Fara í efni

Á BRÚNASTAÐAFLÖTUM: HEILL FYLGI VILJANUM TIL VERKA

Flóagátt - ÖJ og GÁ
Flóagátt - ÖJ og GÁ


Eftirminnileg er kvöldstundin við Flóaáveitu að Brúnastöðum í Flóa 1. júní síðastliðinn. Þá var opnaður var nýr vegur að flóðgátt áveitunnar að viðstöddu miklu fjölmenni, sennilega á fimmta hundrað manns.
Vegamálastjóri, Hreinn Haraldsson, flutti ávarp og klipptum við síðan á borða til marks um opnun vegarins  og tóku þátt í þeirri athöfn þeir Stefán Guðmundsson í Túni,fyrrverandi formaður Áveitufélagsins og Erlendur Daníelsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Ræktunarsambands Flóa og Skeiða.  Alls tók athöfnin um tvær klukkustundir en svo gott var veðrið að ekki sakaði að vera utandyra. Þvert á móti varð þessi stund eftirminnilegri fyrir vikið.
Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, setti hátíðina og henni stjórnaði Guðmundur Stefánsson, núverandi formaður Áveitufélagsins. Formaður Verkfræðingafélags Íslands, Kristinn Andersen, ávarpaði fundinn og flutti kveðju frá íslenskum verkfræðingum sem var mjög vel við hæfi. Kirkjukór Hraungerðiskirkju söng nokkur lög undir stjórn Heiðmars Inga.  
Við vegamálstjóri töluðum sitt hvoru megin við borðaklippinguna og birti ég hér að neðan ræðu mína sem þó fyrst og fremst var hugsuð sem talað orð.
Flódgáttin - borði

Flóðgáttin
Fleiri ræður voru fluttar eins og síðar greinir frá. Þar áttu í hlut Þór Vigfússon og Guðni Ágústsson. Að lokinni athöfninni á Brúnastaðaflötum var haldið í Þingborg þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti - miklar krásir. Sérstaklega þótti mér vel til fundið að fá Sigurð Sigurðarson, dýralækni, til að kveða stemmur.
Hann flutti þessar vísur, sem gerðar voru í tilefni samkomunnar.

Meðan endist æviskeið,
öll við skulum muna,
að forverarnir fundu leið,
Flóaáveituna.
                              Guðmundur Stefánsson Hraungerði

Fyrir öld var fátt til bjarga
Flóans lágu sveitum í.
En fram til sóknar fýsti marga
að finna tækifæri ný.

Einsætt þótti að áin hvíta
engjalöndin gæfi ný
áburð hennar ætti að nýta
unnið var af krafti að því.

Yfir Flóann áin hvíta
auð frá grunni landsins bar.
Þar má blómleg býli líta
býli lífs og ræktunar.
                         Ragnar Böðvarsson Selfossi

Á því leikur enginn vafi
áveitunni þakka ber,
að fljótsins ríki og rammi safi
ræktar land og mannlíf hér.
                            Sigurður Sigurðarson Selfossi

Þrjár braghendur um Ekkilinn í Álfahamri voru fluttar við yndislega eyfirska stemmu þrítóna og leitast við að kenna sem flestum, svo hana mætti taka með heim og kenna þeim er heima sátu. Sú stemma er einkar vel fallin til að svæfa ung börn og eldri.

Sjá einnig: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28105 

Ávarp ÖJ á Brúnastaðaflötum við opnun vegar að Flóaáveitu:
ÖJ í ræðustól
Fólk - athofn
Fljótlega eftir að ég tók við embætti samgönguráðherra kom að máli við mig fyrrverandi landbúnaðarráðherra og fyrrverandi og núverandi vinur minn, Guðni Ágústsson.

Hann hafði ekki uppi miklar málalengingar en vék beint að efninu.

Ef þú ætlar að verða  góður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra gleymir þú ekki Flóaáveitunni. Og hann útskýrði að Flóaáveitan væri í senn merkileg arfleifð og vegvísir inn í framtíðina. Kynntu þér þessa sögu þá þarf ég ekki að hafa um þetta fleiri orð.

Síðan tók Guðni Ágústsson upp létt spjall.

Nú líður og bíður. Af og til fæ ég meldingar um hvað Vegagerðin þurfi að gera fyrir Flóaáveitu og ferðmannaveginn, svo allur heimurinn megi sjá það sem sést heiman af túninu á Brúnastöðum. Þetta er spurning um menningu, Ögmundur. 

Af framgöngu Vegagerðarinnar hafði ég engar sérstakar áhyggjur, vitandi að Vegagerðin á Íslandi er ekki bara vegagerð heldur menningarstofnun sem veit hvað til síns friðar heyrir. Þetta var ein ánægjulegasta uppgötvun mín í starfi; að verða vitni að því hvernig Vegagerðin hefur spunnið menningarþráðinn, alltaf meðvituð um hið sögulega og menningarlega í samhengi samgöngumálanna. Núverandi vegamálastjóri, Hreinn Haraldsson, er verðugur merkisberi þessarar prjónamennsku. En nánar að prjónaskap síðar.

Og tíminn líður. Í aprílmánuði kemur Guðni aftur á minn fund vegna Flóaáveitu. Þú þarft að vera á Brúnastaðaflötum 1.  júní og flytja þar magnaða ræðu. Tilefnið væri margfalt,  opnun ferðamannavegarins að flóðgáttinni og tvöfalt afmæli veitunnar sjálfrar, því nú væru 90 ár liðin síðan framkvæmdir við Flóaáveitu hófust árið 1922 og 85 ár frá því framkvæmdum lauk árið 1927. Veður verður gott. Það er frágengið. 

Og síðan kom hið illskiljanlega í máli Guðna Ágústssonar: Á palli þarf að standa með þér og vegamálastjóra, fulltrúi danska Heiðafélagsins!

Nú, kemur fulltrúi þaðan? ... varð mér á að spyrja.

Það er erindi þessa fundar við þig í dag. Það er við hæfi að fulltrúi Heiðafélagsins  mæti til hátíðahaldanna -  í þínu boði.

Nú var forvitni mín vakin. Ekki veit ég hversu mikið líf er enn í danska Heiðafélaginu en það höfum við innanríkisráðuneytismenn fengið að reyna að þar á bæ fara menn sér að engu óðslega að svara pósti eða síma. Í gær barst þó svar - vinsamlegt og ágætt - þar sem sagt var að af heimsókn gæti því miður ekki orðið að þessu sinni. En kærar kveðjur!
Við viðstadda vil ég segja þetta: Næst höfum við góðan fyrirvara á þegar við bjóðum fulltrúa Heiðafélagsins danska í afmælishóf í Flóa!!

Ljóst má vera af gögnum að velvild Heiðafélagsins var alltaf fyrir hendi og er hún þakkarverð. Þá þykir mér merkilegt við grúsk í þessa sögu að sjá hve mikinn áhuga dönsk stjórnvöld og danska konungsfjölskyldan sérstaklega, sýndu þessu framtaki alla tíð.

Brúnastaðamenn hafa ekki gleymt velgjörðarmönnum Flóamanna úr Danaríki þótt Ágúst á Brúnastöðum muni aldrei hafa verið hallur undir danska stjórn og danska kónga; verið með einarðari lýðveldissinnum á sinni tíð. Mönnum ber saman um að hann hafi verið kröftugur maður og segir sonur hans mér, að hann hafi verið rómsterkari en við báðir til samans Ögmundur minn og verður þó um hvorugan okkar sagt að okkur skorti raddstyrk.

En aftur að komu Guðna Ágústssonar á minn fund í apríl síðastliðnum að óska liðsinnis Innanríkisráðuneytisins við að fá hingað til lands, og á þessa hátíð, fulltrúa danska Heiðafélagsins. Sunnlendingar muni kunna mér þakkir fyrir, sagði Guðni. Síðan leit hann hvasst í augu mér og sagði að ekki væri lakara að geta til þess hugsað að Þór Vigfússon telur einboðið að Kampholtsmóri verði þér innan handar fyrir vikið - varla er verra að hafa þann hrekkjótta draug sem bandamann á þínum vinnustað einsog hann nú er orðinn.

Og þannig kom það sem sagt til að Innanríkisráðuneytið reyndi að fá fulltrúa danska Heiðafélagsins á þessa hátíð hér á Brúnastaðaflötum  í dag.

Aðkoma danska Heiðafélagins að Flóaveitu er merkileg fyrir margra hluta sakir. Aðdragandann að veitunni má rekja allangt aftur. Menn þekktu mátt áburðarins úr jökulvatni og hvernig „kafgras upp í hvert móabarð" var jafnan að finna á þeim svæðum sem Hvítá gat flætt yfir í vatnavöxtum, einsog segir í Sögu Mjólkurbús Flóamanna. En að sama skapi dró úr grassprettu á þeim svæðum þar sem áin hafði farið yfir, eftir að búið var að stemma stigu fyrir vetrarflóðum. Í fyrrnefndu sagnfæðiriti er réttilega vakin á því athygli hve feiknarleg mannvirki fyrirhleðslugarðar á Brúnastöðum hafi verið - og vissulega víðar - þegar haft sé í huga að einu hjálpartækin hafi verið reiðingshestur og handbörur til aðdrátta á efni. (bls.14)

En verksvitið var fyrir hendi og langar mig til að lesa brot úr grein sem Sigurður Grétar Guðmundsson, pípulagningameistari,  ritaði í Morgunblaðið í júlí árið 2006, um samanburð á tækninni nú og þá. Hafði hann greinilega hrifist af útsjónarsemi hönnuða Flóaáveitu:

„Í dag sitja menn á verkfræðistofum og teikna lagnakerfi þar sem valdar eru rörastærðir eftir því hve mikið vatn á um leiðsluna að renna. Á ofnum og öðrum hitagjöfum eru stilliventlar svo hægt sé að jafnvægisstilla kerfi sem við nefnum svo. Þá tækni rekjum við til sænsks verkfræðings sem kom fram með jafnvægisstillingu hitakerfa 1962.
En löngu áður var lagt þetta mikla lagnakerfi, Flóaáveitan. Hún byggðist á nákvæmlega sömu tækni og við teljum nútímalega, jafnvægisstillingu. Skurðirnir voru vandlega útreiknaðir eftir því vatnsmagni sem þeir áttu að flytja, nákvæmlega eins og rör eru valin í dag. Flóðgáttirnar höfðu mismunandi opnun eins og stilliventlarnir á hitakerfunum, skömmtuðu hverju engjaflæmi það vatn sem þurfti eins og ventill skammtar ofni eftir stærð. Þannig var hægt að miðla vatninu á allar engjar svo enginn varð út undan, en allir fengu sinn skammt.
Það sannast aftur og aftur að ekkert er nýtt undir sólinni og enn má dást að verkviti og framsýni þeirra sem löngu eru komnir undir græna torfu."

Hleðslugarðurinn á Brúnastöðum er frá því á 19. öld en á svipuðum tíma, og reyndar fyrr, var farið að ræða veitumálin. Árið 1869 kom hingað til lands að frumkvæði Magnúsar Jónssonar í Bráðræði danskur áveitufræðingur, Niels Jörgensen að nafni. Hann stundaði rannsóknir á ýmsum svæðum í grennd við Reykjavík en einnig á sex bæjum í Árnessýslu (Ágúst á Brúnastöðum, Halldór Kristjánsson skráði bls. 71).  Á komandi árum og áratugum áttu málin síðan eftir að þróast smám saman í markvissari farveg.

Mér yljaði um hjartarætur þegar ég sá hver hlutur frænda míns, séra Stefáns Stephensen á Ólafsvöllum var, en í apríl 1881 er lagt fram bréf frá honum á stjórnarfundi Húss - og bústjórnarfélags Suðuramtsins þar sem hann fer fram á að félagið láti fara fram athugun á því að veita Þjórsá á Skeið og Flóa. Þetta er fyrsta heimildin um formlegt erindi hvað þessar framkvæmdir varðar, segir í Sögu Mjólkurbús Flóamanna (bls.14).
Stefán, sem var langafabróðir minn, var mikill verkmaður sjálfur og eru mannvirki á Ólafsvöllum sem bera þess vott - Prestsskurður  og Prestsbrú. Til gamans má geta þess að Stefán var jafnan kallaður Stefán sterki - rammur að afli - og segir séra Þórir Stephensen um þennan afa sinn, að hann hafi verið 24 fjórðungar að þyngd og þrjár álnir á hæð, þ.e.120 kíló og tæpir 190 sentímetrar  - ekki arða af fitu, allt vöðvar, sagði séra Þórir mér.
Séra Stefán flutti árið 1885 í Mosfell í Grímsnesi en hans fólk var hér á Skeiðum og í Hróarsholti bjó dóttir hans, Stefanía, gift Sigfúsi Thorarensen. Sigfús var góður bóndi og var með þeim fyrstu í sínum hreppi að eignast hestasláttuvél. Þegar nágrannarnir spurðu hvernig vélin reyndist var svarið stutt og laggott: Hún  gerir vinnumennina lata.
Þess vegna nefni ég Hróarsholt að ég ólst upp við mikið og gott umtal um Hróarsholt en þar hafði móðir mín verið í sveit sem barn og bar frænku sinni Stefaníu og þeim hjónum báðum afar gott orð.

Ég er forvitinn um sögu þessa héraðs, sérstaklega gerist ég forvitinn þegar Ögmundarnafnið  ber á góma. Á Hlemmiskeiði á Skeiðum var Guðrún Ögmundsdóttir, fjögurra ára skráð til heimilis í manntalinu 1845. Hún var langamma mín. Ögmundur faðir hennar var fæddur að Dysjum á Álftanesi en móðir Ögmundar,Vigdís Jónsdóttir var frá Hlemmiskeiði, sem skýrir það hvers vegna sonur hennar flytur þangað og sest þar að. Væri gaman að vita hvort þetta er sama Ögmundar-nafnið  og tengist bænum sem héðan ber við augu, Hjálmholt. Einhvers staðar heyrði ég að sagt hefði verið að Ólafur Ögmundsson í Hjálmholti ætti vænstu kýr sem fyrirfindust hér um slóðir, gott ef ekki í landinu öllu, stórar kýr og sterkar, svartskjöldóttar. Ólafur mun hafa sagt að kynið mætti rekja til Viðeyjar en þaðan hefði þeim Hjálmholtsmönnum borist svartskjöldóttur kálfur einhvern tímann fyrr á tíð og væri þetta kostakyn frá honum runnið.

En áfram með frásögn af Flóaáveitu. Niðurstaðan varð sú að hingað kom danskur verkfræðingur 1906, Carl Thalbitzer að nafni, en hann kom hingað á vegum Heiðafélagsins danska en  þar með komst á tengingin við þann góða félagsskap.

Var nú farið að mæla og undirbúa framkvæmdir sem urðu á þann veg að áveita úr Hvítá þjónaði Flóamönnum en áveita úr Þjórsá, Skeiðunum. 

Kemur þá að því sem sagði frá í upphafi þegar Guðni Ágústsson skildi eftir þá hugsun hjá mér að Flóaáveitan væri  í senn merkileg arfleifð og vegvísir inn í framtíðina.
 
Yfir þessu hef ég talsvert velt vöngum og komist að sömu niðurstöðu og Guðni. Flóaáveitan var ekki aðeins mikilvæg sem sjálfstæð framkvæmd, hún hafði áhrif til framfara á margan hátt. Þannig segir í Sögu Mjólkurbús Flóamanna að Flóaáveitan og tildrögin að stofnun Mjólkurbúsins séu nátengd og svo ég vitni orðrétt (bls.14): „Stofnun mjólkurbúsins er í beinu framhaldi af áveitunni og til þess hugsuð að koma væntanlegum grasauka í verð gegnum aukna mjólkurframleiðslu er Mjólkurbúið gerði að söluhæfri vöru."

Áherslur áttu eftir að breytast. Í grein sem Helgi Skúli Kjartansson, sagnfræðingur, ritaði í Skírni árið 1988 um þessar framkvæmdir, er hann með skemmtilega tilvitnun í Jónas Jónsson frá Hriflu sem hafi verið fulltrúi nýrra tíma að því leyti að hann hafi verið túnræktarsinni fremur en áveitusinni þótt hann styddi jafnframt áveituframkvæmdirnar.

Árið 1922 þegar framkvæmdir við Flóaáveitu eru að hefjast, segir Jónas - og nemið andann í þessum skrifum, þessari herhvöt:

„Í stað þess að reka ránbúskap, lifa að mestu af óræktuðu landi, og framleiða ódýr hráefni og torseld matvæli, verða Íslendingar að gerbreyta um aðferð. Minnka rányrkjuna, slétta með vélum túnin og ræsa fram, auka áveitur, þar sem þeim verður við komið, fjölga sjálfstæðum býlum, vinna að heyskap og nýtingu með vélum, eftir því sem framast er unnt. Hafa aðallega kúabú, þar sem jörðin er frjósöm og best ræktunarskilyrði. Koma aftur upp smjörbúum, sem starfa allt árið. Selja smjörið til Englands. Hafa ostagerð samhliða smjörgerðinni, þar sem það á við".  (Helgi Skúli Kjartansson, Áveiturnar miklu, Skírnir 1988, bls.343)

Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar ráðherra, sem um árabil hafði yfirumsjón með framkvæmdum við áveituna, hafði átta árum áður reiknað með að framkvæmdirnar og afleiddar breytingar - aukin túnrækt myndi gera það að verkum að Flóinn bæri tuttugu til þrjátíu þúsund kýr!
(Helgi Skúli Kjaratansson, ibid 343)

Menn hugsuðu stórt. Og ég hygg það hafi einmitt verið þessi framfaratónn sem Guðni Ágústsson átti við þegar hann talaði um vegvísinn inn í framtíðina. Og undir þetta vil ég taka, að það sem er merkilegast við þessa sögu er stórhugurinn. Á síðustu áratugum 19. aldarinnar og á öndverðri hinni tuttugustu öld, er greinilegur gróandi í allri hugsun á Íslandi og birtist hann mjög vel í sögu Mjólkurbús Flóamanna. Við þennan kröftuga bjartsýnis- og framfaratón kvað í alls kyns blæbrigðum á þessu tímabili.  Undirtónninn er jafnan sá sami og hann er ótvíræður: Við stefnum fram á við. Spurningin er ekki hvort, heldur hvenær. Og mönnum liggur á!
Sem dæmi má taka skýrslu Sæmundar Eyjólfssonar sem var einn þeirra sem fengnir voru til þess að gera mælingar, bæði við Hvítá og Þjórsá undir aldarlok með það í huga að veita vatni á Flóann.

Skýrslu sinni lýkur Sæmundur með orðum sem áttu eftir að reynast eins konar og spásögn:

„Þó að þetta fyrirtæki liggi líklega í þagnargildi um stundarsakir þá má telja víst að það verði vakið upp aftur. Ef sá tími kemur að þekking og dugnaður verður drottnandi kraftur í atvinnugreinum landsmanna þá má treysta því að fyrirtæki þetta komist til framkvæmdar. Skeiðamenn og Flóamenn munu þó eigi mega ganga duldir þess að þessi mikla jarðabót getur gjört þá færa um að umskapa, bæta og auka búskap sinn geysimikið, jafnvel meir en nokkur geti haft hugmynd um nú." 

(Saga Mjólkurbús Flóamanna í 60 ár, bls. 15)

Annað sem ég áttaði mig vel á við lestur um málefnið, áður en ég vogaði mér inn á Brúnastaðaflatir, var hve gríðarleg þjóðhagsleg áhrif þessar framkvæmdir höfðu. Án efa hafa mörgum opnast dyr til mennta sem ella hefðu verið luktar. Þannig tel ég mig hafa sannfrétt að þeir dugnaðarbræður, Sveinn í Héðni og Ástmundur í Stálsmiðjunni, Guðmundssynir, hefðu unnið hvor fyrir öðrum í námi - og báðir við Flóaveituna.
Þetta var að sjálfsögðu fyrir Bretavinnuna sem á stríðsárunum greiddi fyrir þjóðfélagsbreytingum með launavinnu á mölinni. (Munnleg heimild, séra Þórir Stephensen)

Veituverkefnið í Flóa var, hygg ég, meira að vöxtum en flestir gera sér grein fyrir. Áveitan tók til 11.500 hektara, sem er stórt svæði, að vísu minna en Grímsstaðir á Fjöllum, sem er þrisvar sinnu stærra svæði, 30.000 hektarar. Á Grímsstöðum er þó aðeins eitt býli en á svæði Flóaveitunnar voru býlin 155!
(Helgi Skúli Kjartansson, ibid, bls. 332)
Skemmtilegasta og fróðlegasta spegilinn á þetta ferli allt saman og atburði sem því tengdust, hygg ég sé að finna í æviminningum Ágústar Þorvaldssonar á Brúnastöðum, sem Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli skráði. Þar eru margar fróðlegar frásagnir, sumar mergjaðar mjög. Frásagnarmátinn er myndrænn, léttur og leikandi:

„Flóamenn unnu mikið við þessar framkvæmdir haust og vor. Ég vann þar öll haust og vor meðan á greftrinum stóð, 1922 - 1927. Annan eins þrældóm hef ég aldrei þekkt nema ef til vill einstaka daga í mestu aflahrotum í Vestmannaeyjum. Ég var lengstum í flokki sem Gísli á Reykjum var verkstjóri fyrir. Það var metnaður í mönnum að þeirra flokkur kæmi ekki lakar út en hinir. Ég var stundum lengi að jafna mig á morgnana en maður liðkaðist við hreyfinguna... 

...Mesta mannvirkið var aðaláveituskurðurinn sem nær frá Hvítá í Sandskörðum á Brúnastaðaflötum að Hróarholtslæk og tengist honum hjá Skeggjastöðum. Mun lengd hans vera nálægt 6 km. Er hann fyrstu 2 ½ km frá ánni 14 m breiður og 5 m djúpur. Meiri hlutinn af skurði þessum er grafinn í gegnum Þjórsárhraunið sem undir er jarðvegslaginu í Flóanum og varð að sprengja það allt með dynamiti. Bora varð fyrir dynamitinu með handborum og unnu oftast við það nálægt 50 menn. Á sumrin meðan nótt var björt unnu menn allan sólarhringinn í vöktum. Ýmist sátu menn á þar til gerðum stólum við verkið eða stóðu. Þeir höfðu stálbora sem voru 50 sm til 150 sm langir. Byrjuðu menn holuna oftast með styttri bornum en þegar hún dýpkaði þá var notaður hinn lengri. Hafði hver maður hjá sér könnu og hellti með henni vatni öðru hvoru ofan í holuna og kom þá steinsvarfið sem borinn meitlaði upp úr holunni. Hamarinn sem notaður var til að lemja á borinn var kallaður „þeysill" og var með skalla á báðum endum. Alltaf stóð sérstakur maður við eldsmiðju og sló fram slitna bora og herti þá svo þeir bitu...

Þessi skurður sem hér sagði frá var sá eini sem vélgrafa kom við sögu. Hann var að vísu mestur um sig en aðeins sex kílómetrar af þrjú hundruð kílómetra veitukerfi. 

„...Allir aðrir skurðir voru handgrafnir",
heldur Ágúst áfram, „og var unnið við þá og að flóðgarðahleðslunni eftir ákvæðisvinnusamningum og fékk hver vinnuflokkur greitt á hvern grafinn eða hlaðinn rúmmetra í skurðum og flóðgörðum. Unnu menn yfirleitt af miklu kappi við þessi verk til að ná sem mestu kaupi. Þeir sem áttu langt að fara heim til sín bjuggu í tjöldum en margir gengu langar leiðir kvölds og morgna...

...Kennari einn úr fjarlægu héraði réð sig í vinnuflokk og bjó í tjaldi ásamt fleirum. Gerði hann ýmsar athugasemdir við aðbúnað í vinnunni og sérstaklega að ekki skyldi vera þar kamar. Hafði hann hjá sér kopp í tjaldinu til að pissa í. Hlógu menn mjög að þessu því slíkt var ekki venja þá. Þegar kennarinn þurfti að ganga örna sinna á daginn í vinnunni fór hann allt að því klukkutíma gang og hleypti ekki niður brókum sínum fyrr en hann var kominn úr augsýn vinnufélaga sinna. Þótti þeim þessi ferðalög ódrýgja mjög vinnu hans og draga úr góðri útkomu á akkorðinu og bættist við það léleg afköst hans. Auk þess þótti þeim göngur hans vegna þessara erinda óeðlilega margar á degi hverjum. Var honum sagt upp vinnunni af þessum sökum...

...Svo mikið var haft við Flóaveituna að Kristján X. Konungur Íslands og Danmerkur og Alexandrína drottning ásamt mörgu stórmenni dönsku og íslensku tók sér ferð á hendur vorið 1926 og komu þau 13. júní á sunnudegi að flóðgáttinni sem þá var í smíðum. Dönsku konungshjónin gerðu sér alltítt um Ísland á þessum árum því 1921 voru þau hér einnig á ferð og fóru þá um Flóann með nokkurri viðdvöl á  Selfossi og þar var haldin mikil veisla fyrir þau og fylgdarlið þeirra í stóru tjaldi, sem stóð á flötinni fyrir austan gamla bankahúsið og þangað boðið fyrirmönnum héraðsins. Var það fjölmenni sem veisluna sat....

...Svo var það aftur 1926 um vorið að konungshjónin komu til Íslands og Knútur prins sonur þeirra og allmargt danskra fyrirmanna. Þá var verið að reisa inntaksmannvirki Flóaáveitunnar (Flóðgáttina). Á leið sinni upp að Hvítá vildi kóngur fá að sjá landið sem ætti að rækta og bæta með áveituvatninu. Var því numið staðar hjá bænum Ölvisholti, gengið þar heim og síðan vestur á engjarnar að skoða hið væntanlega áveituland og grasið sem þar óx. Í Ölvisholti bjuggu þá Valdimar Bjarnason búfræðingur, og meðal annars nemandi í Askov í Danmörku, og kona hans Guðrún Ágústsdóttir frá Birtingaholti. Þennan dag var heiðskírt og heitt veður og urðu sumir ferðamennirnir þyrstir og móðir af göngunni á engjarnar. Óskuðu þeir eftir að fá svaladrykk í Ölvisholti og auðvitað var þeim veittur hann..".

Kemur nú að prjónaskapnum sem ég sagðist í upphafi myndu nefna að nýju. Þannig var að fólk af nær liggjandi bæjum lagði margt leið sína að Flóðgáttinni til að hitta konungshjónin. Ekki var Ágúst sjálfur í þessum hópi en hann segir að sér hafi verið vel kunnugt um það sem þarna gerðist enda hafi hann haft af því spurnir frá Guðlaugu Sæfúsdóttur fóstru sinni og Katrínu Guðmundsdóttur, húsmóður í Austurkoti.

„ ... Gengu þær saman frá Brúnastöðum austur að Flóðgáttinni og voru báðar prjónandi en það var siður flestra húsmæðra í þá daga að halda á prjónum og vera prjónandi á göngu. Virtist það ekki trufla göngulag þeirra né spilla flíkinni sem á prjónunum var, en það var oftast sokkur eða vettlingur.

Ágúst lætur þess getið að Alexandrína drottning hafi sérstaklega haft á orði að furðu mætti sæta „að konur gætu gengið prjónandi um þýft land of grýtt án þess að hrasa eða fella niður lykkjur af prjónum."

Ágúst heldur áfram:

 „Nokkrir bændur komu að sjá kónginn og meðal þeirra var Kristján Þorvaldsson fyrrverandi bóndi á Bollastöðum. Reið hann til fundarins á hvítum hesti öldruðum sem hann átti. Kristján var virðulegur öldrungur með allmikið grátt eða næstum hvítt vangaskegg en rakaða höku. Slíkt skegg var kallað Kristjáns IX. skegg, en Kristján IX. Danakonungur hafði borið skegg sem þannig var í lögun og tóku margir það eftir honum og vildu með því líkjast konungi sínum. Kristján Þorvaldsson var þá 71 árs gamall en mun hafa dáið árið eftir 1927. Hann hafði lengi samfara búskapnum stundað póstflutninga frá Hraungerði um Grímsnes og að Torfastöðum í Biskupstungum.

Kristján póstur - eins og hann var oft nefndur- og Kristján konungur heilsuðust með handabandi og tóku tal saman, spurði kóngur ýmislegs um hagi nafna síns og meðal annars um það hvað hann hefði margar kýr. En vegna þess að þeir nafnar áttu dálítið erfitt með að skilja hvor annan hélt Kristján póstur að spurningin hefði verið um það hvað hann ætti margar ær og nefndi tölu þeirra. Þegar kóngur heyrði töluna þá þótti honum að Kristján póstur væri heldur betur stórbóndi og gengu þeir nú þarna um saman kóngurinn og stórbóndinn eins og gamlir kunningjar. Sannleikurinn var hins vegar sá að Kristján var hættur að búa fyrir nokkrum árum. Fór hann þá í Bollastaðakot og átti fáeinar kindur þar, en þó þær væru fáar þá hefði það á þeim tíma talist allmargar kýr. Vegna þessa misskilnings gerðist það að Kristján póstur lifði þá ánægjulegu stund í elli sinni að vera af konungi sínum talinn stórbóndi. Brostu ýmsir að þessu og þótti vel til hafa tekist."
(Ágúst á Brúnastöðum, ibid. Um Flóaveitur er fjallað á bls.71- 79)

Í þessari frásögn var vísað til þess þegar konungshjónin dönsku fengu svalað þorsta sínum í Ölvisholti í heimsókn sinni á þessar slóðir árið 1926. Í Ölvisholti er nú framleiddur öl-mjöðurinn Skjálfti. Ölvisholt er ekki fjarri Hestfjalli sem hér er okkur að baki þar sem jarðskjálftinn 2008 átti upptök sín. Guðni  Ágústsson sagði mér, að svo næmir væru menn á náttúruna hér um slóðir, og svo næm er náttúran á mennina, að daginn sem kynna átti Skjálfta á blaðamannafundi nötraði jörðin í öflugum jarðskjálfta. Móður jörð hafi þótt við hæfi að minna á blaðamannafundinn, sagði Guðni. Þess vegna kemur þú til með að bjóða upp á Skjálfta við hátíðahöldin, Ögmundur minn. Það munu Sunnlendingar kunna vel að meta. Og síðan er enn  ýmislegt smáræði  ógert í sambandi við veituna og að sjálfsögðu í vegamálum á þessum slóðum, ýmislegt sem ekki má bíða. Verður Hreinn vegamálastjóri ekki örugglega með í för?

Að lokinni minni ræðu tók til máls Þór Vigfússon, fyrrum skólameistari.
Þór VigfússonFlutti hann magnaða hugvekju um framfarir og frjósemi. Hann dró upp skarpa mynd af þeim framfarahug sem gagntók Íslendinga um aldamótin 1900 og gaf af sér sunnanlands tvær mestu stórframkvæmdir landsins, hvor á sínu sviði, Ölfusárbrúna, tákn um nýja tíma í samgöngum og viðskiptum, og Flóaáveituna, tákn um nýja framleiðslugetu. Fleiri stórvirki hefðu verið í bígerð, með raunhæfum áætlunum sem þó ekki urðu að veruleika, t.a.m. virkjun og verksmiðja við Urriðafoss, stórskipahöfn í Þorlákshöfn, sem hefði getað orðið sú helsta á landinu, enda var þetta fyrir tíma Reykjavíkurhafnar, á þeim tíma að íbúafjöldi var svipaður í Árnessýslu og Reykjavík.
Reyndar lýsti Þór mest stórhug þeirra manna sem steyptu sér oní 300 km skurðakerfi í mýrum Flóans til að reisa sig og sína til velmegunar, sjálfstrausts og bættrar menningar. Hann lýsti einnig nokkuð nákvæmlega fyrirbærinu sjálfu, með skurðum sínum, flóðgörðum og brúm.
Ræða Þórs var alllöng en svo mögnuð var hún og kynngimagnaður var flutningurinn að hann hefði getað talað langt inn í nóttina án þess að nokkur maður hefði hreyft sig.

Guðni og FóaveitaEkki voru menn síður hugfangnir þegar í ræðupúltið steig Guðni Ágústsson og flutti þar ræðu sem seint gleymist: Guðni mælti af munni fram og engan textann til að hafa nema ljóð Steins Steinars, Mjólkurbú Flóamanna, sem ég fullyrði að aldrei hafi verið flutt á eins kynngimagnaðan hátt og þetta kvöld á Brúnastaðaflötum. Hann fór lofsamlegum orðum um þá sem áður höfðu talað en ekki man ég hvort það var í þessari ræðu eða síðar að Guðni sagði að svo mikill hamagangur hefði verið í ræðumönnum hér á flötunum á undan sér, að svo langt hefðu ræður þeirra gengið inn í Hestfjallið að ætla mætti að það tæki þær þrjár til fjórar vikur að koma út úr fjallinu á nýjan leik.

Guðni sagði  að Flóaáveitan hafi orðið til þess að dropið hafi smjör af hverju strái í Flóanum. Börn Flóaáveitunnar hafi verið Mjólkurbú Flóamanna, kaupfélag Árnesinga og Selfoss orðið til sem mjólkurbær og höfuðstaður. Guðni kvað Stein Steinarr hafa orðið snortinn af neistanum, kraftinum sem fylgdi þessari mestu framkvæmd Íslandssögunnar og ort kvæðið Mjólkubú Flóamanna:

Ég brýt niður blekkingu þína
og boða þér nýja trú.
Ég er Mjólkurbú Flóamanna,
og mjólkin ert þú.

Og líf þitt er loksins orðið
til liðs, sem betur fer.
Úr vitund og vilja þínum
vinn ég smér.

Þinn fjöllyndi farmannshugur
ei framar til vegar spyr.
Og hjarta þíns óræða angur
er orðið skyr.

Trú þú á alvaldið eina,
þá einu og sönnu kú.
Ég er Mjólkurbú Flóamanna
og mjólkin ert þú.

Suðurland reis, nýr kraftur fylgdi Íslandsbyggðum á eftir, sagði Guðni Ágústsson og fór nú orðum um umhverfið, kraftinn sem byggi í náttúrunni og gott ef það var ekki hér sem hann vék að bergmálinu úr Hestfjalli sem myndi láta á sér standa sökum þess hve djúpt ræðurnar hefðu gengið inn í bergið.

Mig sagði hann jafnvel snjallari ræðumann en hann áður hafði vitað. Ég hefði rakið söguna vel en þegar upp hafi verið staðið hefði ég verið búinn að eigna forfeðrum mínum öll afrek. Flóaáveitan hefði þannig aldrei orðið til nema af því að séra Stefán sterki Stephensen langafa bróðir minn hafi fyrstur talað um málið. Meira að segja hafi ég rakið svartskjöldóttu afrekskýrnar hans Ólafs í Hjálmholti til Stefánunganna frænda minna og forfeðra í Viðey.
Nú munu bláir sjálfstæðismenn hér og grænir framsóknarmenn kjósa Ögmund í næstu kosningum, sagði Guðni, og baulið í fjósunum í fyrramálið verður lofsöngur um hina hljómmiklu ræðu sem heyrðist um allan Flóann, kýrnar verða Vinstri-Grænar.

Síðan færði Guðni mér að gjöf grjónagraut svo ég lifði af og verði áfram sá Innanríkisráðherra sem vekur vætti landsins og ljósdísirnar allar til afreka. Guðni minnti á að hann hafi bjargað lífi mínu  þegar kreppan hófst. Þá hafi hann haldið útiræðu í afmæli mínu á Grímshaganum, sem ómað hefði um alla Reykjavíkurbyggð og sagt að kreppan væri að koma, gefið mér lax veiddan í net á Brúnastöðum og beðið mig að skera af honum annan endann og svo hinn þá gæti ég lifað af og étið laxinn endalaust!

Lokaorð Guðna Ágústssonar vildi ég eiga á prenti en á ekki. Eitthvað á þessa leið voru þau þó:
Dagr er upp kominn, dynja hana fjaðrir, ný dagsbrún er við haf. Það var rétt hjá ráðherra að Flóaáveitan var og er í senn arfleifð og vegvísir inn í framtíðina. Hafi ráðherra og Vegagerðin sóma af að sinna því smáa það er fagurt og jafn mikilvægt og hin tröllauknu verkefni. Lífið er prjónaskapur um veginn mikla og hinar gömlu götur kynslóðanna eru vegvísir kvöldroðans þegar hann er fegurstur eins og hér í kvöld. Heill og hamingja fylgi viljanum til verka og Íslandsbyggðum.
skiltiðFlóðgáttin 1
Flóðgáttin frá ólíkum sjónarhornum.
flóðgatt