Fara í efni

ÚKRAÍNA Í TAFLINU MIKLA

Við heyrum það alls staðar, Úkraínudeilan snýst um yfirgang og árásarhneigð einræðisherrans í Kreml gagnvart varnarlitlu sjálfstæðu grannríki hans, Úkraínu. Yfirgang sem jafnframt  er «ógn við öryggi í Evrópu” eins og utanríkisráðherann okkar segir.

Já, deilan snýst um frelsi og valkosti Úkraínu. En hún snýst um fleira. Um öryggi Rússlands, eins og Pútín klifar á. Hún snýst líka um grundvöll bandalagsins NATO og um þenslu þess í austur – og um hlutverk Bandaríkjanna í Evrópu.

Hver ber ábyrgðina? “Rússland eitt ber ábyrgð á þeim dauða og eyðileggingu sem árásin hrefur í för með sér” segir Joe Biden. «En krise skapt av Russland alene» segir Torvald Stoltenberg. Það sama segja Katrín, Bjarni og Guðni Th. Svona einfaldlega liggur ábyrgðin samt ekki.

Það er illmögulegt að taka vitræna afstöðu í Úkraínudeilunni nema að gera það í sögulegu ljósi. Það gerði Bogi Ágústsson á sinn hátt í fréttaþætti fyrir nokkrum dögum. Hann dró saman rússneska utanríkisstefnu sögulega: “Segja má að stöðug útþensla hafi ríkt öldum saman í því skyni að ná yfirráðum í grannlöndum Rússlands í vestri.” Þetta hljómaði eins og samþjöppuð réttlæting fyrir hinu vestræna viðhorfi til Rússa. https://www.ruv.is/utvarp/spila/spegillinn/25249/7gpd4d/stada-og-saga-ukrainu

En myndin er fölsk.  Vissulega er Rússland stórveldi, hefur verið það a.m.k. frá dögum Péturs mikla á 18. öld. Rússland er «náttúrulegasta» stórveldi  í Evrópu. Rússar eru langstærsta þjóð Evrópu, búandi í risastóru landi. Fyrir 3-5 öldum stigóx Rússneska ríkið, einkum í styrjöldum við aðsteðjandi mongóla og Svía (og að nokkru leyti Tyrkjaveldi). En síðustu rúm 200 árin hafa stryrjaldir Rússa verið varnarstríð; stríðið við Napóleon, Krímstríðið við Breta og Frakka, stríðið við Japani 1905, stríð við Vilhjálm 2 Þýskalandskeisara í Fyrri heimsstyrjöld, stríðið við Hitler. Þessi stríð voru háð innan landamæra rússneska (og sovéska) ríkisins. Innrásarherirnir – allir nema Japanir – komu úr vestri, og yfirleitt gegnum Úkraínu. 

Stríðið við Hitler var Rússum dýrt, 27 milljónir fallinna Sovétborgara og vesturhluti ríkisins eitt flag eftir. Eftir þau ósköp gripu Sovétrússar til harkalegra ráðstafana og komu sér upp „stuðpúðabelti“ vestan við sig sem tryggja skyldi að í þeim ríkjum sætu „vinsamleg“ stjórnvöld. Útþensla? Ja, það má a.m.k. auðveldlega túlka það svo að það hafi verið öryggisráðstöfun fremur en útþensluráðstöfun (þónokkur þessara ríkja höfðu raunar verið í bandalagi við Hitler). En Sovétríkin voru orðin risaveldi, fátækt en hernaðarlega sterkt.

Tilgangur NATO: «Halda Rússum úti Bandaríkjunum inni og Þjóðverjum niðri»

Heimsstyrjöldinni, herhlaupinu «Operasjón Barbaraossa» inn í Sovétríkin, var varla lokið þegar hafið var enn eitt stríð, nú «kalt», gegn Sovétríkjunum undir bandarískri forustu. Þremur og hálfu ári frá stríðslokum var NATO stofnað þeim til höfuðs (sex árum á undan Warsjárbandalaginu).

Opinn og yfirlýstur tilgangur NATO var að verja lýðræðisríki í vestri gegn Sovétríkjunum og kommúnistahættunni. En fyrsti framkvæmdastjóri NATO, Lord Hastings Ismay, orðaði hins vegar tilgang þessa bandalags Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu talsvert betur: NATO var stofnað til að «halda Rússum úti, Ameríkönum inni og Þjóðverjum niðri» sagði hann. Bandaríkin voru ráðandi í bandalaginu og þannig tryggði NATO úrslitaáhrif þeirra í Evrópu (fyrst vestanverðri). 

Tíminn leið til ársins 1991. Þá leystust Sovétríkin upp og Varsjárbandalagið líka. Þar með var yfirlýstur tilgangur bandalagsins NATO (að verjast kommúnismanum) horfinn og lá nú beinast við að leggja það niður líka. Síðustu Sovétleiðtogunum voru líka gefin margvísleg loforð um öryggismál.  Nýlega skrifaði hinn virti Der Spiegel um viðræður stórveldanna árið 1990 í aðdraganda þess að Varsjárbandalagið var lagt niður:

«Sem betur fer er nóg af skjölum aðgengilegum frá þeim ríkjum sem tóku þátt í viðræðunum, þ.á.m. greinargerðir frá samtölum, samningsútskriftir og skýrslur. Samkvæmt þessum skjölum gáfu Bandaríkin, Bretland og Þýskaland það til kynna að NATO-aðild landa eins og Póllands, Ungverjalands og Tékkóslóvakíu kæmi ekki til greina. Í mars 1991 lofaði breski forsætisráðherrann John Mayor í heimsókn í Moskvu að «ekkert slíkt mun gerast». https://www.spiegel.de/international/world/nato-s-eastward-expansion-is-vladimir-putin-right-a-bf318d2c-7aeb-4b59-8d5f-1d8c94e1964d Áður hafði Der Spiegel vitnað í ummæli James Baker utanríkisráðherra Bandaríkjanna þegar rætt var um mögulega sameiningu Þýskalands. Með orðum hans yrði þá «engin útvíkkun lögsagnarumdæmis NATO-herja eina tommu austar»” https://www.spiegel.de/international/world/nato-s-eastward-expansion-did-the-west-break-its-promise-to-moscow-a-663315.html

 “Halda Bandaríkjunum inni”

Málin tóku þó fljótt aðra stefnu. Sovétríkin leystust upp í desember 1991. Bandaríkin litu á það sem «gullið augnablik» fyrir sig sem opnaði þeim fordæmalausa möguleika. Strax árið 1992 lagði hermálaráðuneytið Pentagon sína hermálaáætlun, Defence Planning Guidance 1994-1999. Þar er lögð megináhersla á það atriði að Evrópa megi aldrei leysa sín öryggismál á eigin spýtur, án aðkomu Bandaríkjanna. Eins og þar segir:

“Þess vegna hefur það grundvallarþýðingu að viðhalda NATO sem undirstöðuverkfæri vestrænna varna og öryggis og einnig sem farvegi bandarískra áhrifa og þáttöku í evrópskum öryggismálum. Þó að Bandaríkin styðji evrópska samrunaþróun verðum við að hindra uppkomu hreinevrópsks öryggismála-fyrirkomulags, sem myndi grafa undan NATO, sérstaklega hinni samhæfðu herstjórn.” https://www.nytimes.com/1992/03/08/world/excerpts-from-pentagon-s-plan-prevent-the-re-emergence-of-a-new-rival.html

Kommúníska hættan var semsé ekki aðalmálið, hafði aldrei verið. Aðalatriðið var að viðhalda NATO sem “farvegi bandarískra áhrifa og þáttöku í evrópskum öryggismálum”. Og reyndar ekki bara “viðhalda NATO” heldur «þenja út NATO»: NATO undir Bandarískri forustu tók fljótt þá stefnu að þenja sig í austur og sækja inn á áhrifasvæði Sovétríkjanna, m.a.s. inn í fyrrum Sovétríkin sjálf. Eftir stutt hlé var «stuðpúðabeltið» uppétið og NATO-ríkjum hafði fjölgað úr 14 í 28. NATO skipti líka um starfsgrundvöll (1999) og barðist eftir það undir öllum himinskautum.

Eftir 1991: Evrasíu-strategían

Já, valdajafnvægið sem ríkt hafði var rofið 1991 og gríðarlegt svæði opnaðist heimsvaldasinnum til «enduruppskiptingar». Risaveldið var nú aðeins eitt og fór að gera einhliða ráðstafandir í krafti yfirburðavalds. Þeir sem ekki beygðu sig kölluðu yfir sig stríð. «Enduruppskiptingin» lá undir komandi styrjöldum (og litabyltingum): í Sómalíu, tveimur Íraksstríðum, tveimur Júgóslavíustríðum, Afganistan, Líbíu, Úkraínu, Sýrlandi og aftur Úkraínu. Bandaríkin höfðu alltaf forustuna, en í nærri öðru hverju af þessum átakasvæðum hefur NATO verið formlegur stríðsaðili. Öll þessi stríð og litabyltingar hafa íslensk stjórnvöld stutt, enda erum við í stríðsliðinu – með helstu stríðsöflum okkar daga.

Eftir fall Sovétríkjanna kom sem sagt «gullna augnablik» Bandaríkjanna, og komandi styrjaldir voru ekki valdar af tilviljun. Zbigniew Brzezinski var einn helsti strategisti Bandaríkjanna báðum megin við aldamót (mikilvægasti óformlegi ráðgjafi Obama forseta). Í bók sinni The Grand Chessboard frá árinu 1997 lýsti hann valdataflinu mikla og möguleikunum á að ná yfirráðum á hinu evrasíska meginlandi: «Í fyrsta sinn í sögunni kemur fram ekki-evrasískt veldi sem er ekki aðeins leiðandi gerðadómari um valdaskipan í Evrasíu heldur er æðsta vald á hnettinum. Ósigur og hrun Sovétríkjanna var lokaskref í hinni hröðu valdatöku vesturhvelsins með Bandaríkin sem eina, og í raun fyrsta, hnattveldið.“ (https://studfile.net/preview/5055713/page:5/ 1. Kafli, „Hegemony of a New Type“)

Málið snérist um bandarísk heimsyfirráð. Að mati Brzezinskis var það meginmarkmið að Bandaríkin hindruðu að upp kæmi mögulegur keppinautur á hinu «evrasíska meginlandi». Rússland var þar eðlilega í meginfókus – en einnig Úkraína: „Úkraína, nýr og mikilvægur reitur á evrasíska taflborðinu, er hnattpólitískur hverfipunktur af því sjálf tilvera hennar sem sjálfstætt ríki hjálpar til að breyta Rússlandi. Án Úkraínu hættir Rússland að vera evrasískt veldi…. En vinni Rússland aftur yfirráð í Úkraínu.. fær Rússland sjálfkrafa aftur efni til að verða voldugt heimsveldi sem spannar Evrópu og Asíu.“ (2. Kafli, „The Eurasian Chessboard“)

Allt var þetta hægt í skjóli þess að risinn Rússland var veikur og á hnjánum. Rússar upplifðu mikinn niðurlægingartíma á 10. áratug. Þeir voru undir vestrænni forsjá. Bill Clinton stjórnaði persónulega kosningabaráttu fyrir hinn vestrænt sinnaða Jeltsíns meðan þjóðartekjur minnkuðu um 50% og meðalævilengd Rússa styttist um 10 ár. Það var þó ekki alveg gefið að Rússland héldi áfram að vera á hnjánum. Risinn reis sem kunnugt er upp undir forustu Vladimirs Pútins, hætti þjónkun við Bandaríkin, náði taumhaldi á ólígörkum landsins og tók að reka þjóðernislega rússneska efnahagsstefnu. Í viðbót hafnaði Pútín ríkjandi líkani “einpóla” heims og fóir að tala ákaft fyrir “fjölpóla” heimi.

Endurkoma Rússlands sem sjálfstæðs stórveldis var auðvitað stórt strik í bandaríska heimsyfirráðareikninga. Að sama skapi: að rífa sig úr vestræna faðmlaginu var líka keypt háu verði. Í framhaldinu varð alþjóðleg staða Rússlands sífellt líkari stöðu Sovétríkjanna 1941. Þegar herir Þýskalands og bandamanna þeirra réðust inn í Sovétríkin í júní það ár var allt meginland Evrópu sameinað undir eina þeim fjandsamlega herstjórn (undantekningar voru aðeins Sviss og Svíþjóð). Eftir stækkanir NATO eftir lok Kalda stríðsins var aftur fjandsamleg «sameiginleg herstjórn» Evrópuríkja komin upp að vesturgluggum Rússlands. Ekki alveg samt. Úkraína var á milli, formlega hlutlaus. 

En útþenslustefna NATO hélt áfram, án allra málamiðlana. Árið 2008 lýsti leiðtogafundur NATO í Búkharest 2008 yfir (þá sat um tíma mjög vestrænt sinnuð stjórn í Kiev): «NATO fagnar áhuga Úkraínu og Georgíu á NATO-aðild. Við samþykktum í dag að þessi lönd muni verða NATO-meðlimir.» https://www.nato.int/cps/en/natolive/official_texts_8443.htm

Rússar höfðu látið fyrri útvíkkanir NATO yfir sig ganga. En hér drógu þeir samstundis rautt strik í sandinn og sögðu: «Njet», það skal aldrei verða!» Þar með væri Móðir Rússland algjörlega höfuðsetin. Með bakið upp að vegg. Sú tilfinning er ekki bundin við Pútín, almennir Rússar deila henni. Enda var talað skýrt: Hingað og ekki lengra!

Maidan, Kiev 2014

Sóknin úr vestri hélt samt áfram. Engar málamiðlanir! Næst var veðjað á litabyltingu í Úkraínu. Við höfum áður hér á Neistum (apríl 2021) skrifað um valdaránið í Kiev 2014: 

«Valdaskipti sem voru valdarán, litabylting af bandarísku vörumerki með bandarísk stjórnvöld djúpt innblönduð í uppþotið sjálft og takandi ákvarðanir um nýja ráðamenn. Victoria Nuland aðstoðarutanríkisráðherra heimsótti Kiev þrisvar á þeim fimm vikum sem mestu mótmælin stóðu, og stærði sig af margmilljón dollara stuðningi við stjórnarandstöðuna. Ofbeldi á Maidan-torgi vakti andúðarbylgju gegn Janukovitsj forseta. En traustar heimildir eru fyrir því að mesta ofbeldið á torginu kom frá „mótmælendum“ úr öflugum hópum fasista sem voru vel vopnaðir. Í „byltingunni“ var lýðræðislega kjörinn forseti hrakinn frá völdum. Það gerðist m.a.s. eftir að náðst hafði samkomulag milli forsetans og stjórnarandstöðunnar, um að skipa skyldi þjóðstjórn og flýta kosningum, samkomulag sem utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands og Póllands ábyrgðust. En næsta dag var valdaránið framið og samkomulaginu nýja hent út um gluggann eftir að vopnaðar sveitir frá Maidantorgi hertóku þingið og forsetinn flúði borgina, og landið.» https://neistar.is/greinar/ukraina-hver-byggir-upp-spennuna/

Þýskaland, Frakkland og Pólland vildu málamiðlanir og friðsamlegri lausn mála í Kiev í febrúar 2014. Öll framganga Bandaríkjanna kringum Maidan sýndu hins vegar að þau vildu það alls ekki. Ekki frekar en hið virka og fyrirferðarmikla öfgahægri í Úkraínu sjálfri. Hugsunin með valdaráninu var að skaffa andrússneskt ríki við stofuglugga Rússa. Meiningin var augljóslega að breyta Úkraínu í vestrænt virki, hrekja Rússa frá Krímskaga, Sevastopolflotastöðin yrði NATO herstöð o.s.frv. Rússar gripu hins vegar til svívirðilegra ráðstafana: létu Krímbúa einfaldlega greiða atkvæði um ríkisfang sitt, en skaginn hefur undanfarinn 200 ár verið aðallega byggður Rússum svo útkoman var fyrirfram gefin.   

Bandaríkin, með einkarétt á íhlutunum, notuðu innlimun Krím sem efni í nýtt kalt stríð. Og viðskiptaþvinganir sem voru mörgum Evrópuríkjum afar óljúfar og dýrar. Nokkru síðar hældist Biden varaforseti yfir því að Bandaríkin hefðu neyðst til að kúska Evrópulönd til refsiaðgerða gegn Rússum: „Það er satt, þau vildu ekki gera þetta, en aftur voru það bandarísk stjórnvöld og forseti Bandaríkjanna sem krafðist þess, og nokkrum sinnum urðum við að láta Evrópu skammast sín (we had to embarras Europe) til að fá þau til að standa upp og taka á sig efnahagsleg högg til að valda [Rússum] kostnaði.“ http://eldmessa.blogspot.com/2016/01/russum-refsa-hfur-domari-rettmt-refsing.html

 “Halda Rússum úti”

Sókn BNA og Vestursins gegn Rússum varð nú a.m.k. þríþætt: a) upplýsingastríð með því að djöfulgera Rússa, b) gegnum viðskiptaþvinganir og c) að nýta Úkraínudeiluna, gegnum nýju stjórnvöldin í Kiev. Stjórnvöld sem á nokkrum vikum eftir Maidan voru komin í stríð við rússneskumælandi austurhéruð eigin lands. Á móti studdu Rússar aðskilnaðarsinna sem lýstu yfir alþýðulýðveldunum Donetsk og Lugansk. Í Minsk var samið um vopnahlé  og m.a. um víðtæka sjálfsstjórn einstakra héraða í Úkraínu. Það samkomulag ætlaði þó Kievstjórnin aldrei að virða – og  borgarastríðið hélt áfram.

Mótaðgerðir Rússa 2014 voru meðal fleiri utanríkispólitískra merkja um endurheimt afl þeirra og sjálfstraust sem stórveldis. Þeir treysta sér til að verja hagsmuni sína og láta hart mæta hörðu. Annað mikilvægt merki þar um er að frá 2015 hafa Rússara veitt duglegan stuðning bandamönnum sínum í Sýrlandi sem voru orðnir illa staddir í staðgengilsstríði heimsvaldasinna og staðbundinna bandamanna þeirra.

Mikilvægasta hernaðarlega hugveita Bandaríkjanna er RAND-corporation. Hún leggur fram greiningar og stjórnlist fyrir Bandaríkjaher. Hernaðaráætlunin gagnvart Rússum sem hún gaf út 2019 hét “Að teygja Rússland” (Extending Russia) og gengur út á að láta “reyna á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda, heima og utan lands... og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega.” Beinar aðgerðir í hernaðaráætluninni eru eftirfarandi: 1) Sjá Úkraínu fyrir vopnaaðstoð (lethal aid) 2) Auka stuðning við sýrlenska uppreisnarmenn 3) stuðla að valdaskiptum í Hvítrússlandi 4) hagnýta spennuna í Suður-Kákasus 5) Minnka áhrif Rússa í Mið-Asíu 6) Bjóða nærveru Rússa í Moldóvu birginn. Í viðbót er tilgreint það verkefni að «hindra olíuútflutning og uppbyggingu gasleiðslna”. Samanlagt átti þetta að “teygja Rússa”, þreyta þá og einangra rússnesk stjórnvöld. https://www.rand.org/content/dam/rand/pubs/research_reports/RR3000/RR3063/RAND_RR3063.pdf

Áætlun þessi var gefin út fyrir þremur árum og átök hafa síðan geysað á öllum þessum sviðum. Allt eftir áætlun. Úkraínudeilan er efst á listanum í því verkefni að «teygja Rússland» og strategistarnir hugsa örugglega til þáttar Afganistanstríðs í kreppu Sovétríkjanna á 9. áratugnum. Líklega vonar RAND-corporation að vel hafi tekist til í Úkraínudeilunni og stríðið þar verði svipað «kviksyndi» fyrir Rússa.

 “og halda Þjóðverjum niðri”

Vopnaaðstoð við Úkraínu er sem sagt mikið forgangsmál í Washington (og London náttúrlega). Hins vegar á það ekki endilega við um bandamennina í Evrópu. Á þessu ári hefur Þýskaland alveg hafnað því að senda vopn til Úkraínu og m.a.s. komið í veg fyrir vopnasendingar annarra bandalagsríkja þangað. https://www.bbc.com/news/world-europe-60480734 

Ástæðan blasir við í mikilvægum viðskiptum Þýskalands við Rússland þar sem bygging gasleiðslunnar Nord Stream 2 er stærsta málið og afgerandi fyrir þýskt orkuöryggi og efnahag í heild. Þýskaland er alvarlegur keppinautur Bandaríkjanna í iðnvarningi (mun alvarlegri en Rússland) og ný, öflug efnahagssamvinna milli Berlínar og Moskvu (eða ESB og Moskvu) væri alvarleg ógnun fyrir hnattræna valdastöðu Bandaríkjanna.

Á það hafa allmargir bent á undanförnum vikum að aðalskotmark Bandaríkjanna í Úkraínudeilunni sé ekki Rússland heldur frekar Þýskaland, og ekki síður hin mögulega efnahagssamvinna Þýskalands (ESB) og Moskvu. Fengi hún að þróast væri barátta BNA um Evrasíu-meginlandið alveg töpuð. 

Úkraínudeilan kristallar orð Lord Hastings Ismay um tilgang NATO  «að halda Rússum úti, Ameríkönum inni og Þjóðverjum niðri».

 

Hvað breyttist hjá Pútín?

Ég hef áður rökstutt það að Rússnesk stjórnvöld hefðu lítinn áhuga á Úkraínustríði. Bandaríkin hefðu hann hins vegar. En skömmu fyrir síðustu áramót breytti Pútín um aðferð. Hann setti Bandaríkjunum afarkosti. Hann kafðist «trygginga» gegn allri frekari austurstækkun NATO. Ella yrði NATO að taka afleiðingunum. Hann dró þar með «rautt strik» í sandinn við Úkraínu. Sjá grein um þetta: https://neistar.is/greinar/rautt-strik-%C3%AD-%C3%BAkra%C3%ADnudeilu/  Og nú er hann kominn í stríðið sem hann hafði ekki áhuga á.

Hvað breyttist? Ég held að svarið við því sé a.m.k. þrískipt. Í fyrsta lagi: Rússlandi hefur aukist mjög afl á þessari öld, og telur sig ekki lengur upp á Vestrið komið hvorki pólitískt né efnahagslega. Rússland treystir sér til að taka af styrk á móti sókninni úr vestri. Þróun Kína og bandalag Rússlands og Kína hefur breytt styrkleikahlutföllum í veröldinni. Í öðru langi: Rússnesk stjórnvöld líta svo á að Úkrína hafi «de facto» verið að renna inn í NATO með öllu sem það inniber: stóraukinni vopnun, heræfingum með NATO-herjum, herþjálfun frá NATO-ríkjum, möguleikum á uppbyggingu árásarvopnakerfa gegn Rússlandi m.m. Enda var öllum kröfum Rússa um «tryggingar» algjörlega hafnað. Í þriðja lagi hefur Úkraínuher ásamt hinum fasíska Azovher nú háð stríð gegn austurhéruðunum í átta ár. Og að undaförnu hefur verið í uppsiglingu stórfelld sókn gegn þeim. Jafnframt lýsti utanríkisráðherra Úkraínu í byrjun febrúar yfir dauða Minsk-samkomulagsins með öllum vilyrðum þess um aukna sjálfsstjórn héraða í landinu.

Heimssöguleg tímamót. Hvað boða þau?

Það sögulegasta vi þessi heimssögulegu tímamóter líklega það að einkaréttur Bandaríkjanna (studdum af NATO) til vopnaðra íhlutana er nú úr gildi.

Það er auðvitað ófært að styðja árás Rússa á Úkraínu. Ekki á þjóðréttargrunni – árás herveldis á minni granna brýtur þjóðarrétt – né öðrum. Árásin brýtur á rétti og frelsi Úkraínu. Hingað til hefur aðeins einn aðili leyft sér slík brot, í krafti amerískrar sérstöðuhyggju. Nú eru gerendurnir tveir.

Bent er á að átökin þarna snúast um fleira en valfrelsi Úkraínu. Úkraína er svo óheppin að vera peð í taflinu um yfirráðin yfir Evrasíu. Lengi var það tafl teflt af aðeins einum aðila. Aðeins var einn gerandi í leiknum. Nú eru þeir orðnir tveir. Verra eða betra?

Við hljótum líka að spyrja um ábyrgðina á stríði í Úkraínu, og ég hneigist til að telja hana mun meiri vestan frá en austan, eins og hér hefur komið fram. Það hefur heldur ekki breyst hvaðan mesta ógnin við heiminn stafar, því hún kemur ekki frá Rússlandi.

Fyrst um sinn mun Úkraínustríð hafa mörg vond áhrif í okkar heimshluta, og í okkar landi. Hún mun gefa stríðsæsingamönnum byr undir vængi og styrkja eininguna í NATO, auka boðvald BNA í Evrópu og smala smáfuglunum undir væng arnarins mikla. Það verða næg verkefni framundan fyrir þá sem berjast gegn stríði. Erfið barátta, háð í dimmri þoku.