Fara í efni

Á handarbakinu

Birtist í Fréttablaðinu 7.12.2002
Ekki voru allir sáttir þegar ríkisstjórnin kynnti fjárlagafrumvarp sitt í haust. En þá fyrst rak menn í rogastans þegar fjáraukafrumvarpinu var slengt fram því önnur eins handarbakavinnubrögð hafa ekki lengi sést. Að vísu eru menn ýmsu vanir frá ríkisstjórninni þegar fjáraukalögin eru annars vegar en jafnan hefur það verið tekið trúanlegt á haustin er lofað hefur verið bót og betrun um að næst verði vinnan vandaðri.

Fjárlagafrumvarp og fjáraukalög eru sitt hvað. Fjárlögin horfa til komandi árs en með fjáraukalögum er litið til baka og aflað heimildar Alþingis fyrir útgjöldum sem þegar hefur verið stofnað til á liðnu ári en voru ekki fyrirsjánleg við gerð fjárlaga síðasta árs.

Skortur á fyrirhyggju og ósýnilegar framkvæmdir

Fyrsta gagnrýnisefnið er að megnið af þeim kostnaðarliðum sem er að finna í fjáraukalögunum mátti sjá fyrir og hefðu því átt heima í fjárlagafrumvarpinu sem samþykkt var fyrir árið 2002 á þessum tíma í fyrra. Einn útgjaldaliður á fjáraukalögunum nú var t.d. sérstakt framlag til verkefna sem tengjast margrómaðri einkavæðingu ríkisstjórnarinnar. Varla kom það henni á óvart að hún skyldi ráðast í sölu bankanna á árinu – varla hefur ríkisstjórnin verið svo meðvitundarlaus að kostnaðurinn hafi komið henni í opna skjöldu. Á hinn bóginn eru svo undarleg dæmi um hið gagnstæða í fjáraukalögunum – framkvæmdir sem enginn hefur haft spurnir af og eru því í besta falli ósýnilegar.

Upplýsingum haldið leyndum

Annað gagnrýnisefnið lýtur að því að upplýsingum um viðkvæm deilumál er haldið leyndum. Framlag til einkavæðingarverkefna nam 220 milljónum króna en á engan hátt gerð grein fyrir sundurliðun útgjaldanna. Með eftirgangsmunum tókst að toga út úr Stjórnarráðinu alls endis ófullnægjandi upplýsingar sem rúmuðust á fjórðungi úr blaðsíðu, með gleiðu línubili og þokukenndu orðalagi. Stofnanir á borð við framhaldsskóla og sjúkrahús þurfa að gera grein fyrir hverri krónu sem fengin er úr ríkissjóði og þannig á það að sjálfsögðu að vera. En einkavæðingarverkefnin lúta öðrum lögmálum; þar er fjármagnið ekki skorið við nögl og spurninga þar um má ekki spyrja. Útgjöldin eiga þó að vera þekkt í smáatriðum en virðast ekki þola dagsljósið.

Haldið í gíslingu

Þriðja gagnrýnisatriðið hefur lengi verið tíundað af hálfu Ríkisendurskoðunar en það er að opinberum stofnunum er haldið í gíslingu með því að taka ekki á fjárhagsvanda þeirra og láta þær stöðugt burðast með halla frá fyrri árum. Þær geta hvorki lifað né dáið; eiga að sinna lögboðnum skyldum og verkefnum en fá ekki til þess peninga. Þetta á bæði við í heilbrigðismálum og menntakerfinu og er farið að valda verulegu niðurbroti og tjóni. Menn spyrja hvort fyrir ríkisstjórninni vaki að svelta þessar stofnanir í þeirri von að þær fari sjálfar að heimta notendagjöld sem er dularorð fyrir sjúklingaskatta og skólagjöld.

Bókhaldsbrellur ríkisstjórnarinnar

Fjórða megin gagnrýnisefnið er að í fjáraukalögum eru tekjur af óseldum eignum færðar til tekna. Nú er gert ráð fyrir tekjum vegna sölu eigna upp á 15,2 milljarða og eru þær aðallega vegna sölu bankanna. Þó er ljóst að í ríkissjóð koma aðeins 6 milljarðar króna á árinu vegna þeirrar útsölu. Hitt er ófrágengið. En með því að færa öll fyrirheit væntanlegra kaupenda inn í bókhaldið líta fjárlög síðasta árs Geirs H. Haarde fyrir kosningar betur út en ella: Stórkostlegur rekstrarafgangur. Við fjárlagaumræðuna sagði fjármálaráðherra að eðlilegt væri að bókfæra söluandvirðið þegar það er staðfest en ekki þegar peningarnir koma inn. En er það ekki svo að enn er fyrirvari á sölusamningi um Búnaðarbankann? Tæknilega getur salan því gengið til baka. Kaupendurnir eru blankir en þeir ætla sér að slá lán með veði í þeirri eign sem ríkisstjórnin er búin að færa þeim. Eftir það ætti leiðin að vera greið með því að borga lánið upp fyrir arðinn af eigninni – hann nam jú tveimur milljörðum í ár.

Þetta lítur vel út fyrir framsóknarmennina sem eru að eignast Búnaðarbankann og líka fyrir ríkisstjórnina sem býr til flotta liði í bókhaldið. Allir eru að gera það gott nema náttúrlega þjóðin. Hana er verið að blekkja, það er ekki gott og gengur ekki til lengdar.