Fara í efni

Á FUNDI Í VINNUSKÚR SAMSTÖÐVARINNAR

Hér að neðan má nálgast slóð á umræðuþátt á Samstöðinni um verkalýðsmál og stjórnmál í boði Gunnars Smára Egilssonar. Í upphafi þáttar sat ég fyrir svörum um nýútkomna bók mína Rauða þráðinn en þó fyrst og fremst árin hjá BSRB og afstöðu til ýmissa málefna sem tengjast verkalýðsbaráttu. Síðar bættust formenn ASÍ, BSRB og Öryrkjabandalagsins í hópinn.  
Ég hef stundum áður látið þess getið hve vaxandi fjölmiðill Samstöðin sé. Þar eru umræðuþættir þar sem þjóðfélagsmálin eru krufin á annan og nær oftast róttækari hátt en gerist á öðrum fjölmiðlum. Þarna heldur Bogi Reynisson um tæknimálin en primus motor við dagskrárgerðina hefur verið Gunnar Smári Egilsson sem virðist búa yfir talsverðri umframorku miðað við það sem gerist hjá flestum mönnum.
Margir aðrir koma orðið að þáttagerð á Samstöðinni. Sjálfur var ég um tíma með allmarga þætti þar undir heitinu Kvótann heim. Ófáir hafa haft samband sem vilja framhald á þeirri þáttaröð. Ég bíð færis en mörg verkefni banka á þessa dagana.
En hvað Samstöðina áhrærir þá spái ég því að við eigum eftir að sjá veldisvöxt í umfangi hennar á komandi mánuðum.
Hér er þátturinn:  https://www.youtube.com/watch?v=vXD3YFpTGD0