Fara í efni

Rúnar Sveinbjörnsson: ÁBENDINGAR TIL LEYNIÞJÓNUSTU RÍKISINS

Það er þekkt aðferð í stjórnmálum að skírskota til fortíðarinnar. Það gera margir stjórnmálamenn til að rökstyðja skoðanir sínar og fyrirætlanir, einnig grípa þeir til þjóðarsögunnar á hátíðastundum og eins  þegar þeir eru með einhver leiðindamál á bakinu. Þegar vafasamar athafnir, vandræði og leiðindi eru annars vegar reyna þeir gjarnan að beina athygli fólks frá kjarna málsins með því að rifja upp atburði sem skipta ekki lengur máli en voru umdeildir á sínum tíma. Og þá er fortíðin hnoðuð eftir hentugleikum og er þá ekki verra að hafa þekkta bakarameistara sér við hlið. Nú er það leyniþjónusta Björns Bjarnasonar og skýrslur um hlerarnir kaldastríðsáranna sem þarf að réttlæta og Þór Whitehead sagnfræðingur hnoðar nú söguna í óða önn fyrir dómsmálaráðherrann. Hann er búinn að hnoða saman ævintýrasögu til að skjóta stoðum undir leyniþjónustu Björns Bjarnasonar og eins til þess að sýna fram á að það hafi verið nauðsynlegt að stunda símhleranir forðum tíð. Allir sem kynnt hafa sér sögu verkalýðshreyfingarinnar og friðarbaráttu hér á landi vita hins vegar að margt sem Þór Whitehead hefur fram að færa til að auðvelda leynifæðinguna hans Björns er fært í stílinn.
Hér eru nokkrar staðreyndir sem henta ekki áköfum áhugamönnum um Leyniþjónustu ríkisins:

  • Bylting var á stefnuskrá kommúnista en það var aldrei byltingarástand á Íslandi.
  • Í Gúttóslagnum, sem átti sér stað í kjölfar áforma bæjarstjórnar Reykjavíkur að lækka laun atvinnulausra í svokallaðri “atvinnubótavinnu”, vann verkalýðurinn sigur. Lækkunin kom ekki til framkvæmda þrátt fyrir að lögregla “aðstoðaði” bæjarstjórnina. Á fundi með Einari Olgeirssyni spurði ég hann sem ungur maður hvort ekki hefði verið hægt að gera byltingu í kjölfarið, svaraði hann því til að ekki hefði verið byltingarástand á Íslandi á þeim tíma.
  • Varnarher verkalýðsins var stofnaður til þess að verjast brúnstökkum nasista og íhalds á millistríðsárum. Her þessi var vopnaður kylfum.
  • Mikill meirihluti Íslendinga var á móti inngöngu Íslands í Nató. Meirihluti Alþingis þorði ekki að bera aðildina undir landsmenn. Eins var það með svokallaðan “varnarsamning” 1951. Hann var ekki heldur borinn undir nýfrjálsa þjóð sem fagnaði sjálfstæði sínu 1944.
  • Þegar Keflavíkagöngurnar hófust voru göngumenn grýttir, húsakynni sósíalista við Tjarnargötu 20 grýtt, allar rúður brotnar og önnur spjöll unnin. Sama gerðist síðar hjá Fylkingunni sem ég var félagi í. Þrátt fyrir að árásirnar væru fyrirsjáanlegar sást lögregla hvergi, hún var öll í því að verja bandaríska sendiráðið. Veiðileyfi var hins vegar auðfengið á “kommana”.