Fara í efni

Á bak við þjóðarsátt þarf að vera þjóð

Birtist í Mbl
Í fjölmiðlum hefur mönnum orðið tíðrætt um að nú sé komin á þjóðarsátt og þar vísað í ákvörðun Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins að segja ekki upp kjarasamningum að sinni. Af þessu tilefni gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu. Þegar ákvörðun þessara aðila á vinnumarkaði og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar voru komnar í eina spyrðu þótti mönnum tilhlýðilegt að tala um þjóðarsátt. Er með þeirri yfirskrift verið að vísa í kjarasamninga frá því í byrjun tíunda áratugarins þegar menn sammæltust um að keyra niður verðbólgu með samstilltu átaki. Að því stóðu ásamt ASÍ og samtökum vinnuveitenda, Bændasamtökin, BSRB og þegar fram í sótti einnig Kennarasamband Íslands. Samtök háskólamanna stóðu þar utan en fyrir því voru ástæður sem ekki skal fjölyrt um að sinni.

Hugarfarsbreyting?

Óskandi væri að sú hugarfarsbreyting hefði átt sér stað hjá ríkisstjórninni að hún sjái raunverulega ástæðu til að stuðla að þjóðarsátt, meðal annars til þess að koma böndum á verðbólgu sem grefur jafnt undan heimilum sem atvinnulífi. Um allangt skeið hefur þeirri stefnu verið á loft haldið í Stjórnarráði Íslands að óbeislaður markaður væri best til þess fallinn að leysa öll okkar vandamál og hefur lítið verið gefið fyrir samtakamáttinn og handaflið nema þá til að loka fyrir munninn á gagnrýnisröddum. Ef nú loksins er að verða hugarfarsbreyting að þessu leyti og menn vilja höfða til samstöðu sem byggist á sanngirni þá er það vel og nokkuð sem öll samtök launafólks ættu að taka fagnandi og fegins hendi. Ekki stendur á BSRB að leggja sitt af mörkum í þessu efni.

Sá hluti fyrrnefnds samkomulags sem BSRB kom að snýr að grænmetisverði. Fulltrúi bandalagsins átti aðild að starfsnefnd landbúnaðarráherra sem lagði grunninn að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að færa niður gænmetistolla en veita jafnframt innlendri landbúnaðarframleiðslu nauðsynlegan stuðning. Hvort tveggja er í samræmi við stefnu BSRB, að stuðla að lágu verði á landbúnaðarvöru og efla íslenska gæðaframleiðslu.

Varað við skammtímalausnum.

Í tengslum við kjaraumræður að undanförnu hefur verið um það rætt hvernig styrkja megi íslenska gjaldmiðilinn en rýrnun hans, um 25% á árinu, veldur því að innfluttur varningur hækkar í verði í krónum talið og er þannig verðbólguvaldur.

Hvort það er vænlegur kostur til frambúðar að taka erlend lán til þess að greiða niður hin innlendu einsog rætt hefur verið um í tengslum við fyrrnefndan samningspakka skal ósagt látið. Staðreyndin er sú að um nokkurt árabil hafa fjármálaspekúlantar nýtt sér tilraunir stjórnvalda til að halda genginu stöðugu á þann veg að þeir tóku lán erlendis og pumpuðu því síðan út í hagkerfið hér en á hærri vöxtum og högnuðust þannig á kaupmennskunni. Með þessum peningum var síðan sívaxandi viðskiptahalli þjóðarinnar fjármagnaður. Fólk var hvatt til að kaupa bíla og annan varning og jafnan heitið mikilli lánafyrirgreiðslu. Þessi þróun raskaði þeim stöðugleika sem einkennt hafði efnahagslífið. Aðeins var spurning um hvenær blaðran spryngi. Þegar hins vegar gengistryggingin var úr sögunni með nýjum seðlabankalögum í byrjun árs hættu spákaupmennirnir að færa þennan braskgjaldeyri til landsins en við það dró úr spurn eftir íslensku krónunni og hún tók að rýrna ört. Með erlendum lánum myndi eftirspurnin að sjálfsögðu örvast að nýju og þannig styrkja krónuna - tímabundið. Og það er mergurinn málsins, þetta yrðu tímabundnar ráðstafanir sem óvíst er að hyggilegt væri að grípa til þegar til lengri tíma er litið. Við skulum ekki gleyma því að erlendar skuldir landsmanna eru þegar komnar í hærri upphæðir en dæmi eru um áður í Íslandssögunni og spurning hvort þar er á bætandi. Þessi mál þarf að skoða af mikilli yfirvegun áður en ákvarðanir eru teknar.

Niðurskurður og einkavæðing.

Það sem hins vegar varð tilefni þessara skrifa minna nú eru yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðhaldssemi í ríkisfjármálum og jafnframt að framhald verði á sölu ríkisfyrirtækja. Hér er rétt að staldra við. Aðhaldssemi er góðra gjalda verð og reyndar grundvallaratriði að ráðdeild sé sýnd í hvívetna í meðferð opinberra fjármuna. Ef hins vegar aðhaldssemi verður áfram sýnd á þeim forsendum sem við þegar höfum forsmekkinn af, þ.e. á grundvelli niðurskurðar samhliða hækkun notendagjalda, þá bitnar slík aðhaldssemi á þjónustu, rýrir kaupmátt þeirra sem síst skyldi, skólanema og sjúklinga og er þannig ávísun á félagslega mismunun. Í öðru lagi er sala ríkiseigna til þess fallin að veikja ríkissjóð þegar til langs tíma er litið. Það á við nú ekki síður en fyrr á tíð að lítil búhyggindi eru að selja frá sér gullkýrnar. Við skulum ekki gleyma því að eingöngu hafa verið seldar eignir sem skilað hafa arði til hins opinbera. Þegar farið er yfir sölu ríkiseigna og einkavæðingu hvort sem er í formi einkaframkvæmdar eða í öðrum búningi þá hefur hún verið skattborgaranum í óhag.

Ástæðan fyrir því að molna tók undan þjóðarsáttinni á sínum tíma var einmitt framkvæmd stefnu af því tagi sem nú er verið að hóta. Þá fóru í hönd tímar vaxandi sjúklingagjalda, skólagjalda og einkavæðingar. Upp var runninn tími fjármagnsins og stórfyrirtækjanna. Sá tími er enn ekki liðinn undir lok. Og fyrr verður engin þjóðarsátt.