Fara í efni

UM EINKA-VÆÐINGU, MARKAÐS-VÆÐINGU, OG HAGKVÆMNI

Lengi hef ég setið hljóður hjá og hugsað um einkavæðingu opinberra fyrirtækja. Séð banka og önnur fyrirtæki vera seld. Ég hef, eins og margir aðrir, undrað mig á því hvernig aðferðafræðin var, og er, varðandi söluna. Af hverju allt þetta pukur, af hverju fá sumir bara að kaupa en ekki aðrir? Nú síðast hefur opnast umræða um hvernig húseignir Bandaríkjahers á Miðnesheiði hafa verið meðhöndlaðar. Sömu spurningar er hægt að spyrja sig um sölu ríkisbankanna og öllum er í fersku minni salan á Hitaveitu Suðurnesja. Ég er nokkurn veginn sannfærður um að hér eru maðkar í mysunni; örlítil þekking á mannlegu eðli segir mér það. Það er ekki það sem ég ætla að ympra á hér, heldur það sem alltof lítið hefur verið rætt í þessu sambandi - Af hverju að einkavæða? 

Það er búið að tyggja það ofan í almenning að það sé betra rekstrarfyrirkomulag að einkaaðilar sjái um allt (nema, kannski, rekstur lögreglu, dómstóla og ja ... spítala). Menn bentu á þá spillingu sem fylgdi því að stjórnmálamenn væru að vasast í fyrirtækjarekstri. Aðal röksemdin er samt sú að: "frjáls samkeppni" (hin ósýnilega hönd) myndi skila mesta hagræðinu og þ.a.l. koma sér best fyrir allan almenning. Skoðum aðeins þessa fullyrðingu.

Frjáls samkeppni er hugtak sem notað er í hagfræðinni sem "útópískt" ástand sem beri að stefna að. Það er, m.ö.o. viðurkennt innan hagfræðinnar að frjáls samkeppni þekkist ekki í raun og muni aldrei gera það. Ástæður þess eru að skilyrði frjálsrar samkeppni eru ekki né verða nokkur tíma til staðar. (Þar sem þetta er ekki kennslupistill í hagfræði bendi ég áhugasömum á kennslubækur í hagfræði t.d.: Economics eftir John Sloman). 

Stjórnmálamenn eru misvitrir og almenningur ekki síður. Ég hef a.m.k. aldrei heyrt talað um það þegar verið er að predika fyrir einkavæðingu að frjáls samkeppni sé óskhyggja sem standist ekki raunveruleikann og muni ALDREI gera það. Það virðist bara vera að sannast að sé sama tuggan kyrjuð nógu oft fari fólk að trúa því sem sannleik. 

Við skulum, í stuttu máli, fara yfir það hvers vegna aldrei getur verið um að ræða frjálsa samkeppni í veruleikanum. 

Gefum okkur það að í byrjun sé frjáls markaður. Það þýðir að við höfum marga nákvæmlega jafnstóra aðila á markaði, sem eru ekki verðsetjarar, hafa fullkominn aðgang að öllum upplýsingum er varða markaðinn og neytendur hafa sömuleiðis fullkomna þekkingu á markaðnum. Og margir vilja bæta við að enginn aðili á markaðnum auglýsir vöru sína eða þjónustu. 

Hin ósýnilega handarkenning segir að samkeppni á markaði leiði til þess að neytendur versli þar sem sé ódýrast, til að tryggja eigin hag. Þar með geti enginn einn framleiðsluaðili hækkað verð og sé því, í raun verð-taki. Að sama skapi sjái þetta fyrirkomulag um að hinar takmörkuðu auðlindir samfélagsins nýtist sem best því allir slugsar sem ekki hámarki nýtingu auðlindanna (séu það mannauðlindir, tímaauðlindir, hráefnaauðlindir eða hvað sem er) fari fljótlega á hausinn því þeir geti ekki keppt við hina sem betur fari með þessar sömu auðlindir.

En hér er falin kerfisvilla í kenningunni.

Gefum okkur áfram að aðilar á þessum ímyndaða frjálsa markaði séu misgóðir í því að fara með auðlindirnar (það hlýtur að vera eðlileg ályktun, því ef menn eru ekki misgóðir í því af hverju þá frjáls samkeppni; hún á jú að vera VEGNA ÞESS AÐ MENN ERU MISGÓÐIR Í ÞVÍ AÐ FARA MEÐ AUÐLINDIR - annars þyrfti ekki frjálsa samkeppni til að tryggja að fá þá bestu til þess og þar með tryggja hag neytenda og þar með samfélagsins alls). Það gefur því augaleið að einn, eða nokkrir, eru betri enn flestir og kaupa upp þá sem lélegastir eru og styrkjast við það og geta því næst keypt þá sem eru miðlungsgóðir og svo koll af kolli þangað til við höfum eitthvað sem nálgast óþægilega raunveruleikann og kallast fákeppni, samráð og einokun. M.ö.o. akkúrat sömu rök og segja að við eigum að treysta markaðnum til að hámarka hagkvæmni auðlinda, og skila eigi bestu kjörum fyrir mig og þig, benda á að frjáls samkeppni getur aldrei orðið neitt annað en í mesta lagi stutt breytingaskeið í átt að einokun - sem eins og allir vita er ekki gott fyrirkomulag til að tryggja góða meðferð auðlinda.

Það sem menn sáu hér í eina tíð, þegar ríkisfyrirtæki voru stofnsett, var að það er þó skömminni skárra, sérstaklega þegar kemur að nauðsynlegum fyrirtækjum eins og spítölum, skólum og BÖNKUM, að þessi fyrirtæki væru í almannaeigu fremur en í einkaeigu. Þar með væri hægt að tryggja að ekki væri verið að okra á fólki (hringir einhverjum bjöllum þegar ég nefni banka í þessu sambandi) með því að almenningur hefði fullkominn aðgang og eitthvað að segja varðandi rekstur fyrirtækisins og stefnu þess, t.a.m. arðsemisstefnu. Markmiðið var að allir gætu notið þjónustunnar án persónulegs efnahags. Það voru álitin sjálfsögð mannréttindi að menn ættu rétt á þaki yfir höfuðið (aðgang að sæmilega ódýru lánsfé t.d.), heilbrigðisþjónustu og menntun svo dæmi séu tekin.

Mér finnst ekkert hafa heyrst í umræðunni um samhengi innrásar hinna "frjálsu" banka á íslenska húsnæðismarkaðinn og hinnar ótrúlegu hækkunar húsnæðisverðs. Það er eins og margur maðurinn álíti þetta hina skrýtnustu tilviljun að rosaleg hækkun húsnæðisverðs gerist á sama tíma. Jú menn segjast skilja að aukið aðgengi að lánum hafi aukið eftirspurn og þar með hækkað verð en síðan ekki söguna meir. Einhverjir spekúlantar hafa meira að segja tjáð að markaðurinn hafi verið að leiðréttast miðað við verð í öðrum stórborgum. 

Nú standa menn hins vegar í þeim sporum að bankarnir eru búnir að koma sér fyrir á markaðnum, húsnæðisverð hefur hækkað um 40 - 50% OG vextir hafa hækkað og eru hærri en áður en að bankarnir komu inn á markaðinn. Hvað varð um hina ósýnilegu hönd sem átti að tryggja hagkvæmni, besta verð og hag neytenda? Bíddu við, átti ekki aukin samkeppni á húsnæðismarkaðnum að bæta hag neytenda? Ef ekki, hvers vegna í ósköpunum þá að hleypa bönkunum inn á markaðinn? Það skildi þó ekki hafa verið til þess að tryggja ákveðnum aðilum - einkaaðilum - arðsemi af þeirri ófrávíkjanlegu staðreynd að allir þurfa þak yfir höfuðið; fátt er arðvænna en það að lána til íbúðarkaupa, það vita allir sem þora að reikna 40 ára húsnæðiskaupalán til enda. Sem sagt, tilkoma bankanna á þennan markað hefur EKKI bætt hag lántakenda/húsnæðiskaupenda. Empírísk skoðun segir okkur því ofureinfaldlega að opinbert fjármögnunarkerfi til húsnæðiskaupa er betra en einkavætt, í það minnsta ekki verra. 

Annað dæmi; Nú er mikið í umræðunni sala ríkisins á orkufyrirtæki suður með sjó. Forstjóri Landsvirkjunar hefur talað fyrir einkavæðingu og Evrópusambandið þrýstir á einkavæðingu dreifingakerfa. Ég var staddur í BNA árið 2003 þegar stór hluti austurstrandarinnar varð rafmagnslaus. Rafmagnsleysi og truflanir eru landlægar alls staðar í BNA. Menn vita ástæðuna; hún er sú að rekstrarfyrirkomulag orkuveitna er á einkaeignargrunni. Skoðun leiðir í ljós að til að fá menn til að fjárfesta í orkufyrirtækjum þarf að laða fjárfesta að með von um arð. Sá arður þarf að vera jafnmikill, helst meiri, en menn geta vænst af fjárfestingum annarsstaðar, þetta kallar hagfræðin að dekka fórnarkostnaðinn við fjárfestinguna. Arðsemiskrafan kemur, aftur á móti, illa niður á viðhaldi. Sérstaklega hefur úttekt á rafmagnsveitum þar vestra sýnt að dreifikerfið hefur verið vanrækt. Ef að val stjórnenda stendur m.ö.o. á milli þess að endurnýja, segjum 200 km. rafmagnslínu eða borga út 200 milljarða arð, þá er valið að borga út arðinn. Það leiðir til hækkunar bréfa á markaði sem leiðir til hærri launa stjórnenda og mælanlegs árangurs þeirra; afleiðingin - kerfið, einkarekið, er eins lélegt og menn komast upp með en ekki eins gott og það getur verið. Smith gamli hefði átt að hugsa þetta með hámarks hagkvæmni aðeins betur.

Ég vona að með þessum stuttu skrifum hafi ég, allavega fengið menn til að setja spurningarmerki við þá fullyrðingu að einkavæðing sé betra fyrirkomulag en opinber rekstur.

Jú, einkavæðing er betri en spurningin er bara fyrir hverja; fyrir fáa útvalda - eða fyrir fjöldann?
Þór Þórunnarson