Þjóðaröryggisstefnan: breytt hernaðaraðferð en óbreytt stríðsmarkmið
Trump-stjórnin birti 4.desember nýja Þjóðaröryggisstefnu sína, National Security Strategy of the United States of America (NSS), 30 síðna plagg um áherslurnar í öryggismáum. Í ljósi reynslunnar eru slíkar Þjóðaröryggisstefnur þungaviktarplögg sem leggja heildarstrategíu fyrir næstu fjögur ár. Það virðist ljóst að hin nýja áætlun felur í sér mjög umtalsverðar breytingar frá fyrri slíkum áætlunum. Ekki er þó allt sem sýnist að því leyti.
Ríkisútvarpið fjallaði talsvert um nýju stefnuna. Sjá m.a. hér og hér. Það eru einkum fjögur atriði hennar sem RÚV hefur fjallað um og telur til stórtíðinda: a) „Núverandi ríkisstjórn virðist ætla að draga úr hefðbundnu hlutverki Bandaríkjanna á alþjóðavísu“, b) Bandaríkin „ætla að endurvekja yfirráð sín á vesturhveli jarðar“, c) „mikilvægt sé að endurreisa stöðugleika gagnvart Rússlandi“ og loks d) það sem Ríkisútvarpið talar langmest um, að Bandaríkin vilja „endurmeta samband sitt við Evrópu“, nýja stefnan varar við því að Evrópu (ESB) skorti nú vestræn gildi, lýðræði og lögmæti, „Evrópa standi frammi fyrir útrýmingu siðmenningar“.
Það gætir áfallastreitu hjá RÚV eftir útkomu þessa plaggs. Eins og vænta mátti endurvarpar RÚV hér túlkunum erlendra fréttastöðva á umræddu stefnuplaggi. Í þessu tilfelli er það þó fyrst og fremst tónn og áherslur evrópskra fréttastöðva og stjórnvalda sem endurvarpað er, og hann er býsna neikvæður.
Rétt er það, þjóðaröryggisstefna Trumpstjórnarinnar felur í raun í sér að Bandaríkin boða mikið brotthvarf herafla frá Evrópu, um leið og þau senda henni kaldar kveðjur. En af því hvað RÚV – eins og fréttastofur Evrópu – einblínir á það atriði verður heildarmyndin af nýju stefnunni frá Washington bjöguð og skökk.
Það að Bandaríkin ætli sér að „draga úr hefðbundnu hlutverki Bandaríkjanna á alþjóðavísu“, er mislestur RÚV á nýju þjóðaröryggisstefnunni . Einkum af því RÚV fjallar bara ekkert um aðal-forgangsatriði stefnunnar, atriði sem allir aðrir þættir hennar þjóna – sem er baráttan við aðalóvininn, Kína.
Á rúmri viku sem liðin er frá útkomu þjóðaröryggistefnunnar hefur margt verið um hana ritað og rætt, utan lands sem hér heima. Misjafnlega skarplargt. Hér í framhaldinu ætla ég einkum að halda mér við skýringar Ben Nortons sem heldur úti hlaðvarpinu Geopolitical Economy. Ég hef vanið mig á hlusta grannt á greiningar hans á geopólitík. Í vikunni birti hann öflugan þátt um téða þjóðaröryggisstefnu, sjá hér:
Felur nýja öryggisstefnan í sér að Bandaríkin hafi í hyggju að draga sig tilbaka af alþjóðavettvangi eða einangra sig á einhvern hátt? Fátt eða ekkert er fjær sannleikanum, segir Ben Norton.
Til að berjast við Kína þarf fyrst að „aftengjast“ Kína
Öryggisstefnan frá Washington segir það skýrt - án þess þó að segja berum orðum - að Bandaríkin líti á Kína sem helstu ógnina við heimsyfirráð sín, bæði efnahagaslegu og hernaðarlegu yfirráðin. Á hinn bóginn birtist þarna líka viðurkenning á því að Kína sé að svo stöddu of öflugt hernaðarlega og sérstaklega efnahagslega til þess að Bandaríkin geti haft yfirhöndina. Og sérstaklega þetta: Bandaríkin geta illa beitt sér í þessu stríði að svo stöddu af því þau eru of efnahagslega háð Kína. Um það segir Ben Norton:
„Trump hóf gríðarlegt viðskiptastríð við lönd um allan heim, en aðal skotmark viðskiptastríðs Bandaríkjanna var Kína. Á einum tímapunkti voru tollar Bandaríkjanna á Kína meira en 140%... En Kína reyndist hafa mikið áhrifavald sem það beitti til að verja sig í verslunarstríðinu. Kína takmarkaði útflutning á sjaldgæfum jarðefnum til Bandaríkjanna, sem eru mikilvæg fyrir hátæknivörur og sérstaklega vopn og hernaðartækni... Bandaríkin vildu nota bandamenn sína og lénsríki á Asíu-Kyrrahafssvæðinu til að reyna að einangra og veikja Kína til að viðhalda yfirráðum Bandaríkjanna. En fjármálaráðuneytið komst að því gegnum erfiða reynslu að Bandaríkin eru í raun háðari Kína en öfugt…“
Bandaríkin eru sem sagt efnahagslega berskjölduð gagnvart Kína eftir áratuga hnattgæðingar-útvistun framleiðslunnar. Þess vegna verða þau að beygja og breyta um bæði hernaðarlega og efnahagslega strategíu.
Stjórnvöld í Washington viðurkenna nú að einhverju leyti VERULEUKANN, þau horfast í augu við að í Evrasíu er hin einpóla skipan bandarískra yfirráða ekki lengur í gildi, og efnahagsleg samkeppnisstaða hreinlega orðin Bandaríkjunum um megn. Til skemmri tíma litið verða þau að „aftengjast“ Kína áður en þau geta hafið frekari stigmögnun átakanna.
Þurfum nýja birgðakeðju – Rómanska Ameríka
Bandaríkin verða ennfremur að þróa nýja aðfanga- og birgðakeðju þar sem þau hafa full yfirráð, og keppinautum er ekki hleypt að. Sú nýja birgðakeðja verður að vera staðsett á Vesturhveli, í hinni samanlögðu Ameríku-álfu. Fyrsta skrefið er einkum pólitískt og hernaðarlegt, segir Norton:
„Bandaríkjastjórn vill ná fullum yfirráðum í Rómönsku Ameríku, koma þar á óstöðugleika og steypa af stóli öllum sjálfstæðum ríkisstjórnum á svæðinu sem eru í bandalagi við Kína og Rússland. Þess vegna heyja Bandaríkin nú stríð gegn Venesúela.“
Í kjölfarið kemur svo efnahagsmódelið, að nokkru leyti nýtt módel.
„Washington vill fulla stjórn á öllum löndum í Rómönsku Ameríku til að flytja verksmiðjur frá Kína og Asíu og í staðinn flytja þær nær og til vinaþjóða í Rómönsku Ameríku. Washington viðurkennir með því að þessi verksmiðjustörf í Kína og Austur-Asíu, þau munu ekkert koma aftur til Bandaríkjanna. En í staðinn munu bandarísk fyrirtæki framleiða vörur sínar með því að arðræna láglaunafólk í löndum Rómönsku Ameríku og nota steinefni, olíu, gas og aðrar náttúruauðlindir frá Ameríku til að skapa nýja birgðakeðju með mikilvægum steinefnum og sjaldgæfum jarðmálmum sem Bandaríkin vilja einnig reyna að fá frá Grænlandi. Þetta er ástæða þess að Trump vill ná Grænlandi sem nýlendu...“
Ástæðan fyrir því að Trump-stjórnin er svo heiftarlega gíruð inn á að ná fullri stjórn á Rómönsku Ameríku er einföld: Kína og kínversk efnahagsáhrif í þeim heimshluta (Kína er stærsti viðskiptaaðili Suður-Ameríku, Brasilía er í BRICS...), og í minna mæli áhrif Rússlands. Bandaríkin telja sig verða að gera álfuna að útilokandi efnahagssvæði fyrir sig sjálf. Og afnema með því frjálslynda markaðshyggju, þetta er í reynd nýlendustefna 19. aldarinnar. Það speglast í því hvernig Trump nú endurvekur hina 200 ára gömlu Monroe-kenningu sem lýsti yfir því árið 1823 að öll Rómanska Ameríka væri hluti af áhrifasvæði hins unga bandaríska heimsveldis. Norton:
„Þetta eru því tveir meginþættir utanríkisstefnu Trumps: að leitast við að koma á yfirráðum í Rómönsku Ameríku og endurvekja nýlendustefnu Monroe-kenningarinnar, það er það fyrsta. Og það seinna er að heyja nýtt kalt stríð gegn Kína.“
Washington vill bætt samskipti við Rússland
Gagnvart Evrópu vill nýja öryggisstefnan m.a. fylgja eftirfarandi megináherslum: „Binda enda á þann skilning, og framkvæmd hans, að NATO sé bandalag sem hljóti stöðugt að þenjast út.“ Ennfremur: „Endurreisa aðstæður stöðugleika innan Evrópu og koma aftur á hernaðarlegum stöðugleika gagnvart Rússlandi.“ Norton:
„Með öðrum orðum vill Washington bæta samskipti sín við Moskvu sem lið í tilraun til að sundra Rússlandi og Kína... Og það sem þessi stefna segir er að Bandaríkin líta ekki lengur á Rússland sem ógn við heimsyfirráð sín. Í staðinn líta þeir á Kína sem aðalógnina, og Bandaríkin vilja kljúfa Rússland frá Kína. Þetta er önnur ástæða fyrir því að Bandaríkin vilja binda enda á stríðið í Úkraínu og draga sig út úr Evrópu. Þau eru að segja Evrópu að hún eigi að takast á við sín eigin öryggismál, Bandaríkin ætli að bæta samskiptin við Rússland en einbeita sér í staðinn að hinu nýja kalda stríði gegn Kína“.
Þetta minnir auðvitað um margt á árið 1972 þegar þeir Nixon og Kissinger hófu að „normalísera“ samband Bandaríkjanna við Kína í því augnamiði að einangra þann aðila sem Bandaríkin skilgreindu sem höfuðandstæðing, Sovétríkin. Þetta tókst þeim reyndar að mörgu leyti vel, það hefur Donald Trump skilist.
Af þessu leiðir: Evrópa færist neðar í forgangsröð
Gallinn er sá að vestrænir miðlar mislesa gjarnan illilega þennan hluta öryggisstefnunnar. Það á sérstaklega við um evrópska fjölmiðla og stjórnmálamenn. Að vanda telja þeir að allt mikilvægt snúist um Evrópu. Norton segir:
„Fyrir þá er stóra fréttin í skjalinu sú að þjóðaröryggisstefna Trumps gangi út á það að Bandaríkin færi sig úr alþjóðlegu hlutverki yfir í svæðisbundið hlutverk, og þau vilji yfirgefa Evrópu. Þetta er það sem Evrópubúar eru að kvarta yfir. Þetta er að missa af aðalatriðinu. Bandaríkin eru ekki að hverfa frá tilraun sinni til að koma á heimsvaldayfirráðum um allan heim. Frekar eru bandarísk stjórnvöld að viðurkenna að þau hafa takmarkaðar auðlindir og geta ekki stjórnað hverjum einasta fersentimetra á plánetunni og hverju heimshorni. Þau verða að forgangsraða þeim svæðum sem eru hernaðarlega mikilvægust fyrir bandaríska heimsveldið til að hámarka heimsyfirráð þess. Og Washington hefur metið það svo að Evrópa sé ekki eitt af þessum hernaðarlega mikilvægu svæðum.“
Ástæða er að stjórnstöðvar í Bandaríkjunum (hugveitur nálægt Trump) horfast í augu við a.m.k. tvennt . Í fyrsta lagi að heimurinn er ekki lengur „einpóla“, það hafa bæst við nýir „pólar“, og Bandaríkin hafa af þeim sökum brýnni not fyrir herinn sinn annars staðar en í Evrópu. Í öðru lagi kemur sá harði og beiski veruleiki að Úkraínustríðið hefur tapast. Þessu vilja Bandaríkin mæta með því að deila byrðum („burden sharing“) með bandamönnum sínum. „Byrðadeiling“ er hugtak sem er margendurtekið í þessu skjali. Í tilfelli Úkraínustríðs gildir fyrir Washington að koma „byrðinni“ – því verki sem Bandaríkin efndu til og hófu – yfir á Evrópu. Evrópuleiðtogar sem síðan hafa lagt sál sína og alla pólitíska tilveru undir í þessu stríði svara með því að stríðið geti ennþá unnist. Útkoman er sá dýpkandi klofningur milli Evrópu og Bandaríkjanna, eins og þetta umrædda skjal birtir skýrt.
Þrjátíu blaðsíðna skjalið eyðir heilmiklu púðri í það sem kallast verður „menningarstríð“ sérstaklega í umfjölluninni um Evrópu. Menningarstriðið, stríðið um samfélagslegu „gildin“, er vissulega meginmál í pólitíkinni vestan hafs. Trump-stjórnin segist vera að berjast gegn „útrýmingu siðmenningar“ vegna innflytjendastraumsins, bæði í heimahögum og ekki síður í Evrópu. Á móti segjast Demókratar og hefðbundnari hnattvæðingarsinnar að vanda vera að berjast fyrir frelsi og „lýðræði gegn einræði“. En báðir nota „gildin“ og málefni menningarstríðs fyrst og fremst sem skálkaskjól til að leiða huga almennings frá aðalatriðinu, sem eru hin efnahagslegu og geópólitísku málefni.
Vestur-Asía færist líka neðar
Allur seinni hluti stefnuplaggsins fjallar um strategíuna fyrir ákveðin svæði og heimshluta, „The Regions“. Og þar er heimshlutunum raðað upp út frá geópólitísku mikilvægi þeirra. Fremst koma Vesturhvelið (Stór-Ameríka) og Asía með 4 blaðsíður hvort, síðan Evrópa og Vestur-Asía (Miðausturlönd) með 2 bls. hvort, og síðust er Afríka með rúma hálfa blaðsíðu.
Miðausturlönd færðust í miðju bandarískrar heimsvaldastefnu f.o.m. 9. áratug síðustu aldar með gríðarlegri herstöðvauppbyggingu og valdaskiptaaðgerðum á færibandi. Mikilvægi Ísraels varð tilsvarandi. Öllu öðru fremur tengdist þetta mikilvægi olíunnar. Bandaríkin hafa nú dreift orkuhagsmunum sínum og eru nettó-olíuútflytjandi. Um þetta skrifar Ben Norton:
„Reyndar hefur Trump-stjórnin einnig sagt að Miðausturlönd, þ.e.a.s. Vestur-Asía, séu ekki heldur eitt af hinum hernaðarlega mikilvægustu svæðum. Í staðinn metur hún það svo að vesturhvel jarðar og Asíu-Kyrrahafssvæðið séu tvö mikilvægustu svæðin fyrir bandaríska heimsveldið til að beita valdi um allan heim og viðhalda yfirráðum.“
Heildarmynd – breytt og óbreytt
Að öllu þessu athuguðu og sögðu er ástæða til að taka stöðuna í heild og meta útlit út frá því. Og þá er heildarmatið eitthvað svona: Hér koma fram, a.m.k. á blaði, mjög marktækar breytingar frá fyrri strategíuplöggum BNA. Samt má ekki æsa sig um of, heldur slá föstu að ekki er um að ræða grundvallarbreytingu á utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Að líta á Rómönsku Ameríku sem bakgarð Bandaríkjanna og standa þar fyrir valdaskiptaaðgerðum (ef stjórnvöld einstakra landa gerast of óháð eða andsnúin bandarískum yfirráðum) það er ekki ný stefna Washington. Það hefur verið reglan a.m.k. frá 1945. Vísa má í aðeins 5 daga gamla Neistagrein „Koss dauðans“ eftir Katjönu Edwardsen sem gott innlegg þar um.
Þjóðaröryggisstefnan 2025 fylgir raunar í meginatriðum þeirri meginlínu sem mörkuð var í tilsvarandi plaggi, Þjóðaröryggisstefnunni frá árinu 1992, strax eftir lok Kalda stríðsins, stefnu kennda við Wolfowitz-kenninguna. Þar var fyrsta meginhugsun sú stefna að viðhalda bandarískum hnattrænum yfirráðum, og hindra að nokkurt annað land gæti náð stöðu hnattræns veldis. Stefnan núna er í stórum dráttum aðlögun Wolfowitskenningarinnar upp á aðstæðurnar 2025 - hnattræn yfirráð eftir nýjum leiðum.
Það að færa Kína og Kyrrahafssvæðið í meginfókus geóstrategíunnar er ekki heldur nýtt með Trump 2. Það var formlega gert af Obama forseta 2011 undir heitinu „snúningur til Asíu“ (pivot to Asia) þar sem boðað var að hergögn og helstu hernaðaráherslur skyldu færast þangað, í því augnamiði að innikróa og veikja Kína. Það hafa öll bandarísk stjórnvöld gert síðan. Áherslurnar núna eru í alveg sömu átt, bara þyngri og ákveðnari.
Það sem helst sýnist vera raunveruleg umbreyting frá fyrri skjölum sinnar tegundar, og fyrri ríkisstjórnum í Washington, er óneitanlega afstaðan til Rússlands og Evrópu. Eins og ég les Þjóðaröryggisstefnuna (og eins og Norton les hana) finnst mér að veðurhorfurnar séu aðeins betri en þær voru áður en hún kom út. Ekki síst verðurspáin um kjarnorkustríðshættuna. Þar mætti bera saman við öryggismálaskjal unnið af RAND-corporation 2019, sjá „Extending Russia – Competing from Advantageous Ground “ (raunar samin í stjórnartíð Trump 1) sem nefndist „Að teygja Rússland“ og gekk út á að magna átökin við Rússland á öllum sviðum og með öllum ráðum. Og það er í beinum átökum NATO við stærsta kjarnorkuveldi heims sem mesta váin við heiminn okkar liggur. Ef heitasti heldurinn færist frá Úkraínu til Venesúela andar vesæll Evrópubúi léttar í bili.
Að vísu er það svo að samtímis auknum friðartónum frá Washinton gagnvart Rússlandi kveður við hækkandi og herskár tónn frá Evrópu. Það tengist auðvitað þeirri „byrðadeilingu“ sem áður var á minnst. Hundar Evrópu gjamma vígalega eða eða góla eins og grimmustu úlfar, en sem betur fer eru þeir ekki ýkja vel tenntir, svo að í því er ekki fólgin eins vofeivleg spá og áður; áður en „hundastjórnandinn“ í Washington fór a boða brottför sína af vettvangi.
Þjóðaröryggisstefna Bandaríkjanna 2025 boðar sem sagt breytta hernaðaraðferð en óbreytt stríðsmarkmið. En að svo komnu máli fyrst og fremst á pappír. Hún er ekki komin í framkvæmd, og óvíst að hve miklu leyti hún kemst það, að hve miklu leyti hún nær að gera þær stefnubreytingar sem hún boðar. Þar kemur einkum til skjala a) styrkur andstæðinganna, Kína. Rússlands, BRICS, hins hnattræna Suðurs.. b) áhrifavald hinna óánægðu bandamanna sem berjast gegn því að stefnunni verði yfir höfuð breytt og c) styrkur og stefnufesta á valdsins tindi í Washington sem hefur mikla tilhneigingu til að snúast með þeim breytilegu vindum sem þar blása.