Fara í efni

Stríð og söguleg arfleifð

Er glasið hálftómt eða hálffullt? Enn er deilt hér í Bandaríkjunum um hvort að vel gangi í stríðinu eða ekki. Nokkrir ahrifamiklir einstaklingar hafa gagnrýnt stríðsreksturinn svo sem Wesley Clark, sem stjórnaði aðgerðum NATO í Kosovo, og Barry McCaffrey, sem var einn af æðstu mönnum í her Bandaríkjanna í Persaflóastríðinu 1990-91. Kannski er það ein vísbending að hlutirnir séu ekki að ganga samkvæmt áætlun að fleiri bandarískar hersveitir hafa verið kallaðar til Írak. Viðbrögð fjármálamarkaðarins gefa líka til kynna að markaðurinn lítur ekki jákvæðum augum á þróunina. Á hinn bóginn eru nú nokkrar bandarískar hersveitir komnar í námunda við Baghdad og bandaríski herinn hefur yfirráð yfir stórum hluta landsins. Þá hafa ekki verið umtalsverð dauðsföll meðal bandarískra hermanna og stríðið hefur ekki breiðst út fyrir landamæri Íraks. En það er enn oft snemmt til að mæla hitastigið og kveða upp dóm. Og það er ljóst að flóknari bardagar er enn framundan. 

Í dag tjáðu bæði Hashim Ahmed, varnarmálaráðherra Írak, og Donald Rumsfeld sig um þá bardaga sem framundan eru. Báðir lögðu áherslu á Baghdad. Ahmed lýsti því yfir að Bandaríkjaher þyrfti að heyja götubardaga í Baghdad. Rumsfeld gaf þó til kynna að ekki væri þörf á því. Hann benti á að margir sjíitar séu í Baghdad og þeir myndu rísa upp gegn Hussein. Hann talaði um “siege of Baghdad”. Spurningin er þess vegna – hvernig ætla þeir þá að ná að sigra Baghdad?  Það er frekar ólíklegt að strategía Bandaríkjanna gangi út á það að treysta því að sjíitar rísi skyndilega upp gegn Hussein og færi Bandaríkjunum þannig Baghdad. Líklegri staða er að það verði enn öflugri loftárásir á Baghdad og enn frekar eyðilegging. 

Á næstu dögum munið þið heyra meira og meira um borgina Karbala. Það bendir allt til þess að bardagar eigi sér stað þar nú um helgina. Bardagarnir þar verða mjög viðkvæmir og Bandaríkjamenn standa frammi fyrir töluverðum vanda. Það er vegna þess að þessi borg skiptir mjög miklu máli fyrir sjíita enda er þetta helgasta borg þeirra. Og ekki nóg með það. Á mjög sterkan og áhrifamikinn hátt, er hún tákn óréttlætis og er birtingarmynd pólítísks hroka.  Þegar Bandaríkjamenn heyja baráttu sína þar er ekki ólíklegt að margir sjíitar muni túlka bardagana nú í ljósi þess sem gerðist í Karbala árið 680. 

Eins og þið vitið eru sjíitar meirihlutinn í Írak. Í nágrannaþjóðinni Íran eru sjíítar líka í miklum meirihluta. Fullu nafni heita sjíitar “sjí-at Ali” eða fylgismenn Ali. Sjítar telja að horft hafi verið framhjá Ali sem eftirmanns Múhameðs spámanns Islam. Hann var hinsvegar valinn sem 4 eftirmaður Múhameðs. Sjálfur Ali, en hann var tengdasonur spámannsins,  var myrtur 661 og í kjölfarið af því hófst mikil valdabarátta innan islam. Synir Ali, þeir Hasan og Hussein, héldu uppi merki fjölskyldunnar og gerðu tilkall til forystuhlutverksins og áttu marga fylgismenn. En í borginni Karbala var Hussein (semsé barnabarn Múhameðs spámanns) og stór hluti fjölskyldunnar myrt á grimmilegan hátt af Yazid, sem var fulltrúi Umayya fjölskyldunnar í Damaskus, sem voru súnní. Sjíitar líta á Yazid, og fjölskyldu hans, sem fulltrúa veraldlega valdsins. Yazid var hrokafullur, spilltur, trúlaus en valdamikill stjórnmálamaður. Hussein, hinsvegar, var fulltrúi Guðs og var hógvær, miskunnsamur og trúaður.  

Enn þann daginn í dag á tíunda degi (ashura) í Muharram mánuði skv. islömsku dagatali minnast sjíitar píslarvættisdauða Hussein um heim allan. Atburðarins er minnst með helgileik (taziya), helgisögum (rawdah-khani) og skrúðgöngum þar sem fólk minnist blóðsúthellingarinnar og pínu Hussein og fjölskyldu hans. Þessar skrúðgöngur verða oft mjög átakanleg sjón (ekki ósvipað og gerist til dæmis í Guatemala eða Filippseyjum á föstudeginum langa) þar sem fólk í sorg sinni slær sjálft sig í sífellu svo að oft er það blóði drifið. Helgileikurinn spilar mjög á tilfinningar fólks enda sýnir hann fram á óréttlæti heimsins og hrakfarir kúgaðs fólks gagnvart veraldlegu hernaðarvaldi. Sjá nýlegar myndir:

http://search.news.yahoo.com/search/news?p=Ashura&c=news_photos 

Þegar byltingin (1978-79) átti sér stað í Íran skipti þessi hátíð miklu máli enda tók helgileikurinn á sig það form að Íranskeisari Muhammad Reza Shah var Yazid, þessi hrokafulli, spillti, valdamikli,  trúlausi stjórnmálamaður, meðan að íranska þjóðin var Hussein -  saklaus, trúuð og vanmáttug. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig vel flestir sjíitar komi til með að líta á það nú hver sé í hlutverki Yazid og Hussein í bardaganum í Karbala nú á næstu dögum. 

Fyrir utan þetta táknræna, hafa margir sjíitar í gegnum söguna kosið að vera jarðaðir í Karbala, enda helg jörð að þeirra mati. Þetta er því mikilvæg pílagrímsborg sérstaklega fyrir fólk í Íran. Margir sjíitar hafa jarðað ástvini sína þar og hún skipar semsé mjög miðlægan og persónulegan sess fyrir meirihluta Íraka og um 90% af Írönum. Ég hef tekið eftir því að írönsk dagblöð hafa á síðustu dögum sýnt meiri samúð og stuðning við Írak þó svo að Íran sé opinberlega hlutlaust. Þið skulið hafa helgi Karbala í huga þegar bardagar geisa þar á næstu dögum. Bandaríkjamenn standa frammi fyrir mjög miklum vanda, enn sem fyrr, að heyja hernað sem móðgar ekki muslima enn frekar og eyðileggur ekki mikilvæg trúarleg mannvirki. 

Meira seinna, með kveðju, Magnús Þorkell