Fara í efni

10 litlir Yassinar og mótsagnakennd afstaða Íslands

Umhugsunarverð var fréttin, sem barst frá Palestínu í gær, að fáeinum klukkustundum eftir morðið á Ahmed Yassin, forsvarsmanni Hamas samtakanna, hafði tíu nýfæddum börnum verið gefið nafn hans. Faðir eins barnsins sagði að þar með vildi hann stuðla að því að sá vilji Yassins yrði að veruleika, að yrði hann ráðinn af dögum yrðu til þúsund nýir Yassinar.  Faðir litla barnsins bætti því við, að í sínum huga væri Ahmed Yassin ekki dáinn, "hann lifði í hjörtum allra Palestínumanna, Araba og Múslíma."
Þetta færir okkur heim sanninn um hvert ofbeldis- og hatursherferð ísraelskra stjórnvalda leiðir okkur.
Í þessu sambandi er rétt að geta einnig góðra frétta. Í Ísrael virðist andstaða við stefnu ríkisstjórnarinnar fara vaxandi og í morgunfréttum útvarps heyrðum við, að á meðal Palestínumanna, sem mótmæltu við skrifstofu sendifulltrúa Ísraels í New York í gær hefðu verið gyðingar, þar á meðal rabbíi þar í borg, sem hvatti til samstöðu Araba og Gyðinga. Hann sagði að væri það ekki vegna Zíonismans sem rekinn er í Ísrael myndum við lifa í sátt og samlyndi. Margt virðist benda til að andóf af hálfu Gyðinga fari nú vaxandi og er það vel.

Afstaða Íslands er mótsagnakennd

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, lýsti því yfir, þegar í fyrradag, að hann fordæmdi morðið á Yassin , og ekki var annað að heyra en verið væri að gagnrýna aðferðafræði, nefnilega þá að hægt sé að uppræta ofbeldi með enn meira ofbeldi; að kveða niður hreyfingu með því að myrða forsvarsmenn hennar.
Aðferðafræðin sem Ísraelsmenn beita er engu að síður nákvæmlega sama aðferðafræðin og Bandaríkjastjórn hefur viðhaft og íslenska ríkisstjórnin, með þá Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson í farabroddi, styður Þar er komin mótsögnin.
Ríkisstjórn Bush í Bandaríkjunum í slagtogi með ríkisstjórn Tonys Blairs á Bretlandi, og með stuðningi svokallaðra staðfastra ríkja, þar á meðal Íslands, hefur einmitt farið fram undir þeim formerkjum að hernaðarofbeldi sé réttlætanlegt og skynsamlegt til þess að kveða niður hryðjuverk.

Stjórnlyndir hægri menn og lögregluríkið

Fjöldamorðin á Spáni eru enn eitt dæmið – eitt hið allra hryllilegasta – um að þessi aðferðarfræði er röng – hún er hvorki réttlætanleg né skynsamleg. Meira að segja Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í sjónvarpsviðtali fyrir fáeinum dögum að bandaríska herstjórnin í Írak réði ekki við hryðjuverkamenn – þeir gætu alltaf látið til sín taka á óvæntan og ófyrirsjáanlegan hátt. Það þyrfti nánast að vera maður á mann með sífellt strangara eftirliti. – Mér varð hugsað til þess að einmitt þetta væri nú að gerast í mörgum ríkjum heims: Vaxandi eftirlit með borgurunum og mjög sterk tilhneiging í átt til lögregluríkis, einkum undir forræði stjórnlyndra hægri manna.

Þörf á að leiðrétta kúsinn

Þær ríkisstjórnir sem lögðu blessun sína yfir árásina á Írak töldu sig hafa sannanir fyrir því að það væri nauðsynlegt. Nú hefur komið á daginn að þær sannanir reyndust upplognar – og hefur þetta leitt til pólitísks uppgjörs í mörgum hlutaðaeigandi ríkjum. Slíkt hefur ekki gerst hér og er það löngu tímabært.
En það sem fyrst og fremst skiptir máli er að forsvarsmenn utanríkismála þjóðarinnar breyti um stefnu varðandi stuðning við leiðir til að uppræta ofbeldi í heiminum.Ef ríkisstjórnin reynist vera komin í mótsögn við sjálfa sig þá yrði það henni til vegsauka að leiðrétta kúsinn á þenn hátt.