Fara í efni

1. MAÍ ÁVARP Á INGÓLFSTORGI Í REYKJAVÍK

Góðir félagar, góðir landsmenn.
Þegar síðasti póst- og símamálastjórinn var einhverju sinni spurður hvað hann teldi vera hlutverk þeirrar stofnunar sem hann veitti forstöðu, svaraði hann því til að markmiðið væri að veita öllum landsmönnum sem besta þjónustu. Það skyldi gert á markvissan og hagkvæman hátt. Þegar nýr símaforstjóri í hlutafélagavæddum síma var spurður sömu spurningar, hver hans draumsýn væri, var svar hans á annan veg. Að skapa eigendum sínum arð, sagði hann, ég vil að af símanum verði hámarksgróði.

Þetta er munurinn á milli tveggja heima - annars vegar þess heims sem hugsar fyrst um notandann og notagildið og síðan hins heimsins sem hugsar um það eitt að veita arði og gróða niður í vasa fjármálafólks.

Börn eru oft glögg. Það var barn sem sá að keisarinn var ber, að hann var nakinn, án klæða og það var líka barn sem heyrði að ríkisstjórnin á Íslandi vildi selja allar mjólkurkýr sínar og að því væri vel tekið af bröskurum og auðmönnum. Þeir vildu nefnilega hafa viðurværi af þessum kúm. Og þá spurði barnið. En þegar búið verður að selja allar mjólkurkýrnar? Á hverju eiga braskararnir þá að lifa? Hvað verður þá hægt að gera fyrir þá?

Sum fyrirtæki og stofnanir mátti að meinalausu selja úr almannaeign en ekki gefa eins og gert var.
Sum starfsemi hefði hins vegar betur átt kjölfestu í þjóðinni en í valdabröskurum, sem nú mala í þeim gullið og nota nýfengin einokunarvöld sín og áhrif, sem kominn væri fram að nýju Bogesen –
endurborinn Bogesen,
kaupmaðurinn hans Halldórs Laxness,
kaupmaðurinn frá Óseyri við Axlarfjörð, sem öllu og öllum réð í sinni sveit í krafti auðs og einokunarvalda.
Smurðir og silkiklæddir stofna þeir nú sjóði, klippa á borða, veita listamönnum athvarf.
- Og ópera, leikhús, þjóðminjasafn, allt er nú undir handarjaðri handhafa auðsins.
Þeir líkna og lækna, hinir miklu velgjörðarmenn samfélagsins, alls staðar koma þeir fram sem veitendur. En þeim sem verðmætin skópu, almenningi, launafólki, er ætlað að sitja áhrifalausu á áhorfendabekkjum að klappa kapítalismanum lof í lófa.

Við saklaust barnið vil ég segja þetta: Þegar búið verður að selja Símann og þær mjólkurkýr sem nú eru í augsýn verða nýjar kýr leiddar upp á básana. Það er nefnilega vitað, að fólk heldur áfram að verða veikt, börn þurfa á fræðslu að halda, aldnir á umönnun, öll þurfum við drykkjarvatnið, hitann, rafmagnið og vegi til að aka á. Allt það sem samfélag 20. aldarinnar byggði upp vilja hugmyndasnauðir fjármálabraskarar hinnar 21. aldar komast yfir til að hagnast á. Sjálfir hafa þeir ekkert nýtt fram að færa.

Hið hugmyndaríka fólk, frumkvöðlarnir, fólkið sem nemur lönd, býr til ný verðmæti, þarf hins vegar að sækja á brattann. Í bómull ríkisstjórnarinnar liggja stóriðjurisar, þeir fá afslátt og ívilnun. En frumkvöðlarnir, í litlum og meðalstórum sprotafyrirtækjum, eiga undir högg að sækja. Engan afslátt þar að hafa, hvað þá stuðning og uppörvun. Þeir eiga samleið með launafólki í baráttu fyrir þjóðfélagi margbreytileikans.

Peningahyggjumenn hafa hampað þeirri hugmynd að enginn málsverður sé ókeypis. Alltaf sé einhver sem borgi. Ekki veit ég hvort þetta var inntakið í skálaræðum ríkisstjórnarinnar þegar hún fyrir hönd skattborgarans bauð sjálfri sér í viðhafnarkvöldverð í Ráðherrabústaðnum ásamt öllum ráðherrum og mökum sem vermt hafa stólana undanfarin tíu ár. Það var jú tilefnið, tíu ára afmæli ríkisstjórna Davíðs og Halldórs. Þeim fannst við hæfi að skattborgarinn splæsti í mat og drykk svo þeir gætu gert sér glaðan dag. Áður var haldinn fréttamannafundur. Þar var mikið um lof og hól og talað var um mikla sigra. Davíð sagði að Halldór væri mikilmenni og Halldór sagði að Davíð væri stórmenni. Þeir hefðu starfað svo vel saman félagarnir og tekið svo margar ákvarðanir. Við erum svo fljótir að ákveða sagði Davíð. Og Halldór forsætisráðherra sagði að þetta væri stór stund. Mér sýndist þeir vera votir til augnanna. Eflaust voru þeir hrærðir.

Ekkert viku þeir að atvinnulausum á þessari stemningsþrungnu stund eða öryrkjunum sem ríkisstjórnin sveik um undirskrifað samkomulag.
Ekkert var rætt um ofsóknir á hendur Mannréttindaskrifstofunni, vaxandi misskiptingu í landinu, biðraðir á dvalarheimili aldraðra – 500 einstaklingar í bráðri neyð, sjúklingagjöldin, einkavæðingarspillinguna, ósannindin og lygarnar í sambandi við Íraksinnrásina, sem kostað hefur vargöld, pyntingar og ofbeldi.
Ekkert var rætt um tilraunina til að brjóta stjórnarskrána og vanvirða starfsmenn Ríkisútvarpsins. Það fékkst engin skýring á því hvers vegna íslenska ríkisstjórnin neitaði að styðja að kynþáttamúrinn illræmdi í Palestínu færi fyrir Mannréttindadómstól. Það var heldur engin skýring gefin á því hvers vegna lög hafa verið brotin á öldruðum með því að hækka bætur almannatrygginga minna en lögbundið er og að sjálfsögðu leiddu hinir prúðbúnu stemningsmenn hjá sér að ræða náttúruspjöll af völdum stóriðjustefnunnar. Ekki mátti spilla gleðinni með nýjustu fréttum frá Kárahnjúkum...

Góðir félagar.
Íslenskt samfélag er á tímamótum.
Sótt er að réttindum og kjörum – skotleyfi hefur verið gefið út á allt sem er samfélagslegt; Íbúðalánasjóð á haugana segir peningahyggjan,
flytjum Kínverja frá Gula fljóti eða öðrum fátækustu svæðum jarðarkringlunnar til að kenna Íslendingum vinnurétt,
og innleiðum þjónustutilskipun Evrópusambandsins,
því þá verður lag -
að markaðsvæða sjúkraganginn og barnaskólann - engin fyrirstaða við því að skerða réttindi launafólks og að sjálfsögðu styðja atvinnurekendur og Verslunarráðið GATS, samningana sem segja: Allt á markað, allt lifandi og dautt á markað.

Og lýðræði, atvinnulýðræði - það samræmist ekki nútímanum segir ráðherra sem talar fyrir því að gera Ríkisútvarpið að einkafélagi.
En þetta er rangt. Lýðræði er einmitt krafa dagsins. Það er valdboð sem ekki er í takt við tímann og af því erum við búin að fá nóg. Sú hugsun er orðuð nánast hvar sem komið er, að gegn niðurrifinu, afturhaldinu og valdhrokanun verði nú að skera upp herör bæði til varnar og til sóknar.
Oft var þörf en nú er nauðsyn að verja hin samfélagslegu gildi
- íbúðalánakerfið
- skólana
- heilbrigðisþjónustuna
- við þurfum að verja þau verðmæti sem felast í nærfærinni umönnun sjúkraliðans eða áhættusömu starfi sjómannsins.
Við þurfum að verja vinnuréttinn, rétt sem ekki mismunar farandverkamanninum frá Gula fljóti og Íslendingnum við Kárahnjúka, eða landanum og Lettanum í byggingavinnu í Reykjavík.

En við skulum ekki bara verjast. Við skulum snúa vörn í sókn og minnumst þess að þegar það gerist, að menn hætta að láta blekkjast af umgjörð valdanna – stórum skrifstofum, fínum titlum og einkabílstjórum - þegar fólk rís upp, hvort sem er inni á vinnustaðnum eða í þjóðfélaginu almennt og segir hvað það vill og til hvers það ætlast – þá gerist það: Völdin færast til – keisarar verða klæðalausir og mega sín lítils gegn samstöðu þeirra sem neita að láta ráðskast með sig.

Gerum þennan dag, baráttudag verkalýðsins, að upphafi nýrrar sóknar, degi heitstrenginga um betri tíð – tíð þar sem almannahagur er hafður að leiðarljósi.
Þar sem öldruðu fólki er búið ævikvöld með reisn,
þar sem sjúkir og fatlaðir eru hafðir í fyrirrúmi,
þar sem allir hafa atvinnu, þar sem haltur ríður hrossi og hjörð rekur handarvana...

Við skulum smíða þjóðfélag jafnaðar þar sem allir eru á sama báti,
þar sem fólk leggst saman á árarnar,
þjóðfélag samstöðu og samvinnu.

Við skulum stimpla þessa hugsun, þessa kröfu, inn í vitund okkar sjálfra og inn í þjóðarvitundina og við skulum fylgja henni eftir -
við skulum fylgja henni eftir inn á vinnustaðinn og inn í Stjórnarráðið, þangað til hún verður að veruleika: Það þarf nýja forgangsröð á Íslandi. Það þarf nýja stjórnarhætti, nýjar hugmyndir, nýja pólitík. Það er löngu kominn tími til að lofta út. Sjáum til þess saman að svo verði gert.