Fara í efni

ER FJÓRÐA VALDIÐ BARA BÓLGINN VÖÐVI?

Stundum eru fjölmiðlarnir kallaðir fjórða valdið í samfélaginu. Þessi skírskotun á rætur í aðgreiningu franska stjórnspekingsins Montesquieu á ríkisvaldinu en hann greindi það í þrjá þætti, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Áhrifa fjölmiðla fór ekki að gæta að marki í hinum iðnvædda heimi fyrr en löngu eftir dag Montesquieus enda ekki farið að tala um fjölmiðla sem miðla til fjöldans, fjöldamiðla (mass media), fyrr en upp úr 1920 eða eftir að dagblöð ná fjöldaútbreiðslu og útvarpið kemur til sögunnar sem miðill til samfélagsins alls. Það er svo ekki fyrr en undir lok tuttugustu aldarinnar að farið er að tala um fjölmiðlana sem fjórða valdið.

Valdi fylgir ábyrgð

Tilvísun til fjölmiðla sem fjórða samfélagsaflsins er viðurkenning á áhrifamætti þeirra í nútíma samfélagi. En valdi þeirra fylgir ábyrgð. Í hverju skyldi ábyrgð fjölmiðla vera fólgin? Hún hlýtur að ráðast af þeim markmiðum sem þeim er ætlað að ná. Auðvitað er ekki hægt að alhæfa um fjölmiðla út frá þessu sjónarhorni. Flestum, að undanskildum ríkisfjölmiðlum, er ætlað að skapa eigendum sínum arð og oft áhrif. En einnig í því augnamiði er þeim fengið tiltekið hlutverk: Sumum er ætlað að skemmta fólki, öðrum að upplýsa fólk eða veita samfélaginu aðhald með því að varpa gagnrýnu ljósi á valdakerfið í þjóðfélaginu, löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómstólana, fyrsta, annað og þriðja valdið. Nú er stundum talað um fjármálavaldið sem fimmta valdið eða jafnvel internetið. Með aukinni alþjóðavæðingu er fjármálavaldið orðið svo fyrirferðarmikið í íslensku þjóðfélagi að réttmætt væri að bæta því inn í skilgreingarkerfi Montesquieus og þar með mikilvægt viðfangsefni gagnrýnna fjölmiðla.

 Geta, þor og óhlutdrægni

Hvernig standa íslenskir fjölmiðlar, sem gefa sig út fyrir að miðla upplýsingum og veita aðhald, vakt sína? Aftur er varasamt að alhæfa en hér mætti nota þrígreindan mælikvarða: Getu, þor og óhlutdrægni.
Geta íslenskra fjölmiðla er mismikil og ræðst af þeim einstaklingum sem eru innanborðs á hverjum miðli. Hvað sem veldur, þá hefur umræða um það sem hefur verið að gerast í íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum engan veginn fengið þá gagnrýnu umfjöllun sem æskilegt hefði verið. Gríðarlegir fjármunir og völd hafa verið flutt til í þjóðfélaginu án þess að það hafi valdið svefnruski á íslenskum fréttastofum. Meira hefur farið fyrir yfirborðslegri upplýsingagjöf um gengishækkanir hlutabréfa en að  fjallað hafi verið um þær samfélagsbreytingar sem einkavæðingin hefur haft í för með sér. Spurning er hvort það er getuleysi sem þessu veldur eða skortur á hugrekki eða ef til vill ískalt fréttamat.

Hjartsláttur merarinnar?

Gæti verið að þegar allt kemur til alls slái merarhjarta í okkar stærstu fjölmiðlum? Alla vega verður ekki annað séð en að þeir séu óþægilega oft hallir undir ráðandi öfl hverju sinni, eða hverju skyldi það sæta að í viðkvæmum deilumálum er yfirleitt fyrst og fremst leitað til valdamannanna sjálfra sem álitsgjafa um eigin verk!!!? Þegar flugvellir og flugstjórn er einkavædd þannig að öll sú starfsemi fer í hnút, þá snúa fjölmiðlar sér til viðkomandi ráðherra en ekki til þeirra aðila sem setja fram gagnrýni á störf þeirra.
Að lokum er það krafan um óhlutdrægni. Hvernig skyldu íslenskir fjölmiðlamenn rísa undir henni? Auðvitað er það upp og niður. Þó held ég að því hljóti að vera eins varið með marga og sjálfan mig að þá reki æði oft í rogastans yfir því hve mörgum fjölmiðlum gengur illa að halda sig á hinum gullna vegi óhlutdrægni.
Það sem fékk mig til þess að setja þessar línur á blað var einmitt hlutdrægur fréttaflutningur; eða öllu heldur skortur á fréttaflutningi, Stöðvar 2 af uppstillingu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á höfðuborgarsvæðinu og þá sérstaklega í Kraganum.

Ekki fréttamat heldur hlutdrægni

Þingflokksformaður VG, sá aðili, sem fékk afgerandi besta útkomu úr forvali flokksins á öllu höfðuborgarsvæðinu, flytur sig úr kjördæmi sínu í Reykjavík í Kragann. Þar hefur flokkur hans nú engan þingmann. Fréttastofa Stöðvar tvö segir ekki frá þessu í fréttum. Hvað veldur? Eitt er víst, ástæðan er ekki sú að þetta teljist ekki vera fréttnæmur atburður. Þetta hefur því augljóslega ekkert með fréttamat að gera. Mín niðurstaða er sú að þessu valdi hlutdrægni í fréttaflutningi. Þetta er aðeins eitt dæmi um hlutdrægni í fréttaflutningi – kannski ekki það stærsta - en óvenju skýrt; svo skýrt að ég ákvað að bregða út af venju minni og finna að þessum fréttaflutningi.

Von um betri tíð

Ekki var aðfinnslum mínum vel tekið og þótti mér það ekki bera vott um málefnalegan styrk. Slíkan vanmátt er erfitt að sætta sig við hjá öflugum fjölmiðli sem Stöð 2 óneitanlega er. Fjöldamiðlarnir, þar á meðal Stöð 2, verða að gera sér grein fyrir valdi sínu og félagslegu afli og þá einnig þeirri ábyrgð sem slíku fylgir. Hlutdrægt, getulítið og hrætt vöðvatröll er ekki aðdáunarvert. Þvert á móti vekur það óhug þegar vesalingur til andans hnyklar vöðvana. Óskir samfélagsins standa til óhlutdrægra og dugmikilla fjölmiðla; fjölmiðla sem eru annað og meira en bólginn vöðvi; meira en umbúðir og völd. Vonandi eiga slíkir fjölmiðlar eftir að eflast í landinu á komandi tíð. Það er mín ósk bæði þeim og íslensku samfélagi til handa. 
Ólafur B. Andrésson