Fara í efni

Umdeildar lækningasamkomur og Vonsviknir fjárfestarÁ dögunum var hér lækningaprédikari frá Afríku, menntaður í Bandaríkjunum, Charles Ndifon. Skilja mátti auglýsingar þeirra er stóðu fyrir lækningasamkomum með honum að þeir allt að því lofuðu kraftaverkum. Landlæknir hefur gert alvarlega athugasemd við framgöngu þessara manna. Hættan við slíkar samkomur er öðrum þræði sú að trúarhugtakinu verði snúið uppá manninn og sagt við einstaklinginn sem leitar sér lækningar: Ef þú trúir þá læknastu! Hvað situr þá eftir í huga lamaðs manns sem ekki fær svar við bæn sinni? Er nú ekki nóg að hann sitji uppi með fötlun sína og þurfi ekki um leið að bera byrði meintrar vantrúar og vera þar með beinlínis orðinn örlagavaldur eigin fötlunar? Ég trúi því að Guð lækni fólk fyrir bænir. Það þekki ég úr starfi mínu og lífi sem kristinn maður. En skortur á lækningu verður ekki skrifaður á reikning hins sjúka eða fatlaða. Slíkt er varasöm trú og nærtækast að flokka hana undir hugtakið villutrú.

Sameining og hagræðing hf

Sunnudaginn 16. febrúar s.l. var lagt út af guðspjalli dagsins að venju í kirkjum landsins. Þennan dag var það dæmisaga Jesú um talenturnar í Matteusarguðspjalli, 25. kafla, versum 14-30 sem brotin var til mergjar.  Matteus lýsir aðstæðum mannsins sem óttaðist húsbónda sinn og gróf talentuna í jörðu til að geta skilað henni óskertri í stað þess að ávaxta hana. Honum var vísað út í ystu myrkur þar sem jafnan er grátur og gnístran tanna.
Það er líka grátur og gnístran tanna í okkar þjóðfélagi og jafnvel þótt mönnum sé ekki varpað út í ystu myrkur. Það er grátur og gnístran tanna m.a. vegna þess að fólk hefur orðið fyrir búsifjum, hefur fjárfest í röngum sjóðum eða fyrirtækjum og tapað öllu sínu og jafnvel líka eigum annarra sem voru veðsettar fyrir bjartsýniskaupum á hlutabréfamarkaðinum. Fjöldi fjölskyldna hefur tapað öllu í þeim Matador sem nú er hvað vinsælastur í þjóðfélaginu.
Hefurðu hugleitt hvernig verið er að skipta eigum þjóðarinnar upp á milli fárra einstaklinga í æsilegu Matadorspili? Veistu hvað þetta spil heitir á enskri tungu? Það heitir Monopoly sem útleggst einokun. Að ná einokunarstöðu, ná yfirburðum, undirtökum á markaðinum, koma öllum kúnum í eitt fjós svo hægara verði um vik við mjaltirnar er markmið þeirra sem vilja ná árangri í Matador. Glæsilegt er  hið ætlaða hlutverk okkar neytenda að vera sem kýr í stórfjósi fyrirtækisins, Sameining og hagræðing h.f.

Talentur í þágu lífsins

Húsbóndinn í dæmisögu Krists, komin heim úr fríinu, sýnir manninum sem gróf talentuna í jörðu litla samúð. Hann er harður í horn að taka og tekur af honum talentuna og gefur þeim sem bestum árangri náði í verðbréfabraskinu. Hinum sem náðu betri árangri hampar hann og hælir á hvert reipi.
Við erum ráðsmenn, sýslumenn verðmæta eða talenta. Hvernig forvöltum við þau gæði? Hvað á Jesús við? Textinn fjallar í raun um húsbóndann, Guð, sem kallar okkur til þjónustu. Trúin er öðrum þræði tákn talentanna. Hvað gerum við með trúna? Gröfum við hana í jörð og geymum sem óþroskaða barnatrú? Eða látum við hana dafna og þroskast til fullvaxta trúar sem stendur með réttlæti, friði, sanngirni, jöfnuði, kærleika, líkn, miskunn? Flýjum við inn í verndarhring trúar sem hefur ætíð vaðið fyrir neðan sig og óttast það mest að fá kusk á hvítflibbann og óhreinkast af heiminum og neyð hans? 

Sjá nánar predikun séra Arnar Bárðar: www.neskirkja.is