Fara í efni

NATO böl Evrópu - Ganga NATO til stríðs. (Önnur grein)

Þetta er skrifað í tilefni af 75 ára afmæli NATO. Fyrri grein fjallaði um þróunina fram á 10. áratug.

Hlutverk NATO tók róttækum breytingum eftir 1991. Í breyttu hlutverki NATO kom tvennt til fyrst og fremst. A) Brotthvarf Sovétríkjanna. Mikið stórveldi féll saman, annað af tveimur risaveldum, og missti nú stjórn og áhrif yfir víðum áhrifasvæðum. „Valdatóm“ skapaðist fyrir heimsvaldasinna. Fyrir NATO var þetta dramatískt, sjálf ástæðan fyrir bandalaginu var horfin. B) NATO var áfram verkfæri Bandaríkjanna í heimsvaldastefnu þeirra, og Bandaríkin sem heimsveldi tóku nú upp harkalega sóknarstefnu.

Í stefnuræðu sinni í janúar 1992, aðeins fjórum vikum eftir fall Sovétríkjanna, sagði George H Bush forseti: „Kalda stríðið endaði ekki, Bandaríkin unnu það… Við erum Bandaríki Norður-Ameríku, leiðtogi Vesturlanda sem er orðinn leiðtogi heimsins“. Sami Bush tók upp nýtt hugtak fyrir framtíðarheiminn: „Ný heimsskipan“ (New World Order), því nú var plánetan öll undir, auðlindir hennar, lönd og þjóðir.

„Ný heimsskipan“ eftir 1991

 „Nýja heimsskipanin“ eftir 1991 var markaðsfrjálslynd (liberal) og hún var hnattvæðingarsinnuð (globalist). Með falli Austurblokkarinnar og stórskertum sósíalisma höfðu markaðirnir opnast fyrir fjármagnsflæðið, opnast til fjárfestinga um heim allan. Því fylgdi ofurvöxtur fjölþjóðlegra (vestrænna) auðhringa á heimsmarkaðnum. Yfirþjóðleg ríkjabandalög (ESB/EES, NAFTA og ASEAN) skipulögðu sig eftir sömu frjálshyggjureglum, stofnanir eins og WTO, AGS, OECD, auðhringaklúbbar eins og World Economic Forum og viðskiptasamningar eins og TISA og TTIP – öll stuðluðu þau fyrst og fremst að frjálsu flæði fjármagns eftir hnattvæðingarreglum.

Samkvæmt bókum frjálshyggjunnar á auðmagnið að ryðja sér til rúms yfir lönd og álfur fyrir eigin afli, leitt af „hulinni hönd“. En það eru draumheimar, í raunheimi flæðir auðmagnið ekki einfaldlega sjálfkrafa. Það mætir m.a. viðnámi og óhlýðni frá þjóðríkjum með ólíka efnahagsstefnu og mismunandi hugmyndir um fullveldi – og það mætir keppni frá keppinautum. Eftir 1991 stilltu hæstráðendurnir vestan hafs markaðsfrjálslyndi og „vestrænum gildum“ sem algildri fyrirmynd fyrir allar þjóðir – og voru tilbúnir að framfylgja henni með valdi. Hin nýja frjálslynda heimsskipan (liberal world order) var prédikandi og herská. Hin frjálslynda heimsskipan hafði eina valdamiðju. Það sagði sig sjálft að hún lá í Washington.

Pulitzer-verðlaunahafinn Thomas Friedman, fyrrum ráðgjafi Madeleine Albright utanríkisráðherra, reglulegur pistlahöfundur í New York Times um hnattvæðingu og alþjóðamál var vel meðvitaður um samspil efnahagslegs og hernaðarlegs valds. Hann segir svo í pistli frá því um aldamót:

„Til að hnattvæðingin virki mega Bandaríkin ekki hika við að koma fram sem það allsráðandi risaveldi sem þau eru... Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“ (Thomas Friedman, The New York Times (editorial), 28. mars 1999)

„..og hernaðarbandalög Bandaríkjanna“, hefði Friedman getað bætt við. Hið rósrauða frelsis- og frjálshyggjuáform var öðrum þræði hernaðaráætlun. Risaveldið var aðeins eitt og það stefndi á heimsyfirráð eitt og sér. Ný „geóstrategía“ fylgdi óhjákvæmilega hinni nýju stöðu Bandaríkjanna.

Brzezinski og bandaríska geóstrategían

Við höfum þegar (í fyrstu grein) nefnt „varnarmálaáætlun“, Defense Planning Guidance for 1994-1999, sem kom frá varnarmálaráðuneytinu Pentagon rúmum mánuði eftir fall Sovétríkjanna og boðskapur hennar hefur fengið nafnið Wolfowitz-kenningin. Þar stóð: „Fyrsta verkefni okkar er að koma í veg fyrir að til verði nokkur hnattrænn keppinautur…“ Í þessari stefnumörkun, að hleypa engum „hnattrænum keppinaut“ að, var beinlínis tekið fram að Rússland yrði áfram höfuðandstæðingur: „Rússland verður áfram sterkasta herveldið í Evrasíu og eina veldið í heiminum sem fært er um að ógna Bandaríkjunum.“

Annar bandarískur strategisti var í nánum tengslum við Paul Wolfowitz. Zbigniev Brzezinski var áhrifaríkasti strategisti bandarískra stjórnmála, raunar lykilráðgjafi bandarískra forseta allt frá Jimmy Carter til Barack Obama. t.d. sagður „mikilvægasti óformlegi ráðgjafi Obama forseta í utanríkismálum.“

Í geostrategíu sinni byggði Brzezinski á hugmyndum breska landafræðingsins Halford MacKinder sem kalla má hugmyndafræðing breskrar heimsvaldastefnu – ekki órökrétt þar sem bandarísk heimssvaldastefna er arftaki þeirrar bresku. Í grein frá 1904 kallaði MacKinder miðju Evrasíu, þ.e.a.s. Rússland og Mið-Asíu, „geópólitíska kjarnalandið“ eða „Hjartalandið“ sem réði úrslitum í geópólitík. Hann skrifaði: „Sá sem ræður Austur-Evrópu ræður Hjartalandinu: Sá sem ræður Hjartalandinu ræður Heimseyjunni [Evrópu-Asíu-Afríku]: Sá sem ræður Heimseyjunni ræður yfir heiminum.“ (Halford MacKinder, Democratic Ideals and Reality, New York 1919, 186).

Brzezinski var sömu skoðunar og MacKinder, nefnilega að Evrasía væri lykillinn að hnattrænum yfirráðum. Í bók sinni The Grand Chessboard. American Primacy and its Geostrategic Imperatives frá 1997 lagði Brzezinski hinar geostrategísku línur, línur sem utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur í stórum dráttum fylgt síðan. Í upphafi bókar skrifar hann:

Síðasti áratugur tuttugustu aldar hefur séð jarðfleka-umbreytingu heimsmálanna. Í fyrsta sinn í sögunni hefur komið fram ekki-evrasískt veldi sem er ekki aðeins helsti gerðardómari í valdasamskiptum í Evrasíu heldur einnig sem yfirdrottnari heimsins. Ósigur og hrun Sovétríkjanna var lokaskrefið í uppgangi hins vestræna jarðarhvels, Bandaríkjanna, sem hið eina, og raunar fyrsta, hnattveldis.

Bzezinski heldur áfram og þar endurómar sama stríðsöskur og áður hljómaði í Defense Planning Guidance frá 1992:

En á meðan er áríðandi að enginn evrasískur keppinautur komi fram sem fær er um að verða ráðandi í Evrasíu og um leið að ögra Bandaríkjunum. Framlagning alhliða og samþættrar geóstrategíu fyrir Evrasíu er þess vegna tilgangur þessarar bókar“. (Brzezinski, The Grand Chessboard, bls. xiii)

Verkefnið var sem sagt að tryggja yfirráðastöðu Bandaríkjanna til framtíðar. Í því verkefni var frumskilyrði að hindra Rússland í að verða evrasískt stórveldi. Mikilvægasta verkfærið í þeirri strategíu að áliti Brzezinskis var NATO, og útvíkkun hernaðarbandalagsins í austur var grundvallaratriði.

„Evrópa er helsta geópólitíska fótfesta Bandaríkjanna í Evrasíu… NATO rótfesti pólitísk áhrif og hernaðarlegt vald Bandaríkjanna á meginlandi Evrasíu. ”

(Z. Brzezinski, “A Geostrategy for Eurasia,” Foreign Affairs 76 nr. 5, 1997)

„… ef hin nýja Evrópa á að vera áfram geópólitískur hluti af hinu „evróatlantíska“ rými þá er útvíkkun NATO höfuðatriði… Ef valið stendur á milli stærra „evróatlantísks“ kerfis og betra sambands við Rússland er hið fyrrnefnda ósambærilega mikilvægara… Sannarlega, ef hin bandarísk-stýrða viðleitni að útvíkka NATO tækist ekki gæti það endurvakið jafnvel metnaðarfyllri hugmyndir Rússlands“.

(Z. Brzezinski, “The Grand Chessboard”, 1997, bls. 200).

Þrátt fyrir hátíðleg loforð nokkurra helstu vestrænu ráðamanna 1990 (gefin Sovétleiðtogunum) um að stækka ekki NATO „eina tommu austur“ (sjá hér og einnig hér) var austurstækkun NATO einmitt meginatriði í nýrri bandarískri geóstrategíu gagnvart Evrasíu, og þar með heiminum öllum. Brzezinski lagði línuna um hvernig tryggja skyldi hnattræn völd Bandaríkjanna í hinum nýja heimi frá 1991 – og um grundvallarþátt NATO í þeirri heimsyfirráðastefnu.

Hlutverk Úkraínu á taflborðinu

 Í ljósi þess hvernig austurstækkun NATO átti eftir að þróast eru bollaleggingar Brzezinskis þegar árið 1997 um þátt Úkraínu afar áhugaverðar. Að hans mati var brennipunktur bandarískrar geóstrategíu fyrir Evrasíu einmitt í Úkraínu. Með upplausn Sovétríkjanna 1991 varð Úkraína í fyrsta sinn í sögunni sjálfstætt ríki.

Úkraína, nýtt og mikilvægt svæði á taflborði Evrasíu, er geópólitískur öxull af því að tilvera hennar sem sjálfstætt land hjálpar til við að umbreyta Rússlandi. Án Úkraínu hættir Rússland að vera evrasískt heimsveldi… Hins vegar, ef Moskva nær aftur tökum á Úkraínu, með hennar 52 milljónum manna og miklum auðlindum ásamt aðganginum að Svartahafi, fær Rússland aftur sjálfkrafa grundvöll til að verða voldugt heimsveldi sem spannar Evrópu og Asíu

(The Grand Chessboard, bls. 45).

Úkraína var/er klofið land hvað þjóðerni og sjálfsvitund snertir. Landamæri þessa nýja ríkis voru sköpunarverk Sovétríkjanna og austur- og vesturhlutar landsins eiga ólíka forsögu. Austurhlutinn er blandað samfélag Úkraínumanna og Rússa og afar nátengt Rússlandi en í vesturhlutanum stendur úkraínsk og andrússnesk þjóðernishyggja sterkt. Samsetning landsins gat boðið upp á bæði innri og ytri átök.

Austurstækkanir NATO

Þar með hef ég vikið sögunni austur til Úkraínu og Rússlands. Ég hef skrifað allmikið um Úkraínudeiluna, allt frá ársbyrjun 2022, 15 af 28 greinum mínum á Neistum síðan þá hafa Úkraínudeilu sem helsta eða eitt helsta þema, enda er sú deila þegar orðin heimssögulega afdrifarík. Allir sem skrifa um sögu og stjórnmál gera það út frá sínum heimildum og sinni þekkingu. Það er þó ástæða til að geta þess að í því sem fylgir hér á eftir styðst ég allmikið við nýja, mikilvæga bók, The Ukraine War & the Eurasian World Order eftir norska prófessorinn Glenn Diesen, sem kom út á þessu ári. Hún er í góðum samhljómi við það sem ég hef áður skrifað en bætir mörgu við, er rík af heimildum og raðar mikilvægustu atburðum saman. Eftir sem áður sæki ég þó heimildir miklu víðar að.

Það var árið 1997 sem NATO og Rússland sömdu um sk. „Founding Act“ eða „Grundvallsrasamþykkt um gagnkvæm samskipti, samvinnu og öryggi“ á milli þessara tveggja aðila. Meginhugsun þeirrar samþykktar var að skipan öryggismála í Evrópu skyldi verða sam-evrópsk og fundin í samvinnu aðilanna. Það var hugsunin um „óskiptanlegt öryggi“ sem áður hafði birst í Helsinki-sáttmálanum 1975: að öryggi eins geti ekki verið á kostnað annars þegar markmiðið er friður. Þetta er heimspekilegt grundvallaratriði. Á þeirri hugsun var Öryggis og samvinnustofnun Evrópu grundvölluð 1995 eins og fjallað var um í fyrri grein. Í þessari „Founding Act“ var auk heldur tekið fram að NATO skyldi ekki hafa neina heri staðsetta, „no permanent stationing of substantial combat forces“, í fyrrverandi ríkjum Varsjárbandalagsins.

En aðeins tveimur árum síðar, 1999, gengu samt fyrstu Varsjárbandalagslöndin, Pólland, Ungverjaland og Tékkland, í NATO. George Kennan leist þá ekki á blikuna: „Ég held að þetta sé byrjunin á nýju köldu stríði,“ sagði hann. Madeleine Albright utanríkisráðherra rifjaði þetta upp í æviminningum sínum síðar: “Jeltsín og landar hans voru mjög andvígir útvíkkun, litu á hana sem hernaðaraðferð til að nýta veikleika þeirra og flytja skiptingu Evrópu til austurs en skilja þá eftir einangraða.” (M. K. Albright, “Madam Secretary”, New York: Miramax Books, 2004, bls. 320)

Hér var aflsmunar neytt, hér hafði „ný“ grunnhugsun hjá Vestrinu orðið ofan á: sú hugsun að viðhalda skyldi skiptingu Evrópu, aðeins þyrfti að „flytja skiptingu Evrópu til austurs“. Það myndi tryggja öryggi og frið. Rússland fer ekki upp á afturfæturna út af því, Rússland er á hnjánum og verður það vonandi áfram!

Árið 2004 fylgdu svo Slóvakía, Búlgaría Eistland, Lettland, Litháen og Rúmenía á eftir inn í NATO. Þar með var NATO komið upp að landamærum Rússlands. Nýja grunnhugsunin var þróuð áfram: Færum skiptingu Evrópu enn austar. Öryggi okkar má vera á kostnað Rússlands!

En er það öryggi? Líklega ekki. Af því öryggi er ódeilanlegt. Tilraun NATO til að auka öryggi sitt á kostnað Rússa eykur það ejnmitt ekki, heldur þvert á móti grefur undan öryggi NATO-landa og sameiginlegu öryggi Evrópu eins og öll rakning þessarar sögu sýnir.

Frekari útþensla NATO tók til Albaníu, Króatíu, Montenegro, Norður-Makedóníu og loks Finnlands og Svíþjóðar.

Einpóla eða fjölpóla heimur?

 Það var árið 2007 sem Rússland fór að sýna harðari viðbrögð að marki. Einkum gegnum nýjan Rússlandsforseta, Vladimir Pútín. Svokölluð Öryggisráðstefna í Munchen (Münchner Sicherheitskonferenz) er haldin árlega þar í borg. Á þeirri ráðstefnu í febrúar 2007 lagði Pútín fram skilgreiningu á þeim hnattrænu yfirráðum sem Bandaríkin reyndu að innleiða: „eitt yfirvald, ein miðja valds, ein miðja ákvarðanatöku“. Hann kallaði það „einpóla veröld“ og opinberun þeirrar „einpólunar“ væri útþensla NATO sem stangaðist á við „hinn algilda ódeilanleika öryggisins“.

“NATO hefur stillt framlínuher sínum á landamæri okkar”, sagði Pútín í Munchen. Hann minnti þar á loforðin frá 1990 um að NATO færi „ekki eina tommu austar“ en sameinað Þýskaland og sagði að stefnan um austurstækkun hernaðarbandalagsins væri „alvarleg ögrun“ við hagsmuni Rússlands sem „dregur úr gagnkvæmu trausti og öryggi“.

Í Munchen sagði Pútín líka að einpóla heimur hefði aldrei staðist og væri sömuleiðis jafn „ómögulegur í veröld dagsins í dag“. Og hann talaði um þróun nýrra hnattrænna vaxtarsvæða, nýrrar „fjölpólunar“ (multipolarisma).

Þetta var nálægt því að vera jómfrúarsigling þessara hugtaka í alþjóðlegri orðræðu, hugtaka sem síðan hafa orðið æ fyrirferðarmeiri. Það var nefnilega umbreyting í gangi. Áskorunin við hinn einpóla heim kom einkum af efnahagssviðinu. Rússland hafði rétt verulega úr kútnum efnahagslega frá aldamótum, eftir hroðalegt ástand Jeltsíntímans þar í landi á 10. áratug. En virkilegur keppinautur við vestræna „einpólinn“ kom samt lengra úr austri.

Kína

Kína hafði um alllangt árabil sýnt ótrúlegan efnahagsvöxt. Á 9. áratug hafði landið opnað sig fyrir vestrænu, einkum bandarísku framleiðslukapítali. Bandarískir auðhringar renndu sér með framleiðslu sína til Kína eftir brautum hnattvæðingar. Fyrst í lágtækni, svo á hærra tæknistigi. En þeir vöruðu sig ekki á að Kínverjar tileinkuðu sér og smám saman yfirtóku þessa framleiðslutækni – undir forystu sterks ríkisvalds – og renndu sér svo til baka eftir sömu hnattvæðingarbrautum út á heimsmarkaðinn. Upp úr aldamótum var Kína orðinn mesti iðnaðarútflytjandi heims.

Þetta þýddi að styrkleikahlutföllin í heiminum breyttust og sýndi að vald „einpólsins“ var ekki af guði gefið. Eins og gefur að skilja dró þetta úr undirgefni hinna nýju hnattrænu keppinauta/áskorenda sem börðust nú fyrir „fjölpóla heimi“. Að sama skapi herti það baráttu gamla hæstráðandans og lénsmanna hans fyrir því að viðhalda heimsyfirráðum sínum sem gaf þeirri baráttu ýmist svip ofmetnaðar (hybris) eða vaxandi örvæntingar. Baráttan með eða á móti hinni frjálslyndu heimsskipan tók sem sagt á sig mynd baráttu um einpóla eða fjölpóla heim. Möguleg endalok og fall hins einpóla kerfis boðaði um leið endalok 500 ára vestrænna yfirráða í heiminum, svo hér hékk margt á spýtunni.

Merki um nýja og harðari stefnu Rússlands sem svæðisbundins stórveldis var hernaðaríhlutun þess í hina bandarískt-sinnuðu Georgíu út af rússnesku héruðunum Suður-Ossetíu og Abkhazíu árið 2008, sjá hér: Um það verður ekki fjallað hér en það var á sinn hátt fyrirboði þess sem koma skyldi á allt öðrum skala í Úkraínu.

Framtíðarsprengju komið fyrir undir Úkraínu

 Frá sjónarhóli Washington var þó verkefnið við að þenja út NATO og endurskipta upp Evrópu ekki fullkomnað: fá þyrfti Úkraínu með í NATO (og Georgíu). Aðeins þannig mætti halda Rússum niðri. Árið 2008 sat vestrænt sinnaður forseti, Júsénkó, í Úkraínu. Hann sótti um NATO-aðild fyrir þjóð sína, án þess þó að spyrja hana fyrst. NATO svaraði skjótt, yfirlýsing leiðtogafundar bandalagsins í Búkarest í apríl 2008 sló föstu: “Við samþykktum í dag að þessi lönd [Úkraína og Georgía] munu verða aðilar að NATO.” George W. Bush Bandaríkjaforseti stjórnaði „open door“ stefnunni gagnvart Úkraínu. Frakkland og Þýskaland leiddu andstöðuna gegn stefnunni og töldu hana of ögrandi fyrir Rússland. Það sem þau gátu hindrað var að umsóknin væri sett í tímamarkað aðildarferli að sinni (sjá hér).

Þegar Bush beitti sér fyrir NATO-Úkraínu á Búkarest-fundinum fór hann inn á jarðsprengjusvæði. Eða öllu heldur kom hann fyrir stórri sprengju undir Úkraínu. Hann vissi vel hvað hann gerði. Eitt dæmi, rúmum mánuði fyrr hafði William Burns, bandaríski sendiherrann í Moskvu, núverandi yfirmaður CIA, sent minnisblað heim til Washington, sem ekki verður kallað annað en mjög sterk aðvörun (minnisblaðið var fangað af Wikileaks). Hann sagði beinlínis að útþensla NATO til Úkraínu („skærast allra rauðra strika“) gæti leitt til hernaðarafskipta Rússlands. Sjá minnisblaðið:

„Ekki aðeins sér Rússland fyrir sér innikróun og tilraun til að grafa undan áhrifum Rússlands á svæðinu heldur sér það líka fyrir sér ófyrirsjáanlegar og stjórnlausar afleiðingar sem hefðu alvarleg áhrif á öryggishagsmuni landsins… Innganga Úkraínu í NATO er skærast allra rauðra strika fyrir rússnesku elítuna (ekki bara Pútín). Í meira en tveggja og hálfs árs samtölum mínum við rússneska lykilþátttakendur, frá dólgakjöftum í dimmum skotum Kremlar til skörpustu frjálslyndu gagnrýnenda Pútíns, á ég eftir að finna nokkurn sem lítur á Úkraínu í NATO sem neitt annað en beina ögrun við rússneska hagsmuni … Það mun skapa frjóan jarðveg fyrir rússneska íhlutun á Krím og í Austur-Úkraínu.“

Stefnan á NATO-aðild var tímasprengja undir Úkraínu. Stjórnvöld í Washington vissu það mætavel. Það að öll rússneska elítan, ekki bara Pútín, hafi litið á útþenslu NATO til Úkraínu sem tilvistarlega ógn má undirstrika. En raunar gildir það ekki bara um elítuna. Fyrir almenna Rússa var og er hættan að fá „NATO upp að gafli“ tilvistarógn sem sjálfkrafa leiðir huga þeirra til „Föðurlandsstríðsins mikla“ 1941-1945 sem bókstaflega var tilvistarstríð, og það stríð lifir enn sem grundvallarþáttur í þjóðarvitund flestra Rússa.

Óskin um NATO-aðild kom ekki frá Úkraínumönnum

 NATO hefur löngum lýst sér í samhengi Úkraínu sem hlutlausum aðila sem aðeins hafi svarað eindregnum óskum Úkraínumanna um aðild og vernd fyrir yfirgangi Rússlands.

En kom þessi þrýstingur um NATO-aðild Úkraínu frá úkraínsku þjóðinni? Öðru nær. Myndin af Úkraínumönnum sem þjóð á stöðugum flótta undan Rússum, þjóð með þann draum að komast í fang NATO, er fölsk vestræn mynd. Þjóðin sjálf var mjög andvíg NATO-aðild, þjóðin í heild, þó í mismiklum mæli væri eftir héruðum, eins þó að NATO-sinninn Júsénkó sæti nú við völd í Kiev. Skoðanakannanir í Úkraínu framkvæmdar á tímanum1991-2014 sýndu almennt um 20% stuðning við NATO-aðild. Sem dæmi má nefna Gallup-könnun sem kannaði stemninguna í maí 2008, einum mánuði eftir NATO-samþykktina í Búkarest (og með Júsénko við völd), og niðurstaðan var þessi: „Úkraínumenn eru miklu líklegri til að tengja NATO við ógn við land þeirra en við verndun landsins.“ M.a.s. í höfuðstöðvum NATO viðurkenndu menn seinna sama ár að stuðningur Úkraínumanna við NATO-aðild væri jafnvel innan við 20%.

Hitt hefur áður komið fram að Úkraína var og er klofið land, sögulega og menningarlega. Í þeim innri klofningi er fólgið nægilegt endsneyti fyrir andrússneskar hreyfingar sem ytri aðilar geta nýtt sér ef þeir sá sér hag í.

Maidanbylting febrúar 2014

 Horfurnar á að einfaldlega mætti vippa Úkraínu inn í NATO fóru versnandi. Snemma árs 2010 féll Júsénkó forseti í kosningum, en miklu meiri Rússlandsvinur, Janukovitsj, var kosinn forseti í Kiev. Strax vorið 2010 staðfesti hann lög um hlutleysi Úkraínu, og framlengdi líka samning við Rússland um rússneska Svartahafsflotann á Krím.

Í vestrænum hugveitum sáu menn að grípa yrði til róttækari aðgerða. Framhaldið sýndi hvað ásetningur geostrategistanna í Washington var einbeittur, enda Úkraína lykilhlekkur í stjórnlist þeirra eins og komið hefur fram. Framhaldið var skipulagning litabyltingar í Kiev – reyndar litabyltingar númer tvö, á eftir „Appelsínugulu byltingunni“ 2004. Að þessu sinni var hún miklu betur undirbúin en fyrirrennarinn.

Hin bandarísku, ríkistengdu, National Endowment for Democracy (NED), USAID (US Agency for International Development) og einnig «Open Society Foundation» (George Soros) voru bara mikilvirkust fjölmargra „frjálsra félagasamtaka“ sem beittu sér nú ásamt m.a. evrópskum ráðherrum og stjórnmálamönnum. Forseti NED, Carl Gershman, skrifaði um ólguna á Maidantorgi í Washington Post haustið 2013. „Úkraína er stærsti vinningurinn“, skrifaði hann og taldi að ef hin vestrænu öfl yrðu ofan á í Úkraínu myndi það ógna stöðugleika í Moskvu líka, og „Pútin gæti lent í tapliðinu, ekki bara í nánasta útlandi heldur í Rússlandi sjálfu.“ Þar með benti Gershman líka á sjálfan tilgang litabyltingar í Kiev.

Að skipulagning og stjórn valdaránsins kom beint frá Washington var ekki vel falið. Aðstoðar-utanríkisráðherra Victoria Nuland upplýsti í desember 2013 að Bandaríkin hefðu á tveimur áratugum varið 5 milljörðum dollara til þess að Úkraína fengi þá „framtíð sem hún á skilið“. Tveimur vikum fyrir valdaránið lak svo út samtal hennar við bandaríska sendiherrann í Úkraínu þar sem hún ákvað með hvaða stjórnmálaöflum hún og hennar fólk skyldu vinna og hún skipaði í forustustöður í komandi ríkisstjórn, skipan sem fylgt var í kjölfar valdaránsins.

Af þremur mikilvægustu heimamönnum, „the big three“, sem Nuland talaði um og treysti á í þessu hleraða símtali var Oleh Tyahnybok foringi nasistanna í Svoboda einn. Og meðal heimamanna voru öfgaþjóðernissinnarnir í stærstu hlutverki í framkvæmd valdaránsins. Frá sjónarhól Bandaríkjanna og NATO höfðu þeir einkum tvennt til síns ágætis: þeir voru mestir hatursmenn Rússa og rússasinnaðra stjórnvalda og í öðru lagi voru þeir öðrum fremur tilbúnir til að beita því ofbeldi sem þurfti til byltingar. Yfirlit yfir gang valdaránsins má sjá hér:

Eftir Maidan (forsetinn flúinn, Maidantorg hafði tekið völd í þinginu) urðu bandarísk verkstjórn og tilnefningar í lykilstöður býsna beinar. „Yats is the guy“ hafði Nuland sagt í símann, og umræddur Arseniy Yatsenyuk var gerður forsætisráðherra. Hún hafði skipað fyrir um Tyahnybok og Klitschko sem hina lykilmennina og flokkar þeirra urðu mikilvægustu meðflokkar í nýrri ríkisstjórn. Hin bandaríska Natalie Jaresko var starfsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins og yfirmaður efnahagsdeildar sendiráðsins í Kiev. Hún fékk í hvelli úkraínskan ríkisborgararétt og var sama dag gerð að fjármálaráðherra Úkraínu.

Rússlands-vinsamlegir flokkar voru vængstífðir og/eða bannaðir sem og Rússlands-vinsamlegar sjónvarpsstöðvar. Í menningu og trúmálum urðu líka rækilegar hreinsanir, m.a. var rússneska rétttrúnaðarkirkjan skorin frá þeirri úkraínsku.

Allra fyrsta lagabreyting af öllum sem nýtt þing eftir valdaránið samþykkti var að „afnema lög um tungumálastefnu sem hafði gefið rússnesku, rúmensku og ungversku opinbera stöðu sem önnur þjóðtunga á vissum svæðum landsins“ Það var auðvitað enginn glóra í slíkum lögum ef halda skyldi friðinn, en það var heldur ekki meiningin. Samkvæmt bandarískum óskum og áætlunum skyldi skorið á böndin við Rússland hvað sem það þýddi fyrir friðinn.

Sevastopol verði NATO-flotastöð?

Maidanstjórnvöldin í Kiev voru strax viðurkennd af Vesturlöndum. Upp var komin ný staða, einkum þetta atriði: Úkraína varð samstundis hernaðarlegur bandamaður og væntanlegur aðili að NATO. „Innganga Úkraínu er skærast af öllum rauðum strikum“ hafði William Burns sendiherra skrifað í minnisblað sitt um afstöðu Rússa árið 2008 og hann hafði bætt við: „Það mundi skapa frjóan jarðveg fyrir rússneska íhlutun á Krím og í Austur-Úkraínu.“ Allt kom þetta nú skjótt á daginn og gat þess vegna varla komið þeim í Washington og NATO á óvart.

NATO var komið upp að stofuglugga Rússlands. Viðbrögðin urðu kannski sneggri en menn hugðu. Þremur vikum eftir valdaránið var haldin atkvæðagreiðsla á Krím sem færði skagann yfir til Rússlands. Í Moskvu stóð það hreint ekki til að Sevastopol, flotastöð rússneska Svartahafsflotans allt frá 18. öld, yrði gerð að NATO-flotastöð og Svartahafið þar með að NATO-innhafi.

Íbúar Donbass-héraða að sínu leyti hófu skjótt mótmæli og uppþot gegn nýjum stjórnvöldum í Kiev sem þeir sögðu vera ólögleg stjórnvöld. Á móti sendi nýja Maidan-stjórnin herinn til Donbass til að berja mótmælin niður. Borgarastríð hófst í maí/júní 2014 og varð fljótt mjög blóðugt. Það var þess vegna ekki að sjá að þessi tilfærsla NATO-svæðisins (ekki formleg NATO-lögsaga en í reynd) „tryggði frið“.

Borgarastríð, Minsksamningur – og skollaleikurinn á eftir

 Strax eftir valdaránið 2014 og um það bil sem borgarastríðið hófst í Donbass lagði Zbigniev Brezezinski fram mikilvægt atriði varðandi stefnuna fram á við: „Vestrið á að vopna Úkraínu“ (The West should arm Ukraine) Ákallið um vopnun Úkraínu átti eftir að verða meginstef Vestursins í Úkraínudeilunni – og gamli strategistinn Brzezinski lagði sem sagt línuna.

Úkraínska hernum gekk hins vegar mjög illa að berja niður uppreisnarmenn í Donbass, og beið marga ósigra. Herinn reyndist illa á sig kominn 2014, ekki síst hlýddu menn illa skipunum þegar þeim var skipað, af nýjum byltingarstjórnvöldum, að beina vopnununum gegn eigin landsmönnum. Haustið 2014 beittu Þýskaland og Frakkland sér fyrir friðarviðræðum í Minsk í Hvítarússlandi. Pútín að sínu leyti lagðist þetta vor og sumar gegn kröfu uppreisnarmanna í Donbass um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað héraðanna frá Úkraínu líkt og á Krím. Vopn munu uppreisnarmenn þó hafa fengið frá Rússlandi en einnig frá ótryggum hersveitum Úkraínuhers.

Í febrúar 2015, í Minsk í Hvítarússlandi, samdist um frið milli aðilanna. Stærri vopn skyldu dregin tilbaka frá Donbashéruðum. Kievstjórn var skikkuð til að hefja samningaviðræður við uppreisnarmenn um vissa sjálfstjórn héraðanna (temporary Order of Local Self-Governance) þar sem m.a. réttur rússneskunnar væri virtur. Sameinuðu þjóðirnar staðfestu samninginn og þar með fékk hann alþjóðlega lagalegt gildi.

En Kiev hóf aldrei neinar samningaviðræður við Donbass-uppreisnarmenn. Kiev dró ekki heldur stærri vopn tilbaka heldur hélt áfram að varpa sprengjum á héruðin þó að það væri í minna magni en sumarið og haustið 2014. Svona liðu 8 ár. Um 14000 voru fallnir áður en rússneska innrásin hófst í febrúar 2022.

Síðar meir viðurkenndu bæði þáverandi leiðtogar Frakklands og Þýskalands að aldrei hefði staðið til að fullnusta samninginn. Angela Merkel sagði hreint út í viðtölum við Bild, Spiegel og Zeit að með Minsksamningi hefði hún keypt tíma fyrir Úkraínu til að byggja sig upp í voldugt og vel hervarið ríki. (Spiegel, 1 December 2022). Og hún sagði: “Úkraína notaði þennan tíma til að verða sterkari, eins og þú sérð í dag“ (Zeit, 7 December 2022). François Hollande var í framhaldinu spurður um þessi ummæli Merkel og hann sagði einfaldlega: “Já, Angela Merkel hefur rétt að mæla í þessu efni.” Petro Porosjekó þáverandi Úkraínuforseti viðurkenndi sömuleiðis seinna að friðarsamningurinn hefði verið herbragð: “Markmið okkar var fyrst og fremst að stöðva ógnina eða a.m.k. að fresta stríði – að tryggja átta ár til að endurvekja hagvöxt og skapa öflugan her.“

Jens Stoltenberg varð framkvæmdastjóri NATO hið örlagaríka ár 2014, og hann reyndist verða afar herskár í embætti. Hann staðfesti eftirfarandi á ársafmæli stríðsins í febrúar 2023:

Stríðið hófst ekki í febrúar á síðasta ári. Stríðið hófst 2014. Og frá 2014 hafa bandamenn í NATO útvegað Úkraínu aðstoð, þjálfun, herbúnað svo að Úkraínuher var miklu sterkari 2022 heldur en hann var 2020 og 2014. Og auðvitað munaði þetta öllu þegar svo Pútin ákvað á ráðast á Úkraínu.

Undirbúningur stríðsins var sem sagt í meginatriðum í höndum NATO. Þessi ummæli fara illa saman við þá margtuggðu tuggu að innrás Rússa 2022 hafi verið hreint útþenslustríð Pútíns og NATO algjörlega óviðkomandi. Það er samt það sem við höfum fengið að heyra þúsund sinnum .

Hlutverk öfgahægrisins í undirbúningi og upphafi stríðs

 
Mikilvægastu bandamenn innan Úkraínu í því að framfylgja stefnu BNA/NATO var öfgahægrið. Það var nú í lykilhlutverki á tvennan hátt. Í fyrsta lagi lagði það til bardagamenn. Eins og áður sagði var úkraínski herinn veikur og illa á sig kominn 2014, ekki síst hlýddu menn illa skipunum um að beina vopnununum gegn eigin landsmönnum. Fyrir vikið fóru Maidan-stjórnvöld að skipuleggja herflokka sjálfboðaliða sem væru tilbúnir að berjast við uppreisnarmenn í Donbas. Út úr því komu herdeildir skipaðar fyrst og fremst hægriöfgamönnum. Ein slík tók nafnið Azovherdeildin eftir átökin um borgina Mariupol vorið 2014 og varð margfræg, mikið auglýst og goðsagnakennd (notar Wolfsangel þýskra nasista sem sitt merki). Strax í október 2014 var hún (og fleiri öfgahægrihópar) svo tekin inn í sk. Þjóðvarðlið Úkraínu sem er undirlagt innanríkisráðuneyti (National Guard of Ukraine, ekki reglulega herinn), og gegndi meginhlutverki í stríðinu við uppreisnarmenn í Donbass.

Það var svo rökrétt í þessari heruppbyggingu að árið 2016 afnam bandaríska þingið bann við því að styrkja úkraínsku nasistana í Azov-herdeildunum, bann sem þingið hafði sett á árið áður, svo Azov og bardagamönnum öfgahægris varð þá brautin bein. Sú löggjöf var reyndar óljóst túlkuð um árabil eftir því hvort talað var um Azov „brigade“ eða Azov „battalion“, en frá 2024 er stuðningurinn við nasistana opnaður út frá báðum túlkunum.

Í öðru lagi voru öfgahægriöflin lykilbandamenn Vestursins í því að „semja aldrei við Rússa“. Eftir að samið var um frið í Minsk barðist öfgahægrið af mikilli hörku gegn þeim samningum og komu í veg fyrir að teknar væru upp nokkrar viðræður við fulltrúa Donbasshéraðanna.

Þetta var þó ekki hið útbreidda viðhorf í landinu. Í apríl 2019 var Zelensky kjörinn forseti, hann vann yfirburðasigur á Porosjenkó sitjandi forseta (73%). Helsta stefnumál Zelenskys var að lofa friði í landinu, hann vildi semja við aðskilnaðarsinna í Donbas, koma á eðlilegum samskiptum við Rússland og fullnusta Minsk-samninginn. Út á þetta var hann sem sagt kjörinn með yfirburðum, sem sýndi hug úkraínsku þjóðarinnar. Í innsetningarræðu sinni sagðist Zelensky ekki vera “hræddur við að tapa eigin vinsældum eða áhorfi… og er viðbúinn að gefa frá mér stöðu mína – ef bara friður kemst á.» En öfgahægrið kom því þá skýrt til skila að friðarsamningar við aðskilnaðarsinna í Donbass myndu verða nýja forsetanum dýrir. Viku síðar birtist í vefriti einu vital við nasistann Jarosh, foringja flokksins Hægri sector, og hann mælti á þessa leið:

Framkvæmd Minsk-samkomulagsins er dauði fyrir lýðveldið okkar… Zelensky sagði í innsetningarræðu sinni að hann væri tilbúinn að tapa vinsældum, áhorfi, stöðu… Nei, hann myndi tapa lífi sínu. Hann myndi hanga í tré á Khreshchatyk [miðborgarstræti í Kíev] – ef hann sviki Úkraínu og fólkið sem lét lífið í byltingunni og stríðinu.

Öfgahægrið gat í framhaldinu safnað í stórar kröfugöngur í Kiev undir kjörorðinu „Enga uppgjöf!“ Og með því tókst þeim að drepa kosningaloforðunum á dreif, en Zelensky beygði sig fyrir þrýstingnum þaðan. Að hann forðaðist uppgjör við öfgahægrið segir sitt um vald áhrifa-aðstöðu þess í Maidanstjórnkerfinu. En ennþá frekar segir það þó sitt um vilja og væntingar bakmannanna í vestri varðandi frið í Úkraínu. Frið vildu þeir síst af öllu.

Úkraína „de facto“ NATO-meðlimur

Bandaríkin og NATO létu sem þau styddu Minsk samninginn og vopnahlé, en á bak við tjöldin fylgdu þau allt annarri stefnu. Sú stefna var að byggja upp nýjan úkraínskan her. Sá gamli hafði reynst veikur og gagnslítill, ekki síst í Donbass. Nýr varnarmálaráðherra Úkraínu kvartaði yfir því snemmsumars 2014 að her landsins hefði á að skipa aðeins 6000 manna virkum herafla, sem vissulega er ekki stór her.

Árið 2016 samþykkti NATO „Samþættan stuðningspakka við Úkraínu“ (Comprehensive Assistance Package for Ukraine). Tilgangur hans var að „endurbæta her landsins í samræmi við staðla og kröfur NATO, og að ná samvirkni þeirra við NATO-heri árið 2020.“ Eins og Porosjenkó forseti sagði, og áður var vitnað til, gekk taktíkin út á að „tryggja átta ár til að koma aftur á hagvexti og byggja upp voldugan her“. Og á komandi árum var vissulega byggður upp „voldugur her“. „Í júlí 2022 fyllyrti varnarmálaráðherrann Oleksii Reznikov að Úkraínuher hefði virkan herafla upp á 700.000 manns“ segir í Wikipediu. Það er rúmlega 100-földun hersins á þessum átta árum. Hann var þá orðinn þriðji stærsti her í öllu NATO.

Árið 2021 gerði Bretland flotasamning við Úkraínu, m.a. um byggingu tveggja flotastöðva, við Svartahaf og Azovhaf. Í ágúst 2021 undirrituðu Bandaríkin og Úkraína „Varnarmálaramma mill Bandaríkjanna og Úkraínu“ (U.S.-Ukraine Strategic Defence Framework) og í nóvember sama ár undirrituðu ríkin “Bandarísk-úkraínskur samningur um varnarsamstarf“, U.S.-Ukraine Charter on Strategic Partnership”, sem skuldbatt Bandaríkin til að byggja upp úkraínska herinn og tryggja Úkraínu “fulla sameiningu við evrópskar og evró-atlantískar stofnanir” sem þýðir auðvitað fyrst og fremst NATO. Henri Guaino, toppráðgjafi Nicolas Sarkozy fyrrum Frakklandsforseta, spáði í árslok 2021 ófriði, og varaði við því að þessi samningur myndi „sannfæra Rússland um að það yrði gera árás ella verða fyrir árás.“

Uppbygging úkraínska hersins var að mestu leyti á bak við tjöldin og hún kom í mörgum skrefum, austurstækkun NATO sömuleiðis og svo tenging Úkraínu við NATO sömuleiðis. Glenn Diesen kallar þetta „salamí-taktík“ af hálfu BNA og NATO, öryggissvæði Rússlands sneitt niður í svo smáum sneiðum að erfitt væri um gagnviðbrögð. Á meðan vinnur tíminn á móti Rússum. Í júní 2021 staðfesti leiðtogafundur NATO í Brussel áformin um NATO-aðild: „Við írekum ákvörðunina sem gerð var á leiðtogafundinum í Búkarest 2008 að Úkraína mun verða aðili að bandalaginu.“

Áætlun frá RAND-corporation 2019

Árið 2019 gaf Bandaríkjaher út hermálaáætlun, hluta af Army Quadrennial Defence Review Office sem herinn lætur frá sér á fjögra ára bili. Hún var unnin af RAND-corporation sem er líklega mikilvægasta hernaðarlega hugveita Bandaríkjanna, leggur fram greiningar og stjórnlist fyrir Bandaríkjaher. Hermálaáætlun þessi heitir Extending Russia – Competing from Advantageous Ground (Að teygja Rúsland – keppt á hagstæðum grunni) og gengur út á að skapa “álag á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda, heima og utan lands… og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega og láta stjórnvöld þar tapa virðingu og áliti heimafyrir og alþjóðlega” eins og segir í inngangi.

Af beinum aðgerðum í áætluninni sem eiga að grafa undan áhrifum Rússlands og veikja það með hjálp álagsþreytu er efst á blaði og mikilvægust þessi: “að sjá Úkraínu fyrir hernaðaraðstoð.” Síðan er útskýrt hvernig tilgangurinn með þeirri hernaðaraðstoð er að fá Rússa til að flækja sig rækilega í deilunni:

„Að auka bandaríska aðstoð við Úkraínu, þ.á.m. hernaðaraðstoð, mundi væntanlega auka kostnað Rússlands, bæði í blóði og peningum, við það að reyna að halda Donbass-héruðum. Það mun líklega útheimta meiri aðstoð Rússa við aðskilnaðarsinna og viðveru fleiri rússneskra hermanna og leiða til aukins kostnaðar, til taps á búnaði og til rússneskra dauðsfalla. Síðarnefndu atriðin gætu orðið mjög óvinsæl eins og þau urðu þegar Rússland réðist á Afganistan. (sama heimild, bls 99)

Það er útbreitt álit að Afganistanstríðið sem hófst um jólin 1979 hafi stuðlað mjög, jafnvel öllu öðru fremur, að kreppu og falli Sovétríkjanna. Þá var Brzezinski þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, Jimmy Carters. Árið 1998 birtist viðtal við hann í frönsku tímariti, Le Nouvel Ob serva teu. Þar var Brzezinski spurður um bandarísku afskiptin af Afganistanstríðinu og stuðninginn við íslamska uppreisnarmenn. Hann svaraði því greiðlega.

"Samkvæmt opinberri útgáfu sögunnar byrjaði stuðningurinn við Mujahedin á árinu 1980, þ.e.a.s. eftir innrás sovéska hersins á aðfangadag 1979. En raunveruleikinn, vel hulinn þar til nú, er allur annar. Í reynd var það 3. júlí 1979 sem Carter forseti undirritaði fyrstu tilskipanir um leynilega aðstoð við andstæðinga hinna sovétvinsamlegu stjórnvalda í Kabúl… Þann sama dag hafði ég skrifað forsetanum orðsendingu þar sem ég útskýrði þá skoðun mína að þessi aðstoð myndi framkalla sovéska hernaðaríhlutun."

Í vitalinu rifjaði Brzezinski söguna áfram upp. Sovétmenn gengu í gildruna, og daginn sem þeir héldu yfir afgönsku landamærin (að beiðni afganskra stjórnvalda) hafði Brzezinski sagt við Carter: “Við höfum nú tækifæri til að gefa Sovétmönnum sitt Víetnamstríð.” Spurður 1998 hvort hann sæi eftir leyniáætluninni og því að hafa vopnað íslamska fúndamentalista svaraði Brzezinski:

«Sjái eftir hverju? Þessi leyniáætlun var stórsnjöll hugmynd. Hún hafði þau áhrif að draga Rússana inn í afgönsku gildruna.… Hvað er mikilvægara í mannkynssögunni, Talíbanar eða fall sovéska heimsveldisins? Nokkrir múslimar í uppnámi eða frelsun Mið-Evrópu og endalok Kalda stríðsins?

Það er augljóst að hin strategíska hugsun bak við áætlanir RAND-Corporation samhljómar við Brzezinski, og tilvísunin til Afganistans gerir það alveg skýrt. Hugsunin var ekki að forðast stríð í Úkraínu, ekki frekar en í Afganistan 1979. Stríð í þessu samhengi hlutanna var einmitt álitið „stórsnjallt“. Og víkur nú sögunni aftur til Úkraínu.

Desember 2021. Rússland krefst öryggistrygginga

Í árslok 2021 ákvað Rússland að draga rautt strik með hótun um að beita hervaldi ef farið væri yfir. Moskva sendi Washington í desember 2021 samningsuppkast sem dró upp skilmálana fyrir því að koma aftur á öryggi og stöðugleika í Evrópu. Uppkastið krafðist þess að NATO útvíkkaði sig ekki frekar til austurs og að Washingon skuldbyndi sig til að stofna ekki til herstöðva í Úkraínu. Í seinna uppkasti krafðist Moskva þess líka að NATO drægi tilbaka hermenn og herbúnað sem það hefði flutt inn í Austur-Evrópu eftir 1997 (G. Diesen, The Ukraine War & the Eurasian World Order, 234.)

Samningsuppkast og kröfur Rússa í desember 2021 vísuðu til loforðanna gefnum Gorbatsjov 1990, til stofnsamþykkta ÖSE frá 1994 og til NATO-Russia Founding Act frá 1997. Og Rússar hótuðu sem sagt að bregðast við hernaðarlega ef ekki væri komið til móts við þessar kröfur.

Jens Stoltenberg aðalritari NATO staðfesti síðar flest af því sem Diesen sagði hér um skilyrði Rússa. Á fundi hjá Evrópuþinginu 7. október 2023 um Úkraínudeiluna sagði hann eftirfarandi:

Og við verðum að muna bakgrunninn. Bakgrunnurinn var sá að Pútín forseti lýsti yfir haustið 2021, og m.a.s. sendi hann samningsuppkast sem þeir vildu að við undirrituðum, um að lofa engri frekari NATO-útvíkkun. Það var það sem þeir sendu okkur. Og var skilyrðið fyrir því að ekki yrði ráðist inn í Úkraínu. Auðvitað undirrituðum við það ekki.

Bandaríkin og NATO höfnuðu öryggiskröfum Rússa, vitandi að þetta voru úrslitakostir af þeirra hálfu, skilyrði fyrir að „ekki yrði ráðist inn í Úkraínu“. Það eitt að ræða kröfurnar var sagt vera hættuleg „friðkaupastefna“, hvað þá að gefa eitthvað eftir fyrir kröfunum.

Það var 26. janúar, mánuði fyrir innrás Rússa, sem Bandaríkin og NATO sendu svarbréf sitt. Svarið var nei við öllum kröfum og skilyrðum Rússlands. Sama dag hélt Antony Blinken blaðamannafund. Hann gerði grein fyrir svarbréfinu, einkum endurtók hann margsinnis að „við stöndum við grundvallaratriðið um opnar dyr NATO“ (we will uphold the principle of NATO’s open door) og svaraði svo spurningum fréttamanna. Spurning og svar var m.a. svona:

Spurning: Svo þú álítur rétt að segja að að það sé engin eftirgjöf –

Antony Blinken: Þetta snýst ekki um eftirgjöf –

Spurning: …engin breyting á afstöðu Bandaríkjanna og NATO í þessu bréfi?

Antony Blinken: Fyrst af öllu, það er engin breyting; það verður engin breyting.

Svona talaði utanríkisráðherrann á ögurstundinni. Hann gekk þar með hiklaust yfir rauða strikið sem Rússar höfðu dregið, NATO-hlutleysi Úkraínu var ekkert til að ræða um eða semja um, og hann gekk til stríðsins opnum augum. Í Washington fullyrtu menn á þeim vikum sem fóru í hönd að þeir vissu að innrás Rússa væri yfirvofandi, en létu þess samt aldrei getið að Rússar hefðu beinlínis boðað innrás ef ekki yrði komið til móts við kröfurnar. Það var væntanlega annars vegar til þess að ekki þyrfti að ræða kröfur Rússa og hins vegar til að geta sagt eftir á að innrásin hefði verið „alveg tilefnislaus“ (unprovoked).

Niðurstaða

 Stefna Vesturlanda, undir bandarískri forustu, gagnvart Rússlandi í þrjá áratugi frá 1991 hefur dregið okkur vesæla Evrópubúa út í vaxandi spennu- og átakastefnu gagnvart þessu herveldi, einu af tveimur helstu kjarnorkuveldum heims, grafið með því undan öryggi Rússlands, og þar með undan öryggi allrar Evrópu. Alger lykilþáttur í óheillastefnunni var og er útþensla NATO.

NATO lýsir gjarnan sjálfu sér óvirkum þátttakanda í Úkraínudeilunni, að bandalagið hafi aðeins svarað óskum nokkurra fullvalda ríkja um vernd. Málið snúist því um fullveldi þeirra og valfrelsi. Sama sé uppi í Úkraínu, NATO einfaldlega svari óskum Úkraínumanna um vernd. En eins og við höfum rakið söguna hefur NATO, undir bandarískri forustu, verið hinn virki gerandi og sóknaraðili í uppbyggingu spennunnar allan tímann.

Viðbrögð Rússa gagnvart spennuuppbyggingunni voru lengi linleg og óákveðin, einkum á 10. áratug enda Rússland þá veikt og kreppuhrjáð undir vestrænt sinnaðri stjórn. Eftir að Rússum óx fiskur um hrygg, og þeir fengu annan forseta, fóru þeir að bregðast meira við. Þeir snérust þá af vaxandi hörku gegn útþenslu NATO sem þanist hafði allt að landamærum þeirra, brugðust við „litabyltingum“ í bakgörðum landsins og fóru síðast að heimta öryggistryggingar af Bandaríkjunum og NATO.

Þangað sem atburðarásin er komin í þessari grein – fram að janúarmánuði 2022 – er fátt í viðbrögðum Rússa sem ætti að koma mikið á óvart. Stórveldum er yfirleitt illa við að fá önnur stórveldi og hernaðarblokkir upp að eigin landamærum. Rússar eru jafnvel veikari fyrir því en aðrir – að fenginni beiskri reynslu. Fram að því sem hér er komið sögu, í janúar 2022, voru viðbrögð Rússa klárlega varnarviðbrögð.

Vesturveldin/NATO að sínu leyti, undir forustu BNA, sýndu aldrei merkjanlegan vilja til að koma til móts við áhyggjur og öryggiskröfur Rússa, höfnuðu þeim alfarið, síðast í janúar 2022, og gengu loks hiklaust yfir rauða strikið sem Rússar drógu í nefndu samningsuppkasti. „Of course we did not sign that,“ sagði Jens Stoltenberg fyrirlitlega.

BNA og NATO gengu fram skref fyrir skref. Glenn Diesen kallar þetta „salamíaðferðina“, að taka litlar sneiðar í senn þar til pylsan öll er búin. Hver lítil sneið felur í sér spennuuppbyggingu og dvínandi öryggi þar til öryggið er búið, öryggi Rússlands og Evrópu þar með.

Að segja að Vestrið hefði auðveldlega getað komist hjá stríðinu í Úkraínu er of veikt til orða tekið. Öllu heldur var háttarlag BNA/NATO/Vestursins líkast því sem stríð hefði verið markmið, og að enginn áhugi hafi verið fyrir hendi vestan frá á samningalausn.

Rússar höfðu boðað stríð nema ákveðin skilyrði væru uppfyllt. Og stríð varð það. Um það fjallar næsta grein, síðasta grein.

Þessi grein birtist einnig á vefritinu Neistum, neistar.is