Fara í efni

REIÐUR UNGUR MAÐUR SKRIFAR UM TRÚFRELSI

Jón Torfason skrifar yfirlætisfulla grein hér á heimasíðu þinni Ögmundur um aðskilnað ríkis og kirkju. Þar skiptir hann fylgismönnum aðskilnaðar ríkis og kirkju innan VG í tvo flokka, annars vegar "Þingeyinga" sem berjast gegn afturhaldssemi kirkjunnar og hins vegar reitt ungt fólk. Nú á ég ættir að rekja til Norður Þingeyjarsýslu en mig grunar samt að Jón sé tilbúinn til að afgreiða mig einfaldlega sem reiðan ungan mann. Vissulega er ég reiður en ég virðist verða reiðari eftir því sem ég eldist.

Jón reynir að búa til skrípamynd af okkur unga fólkinu (sjálfur er ég 28 ára). Við erum víst of vön allsnægtum að við bara vitum ekki hvað skiptir raunverulega máli. Þetta sýnir kannski best hve lítið Jón þekkir til ungliðanna. Hann ætti að gera tilraun til að ræða við þá áður en hann dæmir þá. Mín upplifun af ungliðum er að hörðustu stuðningsmenn aðskilnaðar er einmitt fólk sem hefur þurft að berjast fyrir ýmsu í lífi sínu. Ég er augljóslega einn af hörðustu fylgismönnum aðskilnaðar en þó hef ég sjálfur upplifað fátækt.

Undarlegast er að Jón virðist halda að baráttan fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju útiloki á einhvern hátt aðra hugsjónabaráttu. Ég greiddi glaður atkvæði með mörgum málum á landsfundi VG, kærust mér var ályktun um stöðu táknmáls enda hef ég lengi verið áhugamaður um jafnréttisbaráttu heyrnarlausra. Af einhverjum ástæðum þá hindraði ástríða mín fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju ekki á nokkurn hátt að ég tæki þátt í því. En ef Jón telur að trúfrelsishugsjónin sé svona heftandi fyrir okkur unga fólkið þá er kannski besta lausnin að hjálpa okkur að koma þessum málum í gegn, þá gætum við eytt meiri kröftum í að berjast fyrir því sem hann telur meira aðkallandi mál.

Jón virðist illa upplýstur um þjóðkirkjuna og baráttuna fyrir aðskilnaði. Hann telur þjóðkirkjuna umburðarlynda en það er hún ekki. Þetta sést best á að afturhaldsseggurinn Karl Sigurbjörnsson er réttkjörinn biskup kirkjunnar. Þetta er maðurinn sem lýsti því yfir að það að leyfa samkynhneigðum að giftast væri eins og að henda hjónabandinu á öskuhaugana.

Jón segir þjóðkirkjuna gegna "þýðingarmiklu menningarlegu og umfram allt félagslegu hlutverki í þjóðfélaginu." Það er ekkert hlutverk sem þjóðkirkjan gegnir sem væri ekki hægt að vinna betur annars staðar. Það að vinna þessi verk annars staðar hefði líka þann augljósa kost að fólki væri ekki mismunað vegna trúarskoðanna sinna.

Það sem gerir aðskilnað aðkallandi nú í dag er innrás þjóðkirkjunnar í skóla landsins. Þjóðkirkjan er komin vel á leið með að koma trúboði sínu inn í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þetta gerir þjóðkirkjan í krafti sérstöðu sinnar. Ég er á þeim stað í lífi mínu að ég er farinn að huga að því að eignast börn. Mig hryllir því við að þurfa að fara í þá baráttu sem fólk víðsvegar um land þarf núna að standa í til að koma í veg fyrir að börn þeirra verði fyrir trúboði í skólum. Verst er þetta væntanlega fyrir innflytjendur sem hafa kannski ekki þá þekkingu á íslenskri tungu og íslensku samfélagi til að skilja hvernig þjóðkirkjan er að reyna að grafa undan þeim gildum sem þeir vilja temja börnum sínum. Lítið er umburðarlyndið ef ekki einu sinni börnin mega vera í friði.

En það er rétt að þetta er líka spurning um grundvallarhugsjón. Allt tal um jafnrétti trúarskoðanna og trúfrelsi er tómt hjal á meðan aðskilnaður ríkis og kirkju er ekki kominn í gegn. Þetta er í raun svo einföld spurning.

Ætlar fólk að taka afstöðu með jafnrétti eða á móti því. Ég tek afstöðu með jafnrétti en Jón virðist standa gegn því. Hvor okkar er í röngum flokki?