Fara í efni

Á FERÐALAGI MEÐ PÉTRI GUNNARSSYNI

Veraldarsaga P Gunn
Veraldarsaga P Gunn

Undanfarna daga hef ég verið á viku ferðalagi suður í Evrópu með viðdvöl í tveimur löndum, Ítalíu og Þýskalandi. Ég hef líka ferðast aftur í tímann. Það gerði ég með hjálp Péturs Gunnarssonar, rithöfundar. Aðgangsmiðinn að því  ferðalagi er nýjasta bók hans, Veraldarsaga mín.

Fyrir okkur sem munum og lifðum umrótið í lok sjöunda áratugarins og byrjun hins áttunda, sérstaklega kennt við árin ´68-´69, hefur bókin aukið gildi því hún rifjar skemmtilega upp hughrif og stemningu þess tíma.

Pétur lagði stund á heimspeki í París og Aix en Provence í Frakklandi. Heimspekinámið og veran í Frakklandi  segir hann að hafi fyrst og fremst verið sín leið til að fá tækifæri til að kynnast heiminum og sinna  köllun sinni til ritstarfa.

Pétur tekur námið sem slíkt þannig ekki mjög hátíðlega - eða öllu heldur sjálfan sig sem námsmann -  en þar er hann fyrst og fremst lítillátur. Mér fannst einmitt skemmtilegt að fylgja Pétri fara nokkrum orðum um ýmsa heimspekinga sem voru viðfangsefni háskólanna og róttækra kennara og stúdenta sérstaklega,  á þessum tíma. Fannst mér ég greina að Pétur hefði öðlast býsna gott vald á viðfangsefni sínu.Gerir hann góðlátlegt grín að sumu því torfi sem hafið var upp til skýjanna á þessum tíma. Ekki alltaf mörg orð af hálfu höfundar en leikandi léttur skilningur og innsæi.

Annars er bókin í bland óður til hins góða í manninum og er Pétri umhugað að segja okkur frá öllu því fólki sem miðlaði af óeigingirni þegar þau skötuhjú, Pétur og Hrafnhildur, ferðuðust staurblönk um Evrópu á sínum putta og litlu öðru. Þannig sláumst við í för með þeim til fjallaþorps í Grikklandi, þar sem „sólin kom með fangið fullt af dögum/ og næturnar stjörnufullar." Þarna er þeim tekið opnum örmum af gjafmildi hins snauða manns. Greinilegt er að aldrei er tilætlunarsemi fyrir að fara hjá ferðlöngunum heldur ómæld hjálpsemi af þeirra hálfu og gott viðmót. Greinilegt er að sú afstaða kallar fram það blíðasta hjá þeim sem á vegi þeirra verða.

Góð er frásögnin af farandverkamanninum frá Mið-austurlöndum, sem þau höfðu kynnst í Aix en hittu síðan fyrir tilviljun á kaffistað „í miðju Frakklandi"  þar sem hann var ásamt öðrum farandverkamönnum að fá sér kaffi í vinnuhléi. Verkamaðurinn hvarf á braut fyrr en þau en hafði áður gert upp þeirra reikning auk síns eigins af gjafmildi sinni, vitandi fullvel að hann myndi að öllum líkindum aldrei hitta þau aftur. Ekki orð sagt. Óborganlegt.

„Þúsundir kílómetrar hafa þotið í gegnum höfuð mér" segir hið unga ljóðskáld þegar ferðin sunnan úr álfunni „lifnar aftur heim."  Því hefur þótt það komast í snertingu við nýjan tíma og gamlan „þar sem árhundruðin blunduðu í hlyninum".

Margt er vel sagt í þessari bók sem veitir okkur innsýn í veraldarsöguna eins og hún - á róttækum blómatíma - opnaðist ungu skáldi og kærustu hans, henni Krummu , sem fær sinn stóra skammt af væntumþykju og aðdáun þegar Pétur Gunnarsson færir  tilfinningar sínar til bókar. Enda minnir hann á að samkvæmt sínum reikningskúnstum sé 1 plús 1 = 1.