjast þess að ein­angr­un Öcal­ans, höfuðleiðtoga Kúrda í Tyrklandi og Norður-Sýr­landi, verði rof­in og póli­tísk­um föng­um sleppt úr haldi.

Mót­mæla­svelti

Töl­ur um hve marg­ir taki þátt í þess­um sveltiaðgerðum eru nokkuð á reiki en þær eru á bil­inu 150 til 250. Lægri tal­an vís­ar þá til þeirra sem eru inn­an fang­els­is­múra en sú hærri til heild­ar­inn­ar. Þannig taka fjór­tán stjórn­mála­menn þátt í mót­mæla­svelti í Strass­borg þar sem Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu er staðsett­ur svo og þing Evr­ópuráðsins. Þess­ar stofn­an­ir hafa sætt nokk­urri gagn­rýni fyr­ir linkind gagn­vart mann­rétt­inda­brot­um Tyrkja.

Leyla Güven

Augu fjöl­miðla bein­ast mjög að ein­um helsta leiðtoga Kúrda til margra ára, Leylu Güven, en hún hætti að neyta mat­ar 7. nóv­em­ber sl. Hef­ur hún því verið án mat­ar í nær eitt hundrað daga. Leyla var lát­in laus úr fang­elsi fyr­ir fá­ein­um dög­um en ákvað að halda svelt­inu áfram enda hafi til þess verið stofnað að henn­ar sögn til þess að krefjast þess að ein­angr­un Öcal­ans yrði rof­in. Hon­um er haldið í föngn­um á Imrali-eyju í Marm­ara­hafi, skammt und­an Ist­an­búl, og síðustu árin al­ger­lega ein­angruðum þvert á alþjóðleg­ar grund­vall­ar­regl­ur um mann­rétt­indi.

Ný sýn á kven­frelsi og lýðræði í anda Öcal­ans

Öcal­an hef­ur setið í fang­elsi í tvo ára­tugi en fram­an af gat hann komið frá sér mikl­um rit­smíðum sem hafa haft af­ger­andi áhrif á stjórn­málaþróun á meðal Kúrda í Tyrklandi og Norður-Sýr­landi.

Áhersl­ur hans hafa breyst mjög frá því hann stýrði vopnaðri bar­áttu Kúrda frá lok­um átt­unda ára­tug­ar­ins og legg­ur hann ekki leng­ur áherslu á stofn­un sjálf­stæðs rík­is held­ur lýðrétt­indi og stjórn­ar­far sem nú ein­kenn­ir stofn­an­ir, sveit­ar­fé­lög og landsvæði þar sem Kúr­d­ar hafa kom­ist til áhrifa. Jafn­rétti kynj­anna er þar lyk­ilþátt­ur en þetta seg­ir Öcal­an vera frum­for­sendu þess að unnt sé að koma á lýðræði.

Í öll­um bæj­um og borg­um sem Kúr­d­ar stýra á þessu svæði gegna bæði karl og kona bæj­ar­stjóra­embætt­um og svo hátt­ar einnig um all­ar áhrifa­stöður í HDP flokki Kúrda í lands­málapóli­tík­inni, þar eru tveir for­menn, karl og kona.

Í Roja­va, því héraði Norður-Sýr­lands þar sem Kúr­d­ar eru ráðandi er þessi póli­tíska hugs­un í há­veg­um höfð, jafn­rétti kynj­anna og áhersla á sam­stjórn fólks, sem á sér mis­mun­andi bak­grunn í trú­ar­legu og fé­lags­legu til­liti. Ef­laust eru brota­lam­ir í fram­kvæmd­inni en mark­miðið er þetta.

Frá þíðu til harðstjórn­ar

Sjálf­ur minn­ist ég þess að sækja risa­stór­an fjölda­fund í Diy­ar­bak­ir, höfuðstað Kúrda í suðaust­an­verðu Tyrklandi í byrj­un árs 2014. Tónn­inn í ræðum manna á þeim fundi þótti mér harður en þegar ræðurn­ar voru þýdd­ar, þar á meðal boðskap­ur Öcal­ans, heyrði ég að hann var fyrst og fremst friðsam­ur: Ver­um hug­rökk og semj­um! Það voru skila­boðin.

Þetta var á tíma þíðu í sam­skipt­um Kúrda og stjórn­valda í An­kara en hún skilaði Kúr­d­um vax­andi ár­angri í kosn­ing­um. Í kosn­ing­un­um í júní 2015 fengu Kúr­d­ar 11,2% at­kvæða en þrösk­uld­ur til að koma mönn­um á þing er 10%. Við þetta féll meiri­hluti Er­dog­ans for­seta sem við svo búið venti sínu kvæði í kross og hóf nú of­sókn­ir á hend­ur Kúr­d­um með til­heyr­andi póla­ríser­ingu í sam­fé­lag­inu.

Hver er glæp­ur­inn?

At­hygl­is­vert er að fang­els­an­ir á und­an­förn­um miss­er­um bein­ast fyrst og fremst að fólki sem drýgt hef­ur þann glæp að hvetja til samn­inga og friðsam­legra lausna! Þetta á við um op­in­bera starfs­menn, sem eru þess­ar­ar skoðunar og hafa látið hana í ljósi, frétta­fólk, fólk úr dóms­kerf­inu og heil­brigðis­starfs­menn, svo nefnd­ar séu stétt­ir sem að und­an­förnu hafa sætt sér­stök­um of­sókn­um.

Merki of­sókna

Þegar ég kom til Tyrka­lands í fe­brú­ar 2017, að þessu sinni í svo­kallaðri Imrali-sendi­nefnd að krefjast þess að póli­tísk­ir fang­ar yrðu látn­ir laus­ir og ein­angr­un Öcal­ans á Imrali-eyju rof­in, þá var öðru vísi um að lit­ast en í upp­hafi árs 2014. Nú hafði drjúg­ur hluti hinn­ar æva­fornu Diy­ar­bak­ir-borg­ar, sem verið hafði á minja­skrá Sam­einuðu þjóðanna, verið jafnaður við jörðu og víða mátti sjá um­merki hrika­legr­ar eyðilegg­ing­ar og of­sókna.

Að tala máli mann­rétt­inda

Þegar þessi grein birt­ist er ég á leið til Tyrk­lands, sam­kvæmt sömu formúlu og í Imrali-heim­sókn­inni árið 2017, að tala máli mann­rétt­inda. Ég hef fyr­ir hönd hóps­ins, sem ég er hluti af, óskað eft­ir fundi með dóms­málaráðherra Tyrk­lands, Abdul­hamid Gül, og jafn­framt beðið um að fá að heim­sækja Imrali-eyju. Eng­in svör hafa borist við þessu er­indi.

Við stefn­um hins veg­ar á að hitta full­trúa mann­rétt­inda­sam­taka, verka­lýðshreyf­ing­ar, stjórn­mála­sam­taka, dóms- og rétt­ar­kerf­is, fjöl­miðla og síðan einnig fólk sem er í mót­mæla­svelti gegn mann­rétt­inda­brot­um og of­beldi.

Við mun­um á miðviku­dag halda til Diy­ar­bak­ir og freista þess að hitta þar Leylu Güven, verði hún þá enn á lífi.