Fara í efni

24. APRÍL


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 05/06.06.21.
Við þessa dagsetningu er yfirleitt staðnæmst þegar tímasetja á upphaf ofsókna Tyrkja á hendur Armenum sem enduðu í þjóðarmorði fyrir rúmum eitt hundrað árum. Þá var allt að einni og hálfri milljón Armena útrýmt. Hinn 24. apríl árið 1915 hófust fjöldahandtökur á forystufólki Armena, fangelsanir og brottvísun úr landi, síðan varð atburðarásin harkalegri og blóðugri.

Aðdragandinn að þessum hamförum af mannavöldum var allnokkur, upplognar ásakanir um sviksemi gagnvart tyrkneska Ottómanveldinu voru efst á blaði en stóri glæpurinn var að Armenar voru almennt kristnir, vildu hlúa að menningu sinni og arfleifð og grunaðir um að geta hugsað sér að búa í eigin ríki. Það var að sjálfsögðu talin ógn við Ottómanveldið og síðan Tyrkland sem reis á rústum þess og barði af hörku niður allar þjóðernishreyfingar innan landamæra sinna.

Kemal Atatürk, sem komst til valda í Tyrklandi að lokinni heimsstyrjöldinni fyrri, mátti þannig ekki heyra á Armena minnst og Kúrdar, sem töldu milljónir, voru heldur ekki til samkvæmt hans orðaforða nema þá sem „fjalla-Tyrkir“.

Þjóðarmorðið á Armenum fór þannig fram, að haldið var með matarlaust fólkið í gríðarfjölmennum dauðagöngum út í eyðimörkina suður og austur af núverandi landamærum Tyrklands, þar sem nú er norðanvert Sýrland og vestanvert Írak. Fáir komust á leiðarenda í fangabúðir sem biðu fólksins. En slíkt var ofbeldið á þessari vegferð að fáir komust á þessa lítt fýsilegu áfangastaði.

Fram að heimsstyrjöldinni síðari var víða litið á þetta þjóðarmorð sem mesta glæp mannkynssögunnar til þessa. Tyrkir hafa aldrei viðurkennt að þarna hafi verið um útrýmingu á þjóðarbroti að ræða heldur sé hitt nær sanni að um um þrjú hundruð þúsund Armenar hafi látið lífið í drepsótt sem upp hafi komið þegar fólkið lagði land undir fót.

Vegna þessa hefur Armenum þótt mikils virði að þjóðir heims viðurkenndu þennan glæp og heimurinn horfðist þannig í augu við þögn sína og afskiptaleysi á þeim tíma sem þessir atburðir áttu sér stað. Þetta hafa einar þrjátíu þjóðir nú gert, þar á meðal Frakkar, Þjóðverjar, Kanadamenn og svo nú Bandaríkin. Þannig að nú fer að vera óhætt fyrir Alþingi að samþykkja ágæta þingsályktunartillögu Andrésar Inga Jónssonar og fleiri sem liggur fyrir Alþingi þessa efnis en hún er samstofna því sem Margrét Tryggvadóttir átti frumkvæði að árið 2012.

Þau ríki sem hér eru nefnd eru allt NATÓ-félagar Tyrkja og þess vegna kannski ekki við öðru að búast en að í yfirlýsingu Bidens forseta BNA frá 24. apríl síðastliðnum, um þetta aldargamla þjóðarmorð, skyldi tekið fram að í viðurkenningunni væri engin ásökun fólgin, aðeins að slíkir atburðir mættu ekki endurtaka sig. En gott og vel, þá er líka að reyna að standa við það í samtímanum.

Suður í Tyrklandi var annar maður með augun á þessari dagsetningu í apríl síðastliðnum. Það var Erdogan Tyrklandsforseti sem á þessum minningardegi þjóðarmorðsins sendi herflugvélar á loft til að hefja allsherjarárás á Kúrda í Norðaustur-Sýrlandi og Norðvestur-Írak. Þessum svæðum Kúrda vill hann ná undir tyrknesk yfirráð jafnframt því sem hann minnir Kúrda á hvaða lærdóma sagan geymi um þá sem ekki sýni skilyrðislausa undirgefni.

Hér eru engar tilviljanir í skilaboðum því á þessum slóðum hefur fólk engu gleymt, hvorki því sem gerðist á öndverðri öldinni sem leið, hvað þá ofsóknahrinunni í Suðaustur-Tyrklandi gegn Kúrdum frá miðju ári 2015 og fram á árið 2017. Þá voru byggðir lagðar í rúst, hundruð þúsunda hrakin á flótta, menningarminjar eyðilagðar, aftökur, mannrán, fangelsanir og ofbeldi, svo skefjalaust að mannréttindadómstóll í París komst að þeirri niðurstöðu að Tyrkir hefðu gerst sekir um glæpi gegn mannkyni.

Ég var viðstaddur Parísarréttarhöldin í mars 2018 og bauð í kjölfarið nokkrum vitnanna að segja frá reynslu sinni á áhrifamiklum fundi í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavik ársbyrjun árið 2019.

Enn er þess beðið að Sameinuðu þjóðirnar láti frá sér fara afgerandi mótmæli vegna eyðileggingar á menningarverðmætum sem þessi alheimsstofnun setti á heimsminjaskrá til ævarandi varðveislu, en tyrkneski herinn eyðilagði vísvitandi, að ekki sé minnst á skefjalaust ofbeldið sem þarna var látið viðgangast af hálfu bandalagsríkja.

Ekki geri ég mér minnstu vonir um að NATÓ-ríkin ásaki neinn fyrir framangreint ofbeldi eða ofbeldishrinuna sem nú er hafin. En væri ekki til íhugunar að fyrir Íslands hönd yrði því hvíslað í eitthvert vinareyrað á næsta NATÓ-fundi að varla sé það sæmandi að bíða í hundrað ár með að gangast við eigin þögn þegar mannréttindin eru brotin