Fara í efni

VIÐSNÚNINGUR ÍSLANDS GAGNVART PALESTÍNU?

Allt frá 18. maí 1989 er Alþingi mótaði samhljóða stefnu í Palestínumálinu hefur Ísland tekið afstöðu með mannréttindum og sjálfsákvörðunarrétti palestínsku þjóðarinnar. Sú afstaða var staðfest samhljóða af Alþingi hinn 29. nóvember 2011 þegar samþykkt var mótatkvæðalaust að viðurkenna Palestínu sem fullvalda sjálfstætt ríki. Þessi grundvallarafstaða hefur meðal annars birst í afstöðu í atkvæðagreiðslum innan Sameinuðu þjóðanna.
Nýverið varð viðsnúningur á afstöðu Íslands, sem grundvallast ekki á breyttri stefnumótun Alþingis heldur hefur utanríkisráðuneytið leyft sér að breyta stefnunni upp á eigin spýtur. Ísland studdi ekki ályktun yfirgnæfandi meirihluta SÞ um að fara fram á rannsókn Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag á afleiðingum ísraelska hernámsins í Palestínu heldur sat hjá.
Hinn 29. nóvember er þess minnst að 75 ár eru liðin síðan Sameinuðu þjóðirnar samþykktu tillögu um að skipta Palestínu til helminga á milli gyðinga sem voru að flytjast til landsins, einkum frá Evrópu, og Palestínumanna sem bjuggu fyrir í landinu. Þessi helmingaskipti urðu aldrei að veruleika, því að í stríði sem lauk með vopnahléi í júní 1949 lögðu gyðingar undir sig nærri 80% landsins. Ísraelsríki var þar með orðið til.
Með miklum hernaðaryfirburðum var öll Palestína lögð undir hernám Ísraels í sex daga stríðinu 1967.

Frá fyrstu tíð hafa Sameinuðu þjóðirnar borið sérstaka ábyrgð gagnvart Palestínu, þjóðarréttindum palestínsku þjóðarinnar og mannréttindum íbúanna. Þannig hafa alla tíð verið starfandi sérstakar nefndir, ráð og stofnanir til að tryggja þessi réttindi. Á meðal þeirra eru Flóttamannahjálpin fyrir Palestínu, UNRWA, en lengi vel var flóttamannavandi Palestínu sá langmesti í heiminum eftir síðari heimsstyrjöldina.

Grundvallarmannréttindi eru fótumtroðin dags daglega af hernámsliði Ísraels; her, landamæravörðum, lögreglu og ekki síst ofbeldisfullu landtökuliði sem heldur uppi látlausum árásum á bændur og fjölskyldur Palestínumanna á Vesturbakkanum. Ráðist er á bændur við ólífuuppskeru. Það fengu þrjár íslenskar konur að reyna á eigin skinni sem voru að snúa heim eftir mánaðardvöl í sjálfboðastarfi. Ráðist er inn á heimili fólks hvenær sem er og fólk á öllum aldri drepið, ekki síst ungir menn sem grunaðir eru um þátttöku í baráttu gegn hernáminu. Slíkar aftökur án dóms laga hafa aldrei verið fleiri en nú á þessu ári síðan 2005.

Nýlega fóru fram enn einar kosningar í Ísrael og Netanyahu er að taka völdin á ný, í skugga ákæra og réttarrannsókna vegna gruns um spillingu og fleiri glæpi. Það versta við valdatöku Netanyahus er þó liðið sem hann er að lyfta til valda með sér. Þar vekur einn sérstaka athygli, Ben Gvir, sem kemur upphaflega úr flokki Kahanista, Khach, sem var bannaður á sínum tíma fyrir öfgar og á lista í Bandaríkjunum yfir hryðjuverkasamtök. Ben Gvir hefur hamast gegn lögreglu og dómstólum í Ísrael en er nú líklegur ráðherra yfir þessum stofnunum. Ben Gvir leynir því ekki að hann vill einfaldlega útrýma Palestínumönnum úr landinu, að hans mati eiga þeir engan rétt og hann hefur sett fram tillögur um að þeir verði fluttir burt nauðungarflutningi.

Ekki lagast ástandið á Gaza, sem er sem fyrr í fullkominni einangrun, atvinnuleysi og allsherjarskorti. Síðan býr fólkið við að eiga von á loftárásum dróna og fullkomnustu sprengjuflugvéla hvenær sem er og getur ekkert flúið.

Íslenska þjóðin hefur sýnt og sannað í gegnum árin að hún vill styðja palestínsku þjóðina í baráttu sinni fyrir frelsi og mannréttindum.
Það er óhæfa ef núverandi ríkisstjórn, og þá sérstaklega Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra, endurspeglar ekki vilja þjóðarinnar í þessu máli. Á það að viðgangast að Ísland taki ekki afstöðu með mannréttindum þegar Palestína er annars vegar?

Sveinn Rúnar Hauksson heimilislæknir er heiðursborgari í Palestínu. Hann hefur einnig birt þessa grein sína í Morgunblaðinu.
srhauks@gmail.com