Fara í efni

Tvígengisvélin hikstar

Sæll og blessaður Ögmundur!
Gerast nú veður innlendra stjórnmála válynd, með dýpkandi geðlægðum íslenskra stjórnarherra, í kjölfar aukins þrýstings þeirra veðrabrigða sem fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla mun valda. Er því rétt að leita álits hjá þér um veðurhorfur fram á haustmánuði.  Sjálfur þykist ég nú eygja tækifæri til að orðið verði við kalli fólks um breytta stjórnarhætti. Almenningur er búinn að fá nóg af þeim valdhöfum sem nú halda um stjórnartaumana. Takmörkuð lýðræðisást tvígengisvélar Davíðs og Halldórs er lýðum ljós, enda stýrt með valdboði og offorsi þeirra sem finna að þeir hafa misst tökin á atburðarásinni. Að auki er auðsætt að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er komin að fótum fram vegna almenns leiða og uppsafnaðs ágreinings á milli stjórnarflokkanna. Fyrirsjáanlegt tap Davíðs í þjóðaratkvæðagreiðslu opnar allar gáttir í íslenskum stjórnmálum.

Leiðtogi eða luðra?

Þó svo lítill málefnaágreiningur sé til staðar milli Sjálfstæðisflokks og hins hægri sinnaða Framsóknarflokks sem lýtur forystu Halldórs Ásgrímssonar, þá er hinni seinþreyttu en félagssinnuðu sveit innan Framsóknar sem enn er til staðar, nóg boðið að sinni. Er ljóst að framganga Halldórs sem aftaníossi og gísl Davíðs sl. ár hefur í augum þess hóps framsóknarmanna gert hann að lítt fýsilegum leiðtoga til framtíðar, nema hann sjái villu síns vegar og snúist til betri siðar. Halldór sjálfur hlýtur að gera sér grein fyrir sinni stöðu eins og hún blasir við almenningi og brátt rennur upp fyrir honum að hann losnar ekki undan prísund Davíðs, þó svo hann fái að setjast í fang hans undir stýri sem drengsnáði í fangi bónda. Öllum er ljóst hver ræður því hvert dráttarvélin stefnir. Honum er því orðið órótt nú þegar 15. september nálgast. Á hann að halda fyrir augu, eyru, nef og munn og bíða þess sem koma skal, eða á hann að bregða út af vananum og taka af skarið og slíta samstarfinu við íhaldið? Þá losnar hann a.m.k. við þá flokkadrætti sem óhjákvæmilega bætast við annað heimilisböl Framsóknar, þegar hann þarf að fara að gera upp á milli ráðherra sinna í stólaskiptum. Þá færi hann fyrir óskiptum flokki og gæti staðið a.m.k. að einhverju leyti undir nafngiftinni, pólitískur leiðtogi.

En ég elska þig bara ekki lengur....

Pólitískt nef almennings, sem hefur nú áratugalanga reynslu af stjórnmálamanninum og heimilisvininum Davíð Oddssyni, skynjar að Davíð sé óljúft að láta stjórnunarvöldin formlega í hendur nokkrum öðrum, jafnvel þó honum sé í lófa lagið að stjórna því sem hann vill bak við tjöldin, með stjórnarslitshótunina upp í erminni. Almenningur er þess líka áskynja að virðing sú sem Davíð kann að hafa borið fyrir Halldóri, hlýtur brátt að vera upp urin. Eins og annars staðar í samskiptum manna á milli þá er erfitt að bera virðingu til lengdar fyrir þeim sem lætur fara með sig eins og tusku. Sérstaklega þegar þeim hinum sama er á því engin þörf, en lætur það yfir sig ganga eingöngu til að geta þjónað eigin hégóma, - ef þeim sem valdið hefur þóknast að láta svo verða. Davíð er því farinn að líta í kringum sig og kanna hvaða kosti hann á í stöðunni. Samfylkingin? Þar eru ýmsir til í slaginn. VG? Frjálslyndir? Eftir að hafa nánast manað Ólaf Ragnar til að beita synjunarvaldinu og með fyrirsjáanlegar niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu í ágúst í höndunum, þá er nokkuð víst að ráðabruggverksmiðja Davíðs og félaga er í fullum gangi þessa dagana. Stjórnarslit og kosningar eru vissulega kostur í stöðunni. Framsóknarmenn gerðu rétt í því að fara að snúa sinni maskínu af stað hið bráðasta, ef göróttur seiður Sjálfstæðismanna á ekki að ganga af þeim dauðum.

Samstarf...

En hverjir eru valkostirnir sem upp kunna að koma? Að mínu mati væri það dauðadómur yfir VG ef flokkurinn að afloknum kosningum gengi til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, enda eiga þessir tveir pólar íslenskra stjórnmála fátt eða ekkert sameiginlegt. Að auki er það yfirlýst af meirihluta félagsmanna í VG að slíkt samstarf komi ekki til greina, og vandséð að forysta flokksins gæti gengið í berhögg við slíkar yfirlýsingar, sem eflaust yrði fylgt eftir með úrsögnum úr flokknum og fylgishruni á landsvísu. Enda hefur forystan, það ég best veit, ekki velt þessum möguleika fyrir sér. Að sama skapi hafa Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn oft á tíðum haldið uppi beittri stjórnarandstöðu, og eiga a.m.k. í orði kveðnu ekki mikla samleið með stefnu núverandi ríkisstjórnar. Þess utan hefur undanfarin ár andað mjög köldu á milli margra forystumanna stjórnarandstöðu- og stjórnarflokkanna, með brigslyrðum og uppnefnum á báða bóga. Vel virðist hins vegar fara á með fulltrúum stjórnarandstöðunnar, og yfirlýsingar frá þeim þess efnis að stjórnarandstaðan hafi staðið sem einn maður í mörgum veigamiklum málum gefur mjög til kynna að samstarf þessara flokka gæti gengið með ágætum. Bæði hvað varðar persónulegt samstarf, sem og samstöðu í þeim málum sem varða okkur hvað mest. Allir þessir flokkar hafa sett fram svipuð markmið í t.d. menntamálum, heilbrigðis- og öldrunarmálum, í afstöðunni til Íraksstríðsins, í sjávarútvegsmálum og atvinnumálum. Horfið verður af braut einkavæðingar og áherslan sett á að efla og bæta velferðarkerfið. Látið verður af stuðningi við heimsvaldastefnu markaðssinna, hvar sem þá er að finna  og tekið undir sjónarmið almennings um allan heim sem kallar á meiri jöfnuð og réttlæti.

Kosningabandalag sem koma skal

Þær raddir verða háværari sem krefjast raunverulegra breytinga og segja einfaldlega: Frjálslyndi flokkurinn, Samfylkingin og VG eiga að ganga til næstu Alþingiskosninga sem kosningabandalag, þar sem tekist verður á um hvort fólk vill óbreytt ástand eða nýjar áherslur. Stolt kosningabandalag, sem gengi til kosninga bundið af stjórnarsáttmála, þar sem fram kæmu þær áherslur og málefni sem flokkarnir myndu vinna eftir er þeir kæmust til valda. Glæsilegt kosningabandalag sem hefði skýra stefnu og þyrði að bjóða fram raunverulegan valkost gegn því afturhaldi sem nú er við völd. Að sjálfsögðu gerir fólk sér grein fyrir að hugrekki þarf til af hálfu forystufólks núverandi stjórnarandstöðuflokka til að bjóða upp á slíkan valkost.

Spurning mín til þín er því þessi: Telur þú þetta hugrekki vera til staðar innan VG? Er viljinn til staðar? Telurðu líkur á og æskilegt að slíkt kosningabandalag verði myndað eða er hætta á áframhaldandi setu Sjálfstæðisflokks hvort sem er í slagtogi við Samfylkinguna eða VG?