Fara í efni

Á hvern ætlar NATO núna að ráðast í Kosovo?

Svo virðist sem hafin sé skipulögð herferð til að hrekja Serba frá Kosovo. Tugir manna hafa verið felldir og hús brennd til grunna. Samkvæmt fyrstu fréttum hófst ofsóknarhrinan eftir að fréttir birtust í albönskumælandi fjölmiðlum um að serbneskir menn hefðu orðið þess valdandi að þrjú börn, af albönsku bergi brotin, drukknuðu í ánni Ibar. Þessi tildrög eru nú stórlega dregin í efa og er því haldið fram að þetta hafi verið liður í þaulskipulagðri áróðursherferð til að kynda undir hatur í garð Serba. Jonathan Eyal, forstöðumaður Royal Institute of Armed Forces í London er á meðal þeirra sem fullyrðir að svo sé. Á döfinni sé brottflutningur fjölmennra sveita NATO frá Kosovo og vilji forsvarmenn Albana nú knýja á um aukna sjálfstjórn eða sjálfstæði Kosovo. Jonathan Eyal segir að alþjóðlegir fjölmiðlar bregðist fullkomlega. Þeir setji þetta upp sem átök á milli Serba og Albana, slíkt sé fráleitt. Í þessu sambandi er bent á að í Prizren, svo dæmi sé tekið,  þar sem "átök" hafa orðið, búi 100.000 Albanir og 63 Serbar!


Þegar NATO hóf loftárásirnar á Kosovo vorið 1999 var það að sögn til að koma í veg fyrir þjóðernisofsóknir Serba á hendur Albönum. Nú spyr sá sem ekki veit: Á hvern á að gera loftárásir núna, þegar það eru Serbar sem eru fórnarlömb þjóðernishreinsana?

Vel heppnuð friðaraðgerð?

 Í okkar heimshluta, og vissulega hér á landi eru margir sem trúa því að loftárásir NATO á Kosovo árið 1999 hafi verið vel heppnuð "friðaraðgerð" og fullkomlega réttlætanleg. Nú er hins vegar að koma í ljós að fullyrðingar NATO á sínum tíma reyndust rangar. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á afar fróðlegri grein eftir Jake Lynch sem sænska friðarstofnunin, Transnational Foundation for Peace and Future Research, TFF, vekur athygli á. Ég birti hér greinina á ensku en jafnframt útdrátt á íslensku, en grein þessi er afar skýr og skilmerkileg. Jake Lynch er virtur fréttamaður, nú starfandi fyrir BBC News í London. Hann flutti fréttir frá höfuðstöðvum NATO í Brussel árið 1999 meðan á loftárásum NATO á Júgóslavíu stóð og er því öllum hnútum kunnugur. Jake Lynch er nú annar tveggja forstöðumanna "hugmyndabanka" (think tank) um fréttamennsku, sem heitir Reporting the World.

Kafað í atburðarásina – fréttamenn lúta í lægra haldi

Í grein sinni kafar Jake Lynch í atburðarásina í aðdraganda loftárásanna á Kosovo og síðan eftirmálan. Hann kryfur fréttaflutninginn og kemst að þeirri niðurstöðu að fréttirnar sem ekki voru sagðar hafi einmitt verið þær sem mestu máli skiptu. Ofbeldið nú sýni m.a. fram á þetta. Í hinum ósögðu fréttum sé að finna skýringarnar á ofbeldinu nú.

Í grein sinni vitnar höfundur í bók eftir Philip Knightley sem ber heitið First Casualty. Þar segir frá þeirri togstreitu, sem jafnan hafi verið á milli hers og fjölmiðla allar götur frá því skipulagður fréttaflutningur hófst í Krímstríðinu og fram á þennan dag. Mikið vatn hafi runnið til sjávar á þessum tíma, þ.e. frá Krímstríðinu fram að stríðinu í Kosovo: M.a. tvær heimsstyrjaldir, Víetnamstríðið og Flóabardagi árið 1991. Í öllum tilvikum hafi herinn viljað fá frið fyrir fjölmiðlum, sem hafi sótt á um upplýsingar en með misjöfnum árangri. Í Kosovo hafi áróðursmeistarar hersins endanlega borið sigurorð af fréttamönnum.

Vitnað í Gandhi

Segja megi að fréttamenn hafi gert fyrstu sagnfæðilegu drögin um öll þessi stríð. Drögin hafi hins vegar alltaf þurft að endurskrifa vegna alls þess sem mönnum yfirsást. Gandhi, frelsishetja Indverja, sagði einhverju sinni: "Ég er andvígur ofbeldi vegna þess að jafnvel þegar það virðist leiða til góðs, þá varir hið góða ekki lengi, en illar afleiðingar ofbeldis eru viðvarandi"
Það er þess virði, segir Jake Lynch, að rýna í þessa atburði nú, vegna þess að það sem á sínum tíma var þagað um varpar ljósi á þá atburði sem nú eiga sér stað. Höfundur gerir síðan grein fyrir því að hann muni fjalla um atburðarásina í þremur meginþemum, eða fullyrðingum (sem allar hafi reynst vera rangar:

Alþjóðasamfélagið lét til sín taka, án þess að hafa af því nokkra hagsmuni en til þess að verja óbreytta borgara, svo þeir gætu búið við frið og öryggi. Loftárásirnar voru örþrifaráð sem gripið var til í þessu markmiði.

Þessu héldu ráðamenn fram og vitnar höfundur í Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands um þetta atriði. Almennt séð hafi fjölmiðlarnir verið á þessari skoðun einnig. Jake Lynch segir hins vegar ljóst og færir fyrir því rök, að tilteknir aðilar hafi á fyrri stigum þessarar atburðarásar (haustið 1998) vitað nákvæmlega hvað þeir vildu og hafi þeir stýrt atburðarásinni inn í þann farveg sem síðan varð raunveruleikinn. Þessir aðilar hafi vísvitandi og markvisst grafið undan öllum tilraunum til að ná friðsamlegri sátt í málinu. Hann rifjar upp hvernir lykilþjóðirnar sem komu að málinu, Bandaríkjamenn, Bretar, Frakkar og Rússar hafi orðið ásáttar um að senda eftirlitssveitir á vegum OSCE (Organisation for Security and Cooperation in Europe) til Kosovo. Þetta var eftir stórsókn baráttusveita Albana, KLA og gimmilegra hefndaraðgerða júgóslavneska hersins í kjölfarið. Eftirlitssveitunum var uppálagt að fylgjast með því rækilega að júgóslavneski herinn drægi sig til baka en engin slík fyrirmæli virðast hafa verið gefin KLA. Þær sveitir tóku nú yfir varðpósta júgóslavneska hersins og hófu að þrengja að Serbum. Af þessu voru ekki sagðar fréttir.

Þetta varð lýðum ljóst löngu eftir stríðið en var haldið leyndu á meðan á því stóð. Enda þótt þetta væri á vitorði manna í höfuðstöðvum NATO í Brussel, héldu bæði Bandaríkjamenn og Bretar því að almenningi að fyrst og fremst væri við Serba að sakast. Það er einfaldlega rangt. Fullyrðingin að framan stenst ekki.

Milosevic gat sjálfum sér um kennt að gerðar voru loftárásir á Júgóslavíu, því hann neitaði í þrákelkni sinni að undirrita friðarsamkomulag, sem alþjóðasamfélagið hafði mótað: Rambouillet samkomulagið.

Staðreyndin er sú að í Rambouillet  ( heiti á kastala nærri París) var Milosevic stillt upp við vegg og þess krafist að hann samþykkti sjálfstæði Kosovo  og að 28 þúsund NATO hermenn fylgdust með því að það yrði efnt. Þessir hernenn áttu ekki aðeins að vera í Kosovo heldur áttu þeir að fá aðgang að allri Júgóslavíu. Og – þeir áttu að búa við friðhelgi – ekki mætti sækja þá til saka! Í "samkomulaginu", eða öllu heldur samkomulagsdrögunum, var einnig ákvæði um að efnahagskerfi Kososvo ætti að vera skipulagt á "frjálsmarkaðsforsendum".

Þessum sjónarmiðum var haldið mjög stíft fram af málsvörum NATO-ríkjanna við samningaborðið. Út á við var fyrst og fremst rætt um að stjórnin í Belgrad vildi ekki semja: "Því miður sýnist okkur Milosevic ætla að sýna óbilgirni...hann er að setja sig í þá stöðu að verða að taka afleiðingum gerða sinna..."

Fjölmiðlamenn hafi almennt, með mikilvægum undantekningum þó, eins og manna á borð við John Pilger, tekið sömu línu og ráðamenn. Pilger og hans líkar bentu hins vegar á að menn yrðu að skoða af sanngirni hvað raunverulega lá á samnigaborðinu og einmitt það hefði hann skoðað. Pilger var sakaður um áróður og tilbúning! Síðar kom í ljós að Pilger hafði rétt fyrir sér um hvað raunverulega stóð í samningsdrögunum.

Staðreyndin hafi verið sú að hvorugur aðilinn var reiðubúin að semja á grundvelli Rambouillet samningsdraganna. KLA hafi til dæmis ekki getað sætt sig við að þurfa að afvopnast auk þess sem samtökin gátu ekki sætt sig við annað en fullt sjálfstæði fyrir Kosovo. Serbar gátu ekki fallist á aðkomu NATO á fyrrgreindum forsendum og sjálfræði Kosovo.

Skömmu síðar hafi verið boðað til nýrra samningafunda í París. Í millitíðnni höfðu átt sér stað viðræður á milli KLA og Washington. Nú var gert ráð fyrir þjóðaratkvæði um sjálfstætt Kososvo. Vitað var að hin hliðin myndi aldrei sætta sig við það! Hér skulu menn ekki gleyma hinni sögulegu arfleifð, rækilega viðhaldið í hugum manna: Serbar gætu aldrei sætt sig við yfirrráð þess þjóðarbrots sem ríkti yfir þeim í samvinnu við nasista um nokkurt skeið fyrir miðja síðustu öld. Nasistatíminn er með öðrum orðum ekki fallinn í gleymskunnar dá.

NATO vann frækilegan sigur – stjórnmálaleiðtogar höfðu vind í seglinn í þessari árangursríku herför sem þeir stýrðu.

Ráðandi stjórnmálamenn í NATO-ríkjunum hafa aftur og ítrekað haldið því fram að þetta hafi verið árangursrík aðgerð í þágu mannréttinda. Þeir "hafi ekki átt annarra kosta völ...hvað hefði gerst ef við hefðum ekki gripið til aðgerða..." Fjölmiðlarnir voru með svipaðar áherslur. Sama hafi gerst í Kosovo og í Írak í fyrra. Þar var okkur sýnt þegar styttum af Saddam Hussein var velt. Í Kosovo sáum við Albani með sigurmerki þegar NATO herinn kom á vettvang við mikil fagnaðarlæti. Málflutningur NATO tók nokkrum breytingum á meðan þessu vatt fram, "að stöðva ofbeldið... að koma í veg fyrir ofbeldið...að snúa þróuninni við." Staðreyndin hafi verið sú að flótti Albana og hefndaraðgerðir Serba hófust að einhverju marki eftir að loftárásirnar voru gerðar! Þróuninni hafi hins vegar verið snúið við að því leyti, að þegar upp var staðið voru 200 þúsund Serbar og aðrir minnihlutahópar reknir á flótta frá heimkynnum sínum! Um þetta hafi lítið sem ekkert verið rætt.

Jake Lynch segir frá því að hann hafi sem fréttamaður í Brussel margoft gengið eftir því að fá að vita hverjum usla loftárásirnar hefðu valdið í her og á vígtólum Júgóslava. Fátt hafi verið um svör. Síðan hafi komið á daginn að þessi skaði var lítill sem enginn. Hins vegar hafi skaðinn orðið tilfinnanlegur annars staðar í samfélaginu. Höfundur vitnar í Michael Short, bandaríska hershöfðingjann, sem stýrði loftárásunum frá Aviano herflugvellinum á Ítalíu, þar sem hann segir að það sem máli skipti hafi verið að "taka rafmagnið af ísskápnum,  gasið af eldavélinni, að hengibrúin sem þurfti að fara yfir virkaði ekki..., þetta skiptir meira máli en margt annað." Sjálfir viðurkenndu ráðamenn í Belgrad, að borgaraleg skotmörk hefðu knúið þá til uppgjafar.  

Annað var okkur sagt!

Eitt hefur ekki breyst

Lærdómurinn sem Jake Lynch virðist vilja draga af þessu öllu, þótt ekki segi hann það þeim orðum, er að skýringuna á ofbeldinu nú sé að finna í því sem ekki var sagt þá: Að hinir nýju sigurvegarar séu jafnframt hinir nýju kúgarar.
Að vissu leyti hafa orðið hlutverkaskipti í Kososvo. Þótt enginn geti véfengt að framin voru mikil grimmdarverk sem Serbar voru ábyrgir fyrir, þá er nú að koma í ljós að þeirra hlið var ekki látin njóta sannmælis. Skipulega var málstaður þeirra skrumskældur. Þar virðist ekki hafa orðið breyting á: Fréttaflutningurinn virðist eins ógagnrýninn og fyrri daginn. Eða er hann ef til vill að lagast. Það væri uppörvandi.

Vefslóðin á ívitnaða grein: http://www.transnational.org/features/2004/Lynch_Kosovo.html