5068 eru atvinnulausir !
Birtist í Fréttablaðinu 09.12.2003
Í morgun heyrði ég í ágætum kunningja mínum. Hann var að segja mér þau tíðindi að hann væri í fyrsta sinn á ævinni að skrá sig atvinnulausan og sækja um atvinnuleysisbætur. Þetta er maður með vinnufúsan huga og hendur og á enga ósk heitari en að fá tækifæri til þess að vinna. En það tækifæri gefst honum ekki nú og þannig er málum háttað hjá mörgum fleirum. Það er einkum þrennt um þessar mundir sem kemur róti á hugann þegar atvinnuleysi og málefni atvinnula
Skipulagskreppa og brostnar vonir
Það sem fyrst leitar á hugann er sú skipulagskreppa samfélagsins að geta ekki nýtt allar vinnufúsar hendur. Þegar við lítum í kringum okkur sjáum við að víða þarf að taka til hendinni og á ýmsum sviðum háir mannekla beinlínis starfsemi. Álag er of mikið á þá sem eiga að sinna verkunum og anna starfsmenn iðulega ekki því sem þeim er ætlað að gera. Þetta á til dæmis við um ýmsar sjúkra- og umönnunarstofnanir.
Í öðru lagi kemst maður ekki hjá því að rifja upp fagurgala ríkisstjórnarinnar um atvinnumálin fyrir síðustu kosningar. Fyrst og fremst voru það virkjunarframkvæmdir og álver sem öllu áttu að bjarga. Við höfum fengið að kynnast því að ekki hafa þessar framkvæmdir - alla vega enn sem komið er - leyst atvinnuleysisvandann hér á landi. Hingað til lands hafa hins vegar verið fluttir verkamenn sunnan úr álfu og vissulega má til sanns vegar færa að okkur beri að hugsa á heimsvísu þegar atvinnuleysi er annars vegar. Hins vegar er því ekki að leyna að heldur verður maður beggja blands þegar í ljós kemur að verktakafyrirtækin bera niður á þeim svæðum þar sem atvinnuleysi er mikið, og kaup og kjör rýr, í þeim tilgangi að verkin megi vinna á sem allra ódýrastan máta hér á landi. Auðvitað má segja að framkvæmdirnar í tengslum við Kárahnjúkavirkjun kalli á margvíslega þjónustu sem skapi störf hér á landi. En bæði er þetta af skornum skammti og hætt er við að þörfin verði tímabundin. Með öðrum orðum, skammgóður vermir. Ég held að fáir neiti því nú að þær væntingar sem menn höfðu vegna virkjunarframkvæmdanna hafi hreint ekki ekki orðið að veruleika.
Aðförin að atvinnulausum
Þriðja atriðið sem kemur upp í hugann er framkoma ríkisstjórnarinnar gagnvart atvinnulausum. Í fjárlagafrumvarpinu segir, að gert sé "ráð fyrir því að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs lækki um 170 milljónir króna vegna áforma um að lögum verði breytt á þann veg að í stað þess að bætur greiðist frá fyrsta skráningardegi verði ekki greitt fyrir fyrstu þrjá dagana o.fl." Og fleira hvað? Nú hefur komið á daginn að “o.fl.” byggir á áformum um að þrengja að fiskvinnslufólki sem hefur fengið atvinnuleysisbætur þegar fyrirtækjum er lokað vegna hráefnisskorts eða rekstrarörðugleika. Ríkisstjórnin segir lögin misnotuð en ef svo er þá ber að taka á því á annan hátt en þrengja og rýra kjör fiskvinnslufólks sem missir vinnu sína. Í ofanálag er á það að líta að þau lög sem hér um ræðir byggja á þríhliða samkomulagi verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og stjórnvalda og því ber að sjálfsögðu að leita eftir samkomulagi milli allra aðila áður en hróflað er við þessum málum.
Varðandi þann ásetning að hafa fyrstu þrjá dagana í atvinnuleysi af hinum atvinnulausa þá er það nokkuð sem hefði þurft að ræða við þjóðina alla fyrir síðustu kosningar. Ég er ansi hræddur um að Framsókn hefði þurft að auglýsa nokkuð grimmt til að sannfæra kjósendur um ágæti þessarar stefnu. Atvinnulaus maður fær 77 þúsund og 449 krónur á mánuði. Nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga mun þessi upphæð lækka um tæpar 11 þúsund krónur. Þegar gengið hefur verið á ríkisstjórnina og hún spurð hvað fyrir henni vaki með þessari ákvörðun þá hefur svarið verið afdráttarlaust: Það þarf að spara peninga! Í tómum vösum atvinnulauss fólks er efnahagsúrræði þessarar ríkisstjórnar að finna. Ég er ansi hræddur um að þingið komist seint í jólafrí ef ráðherrum er alvara að fá þessa ákvörðun lögfesta!
Lífsnauðsyn að útrýma atvinnuleysi
Það er staðreynd að 5068 Íslendingar eru nú atvinnulausir. Atvinnuleysi er einhver alvarlegasta meinsemd þjóðfélagsins, skaðar þá einstaklinga sem í hlut eiga og hefur auk þess áhrif á allt umhverfi þeirra. Í reynd hefur langvarandi atvinnuleysi lamandi áhrif á allt þjóðfélagið. Á þetta hefur margoft verið bent og er reyndar óumdeilt. Ekki ætla ég að halda því fram að með einhverri einni einfaldri ráðstöfun verði atvinnuleysi útrýmt í eitt skipti fyrir öll. Þvert á móti tel ég það vera verkefni sem við þurfum stöðugt að glíma við. Það verður að gera af raunsæi og yfirvegun. Í stað þess að leika blekkingarleikinn um að allur vandi leysist með álveri eða milljörðum í vegagerð þarf að hugsa málin á breiðum forsendum. Hvernig væri að byrja á því að spyrja hvar það sé í þjóðfélaginu sem helst þurfi að taka til hendinni og og beina síðan fjármagninu í þann farveg. Slíkt mundi kosta kúvendingu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Að slíkri stefnubreytingu ber okkur öllum að vinna.