Fara í efni

24%, 20%, 18%....


Hversu langt niður skyldi Sjálfstæðisflokkurinn ætla að tala sig á síðustu metrunum fyrir kosningar? Hann stundar nú það sem kallað er málþóf á Alþingi til að koma í veg fyrir að komið verði á laggirnar sérstöku stjórnlagaþingi á komandi kjörtímabili. Þar er ætlunin að fjalla um stjórnskipan landsins. Ég skal játa að ég hef nokkra samúð með því sjónarmiði að kappkosta eigi að ná breiðu samkomulagi  um breytingar sem snerta stjórnarskrána. En þá þarf líka samstarfsvilji að vera fyrir hendi. Þeim vilja virðist Sjálfstæðisflokkurinn ekki búa yfir. Meira hangir á spýtunni. Í ráði er að festa í stjórnarkrá ákvæði þess efnis að 15% þjóðarinnar getist krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg málefni og síðast en ekki síst að tryggður verði í stjórnarskrá eignarréttur á auðlindum sem "ekki eru einkaeignarréttarlegs eðlis."
Þetta ávæði er lint en of afdráttarlaust fyrir Vinavæðingarflokkinn, sem má ekki til þess hugsa að þjóðinni verði tryggð yfirráð yfir auðlindum til lands og sjávar. En ég spyr: Er þetta ekki mál málanna fyrir framtíðarhagsmuni Íslands? Er það ekki brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar að tryggja að erlend risafyrirtæki sölsi ekki undir sig dýrmætar eignir okkar - vatnið, orkuna í fallvötnum, varmann   í iðrum jarðarinnar, fiskinn í sjónum, náttúruperlur ósnortinna víðerna...? Þjóðin skynjar að þetta er mál málanna fyrir framtíðar kynslóðir.
Sjálfstæðisflokkurinn á Alþingi er á annarri skoðun. Með látlausu en innhaldslitlu tali koma þingmenn flokksins í veg fyrir að brýn hagsmunamál almennings komi til afgreiðslu. Þingmálin sem snerta lánin, atvinnuna, lífskjörin. Ekkert af þessu fæst afgreitt á meðan Sjálfstæðisflokkurinn situr við sinn keip. Það er bót í máli að því lengur sem sjálfstæðismenn tala á þingi, þeim mun minna verður fylgi flokksins, fer úr 28% í 24% síðan í 18% og þannig koll af kolli....