Fara í efni

EKKI RÉTTI TÍMINN FYRIR ESB-UMSÓKN

Lausnarorðið á Íslandi þessa dagana virðist fyrir mörgum vera aðeins eitt; Evran. Það á jafnt við seka og saklausa, þá fáu sem orsökuðu hrunið og hina mörgu sem eru fórnarlömbin. Hinir seku kenna evruleysi landsins um ófarir eigin fyrirtækja og fela eigin vanhæfni í leiðinni, hinir saklausu eru margir tilbúnir að grípa hvaða hálmstrá sem býðst ef það leiðir okkur út úr ógöngunum. Það virðist stafa af þessu lausnarorði ljómi sem birgir mönnum sýn á annað. Þar sem forsenda upptöku evrunnar er að Ísland gangi í Evrópusambandið þá virðist samkvæmt sömu nauðhyggju óhjákvæmilegt að sækja um inngöngu. Það auðveldar þeim lífið sem gera sér pólistískan mat úr þessu ástandi, ala á Evru-trúnni öllum stundum og hafa fram að þessu fitnað eins og púkinn á fjósbitanum.

Forsenda viðræðna er upplýst umræða

En látum liggja milli hluta hversu sérkennilegt það væri ef Ísland ætti eftir að ganga í ESB út af Evrumálinu  einu og sér, því vissulega er svo fjöldamargt annað sem fylgir ESB-aðild fyrir land og þjóð. Ef að landsmenn vilja ganga í ESB út frá þeim fjölbreyttu forsendum þarf mun víðsýnni, dýpri og efnismeiri umræðu en hingað til, svo hver og einn geti tekið upplýsta ákvörðun um aðild. Til þess þarf tíma sem þýðir að umsókn er ekki á dagskrá næstu mánuði eða ár.

ESB mun ekki bjóða upp á einhverjar millistigs könnunarviðræður,  sem gefa almenningi kost á að skoða hvað er í pokanum og ákveða síðan hvort við ætlum að hefja alvöruviðræður og sækja um af alvöru. Verði farið í viðræður á annað borð er það fyrir alvöru og valkostir almennings verða þeir einir að kjósa með eða á móti umsömdum  pakka. Og umræðan um almenna kosti og galla ESB hefur einfaldlega ekki farið fram enn þá. Því er allt tal um umsókn nú byggt á ósjálfráða viðbrögðum þess sem verður fyrir höggi. Fyrir utan þá auðvitað sem hafa inngöngu á pólitískri stefnuskrá sinni og nýta sér ástandið nú sjálfum sér í flokkspólitískum tilgangi.

 

Því er rétt að skoða hvort æskilegt er að sækja um inngöngu í ESB í dag eða næstu mánuðum, með upptöku Evrunnar sem helsta markmið.

 

Afleit samningsstaða

Ég tel umsókn nú ekki vera tímabæra og fyrir því eru eftirfarandi ástæður:

 

Í fyrsta lagi er að nefna að Ísland er að semja úr afleitri stöðu og hefur nánast engin spil á hendi.  

ESB er búið að dusta Ísland við hjarn í Icesave-málinu og finnst eflaust að það hafi verið mátulegt á þessa sjálfsmiðuðu örþjóð. Ísland hafði ekki einu sinni burði til að láta reyna á löggjöf Evrópusambandsins sjálfs í deilunni. Í öllu falli má gefa sér að það mál hafi ekki aukið álit Íslendinga innan ESB né aukið á velvilja í okkar garð. Icesave-málið hefur því eitt og sér veikt samningsstöðu okkar sem er þó nógu slæm fyrir, með allt í kaldakoli hér heima hvort sem er í efnahagsmálum eða stjórnmálum.

 

Framkoma bankanna og íslenskra bissnissmanna í löndum eins og Danmörku og Bretlandi hefur heldur ekki orðið okkur til framdráttar í dag. Sendiferðir Ingibjargar Sólrúnar og Geirs (og Ólafs Ragnars forseta) á vegum íslenskra banka og viðskiptalífs, þar sem þau hafa haldið fram málflutningi sem augljóslega virðist kolrangur í dag, hafa heldur ekki aukið virðingu eða traust á þessum leiðtogum Íslands, sem sumir hverjir amk ætla sér að ná samningum við ESB um inngöngu. Erlendir ráðamenn og þar með leiðtogar ESB hljóta að draga þá ályktun að annað hvort hafi þetta fólk farið með visvítandi blekkingar eða verið ótrúlega illa upplýst um stöðu mála í eigin heimalandi.

 

Mannaskipti og kosningar nauðsynlegar

Þannig að það er augljóst að það væri afleikur í annars mjög slæmri samningsstöðu að tefla odddvitum stjórnarflokkanna, nú eða fjármálaráðherra eða bankamálaráðherra,  fram fyrir Íslands hönd. Geir færi þar að auki í samningaferlið tilneyddur og með hundshaus, meðan að Ingibjörg Sólrún verður með glýju í augum og gerir flest til að fá að vera með. Það er búið að gefa það út fyrirfram að "við" teljum inngöngu í ESB vera eina bjargráðið fyrir þjóðina í dag og því ljóst að ESB sér í hendi sér að ekki þurfa að borga innkomu Íslands neinu dýru verði. Evrópusambandið veit eins og er, að ef Ísland kemur nú með betliskjal í hendi og á ekki einu sinni inni fyrir því að geta litið í augun á viðsemjendum sínum sökum þrælsótta og sektarkenndar, að þá fær bandalagið allt það sem það hefur áhuga fyrir á silfurfati.

 

Það er því ljóst að þó ekki væri nema til að skapa Íslandi lágmarkssamningsstöðu er, nauðsynlegt að kjósa sem fyrst og að stjórnmálamenn sem hafa umboð þjóðarinnar, ræði við ESB. Hafi þeir á annað borð áhuga á slíku.

 

Noregur í húfi

Þar fyrir utan hefur alltaf verið ljóst, jafnvel þegar góðæri ríkti á Íslandi, að ESB þarf ekkert á Íslandi að halda - og ef að Ísland telur sig þurfa á ESB að halda, þá er augljóst hver hefur undirtökin frá upphafi. Ef að ESB vill semja við Ísland núna, þá gerir það af því að það telur sig hafa feitari gölt að flá annars staðar, nefnilega Noreg. Sú "velvild og áhugi" sem ESB sýnir umsókn Íslands núna stafar ekki síst af því að sambandið veit að það getur fengið það sem það vill hvort sem er í fiskveiðimálum, orkumálum  eða hverju sem er. Og að það veikir samningsstöðu Noregs. Og fyrir því hefur ESB áhuga. Noregur mun standa mun veikar að vígi, bara við það eitt að Ísland sækir um. Það að Ísland mun ganga að hvaða afarkostum sem er, semji núverandi stjórnvöld við ESB, veikir stöðu þeirra enn frekar. Samningar landanna um Evrópska efnahagssvæðið er fyrir bí með Noreg og Lichtenstein ein eftir. Og því mun umsókn og innganga Íslands neyða Noreg til samninga við ESB.

 

Umsókn Íslands gerir Noregi grikk

Nú er það svo að Noregur hefur á undangengnum áratugum unnið heimavinnuna sína varðandi ESB mun betur en Ísland. Hagsmunasamtök eins og stórnvöld hafa haldið úti föstum nefndum og skrifstofum í Brussel og eru öllum hnútum mun kunnugri en Íslendingar. Þegar norskir ráðherrar mæta heim eftir að hafa setið EFTA-fundi eða fundi er tengjast ESB á einhvern hátt, er þeim mætt af norskum fjölmiðlum sem spyrja ítarlega um hvað hafi nú verið á seyði. Almenn umræða og þekking um ESB er því mun meiri meðal stjórnmálamanna, fjölmiðla og almennings í Noregi en nokkru sinni hér heima, þar sem umræðan hefur verið rykkjótt, klisjukennd og yfirborðsleg. Og þessi upplýsta umræða Norðmanna um ESB hefur skilað afdráttarlausri niðurstöðu; meirhlutinn er á móti inngöngu í ESB og fer andstaðan vaxandi. 

 

Umsókn Íslands að ESB setur strik í innanlandsmál í Noregi og gerir annað tveggja: neyðir norsku þjóðina til samninga um inngöngu í ESB þvert á vilja meirihluta landsmanna, eða neyðir þá til að semja á ný með einhverjum hætti um aðgang að mörkuðum ESB. Og þá út frá verri samningsstöðu en var uppi þegar þeir sömdu í samfloti með öðrum þjóðum og út frá sterkri stöðu um EES-samninginn á sínum tíma. Þau kjör sem Íslendingar gangast að, verða á matseðlinum fyrir Noreg. Ekki er örgrannt um að mörgum Norðmanninum  þætti Íslendingar launa þeim hjálpsemina með sérkennilegum hætti, fari svo. Og spurning hvort Íslendingum dugi að vísa til frændsemi þjóðanna og aldagamallar vináttu, næst þegar við þurfum á greiðasemi þeirra að halda.

 

Evran er sýnd veiði en ekki gefin

Bjargráðið evran er hvort sem utan seilingar amk næstu fjögur til fimm árin. Og það er skemmsti mögulegi tíminn sem það tekur að fá að gera evruna að íslenskum gjaldmiðli - að því gefnu að við uppfyllum þau skilyrði sem fyrir því eru sett. Og við erum sennilega fjarri þvi nú en nokkru sinni sl. 10 ár að uppfylla slík skilyrði. Fyrst yrðum við hvort sem er sett á "reynslutíma" í ERM II (European Exchange Rate Mechanism) þar sem gengi krónunnar fær svigrúm til að sveiflast 15% upp og niðurfyrir meðalgengi evrunnar. Takist okkur ekki að uppfylla öll skilyrði fyrir upptöku evrunnar, þá getum við verið í því limbói árum saman eða svo lengi sem þolinmæði ESB þrýtur ekki. Það má nefna að Bretland gekk inn í upphaflegt  ERM árið 1990 en hraktist út aftur 1992, eftir að spekúlantar á borð við Georg Soros gerðu áhlaup á breska pundið. Svo ekki er alveg víst hversu mikil vörn felst í því skjóli.

Þegar og ef Íslandi tekst loksins að uppfylla öll þau skilyrði sem krafist er fyrir upptöku evru, verður Ísland í allt annari stöðu efnahagslega en nú er og spurning hvort nokkur þörf sé á upptöku evrunnar. Íslendingum er það að sjálfsögðu í sjálfsvald sett að setja sjálfum sér þann ramma sem upptaka evrunnar krefst, ef að menn telja að það megi verða til bjargar í efnahagsmálunum. Og við getum auðvitað tengt krónuna evrunni og látið eins og við séum með hana, en það verður þá án frekara skjóls frá ESB. En við getum ekki tekið evruna upp einhliða eins og Svartfjallaland hefur gert, án þess að gera það í óþökk ESB.

 

Valdaafsal

Þá má ekki gleyma að forsenda upptöku Evrunnar er innganga í ESB og vegna þess hversu mikið valdaframsal er í því falið, krefst það breytinga á stjórnarskrá Íslands sem þarf að samþykkjast á tveimur þingum. Ætla mætti að landsmenn séu búnir að fá sig fullsadda af leyndarsamningum fyrir sína hönd. Þeim nauðarsamningi sem gerður var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IMF, og Alþingi og landsmönnum var fyrst kynntur eftir að hann var undirritaður, fylgdu vissulega slæm kjör og valdaafsal. Þó er það valdaafsal aðeins til skemmri tíma, meðan að innganga í ESB þýðir valdaafsal til ófyrirséðar framtíðar. Forsenda umsóknar í ESB er því upplýst umræða.

 

Önum ekki úr öskunni í eldinn 

Íslendingum er því sennilega hollast að bíða með allar hugleiðingar um aðild að ESB að sinni. Það byggist á ofangreindum ástæðum, ekki á þeirri skoðun að Ísland eigi alla tíð að standa utan ESB. Hyggilegt er að ráða ráðum sínum með Noregi áður en lengra er haldið. Löndin eiga fleiri sameiginlega hagsmuni en þá sem sundra. Það er Noregi í hag að hafa Ísland með í ráðum og það verður ekki sagt um mörg önnur lönd í dag.

Hvort það sé Íslandi hollast að ganga inn í ESB síðar, er annað mál. Það þurfa landsmenn að ræða út frá fleiri forsendum en þeim að við eigum ekki annarra kosta völ. Mun fleiri álitamál þarf að skoða en evruna eina, fiskinn eða hið goðsagnakennda "evrópska matarverð". Til þess þarf tíma, opna umræðu meðal almennings, betri fjölmiðla og víðsýnni og upplýstari stjórnmálamenn.