Fara í efni

COVID-FARALDUR OG KREPPA - SKOÐUN

Ísland er nú á miðjum skala yfir dánartíðni vegna Covid-19 í heiminum. Dánartíðnin á heimsvísu sýnist sambærileg við árstíðabundna inflúensu, en viðbrögðin eru alveg ósambærileg. „Aukaverkanir“ heilbrigðisstefnunnar eru kreppa sem er líkleg til að valda miklu meiri þjáningu en veikin sjálf.

Ísland nálægt heimsmeðaltali

Íslensk stjórnvöld stæra sig af glæstum árangri í baráttunni við heimsfaraldurinn Covid-19. Aðeins 10 eru dánir af veikinni á Íslandi (af Covid-19 og öðrum undirliggjandi sjúkdómum), af 357 þúsund manna þjóð. Dánartíðni vegna sjúkdóma er gjarnan mæld sem hlutfall af milljón, og íslenska dánartalan tilsvarar 28 eða 29 af milljón.

Our World in Data er rannsóknarstofnun tengd háskólanum í Oxford og ástundar útreikninga um hnattræn vandamál, fátækt, sjúkdóma, hungur, loftslagsbreytingar, stríð m.m. og byggir á gögnum frá European Centre for Desease Prevention and Control. Hún dekkar m.a. Covid-19 frá degi til dags. Skoðum fyrst nokkrar tölur þaðan.

Dánarhlutfall af milljón íbúum vegna Covid-19, staðan 4. maí 2020:

Belgía                           676

Spánn                           540

Ítalía                              477

Svíþjóð                         265

Írland                             263

Bandaríkin                    204

Danmörk                        83

Þýskaland                       80

Íran                                  73

Finnland                         41

Brasilía                            33

Allur heimurinn             31,5

Ísland                               29

Japan                                4,0

Kína                                  3,2

Indland                             0,1

Eþíópía                             0,03

 

Á heimsvísu þann 4. maí voru dáin af veirunni 245 þúsund af 7,8 milljörðum sem þýðir 31,5 af milljón. Ísland er því mjög nærri heimsmeðaltali með 29, en stendur hins vegar mjög vel í samhengi Vestur-Evrópu þar sem dánarhlutfallið er langhæst í heiminum (ásamt Bandaríkjunum) sem sakir standa.  https://ourworldindata.org/grapher/rate-confirmed-cases-vs-rate-confirmed-deaths Þá er þess að geta að Ísland og Vestur-Evrópa eru komin yfir hápunkt sýkingar meðan hún er enn í sókn í sumum heimshlutum. Því má reikna með að Ísland eigi eftir að færast eitthvað hærra upp fyrir heimsmeðaltalið. En Ísland á langt í hjarðónæmi fyrir veirunni, og það veikir árangurinn. Lægri dánartala hér en í öðrum Vestur-Evrópulöndum tengist m.a. því hvað landið er strjálbýlt.

Samanburður við inflúensu

Það eru sem sagt 245 þúsund staðfest dauðsföll úr COVID-19 í heiminum 4.maí. Sjúkdómurinn er skæður og hraðsmitandi en tölurnar verður samt að skoða í samhengi til að skiljast, t.d. í samanburði við aðra sjúkdóma. Samanburður við árstíðabundna inflúensu er nærtækur. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO gaf í desember 2017 út tölur um árstíðabundnar inflúensur fyrir heiminn í heild síðustu áratugi: „Allt að 650 þúsund manns deyr árlega af öndunarfærasjúkdómum tengdum árstíðabundinni inflúensu,“ segir þar. Í þessari skýrslu WHO segir að tölur um árleg dauðsföll fyrir undangenginn áratug sveiflist á bilinu 290-650 þúsund. https://www.who.int/news-room/detail/14-12-2017-up-to-650-000-people-die-of-respiratory-diseases-linked-to-seasonal-flu-each-year  Inflúensan er nokkuð breytileg frá ári til árs en samkvæmt þessu er Covid-19 ekki mjög fjarri meðalflensu m.t.t. dauðsfalla það sem af er árinu.

Samanburður við inlúensu á Norðurlöndum er inflúensunni meira í óhag. Þrír virtir norskir læknar skrifuðu grein í Aftenposten 12. apríl og báru faraldurinn á Norðurlöndum einmitt saman við ástíðabundna inflúensu. Um það fjallaði ég í grein frá 16. apríl hér í vefritinu: „Þau hafa þrjú Norðurlönd undir: Svíþjóð, Danmörku og Noreg. Höfundar taka fyrir undangenginn mánaðartíma, frá 11. mars til 10. apríl, þegar veiran hefur geysað hvað mest. Niðurstaðan er sú að á þessum mánuði hafi dáið úr COVID-19 að meðaltali 28 manns á dag í Svíþjóð, 8 manns í Danmörku og 4 í Noregi, samanlagt 40. Höfundarnir bera saman við síðustu fjórar árstíðarbundnu inflúensur sem gengið hafa um Skandinavíu undanfarna tvo áratugi. Mælt var dagsmeðaltal 10 vikna sem flensan geysaði í hvert sinn. Niðurstaðan var sú að meðalfjöldi látinna á dag af þessum flensum var 53 í Svíþjóð, 23 í Danmörku og 21 í Noregi, alls 97 manns. Niðurstaðan er þá sú að inflúensan gaf að meðaltali rúmlega helmingi meiri dánartíðni en COVID.“ https://www.aftenposten.no/meninger/i/3Jb7rP/korona-sammenligning-med-andre-land-og-sykdommer-er-helt-avgjoerende-bretthauer-helsingen-kalager

Hversu lífshættulegur?

Við hljótum að spyrja: Hvað veldur þessari þúsund sinnum meiri athygli og þúsund sinnum meiri ráðstöfunum gagnvart þessum sjúkdómi en öðrum sem drepa þó álíka marga? Samfélagið hefur ekki svo menn muni verið stöðvað eða sett á endann út af inflúensu. Af hverju ekki? Ég viðurkenni að ég á ekki viðhlítandi svar.

Ein vísbending í málinu er sú að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, framan af tíma Covid-faraldursins gaf út mjög dramatískar tölur af dánartíðni af hans völdum, þ.e.a.s. að 3-4% smitaðra deyi (talan 3,4% var stundum nefnd) og þær ógnvænlegu tölur tröllriðu fjölmiðlaheiminum og réðu miklu um viðbrögðin. https://www.businessinsider.com.au/coronavirus-death-rate-by-age-countries-2020-3?r=US&IR=T Og viðbrögðin voru sú lokun samfélaga og frysting atvinnulífs sem sýnist vera alþjóðlega miðstýrð stefna í nokkrum tilbrigðum (íslenska tilbrigðið ekki með þeim strangari). Við það bættist gríðarlegur hræðsluáróður fjölmiðla sem magnaði sálræn áhrif faraldursins.

Nú hafa vísindamenn, ekki síst hér á Íslandi, lagt fram tölur sem benda í allt aðra átt, benda til að dánarhlutfall smitaðra sé einn tíundi af þessu, nefnilega 0,34% sem er þó hámarkstala. Hinar harkalegur ráðstafanir, hin víðtæka lokun samfélagsins – innilokun jafnt áhættuhópa jafnt sem ungra og hraustra – gengu sem sagt út frá tölum um a.m.k. tífalt banvænni sjúkdóm en raunin er. Í greininni „Hin ólíka áhætta og mikilvægi umönnunar“ hér í ritinu er því haldið fram að í staðinn hefði rétt stefna verið að halda samfélaginu opnu og gangandi en að áherslan væri öll á verndun aldraðra og áhættuhópa. https://neistar.is/greinar/hin-olika-ahaetta-og-mikilvaegi-umonnunar/ Ný þýsk rannsókn styður íslensku niðurstöðurnar um þetta lága dánarhlutfall, 0,24 –  0,36%. https://21stcenturywire.com/2020/05/05/leading-german-virologist-covid-19-is-less-deadly-than-we-thought/

Kreppur og dauðsföll

Efnahagskreppan breiðist út. Ríkjandi skýring er sú að þær efnahags- og félagslegu hamfarir stafi einfaldlega af Covid-19. Það er rangt. Fremur en af veikinni sjálfri stafa þær af áðurnefndum viðbrögðum við henni. En þessi viðbrögð eru „valin stefna“, vísvituð pólitík, ekki ásköpuð af örlögunum. Þess vegna er það algjörlega villandi að einblína bara á smitkúrfur og tölur um þá sem deyja beint af völdum Covid-19.

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) reiknar nú með 200 milljón töpuðum heilsdagsstörfum á heimsvísu, fyrst um sinn, vegna kreppunnar. https://www.ilo.org/global/about-the-ilo/newsroom/news/WCMS_740893/lang--en/index.htm  Opinberar atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum eru nógu slæmar: 26,5 milljónir hafa misst vinnu frá miðjum mars, en rannsóknir sýna að talan er nær 40 milljónum. Það er svimandi hátt og talsvert fleiri atvinnuleysingjar þar í landi en í kreppunni miklu á 4. áratug. https://www.globalresearch.ca/millions-more-us-jobless-than-reported-real-u-s-unemployment-rate-at-38/5711311 Á Íslandi eru nú um 50 þúsund manns á atvinnuleysisskrá, annað hvort þegar búnir að missa vinnuna eða á hlutabótum. Það er um fjórðungur vinnuaflsins og hækkar nú dag frá degi. https://www.ruv.is/frett/2020/04/21/yfir-50-thusund-a-atvinnuleysisskra-ad-fullu-eda-hluta

Til frekari glöggvunar um hættuna af  Covid-19 er full ástæða til að bera áðurnefnd 245 þúsund Covid-dauðsföll á heimsvísu í frá janúar og fram í maí saman við nokkrar aðrar dánarorsakir á sama tíma. Vefsíðan worldometer.org birtir frá degi til dags opinbera tölfræði fyrir heiminn allann á ýmsum sviðum, m.a. dánartölur af ólíkum dánarorsökum. Skoðum dauðsföll af völdum áfengis, sjálfsmorða og hungurs.

Dauðsföll á heimsvísu 1. janúar – 4. maí 2020 skv. worldometer.org:

Dauðsföll af völdum Covid-19                           245 þúsund

Dauðsföll af völdum ofrykkju                            853 þúsund

Dauðsföll af völdum sjálfsmorða                     366 þúsund

Dauðföll af völdum hungurs                               3,5 milljónir

https://www.worldometers.info/

Það er alls ekki út í hött að að skoða þessar tölur í samhengi við tölurnar um Covid-dauðsföll sem dynja viðstöðulaust á okkur, vegna þess að margnefnd viðbrögð við Covid-19 (á lands- og heimsvísu) munu hafa mikil neikvæð áhrif á alla hina ofannefndu þættina og fjölmarga félagslega þætti aðra. Í Kviku-þættinum sl. þriðjudag (28/4) mátti til dæmis heyra: „Heimilisofbeldi hefur aukist mikið um allan heim síðan Covid-faraldurinn hófst.“

Dæmið Rússland eftir 1991

Sjúkdómurinn kom kreppunni af stað, segja menn. En það virkar líka hina leiðina af því kreppur hafa ekki síður áhrif á heilsufarið, andlegt sem líkamlegt, kreppur kosta heilsufarsvanda og mannslíf. Nærtækt og klassískt dæmi um það er kreppan sem tók við eftir að Sovétríkin féllu 1991. Því hefur Noami Klein m.a. lýst vel í bók sinni The Shock Doctrine. The Rise og Disaster Capitalism. Þegar Sovéríkin lentu í djúpri efnahagslegri kreppu í lok Gorbachevtímans stormuðu þangað Jeffrey Sachs og hagspekingar markaðshyggjunnar með kenningar Miltons Friedmans upp á vasann. Lán frá AGS og G7-ríkjunum til Sovétríkjanna voru háð skilyrðum um massífa einka- og markaðsvæðingu. Fulltrúi Vestursins og markaðshyggjunnar, Boris Jeltsin, tók völd. Við tók mesta einkavæðingarrán sem sögur fara af í heiminum. Atburðrásin er rakin hér: https://workersbushtelegraph.com.au/2015/03/30/the-shock-doctrine-in-russia/

Afleiðingarnar urðu þær að þjóðarframleiðsla féll gríðarlega og lífskjörin ennþá meira, með atvinnuleysi, eymd og upplausn. Í Rússlandi lækkaði meðalaldur karlmanna um 10 ár á einum áratug, niður í 58,9 ár! Það er fordæmalaust fall í æfilengd í nútímanum nokkurs staðar í heiminum. Fjölþjóðlegur rannsóknarhópur kannaði dánartölur og birti niðurstöður 2003 (í USA). Niðurstaða hans var að 2,5-3 milljónir manna „aukalega“ hefðu dáið í Rússlandi einu áratuginn 1991-2001 miðað við framreiknaða dánartíðni frá 1991. Þar segir:

„Mortality increased substantially after the economic crisis in 1998, with life expectancy falling to 58.9 years among men and 71.8 years among women by 2001. Most of these fluctuations were due to changes in mortality from vascular disease and violent deaths (mainly suicides, homicides, unintentional poisoning, and traffic incidents) among young and middle aged adults. Trends were similar in all parts of Russia. An extra 2.5-3 million Russian adults died in middle age in the period 1992-2001 than would have been expected based on 1991 mortality.“ https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC259165/

Slíkur er mælikvarði þjáninga og dauða þegar alvarleg kreppa ríður á fjölmennu ríki, hvað þá ef sú kreppa er hnattræn? En slíkar „aukaverkanir“ af heilbrigðisstefnunni eru lítt til umræðu í fjölmiðlunum þeim sem bólgna út af lýsingum á skaðræði Covid-19. En þeir sem bera ábyrgð á lokunarstefnunni eiga að svara spurningum um „aukaverkanirnar“ líka, „aukaverkanir“ sem mætti vel kalla slys á heimsmælikvarða.

Nokkrar líklegar afleiðingar

Í Rússlandi var sjokk kreppunnar notað til að koma á djúptækum breytingum á efnahagskerfinu sem ný yfirstétt taldi æskilegar, harkalega einka- og markaðsvæðingu m.m. Í öðrum löndum hafa hamfarir og áföll af öðru tagi verið notuð af peningavaldinu til að til að koma eigin kappsmálum fram, breytingum sem fólk ella hefði ekki látið yfir sig ganga, m.a. að koma á eftirlitssamfélagi og skerða persónufrelsi.  Naomi Klein kallar þetta að „sjokkera fólk til undirgefni“. Undirgefið fólk hentar valdinu best.

Covid-faraldurinn, blásinn upp margfaldlega af fjölmiðlum, mun brátt líða hjá eins og aðrar umgangsveirusýkingar. Samt mun hann væntanlega skilja eftir sig afleiðingar sem geta orðið varanlegar.  Fyrst ber að nefna stjórnhætti lögregluríkisins sem hafa verið teknir upp vítt um hið hnattræna auðvaldskerfi, að nafninu til til að fást við Covid og þá sem brjóta smitvarnarreglurnar, en reglurnar má svo nota í svo margt annað. Önnur afleiðing sem nú liggur í spilunum er stórfelld samþjöppun auðs þegar margs kyns smærri rekstur um allar jarðir steypist á höfuðið og verður gleyptur af þeim stóru. Þriðja afleiðing er fjöldaatvinnuleysið sem mun auðvelda auðræðinu að grafa undan réttindum og lífskjörum almennings. 

Hitt er svo annað mál að hin stórlysalegu áhrif á efnahagslífið og neikvæðir spíralar kreppunnar skýrast meira af hnattvæddu framleiðslu- og fjármálakerfi heimskapítalismans en af kórónuveirunni, en ég ætla að láta hagræðina bíða að sinni.