Fara í efni

1. MAÍ Í GRAFARVOGSKIRKJU: Á AÐ BJÓÐA HINN VANGANN?

Þér hafið heyrt, að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.

Þessi orð úr Mattheusarguðspjalli hafa löngum verið mér umhugsunarefni. Ég hef átt erfitt með að kyngja þeim enda með heitfenga skapsmuni sjálfur og sannast sagna ekki mikið fyrir það gefinn að bjóða hinn vangann. Vissulega hefur alltaf blundað í mér, eins og sennilega okkur öllum, skilningur á því að hefnigirni er aldrei til góðs. Eflaust er þetta hluti af uppeldi okkar og hver veit nema þessi boðskapur úr guðspjallinu hafi haft sín áhrif. En þær grundvallarspurningar sem þessi orð vekja koma oft upp í hugann. Þær gera það svo sannarlega þar sem átök hafa geisað á milli manna, þar sem einn hefur beitt annan ofbeldi og kúgun. Við þurfum ekki að hverfa langt aftur í tímann til að minnast skipulagðrar útrýmingar á gyðingum í valdatíð þýskra nasista og nær í tímanum er Suður-Afríka kynþáttastefnunnar. Í samtímanum úir og grúir af dæmum um yfirgang, kúgun og ofbeldi. Tilefnin til að velta fyrir sér kennisetningunni úr guðspjallinu eru því ærin: En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.

Á vegginn hefur verið krotað rauðu letri – sendum arabana í gasofnana. Við erum stödd á barnaleikvelli í Hebron í Palestínu. Við Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands og Borgþór Kjærnested, skipuleggjandi ferðar okkar, erum þarna í fylgd tveggja kvenna, sjálfboðaliða á vegum alþjóðlegra kirkjusamtaka. Palestínumenn byggja Hebron en í elsta hluta borgarinnar hafa ísraelskir gyðingar komið sér fyrir. Þar bjuggu áður Palestínumenn en smám saman hefur verið þrengt að þeim með þeim afleiðingum að þeir hafa yfirgefið heimili sín. Ísraelskir hermenn gæta hverfisins. Inn í það mega aðeins fara þeir Palestínumenn sem byggja hverfið, ekkert gestkomandi fólk úr þeirra röðum. Verkefni hinna vopnuðu landránsmannna er að hrekja íbúana sem fyrir voru á brott frá heimkynnum sínum. Hinir herskáu gyðingar í Hebron telja að það muni takast með tímanum. Ef ekkert verður að gert er það eflaust rétt mat. Þeir höfðu sýnt þá fyrirhyggju að velja sér heimkynni á efstu hæðum borgarinnar. Þaðan henda þeir sorpi niður á verslunargötur Palestínumanna sem strengja net yfir göturnar til að fanga sorpið. Það er skammgóður vermir. Hland og illa þefjandi úrgangur verður þess smám saman valdandi að verslun stöðvast, búðum er lokað, lífið í hverfinu fjarar út.
Það glamrar í bárujárnsplötunum undir fótum okkar þegar við nálgumst varðstöðvar hermanna á mörkum hverfisins. Þeir bera þung vopn.
Konurnar, leiðsögumenn okkar, klöngrast með okkur upp gamlar hlaðnar steintröppur. Þær eru illa farnar og erfitt að fara um þær. Þessar tröppur liggja upp að barnskóla hverfisins. Í 20 metra fjarlægð eru aðrar tröppur. Þær eru steyptar, greinilega gerðar til að leysa hinar gömlu af hólmi – rennisléttar og væru aðgengilegar ef ekki hefðu verið settar í þær gaddavírsrúllur. Það hafði augjlóslega verið gert í því augnamiði að enginn fari um þær. Við spurðum, hvers vegna þessi gaddavír? Konurnar svöruðu okkur með augnaráði sínu. Við vorum farnir að skilja.

Myndirnar koma upp í hugann hver á fætur annarri. Við erum í Nablus. Það er orðið áliðið, nóttin nálgast. Fátt fólk á ferli. Skammt frá hótelinu sem við dveljumst á göngum við fram á þrjá ísraelska brynvagna. Inn um rúðurnar sjáum við vopnaða hermenn. Þeir rýna í vegakort. Það er óhugnaður í loftinu; það er lævi blandið. Skyndilega heyrast drunur og hervögnunum er ekið með ógnarhraða inn í eitt hverfi borgarinnar. Við vitum ekki meir. Daginn eftir er okkur sagt að þrír ungir menn hafi verið handteknir. Þeir séu grunaðir um að vera viðriðnir hryðjuverkastarfsemi. Það er jafnan viðkvæðið. Sömu nótt var ungur Palestínumaður skotinn til bana í Ramallah.
Hann var ungur og hann var palestínskur.
Það er lífshættulegt á þessum slóðum.  
Ógnarstjórn þýðir að enginn er öruggur
- enginn má vera öruggur;
Það þarf að vera stöðug ógn, stöðug niðurlæging.
Í Nablusborg einni, hafa 700 íbúðarhús verið lögð í rúst og 4000 heimili eyðilögð í þessari síðustu ofbeldishrinu sem Ísraelar bera ábyrgð á.

Í gamla daga – í upphafi síðustu aldar - lifðu Palestínumenn og Ísraelar í sátt og samlyndi á þessu svæði. Nú er verið að reisa kynþáttamúr – þar sem hernámsveldið Ísrael sölsar undir sig stöðugt meiri ræktarlönd, vatnsból og beitir íbúana ofbeldi af slíkri grimmd að maður verður agndofa. Þetta er undarlegt og dapurlegt hlutskipti þjóðar sem sjálf hefur þurft að sæta ofsóknum. Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann.

Í för okkar til Palestínu hittum við félagsfræðing, Vivecu Hazboun að nafni, sem hafði skipulega kannað sálarástand palestínskra barna. Slembiúrtak á meðal 450 barna hafði sýnt að 380 þeirra voru sjúklega bæld. Í annarri könnun voru eitt hundrað börn spurð um framtíðaráforn sín og drauma. Af þessum eitt hundrað börnum sýndu 80 merki um doða og lífsleiða, kváðust enga framtíð sjá eða hreinlega neituðu að tjá sig. Þessi hópur fékk meðferð og aðhlynningu. Að nokkrum mánuðum liðnum voru mörg farin að tjá sig en óhug vakti að fjórðungur þeirra vildi helst verða martírar, deyja fyrir málstað Palestínumanna. Enn var haldið áfram meðferð og sagði félagsfræðingurinn okkur að ekkert þessara ungmenna hefðu gerst sjálfsmorðshermenn, þótt dauðaóskin væri þeim aldrei fjarlæg.

Í þessari för til Ísraels og Palestínu komumst við nær því að skilja hvað veldur því að ungt fólk sviptir sig lífi og tekur líf annarra. Hin vonlausu ungmenni sem eygja enga framtíð, á barmi sturlunar, ungmenni sem daglega verða vitni að ofbeldi og grimmd, íbúðarhús sprengd í loft upp af handahófi, og fólk drepið, einnig af handahófi. Aðrir hnepptir í varðhald þar sem þeir sæta pyntingum, vikum saman, mánuðum saman, jafnvel í ár og áratugi. Hvernig myndum við bregðast við í slíkum aðstæðum? Við skulum alltaf hafa það hugfast að þetta er fólk eins og við, í engu frábrugðið okkur. Aðstæður þess og hlutskipti er hins vegar annað. Nú skildum við þessar aðstæður, þetta hlutskipti betur og þar með rætur vandans, hvers vegna ung manneskja tekur líf sitt í hefndarárás á annað fólk.

Þegar svara skal spurningum um réttlæti og hefnd gerist áleitið að spyrja hvort jafna megi saman annars vegar ríki og hins vegar einstakri mannpersónu; hvort rétt sé að meta ábyrgð ríkisins og einstaklingsins á sama mælikvarða?

Í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið fyrir nokkrum misserum velti ég vöngum yfir þessu í kjölfar sjálfsmorðsárásar í Haifa. Ung palestínsk stúlka hafði sprengt sig í loft upp og tekið líf saklausra borgara í Ísrael með sér. Í þessum skrifum segir meðal annars: "Þegar við látum hugann reika aftur í tímann veltum við því held ég flest oft fyrir okkur hvers vegna ekki urðu fleiri til að rísa upp og andæfa mestu og alvarlegustu glæpaverkum mannkynsins. Þá verða efst í huga útrýmingarbúðir nasista þar sem murkað var lífið úr milljónum gyðinga af vísindalegri yfirvegun og nákvæmni. Illvirkinn var þýska ríkið og morðin voru viðbjóðslegri fyrir þá sök að þau voru unnin af verkfræðingum og vísindamönnum á hvítum sloppum; mönnum sem fóru heim tíl sín á kvöldin, kysstu börnin sín og hlustuðu á skemmtiþátt í útvarpinu. Þarna liggur munurinn á milli tilfinningaverunnar, sem hefur misst barnið sitt eða bróður í sprengjuárás, múruð inni í gettói og  leitar hefnda, jafnvel reiðubúin að láta nota sig til illvirkja eins og stúlkan sem tók líf sitt og annarra í sjáfsmorðsárásinni í Haifa fyrir fáeinum dögum; þarna liggur munurinn á milli manneskjunnar sem buguð af sorg og vitstola af örvæntingu sér aðeins svartnættið framundan og hins vegar ríkisins sem hefur verið fengið það hlutverk að veita tilfinningum okkar og bræði inn í yfirvegaðan farveg. Í mörg þúsund ár hefur mannkynið verið að basla við að hafa hemil á hefnigirninni með boðun trúar- og heimspekikenninga og á síðari öldum hefur okkur tekist að ná það langt að smíða réttarríki og hinar Sameinuðu þjóðir, sem eiga að halda uppi merki réttarríkisins á heimsvísu. Vitur maður sagði í mín eyru fyrir fáeinum dögum, að þegar allt kæmi til alls hefðu nasistar ekki verið að ofsækja gyðinga. Þeir hefðu verið að ofsækja manneskjur og því mættum við aldrei missa sjónar á. Nú, þegar það hefur orðið hlutskipti gyðinga að vera í hlutverki þess sem ofsækir og beitir valdi á miskunnarlausan hátt, þá megum við ekki missa sjónar á því að nú sem fyrr eru það manneskjur sem eru að ofsækja manneskjur. Hörðustu gagnrýnendur ofsókna Ísraela á hendur Palestínumönnum eru einmitt gyðingar, afburðamenn í andanum, sem neita að sjá trúflokka og kynþætti heldur aðeins manneskjur. Hið sama gildir í hópi Palestínumanna. Þar er að finna menn sem tala fyrir vináttu og friði. Þetta er það fólk sem raunverulega heldur uppi merki vegvísisins til friðar."

Þetta var skrifað í október árið 2003. Eftir heimsókn mína á þetta svæði er ég sama sinnis en nú meðvitaðri um manneskjuna beggja vegna múrsins; um hræðsluna og örvæntinguna í augnaráði unga ísraelska hermannsins í Hebron. Hann hafði trúað annarri konunni, fyrrnefndum leiðsögumanni okkar, fyrir því – þegar enginn heyrði til -  hve illa sér liði, hve vansæll og óhamingjusamur hann væri. Og hann hafði bætt við, að þrátt fyrir allt, þá væri hann bara maður, ég er bara manneskja með mínar tilfinningar, hafði hann sagt. Og mér líður illa.
Ísraelar, ekki síður en Palestínumenn eru þannig fórnarlömb.

Í guðspjallinu hér að framan er vitnað í hina grimmdarlegu setningu: auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Kristnir menn tala um lögmálið og fagnaðarerindið. Lögmálið er Gamla testamentið og fagnaðarerindið er Nýja testamentið. Lögmálið segir: Við erum af jörðinni komin og við verðum að hlíta lögmálum jarðarinnar. Við verðum að beita hvort annað hörðu til að halda reglu í þjóðfélagi. Lögmálið er um reglur, um refsingar, um baráttu, um hörku: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Það er réttlætisyfirlýsing lögmálsins. Handhafi valdsins hefur rétt fyrir sér. Valdið hefur rétt fyrir sér. Hefndin er réttlæti og hefndin er réttlát. En hvað er þá fagnaðarerindið? Fagnaðarerindið er það að maðurinn geti verið meira en skepna kúguð af hlutskipti sínu. Fagnaðarerindið segir að maðurinn geti lyft sér upp fyrir hlutskipti sitt, að hann geti sigrast á kringumstæðum sínum. Að baráttan sé um að láta ekki lögmálið kúga sig að eilífu, en freista þess að ná valdi á skepnunni, á sjálfum sér, á samfélaginu og á heiminum. Og vopnið í þeirri baráttu? Það er kærleikurinn. Vopnið er fyrirgefningin. Vopnið er traust á kærleikanum. Kristnir menn segja að Jesú, hafi verið sendur á vettvang til að færa okkur þessar fréttir. Menn hafa fengið þessi skilaboð með ólíkum hætti, á ólíkum tímum. Á okkar tímum sjáum við annan slíkan sendiboða í suður-afríska biskupnum Desmond Tutu. Þjóð hans var kúguð og bræður hans og systur þjáð og smáð, pyntuð og rænd og fangelsuð af valdhöfum og handbendum þeirra. Þegar svo kúgararnir gáfust upp, þá setti Tutu á laggirnar dómstól sem hét sættir og sannleikur. Allir sem höfðu orðið fyrir ofsóknum gátu kært kúgara sína og dómstóll sátta og sannleika réttaði í málinu. Þegar sannleikurinn hafði komið í ljós, þá fór fram fyrirgefning og sættir.
Þetta er í raun bylting í mannkynssögunni.
Þetta er að bjóða hinn vangann, þetta er að treysta á kærleikann.
Í Ísrael og Palestínu búa tvær sturlaðar þjóðir. Þær eiga hvorug nokkra möguleika á að hlusta á fagnaðarerindið.
Í Konungsskuggsjá segir að þjóðir geti orðið sjúkar, og að þá sé skylda nágranna- og frændþjóða að koma þeim til bjargar. Það er okkar hlutverk. Við eigum að fjarlægja múrinn.

Kærleikurinn er ekki alltaf skynsamlegur og virðist ekki alltaf raunsær. Hann uppsker ekki þakklæti og oft fylgir honum sársauki.
Kærleikurinn er upphaf og endir.
Kærleikur er viðhorf, niðurstaða hvers og eins.
Fagnaðarerindið er um að færa kærleikann inní hið daglega líf og lyfta því upp fyrir lögmálið.
Kærleikurinn sigrar aldrei, því kærleikurinn þarf ekki að sigra neitt. Kærleikurinn er sigur.

Við Vesturlandabúar eigum að hætta að smíða stríðsglæpadómstóla og einbeita okkur að því að stöðva stríðsglæpi. Sturlað fólk býður ekki hinn vangann. Það gerir hinn heilbrigði. Hatrið getur ekki fyrirgefið, hatrið er blint og heyrnarlaust. Við þurfum að gróðursetja kærleikann, við þurfum að taka afstöðu með friði, án tillits til hagsmuna og skoðana. Við þurfum að rífa gróðurhús hatursins í Miðausturlöndum. Hlustum á boðskap fagnaðarerindisins, trúum á mátt kærleikans.