Fara í efni

Hugleiðingar um stríðið

Það er kannski verið að bera í bakkafullan lækinn að ræða enn frekar um stöðuna í Írak. Þið hafið væntanlega ekki undan að fylgjast með öllum fréttunum þaðan nú uþb viku frá því að stríðið hófst fyrir alvöru.  Það er ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir hvað hefur gerst og hvernig málin muni þróast á næstunni. Umfjöllunin er svo gífurleg og nær allar “upplýsingar”og “fréttir” eru tvíræðar. Sennilega er besta leiðin til að ná sönsum er að trúa engu og líta einungis á myndirnar úr sjónvarpinu sem einhverskonar útlínu, eða jafnvel bara liti,  í  heildarmyndinni. En sjónvarpsmyndirnar sýna sannarlega ekki alla myndina. Ég hef að mestu hætt að fylgjast með sjónvarpinu hér og horfi frekar á valdar útsendingar í gegnum gervihnött eða í gegnum internetið. Það hefur verið ómetanlegt að fylgjast með fréttaflutningi arabískra sjónvarpsstöðva og dagblaða, þó einnig verði að taka fréttaflutning þeirra með fyrirvara. Meðan að bandarísku stöðvarnar eru með endalausa fyrrverandi hersfhöfðingja sem standa með kennaraprik fyrir framan risavaxinn landakort og lýsa hernaðinum á klínískan hátt, sem gerir viðbjóð stríðsins abstract, keppast arabísku blöðin og sjónvarpsstöðvar (al-jazeera er ekki sú eina) að sýna einmitt á mjög grafískan hátt hvernig hryllingur stríðsins birtist hinum almenna Íraka. Og það er sannarlega ekki falleg sjón. Bandarískir sjónvarpsáhorfendur sjá flugeldasýningu yfir Baghdad sem líkist einna helst gamlárskvöldi í Reykjavík meðan að Arabar sjá sprengjutættan ungan dreng. 

Tónninn hér vestra hefur þó breyst. Fyrir helgi, eins og viðbrögð fjármálamarkaðarins gáfu til kynna, var stríðinu lýst sem kapphlaupi þar sem það var einungis tímaspursmál hvenær hermennirnir kæmu í mark. Dagblöðin voru uppfull af skírskotunum í söguna og báru saman til dæmis bandaríska herinn nú og afkomendur Gengis Khan sem rústuðu Baghdad og Abbasid kalífadæminu árið 1258 með tiltölulega auðveldum hætti. 

En nú er komið annað hljóð. Nú er frekar rætt um erfiðleika Alexanders mikla (sem lést rétt fyrir sunnan Baghdad í tilraun sinni að ná heimsyfirráðum), fíaskó Napóleons Bonaparte í Egyptalandi 1798 – 1801, tilraunir Breta að ná landsvæði Mesopótamíu (nútímaríki Írak) á sitt vald á meðan heimstyrjöldin fyrri stóð (til að mynda bardagana við Kut og uppreisn sjíita 1920) og innrás Israel í Líbanon 1982. Það er semsé verið að gefa í skyn að áform margra stórvelda hafi strandað í eyðimörkum Mið-Austurlanda. 

Á mánudaginn var lét ég einmitt nemendur mína bera saman yfirlýsingu Napóleon 1798 þegar hann réðst inn í Egyptaland, yfirlýsingu Breta í Irak 1920, og yfirlýsingar Bush bæði fyrir stríðið (7 okt 2001) í Afghanistan og nú gegn Írak (17 mars 2003).  Í öllum þessum tilfellum lýstu þeir yfir að þeir væru ekki í stríði gegn islam og ætluðu að frelsa þjóðina undan oki harðstjórnar og ætluðu ennfremur að vinna með innfæddum að koma á friði og velsæld. 

Það sem hefur komið Bandaríkjamönnum almennt séð mest á óvart er að þetta hefur tekið lengri tíma en flestir bjuggust við. Sérstaklega hefur það verið fólki mikil ráðgáta að óbreyttir borgarar virðast ekki taka bandaríska herliðinu sem frelsandi englum eins og til dæmis Dick Cheney gaf oft í skyn fyrir innrásina. Það er þó enn frekar snemmt að dæma um þetta.

Írakar eru almennt séð í mjög erfiðri og tvíræðri stöðu. Þó vissulega vilji margir sjá Saddam Hussein allan, meta þeir stöðuna út frá því hversu miklu þarf að fórna til að ná slíku fram. Þá má ekki vanmeta áhrif írakskrar þjóðernishyggju, en á síðustu 80 árum hefur verið unnið skipulega að því að byggja upp sterka þjóðernisvitund og föðurlandsást í Írak og hversu neikvætt viðhorf almenningur hefur gagnvart bandarískum stjórnvöldum. Erlent herlið er að ráðast inn í landið og það er ekki órökrétt að íbúar landsins komi þjóð sinni til varnar. Ennfremur hefur írakst skólakerfi og söguskoðun alla tíð verið mjög krítísk á þátt Breta og nýlendustefnunar í Írak. Írakar líta semsé ekki jákvæðum augum á þátt Vesturlanda í þróun eigin þjóðar. Og þetta stríð nú hefur einmitt verið túlkað sem nýjasta útgáfa heimsvaldastefnunar sem miðar að því auka hernaðar-, menningar og efnahagsleg áhrif Bandaríkjanna og ekki síst að styrkja ennfrekar “djásn bandarísku krúnunnar”, Ísrael. Þar af leiðandi er það ekki endilega svo ljóst fyrir íbúa þessa lands að afskipti Bandaríkjanna séu af hinu góða og tilgangur stríðsins helgi meðalið. 

Það flækir stöðuna ennfrekar að herlið Bandaríkjanna og Breta eru enn í töluverðri fjarlægð frá velflestum íbúum. Írakskir hermenn, hermenn stjórnarinnar, eru enn nánast á hverju götuhorni. Þó svo að Írakar hafi séð, heyrt og fundið fyrir sprengingum Bandaríkjanna og Bretlands ræður her Saddam Hussein enn á götum úti. Við vitum semsé ekki hvernig fólk mun bregðast við fyrr en bandaríski herinn hefur náð að tryggja stöðu sína í þéttbýli og almennt séð náð stjórn á landinu. Þetta er vissulega erfið spurning en það er hugsanlegt að fólk kjósi frekar að búa undir innlendri kúgun en erlendum yfirráðum. Það skýrir kannski að einhverju leyti af hverju Írakar halda uppi þessum hernaði gegn erlendu herliði. Hafa ber í huga að Rússar gerðu þetta í heimstyrjöldinni síðari, þó svo að þeir lifðu undir stjórn Stalin. Enn sem komið er er þetta stríð þó of skammt á veg komið til að koma með allsherjar yfirlýsingar í þessum efnum. Margt hefur komið manni á óvart hinsvegar. Ég sá viðtal við Kúrda í norðurhluta Írak. Hafa ber í huga að Kúrdar hafa haft tiltölulega mikið sjálfstæði frá miðstjórninni og þeir voru, eins og við vitum öll, fórnarlömb sýklahernaðar. En jafnvel þeir, sem hafa mjög margar ástæður til að fagna þessu stríði, voru ævareiðir yfir þeim dauðsföllum sem hafa átt sér stað og töldu að þetta stríð hefði ekki átt að eiga sér stað nema með samþykki Sameinuðu þjóðanna.  Þeir lýstu semsé efasemdum sínum gagnvart þessum stríðsrekstri. Þegar þessir Kúrdar líta svona á málið þá er vel hægt að hugsa sér að velflestir Írakar túlki þetta stríð sem ólögmæta aðgerð gegn eigin landi þar sem harðstjórinn Hussein sé fórnarlamb duttlunga stórveldanna. 

Það hefur líka komið mér á óvart að Bandaríkjamenn og Bretar hafa ekki gefið sér tíma til að ná almennilegri stjórn á þeim svæðum þar sem þeir réðust inn. Það er mikið kappsmál að komast til Baghdad. Til þess að ná því virðist af fréttum að dæma sem þeir hafi fórnað stöðu sinni í suðurhlutanum. Það er ekki útilokað að framundan sé vatns-og matvæla skortur til dæmis í Basra og þar ríkir mikil óöld og lögleysi. Staðan í suðurhluta landsins gefur því ekki góð fyrirheit hvernig framtíðin kemur til með að líta út í Írak undir herstjórn Bandaríkjanna. Ég hefði talið ráðlegra að fara sér aðeins hægar og ná landinu hægt og bítandi á sitt vald. 

Það sem stríðið hefur þó sýnt fram á hingað til eru þeir erfiðleikar sem Bandaríkjamenn standa frammi fyrir. Og það eru þeir erfiðleikar að reyna að samtvinna hernaðarlega tilgang stríðsins og pólítískan tilgang þess. Herinn á að vinna stríðið og steypa stjórn Hussein af stóli. Pólítísk markmið stríðsins er “regime change” og koma á stofn friðsælu lýðræðislegu ríki í Írak. Þessi tvö markmið eiga að þjóna hvort öðru en spurning er þó hvort að þau hafi þveröfug áhrif. Herinn vill heyja þessa baráttu með öllum tiltækum ráðum en pólítísk markmið stríðsins gera það að verkum að ekki er talið ráðlegt að hafa eyðilegginguna með þeim hætti að hún skaði það pólítíska starf sem framundan er. Pólítíska stefnan sér fram á farsælar og traustar stofnanir í Írak í framtíðinni og það er ekki vænlegt til árangurs ef þær eru allar eyðilagðar í stríðinu. Þá mega ekki margir Írakar deyja í stríðinu því þá verður erfitt fyrir Bandaríkjamenn að sannfæra Íraka um að þetta stríð hafi verið þess virði að heyja það. Ef mannfall Íraka verður umtalsvert verður ákaflega erfitt fyrir Bandaríkjamenn að sannfæra Íraka um að vinna með nýrri stjórn í umsjá Bandaríkjanna. Það er spurning hvort önnur áherslan verði ofan á. Í miðju stríði er vitaskuld mikilvægara að hernaðarlega tilganginum sé náð. Ef talið er að það sé halla á hann verða pólítískum markmiðum þessa stríðs að einhverju leyti fórnað? 

Enn sem komið er hefur frekar lítið heyrst  frá nágrannaríkjum Íraks fyrir utan mótmæli almennings. Hið máttlausa bandalag Arabaríkjanna sýnir hversu klofin ríkin eru innbyrðis og þar er nú töluverð streita. Embættismenn Íraka hafa verið að hvetja Araba til að koma þeim til varnar sem eins og staðan er nú er ákaflega ólíklegt. Ég las í líbönsku blaði í gær óvenju lofsamlega grein um Hussein og bárráttu Íraka. Þessi barátta var talin hetjuleg og kveikti í greinarhöfundinum arabíska þjóðernishyggju. Hann benti á að Arabar hafi ekki átt marga sigra að undanförnu og í baráttu Íraka fælist ákveðin von. Þó að ekki eigi að túlka andstöðu araba við stríðið sem stuðning við Saddam Hussein (eins og á við um aðra andstæðinga stríðsins víðsvegar um heim) er möguleiki á því að hann yrði að einhverri goðsögn þegar fram líða stundir. 

Almennt séð er ekki litið á þetta stríð sem stríð gegn muslimum. Þó að Saddam Hussein hafi reynt að tengja ríkisstjórn sína að einhverju leyti við islam (til dæmis með því að setja inn orðin “Allahú akbar” – Guð er mestur – í írakska fánann 1990 þegar fyrra Persaflóastríð hófst  er hann álitinn af muslimum annars staðar sem írakskur stjórnmálaleiðtogi fyrst og fremst. Þó að margir túlki þetta stríð sem atlögu enn einu sinni gegn muslimum heimsins og fylgjast þar af leiðandi náið með mannfalli í Írak virðist sem, enn sem komið er allavega, að fólk í Mið-Austurlöndum túlki þetta sem nýlendustríð Bandaríkjanna. 

Að lokum: 

Stemningin hérna megin Atlantshafs er sérkennileg. Það er ekki mikið rætt um stríðið eins einkennilegt og það kann að hljóma. Ég talaði á þremur stöðum á sunnudaginn, var í tveimur kirkjum og í snekkjuklúbbi (yacht club). Alls staðar mætti ég svipuðum viðbrögðum þó að hóparnir væru gjörólíkir. Fólk er skeptískt og tvístígandi. Í kirkjunum sérstaklega er þetta greinilega frekar erfitt mál því fólk er að reyna blanda saman þeirri tilhneigingu að vilja styðja og biðja fyrir öryggi bandarískra hermanna meðan að það er líka að biðja fyrir friði, þó svo að það sé ekki endilega nein mótsögn í því. Prestarnir sem ég ræddi við sögðu að margir hefðu haft samband við þá og bæðu þá  að prédika ekki um stríðið. Þetta mál er að kljúfa söfnuðinn og þar af leiðandi hefðu þeir ákveðið að tala um þetta á almennum nótum. Í mínu erindi sem var ekki hluti af helgihaldinu fjallaði ég um sögu Íraks og þó svo að Írak hafi verið í brennidepli síðustu mánuðina var ég frekar hissa á því hversu illa fólk er að sér um Írak og íbúa þess. 

Í síðustu viku hefur verið mikið umstang hjá mér ekki síst vegna þess að nú er áhugi á málefnum Írak í hámarki. Bæði eru það fjölmiðlar hér sem hafa haft samband en líka kirkjur, skólar og aðrar stofnanir. Ég hef haft þá þumalputtareglu að segja já við alla á Íslandi. Og hafði það líka varðandi aðila hér. En ég verð að segja það alveg eins og er að eftir þessa viku hef ég ekki mikið álit á bandarískum fjölmiðlum. Ég taldi að hér væri fagmennskan í fyrirrúmi. En eftir allnokkur útvarps- og sjónvarpsviðtöl er ég byrjaður að segja nei við fjölmiðla. Það er með ólíkindum hversu illa undirbúnir spyrlarnir hafa verið og hafa oft ekki haft nægjanlega þekkingu til að koma með eðlilega framhaldsspurningu. Stundum hafa þeir komið með óljósa spurningu og þegar ég hef beðið þá að umorða spurninguna eða útskýra hana hafa  þeir ekki getað gert það. Þetta hefur fyrst og fremst átt við ýmsar staðbundnar útvarpsstöðvar yfirleitt á AM bylgjulengdinni. Sjónvarpstöðvarnar hafa líka verið með ólíkindum. Prentmiðlarnir standa sig þó sýnu betur. Ég er alls ekki að gera of miklar kröfur. Almennt séð er Nýja England (New York, New Jersey og Connecticut)  talið mekka fjölmiðlanna og á mjög háu plani. Ég get því rétt ímyndað mér hvernig það er þá þar sem það er á “lágu plani.” Þessi reynsla hér er þó allt öðruvísi en reynsla mín af íslenskum fjölmiðlum.  Íslenskir blaðamenn eru greinilega framúrskarandi miðað við starfsbræður og systur hér vestra. Ég veit satt best að segja ekki hvernig umræðan um þetta mál hefur verið heima en þeir aðilar sem ég hef rætt við vita allavega um hvað málin snúast og undirbúa sig vel. Í stað þess að Íslendingar komi hingað út til að nema fjölmiðlafræði ættu Bandaríkjamenn að fara til Íslands. 

Margir af hershöfðingjum Íraka lærðu herfræðilistina í Sovétríkjunum á sjötta áratugnum. Í gegnum söguna vörðu Rússar sig með þeim hætti að bakka inn í landið og tæla þannig erlend herlið lengst inní Rússland og létu svo “General Winter” (vetrarhörkuna) sjá um restina. Eru Írakar að beita sömu tækni með því að treysta á “General Sandstorm” og ef  þetta dregst á langinn “General Summer”? Enn sem komið er, er það ríkistjórn Írak í hag ef þetta stríð teygist á langinn. En það mun bitna á hinum almenna borgara. Því miður virðist allt stefna í öfluga götubardaga í Baghdad. Þá verður ákaflega erfitt fyrir íbúa þess að flýja eða finna öruggan stað í borginni. Þá á eftir að ná stjórn í suður- og norðurhluta landsins. Það er ekki góðs viti ef stræti borga verða að átakasvæði. 

Meira seinna, Magnús Þorkell